• Lykilorð:
  • Hótanir
  • Játningarmál
  • Líkamsárás
  • Skilorðsbundið fangelsi og sekt
  • Umferðarlagabrot

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands föstudaginn 6. júlí 2018 í máli nr. S-68/2018:

Ákæruvaldið

(Arndís Bára Ingimarsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Gabríel Birni Brown Björnssyni

(Aníta Óðinsdóttir lögmaður)

 

 

Mál þetta sem dómtekið var fimmtudaginn 14. júní sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Vestmannaeyjum þann 7. mars sl., á hendur Gabríel Birni Brown Björnssyni, til heimilis að […]  

„I.

fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa miðvikudaginn 14. desember 2016 ekið bifreiðinni […] eftir […[ án þess að nota öryggisbelti við aksturinn en ákærði stöðvaði akstur bifreiðarinnar við […] í Vestmannaeyjum.

(Mál nr. 319-2016-4430)

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 71. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum.

 

II.

fyrir líkamsárás og barnaverndaralagabrot

með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 11. janúar 2017 veist að A og ýtt honum upp að flaggstöng sem stendur við […] í Vestmannaeyjum og tekið um háls hans, í kjölfarið veitt honum eftirför að versluninni […]í Vestmannaeyjum og tekið um háls eða höfuð hans og skellt höfðinu á honum í rúðu í útidyrahurð verslunarinnar allt með þeim afleiðingum að A hlaut tvær litlar punktblæðingar undir húð framarlega hægra megin á hálsi, roða og eymsli á enni rétt undir hárlínu og eymsli við þreifingu yfir vöðva í brjósthrygg vinstra megin.

(Mál nr. 319-2017-153)

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðar breytingum og 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 með síðari breytingum.

 

III.

fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa fimmtudaginn 9. febrúar 2017 ekið bifreiðinni […]eftir […] í Vestmannaeyjum án þess að nota öryggisbelti við aksturinn en akstur bifreiðarinnar var stöðvaður á […]í Vestmannaeyjum.

(Mál nr. 319-2017-546)

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 71. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum.

 

IV.

fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa föstudaginn 3. mars 2017 ekið bifreiðinni […] eftir […] í Vestmannaeyjum án þess að nota öryggisbelti og notað farsíma án handfrjáls búnaðar við aksturinn en lögreglan stöðvaði akstur bifreiðarinnar á […] í Vestmannaeyjum.

(Mál nr. 319-2017-3504)

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 71. gr., og 1. mgr. 47. gr. a., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum.

 

V.

fyrir hótanir

með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 29. apríl 2017 við heimili sitt að […] í Vestmannaeyjum ógnað og hótað að drepa B, tvisvar sinnum og í annað skiptið vopnaður stórri sveðju en hótanirnar voru til þess fallnar að vekja hjá B ótta um líf, heilbrigði og velferð sína.

(Mál nr. 319-2017-1694)

 

Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.

 

VI.

fyrir vopnalagabrot

með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 29. apríl 2017 haft í vörslum sínum heimatilbúna sveðju og öxi sem lögregla fann við leit á og við heimili ákærða að […] í Vestmannaeyjum eftir að afskipti voru höfð af honum vegna atvika sem lýst er í ákærulið V.

(Mál nr. 319-2017-1694)

 

Telst þetta varða við a. og c. lið 2. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998 með síðari breytingum.

 

VII.

fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa miðvikudaginn 30. ágúst 2017 lagt bifreiðinni […] gegn akstursstefnu við […] í Vestmannaeyjum.

(Mál nr. 319-2017-3518

 

Telst þetta varða við 2. mgr. 27. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að sæta upptöku á sveðju og öxi sem lögregla lagði hald á samkvæmt 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998.“

 

Ákærði kom fyrir dóminn þann 14. júní sl., ásamt skipuðum verjanda sínum, Anítu Óðinsdóttur lögmanni. Ákærði viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Með vísan til skýlausrar játningar ákærða og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Af hálfu ákærða var kröfu ákæruvaldsins um upptöku á öxi mótmælt. Kvað hann öxina antíkmun sem ekki sé ætlaður til notkunar heldur hefði hún hangið á vegg.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði einu sinni áður sætt refsingu, en sakaferill hans hefur ekki áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu. 

Refsing ákærða er hæfilega ákveðin fangelsi í 90 daga. Að virtum atvikum máls og að teknu tilliti til skýlausrar játningar ákærða, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum. Með vísan til 4. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. skal ákærði jafnframt greiða 40.000 krónur í sekt til ríkissjóðs, innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæta ella fangelsi í 4 daga.           

Ákærði hefur mótmælt kröfu ákæruvaldsins um upptöku á öxi er hann kveður vera antíkmun sem hangið hafi á vegg, en ekki verið í notkun. Samkvæmt framlögðum lögregluskýrslum í málinu mun ákærði umrætt sinn hafa haft stóra öxi í höndum, er síðar fannst fyrir utan herbergisglugga á heimili hans. Að virtum atvikum málsins, og að teknu tilliti til þess að ákærði hefur játað á sig vopnalagabrot, er meðal annars varðar framangeinda öxi, sbr. og með vísan til 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998, sbr. a. og c. lið 2. mgr. 30. gr. sömu laga, er fallist á upptökukröfu ákæruvaldsins á framangreindum vopnum líkt og greinir í dómsorði.

Með vísan til 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, með síðari breytingum, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem nemur samkvæmt yfirlitum lögreglu samtals 57.280 kr., auk þóknunar skipaðs verjanda ákærða sem er hæfilega ákveðin 133.920 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Gabríel Björn Brown Björnsson, sæti fangelsi í 90 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Ákærði greiði jafnframt, 40.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 4 daga.

Gerðar eru upptækar sveðja og öxi, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði sakarkostnað samtals 191.200 krónur, þar af þóknun skipaðs verjanda, Anítu Óðinsdóttir lögmanns, sem nemur 133.920 krónum, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.  

 

 

                                                                        Sigurður G. Gíslason