• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Sönnun

Árið 2018, föstudaginn 23. nóvember, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er af Sigurði G. Gíslasyni héraðsdómara að Austurvegi 4, Selfossi, kveðinn upp í máli nr. S-123/2018:

 

Ákæruvaldið

(Elimar Hauksson fulltrúi )

gegn

A

(Snorri Sturluson lögmaður)

 

svofelldur

d ó m u r :

Mál þetta er höfðað með ákæru Lögreglustjórans á Suðurlandi 23. maí 2018, á hendur A

 

„fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa, að kvöldi fimmtudagsins 29. mars 2018, ekið bifreiðinni […] um Suðurhóla, Tryggvagötu og að bifreiðastæði við […] á Selfossi, sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa amfetamíns og kókaíns.

 

Teljast brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

 

Málið var þingfest 21. júní 2018.

Ákærði neitar sök.

Aðalmeðferð hófst 29. október 2018, en varð þá ekki lokið vegna fjarveru tveggja vitna, en þau komu fyrir dóminn 1. nóvember 2018 og var þá aðalmeðferð fram haldið og lokið og málið tekið til dóms.

Af hálfu ákæruvalds eru gerðar þær kröfur sem að ofan greinir.

Af hálfu ákærða er krafist sýknu af öllum kröfum ákæruvalds, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá er krafist málsvarnarlauna til handa skipuðum verjanda sem greiðist úr ríkissjóði.

 

Málavextir

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu 29. mars 2018 barst lögreglu tilkynning kl. 20:22 frá B, lögreglumanni á frívakt, um að hann hefði séð til ákærða við akstur framangreindrar bifreiðar og lýsti B því að ákærði æki téðri bifreið sviptur ökuréttindum. Segir í skýrslunni að samkvæmt B æki ákærði vestur Suðurhóla á Selfossi og beygði inn í Tryggvagötu og hafi ekið hana til norðurs. Þá hafi tveir lögreglumenn farið á lögreglubifreið í átt að téðri bifreið. Klukkan 20:26 hafi lögreglu borist önnur tilkynning frá B um að ökumaður bifreiðarinnar hafi stöðvað aksturinn fyrir utan […], en þá hafi B farið og beðið ökumanninn að bíða eftir því að lögregla kæmi á vettvang, sem hafi svo gerst stuttu seinna.

Við komu lögreglunnar á vettvang hafi ákærði setið við stýrið og B verið við hlið bifreiðarinnar, sem hafi verið lagt  í bifreiðastæði við […]. Hafi þar líka verið rætt við B sem hafi sagt að hann hafi fylgt bifreiðinni allan tímann og ekki misst sjónar á henni. Ákærði hafi sagst vera próflaus og verið fenginn yfir í lögreglubifreiðina til viðtals. Þar hafi verið borið undir hann að áfengislykt legði frá honum og bifreiðinni. Kvaðst ákærði vita það og blés í áfengismæli sem sýndi 0,28 mg/l. Var ákærða kynnt að hann væri handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti. Var ákærði færður á lögreglustöð þar sem hann lét í té þvagsýni sem svaraði jákvætt við amfetamíni og kókaíni. Var tekinn framburður hans og honum dregið blóð til rannsóknar, en eftir það var ákærði leystur úr haldi lögreglu kl. 21:17 og honum ekið að […] þar sem kveikjuláslyklar voru teknir í vörslu lögreglu og svo var honum ekið að öðru húsi á Selfossi.

Í matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði kemur fram að í þvagsýni ákærða hafi greinst amfetamín og kókaín. Í blóðsýni hafi greinst amfetamín 185 ng/ml, en kókaín hafi ekki greinst í blóðsýni. Þá kemur fram að í blóði ákærða hafi greinst 0,43 promille alkóhóls.

Í handskrifaðri vettvangsskýrslu, sem ákærði ritaði undir, er haft eftir ákærða að hann hafi ekki verið á leið út í umferðina. Hann hafi setið í bílnum og það hafi verið dautt á honum og það megi ekki aka þessum bíl nema á verkstæði. Kannast ekki við fíkniefni en viðurkennir ölvun.

Í framangreindri skýrslu sem lögregla tók af ákærða umrætt kvöld var ákærða gefið að sök að hafa ekið bifreiðinni undir áhrifum ólöglegra ávana- og fíkniefna umrætt sinn. Beðinn að tjá sig um það sakarefni kvaðst ákærði hafa notað kannabis einu sinni þegar hann hafi verið 16 ára, en hann neyti ekki fíkniefna lengur. Sér detti ekki annað í hug en að efni kunni að hafa verið í landa sem hann hafi drukkið. Aðspurður um akstur bifreiðarinnar kvaðst ákærði hafa verið kyrrstæður við […] og hafa aldrei ætlað að fara út í umferðina í þessu ástandi. Um neyslu ólöglegra ávana- og fíkniefna fyrir akstur kvað ákærði það geta hafa verið í landanum sem hann hafi drukkið nóttina áður. Aðspurður um hvort hann hafi fundið til áhrifa við aksturinn kvað ákærði að hann væri aðeins þunnur en finni ekki fyrir fíkniefnum. Aðspurður um fíkniefnaneyslu kvaðst hann ekki kannast við þessi efni. Aðspurður um hvort hann vildi tjá sig um málið eitthvað frekar kvaðst hann ekki muna eftir neinu.

