• Lykilorð:
  • Hegningarauki
  • Játningarmál

 

 

 

    

 

 

 

D Ó M U R

15. febrúar 2018

 

 

 

Mál nr.            S-158/2017:

Ákærandi:       Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum

                        (Elimar Hauksson fulltrúi)

 

Ákærði:           Pálmi Már Þórarinsson

                        (Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

 

Dómari:           Sigurður G. Gíslason héraðsdómari

 

 

 

 


Árið 2018, fimmtudaginn 15. febrúar, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er af Sigurði G. Gíslasyni héraðsdómara að Austurvegi 4, Selfossi, kveðinn upp í máli nr. S-158/2017:

Ákæruvaldið

(Elimar Hauksson fulltrúi )

gegn

Pálma Má Þórarinssyni

(Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

 

svofelldur

d ó m u r :

Mál þetta er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Vestmannaeyjum 28. ágúst 2017, á hendur Pálma Má Þórarinssyni,  án lögheimilis

 

„fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa að kvöldi þriðjudagsins 4. ágúst 2015 ekið bifreiðinni […]  frá Básaskersbryggju og sem leið lá eftir Skildingavegi, Heiðarvegi og Faxastíg og inn á bifreiðastæðið við Tvistinn að Faxastíg 36 í Vestmannaeyjum óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa fíkniefna (í blóði mældist 35 ng/ml af amfetamíni og í þvagi mældist amfetamín og metamfetamín).

(Mál nr. 319-2015-2926)

 

Telst framangreint brot ákærða varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum.“

 

            Málið var þingfest 9. nóvember 2017 og var þá Stefán Karl Kristjánsson  lögmaður skipaður verjandi ákærða að hans ósk. Í þinghaldi 18. janúar 2018 játaði ákærði skýlaust sök og var málið þá tekið til dóms skv. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eftir að sækjandi og skipaður verjandi höfðu tjáð sig um lagaatriði og viðurlög, enda taldi dómari ekki ástæðu til að draga í efa að játningin væri sannleikanum samkvæm.

            Af hálfu ákæruvalds eru gerðar þær dómkröfur sem að ofan greinir.

Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist að ákærða verði ekki gerð refsing, en til vara að hún verði sú vægasta sem lög leyfa og að ekki verði um frekari ökuréttarsviptingu að ræða. Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlauna skipaðs verjenda.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða hófst sakaferill hans með því að þann 9. september 2010 var ákærða gerð 110.000 kr. fésekt fyrir ölvunarakstur og var hann jafnframt sviptur ökurétti í 10 mánuði frá 10.  júlí 2010. Þann 24. nóvember 2011 var ákærði dæmdur í 12 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir þjófnað, tilraun til þjófnaðar, gripdeild, skjalamisnotkun, ölvunarakstur, akstur án þess að hafa ökuskírteini meðferðis og önnur umferðarlagabrot, auk ávana- og fíkniefnabrots. Var ákærði sviptur ökurétti í 8 mánuði frá 24. nóvember 2011. Þann 10. janúar 2012 var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi skilorðsbundið í 2 ár fyrir þjófnað. Þann 15. nóvember 2012 var ákærði dæmdur í 2 ára fangelsi fyrir ýmis auðgunarbrot, skjalafals, nytjastuld, eignaspjöll, ávana- og fíkniefnabrot, akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, akstur sviptur ökurétti auk annarra umferðarlagabrota. Var dómurinn hegningarauki, en jafnframt hafði ákærði rofið skilorð fyrri dóms með brotum sínum. Var ákærði sviptur ökurétti í 2 ár frá 4. maí 2012. Þann 27. apríl 2013 var ákærða veitt reynslulausn af 360 daga eftirstöðvum refsingarinnar, skilorðsbundið í 1 ár. Þann 29. júní 2012 var ákærði sakfelldur fyrir þjófnað og fjársvik en ekki gerð sérstök refsing. Þann 20. desember 2013 gekkst ákærði undir 50.000 kr. fésekt fyrir ávana- og fíkniefnabrot. Þann 11. maí 2015 var ákærði dæmdur í 60 daga fangelsi fyrir þjófnað. Þann 7. október 2015 gekkst ákærði undir 60.000 kr. fésekt fyrir ávana- og fíkniefnabrot. Þann 1. mars 2013 var ákærði dæmdur í 60 daga fangelsi fyrir þjófnað. Þann 2. febrúar 2017 var ákærði dæmdur í 60 daga fangelsi fyrir þjófnað, akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og önnur umferðarlagabrot. Var ákærði sviptur ökurétti ævilangt. Var dómurinn hegningarauki. Þá gekkst ákærði undir 15.000 kr. fésekt fyrir umferðarlagabrot þann 14. júní 2017.

Ber nú að ákveða refsingu ákærða með hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 vegna síðast talinna 4 refsinga. Brot ákærða er nú ítrekað öðru sinni. Er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 15 daga. Þá ber með vísun til framanlýstra ákvæða umferðarlaga nr. 50/1987 að árétta ævilanga ökuréttarsviptingu ákærða.

Þá ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, kr. 100.413, auk þóknunar skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, kr. 126.480 að meðtöldum virðisaukaskatti.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Pálmi Már Þórarinsson, sæti fangelsi í 15 daga.

Áréttuð er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, alls kr. 226.893, þar með talin þóknun skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, kr. 126.480.

 

Sigurður G. Gíslason