• Lykilorð:
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot
  • Ölvunarakstur

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands föstudaginn 8. júní 2018 í máli nr. S-76/2018:

Ákæruvaldið

(Margrét Harpa Garðarsdóttir fulltrúi)

gegn

Hrund Albertsdóttur

 

 

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið fimmtudaginn 17. maí sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi þann 23. mars sl., á hendur Hrund Albertsdóttur, til heimilis að Votmúla, Sveitarfélaginu Árborg,  

 

fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa, að kvöldi mánudagsins 29. janúar 2018, ekið bifreiðinni […] svipt ökurétti og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 3,04‰) austur Suðurlandsveg á Ölfusárbrú á Selfossi; og án þess að vera með bifreiðina eins langt til hægri og unnt var þannig að nægjanlegt hliðarbil væri milli bifreiðar ákærðu og bifreiðarinnar […] sem kom úr gagnstæðri átt, með þeim afleiðingum að bifreiðarnar rákust saman er þær mættust á veginum.

 

Teljast brot ákærðu varða við 1. mgr. 14. gr., 1. mgr. 19. gr., 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, allt sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.

 

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Ákærða mætti ekki við þingfestingu málsins þrátt fyrir lögmæta birtingu ákæru þann 8. maí sl., ásamt fyrirkalli þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að ákærðu fjarstaddri. Málið var því tekið til dóms samkvæmt 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærða hefur gerst sek um þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærða hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærða tvisvar sinnum áður sætt refsingu. Þann 28. febrúar 2013 var ákærðu gerð sekt vegna ölvunaraksturs, og hún svipt ökurétti tímabundið. Þann 4. október 2016 var ákærðu gerð sekt vegna ölvunaraksturs og hún aftur svipt ökurétti tímabundið.

Refsing ákærðu er hæfilega ákveðin 30 dagar í fangelsi. Með vísan til dómvenju þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna. Með vísan til 101. og 102. gr., þó einkum 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum, ber að svipta ákærðu ökurétti ævilangt. Með vísan til 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, með síðari breytingum, ber að dæma ákærðu til greiðslu alls sakarkostnaðar. Samkvæmt yfirliti lögreglu nemur útlagður kostnaður vegna rannsóknar málsins samtals 104.324 kr., þar af nemur rannsókn vegna ávana- og fíkniefna í þvagi og blóði 39.000 kr., og ritun matsgerðar 6.830 kr. Ákærðu er í máli þessu ekki gefið að sök að hafa ekið undir áhrifum ávana- og fíkniefna og varðar fyrrgreindur kostnaður þannig ekki sakarefni málsins. Að framangreindu virtu verður ákærðu gert að greiða kostnað þann er hlaust af töku blóðsýna og etanólákvörðun, sem nemur samtals 58.494 kr.  

Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærða, Hrund Albertsdóttir, sæti fangelsi í 30 daga.

Ákærða er svipt ökurétti ævilangt.

Ákærða greiði sakarkostnað samtals 58.494 krónur.