Framangreindur lögreglumaður, B, ritaði upplýsingaskýrslu um málið þar sem segir að hann hafi verið á frívakt daginn áður og veitt þá athygli umræddri bifreið þar sem henni hafi verið ekið af Suðurhólum og norður Tryggvagötu. Ökumaður hafi verið ákærði, sem muni vera sviptur ökurétti ævilangt, en auk þess hafi verið farþegi í framsæti. B hafi þá hringt í varðstjórasíma lögreglu og lögreglubifreið verið send á vettvang. Hafi ákærði ekið bifreiðinni norður Tryggvagötu og inn […] og lagt í bifreiðastæði við […]. Á þessari leið hafi B aldrei misst sjónar á bifreiðinni. Svo hafi farþeginn farið út úr bifreiðinni og inn í […]. Hafi B farið að bifreiðinni og haft tal af ákærða og kynnt sig sem lögreglumann. Hafi ákærða verið sagt að lögreglubifreið væri á leiðinni þar sem B vissi að ákærði væri sviptur ökurétti ævilangt, auk þess að vera eftirlýstur fyrir lögregluna á […]. Mikil áfengislykt hafi verið í bifreiðinni.

            Ekki er þörf á að gera frekari grein fyrir málavöxtum

 

            Forsendur og niðurstaða

            Ákærði skýrði frá því við aðalmeðferð að hann og félagi hans, C frá […], hafi komið á bifreiðinni, akandi frá […]. C hafi ekið bifreiðinni, enda hafi ákærði verið að fá sér í glas og þannig, auk þess að vera próflaus. C hafi verið allsgáður og með ökuréttindin í lagi. Þeir hafi ekið „sveitaleiðina“ sunnan megin við Selfoss og komið inn rétt hjá Ljónsstöðum eða þar. Svo inn á Tryggvagötuna og síðan beygt inn í […]. Þeir hafi stöðvað þar og hlaupið inn, en svo strax hafi ákærði áttað sig á því að þar inni væri enginn með hleðslusnúru fyrir símann hans, þannig að ákærði hafi farið aftur út í bifreiðina og C hafi orðið eftir inni. Svo hafi hann setið í bifreiðinni með svissað á bifreiðina til að hlaða símann sinn þangað til B hafi bankað á rúðuna hjá sér og sagst hafa hringt á lögreglu vegna þess að ákærði hafi verið við akstur. Hafi B sagt að ákærði ætti ekki að vera að aka þar sem hann væri sviptur ökurétti. Hafi ákærði sagt honum að það stæðist alls ekki og hann væri bara þarna í bifreiðinni til að hlaða símann og væri ekki að fara neitt á bifreiðinni og hafi ekki verið að keyra hana neitt. Nánar aðspurður um akstursleiðina kvað ákærði að þeir hafi komið frá […] og ekið inn Holt og eftir malarvegi og svo eftir Gaulverjabæjarvegi og að Ljónsstöðum beygt þar inn á Votmúlaveginn. Svo ekið eftir malarvegi og beint niður á Selfoss að sunnanverðu. Þeir hafi beygt til hægri þegar þeir hafi farið inn í Tryggvagötuna. C hafi ekið alla þessa leið. Bifreiðin hafi verið í eigu D. Bifreiðin hafi átt að vera í viðgerð hjá ákærða og þannig í raun verið á vegum ákærða. Þeir hafi verið að ferja bifreiðina frá […] og í Hveragerði. Bifreiðin hafi verið biluð, þannig að öxulliður hafi verið bilaður að framan og bifreiðin því mjög tæp, en þó ökuhæf með herkjum. B hafi sagt sér að bíða í bifreiðinni og ekki hleypt sér út úr henni þar sem ákærði hafi setið við stýrið. Svo hafi lögreglumenn komið og ákærði talað við þá og farið með þeim á lögreglustöð og gefið þar skýrslu. Ekki kvaðst ákærði halda að neinn annar hafi verið þarna þegar hann og C hafi komið að húsinu og farið inn. Aðspurður kvaðst ákærði hafa fengið sér í glas og líka kókaín og eitthvað þannig. Kvaðst ekki muna hvort hafi verið meira en kókaín en það geti þó verið. Þetta hafi verið fall hjá honum á vegi edrúmennskunnar. Hann hafi verið undir áhrifum. Hann muni samt nokkuð vel eftir þessu enda hafi hann ekkert verið orðinn ruglaður af neyslu þarna. Þetta hafi verið tiltölulega snemma kvölds og hann til þess að gera nýbyrjaður að fá sér. Þegar ákærði hafi farið með lögreglu hafi hann reynt að hringja í C úr símanum sínum en C hafi ekki svarað. Aðspurður kvað ákærði að þeir C hafi verið kunningjar eða vinir gegnum árin og hafi C oft áður ekið fyrir sig þegar ákærði hafi verið að fá sér í glas. Þeir hafi verið drykkjufélagar áður fyrr.

            Aðspurður um vettvangsskýrslu sína kvað ákærði að fát hafi komið á hann og hann því ekki þorað að viðurkenna að hafa verið að neyta fíkniefna. Kannaðist við að hafa sagt að ekki mætti aka bifreiðinni, en hann hafi þá vísað til þess að bifreiðin væri biluð og þyrfti því ákveðna lagni við það. Hann hafi heldur ekki viljað að lögregla færi að aka bifreiðinni vegna þess að öxulliðurinn væri bilaður.

Vegna frumskýrslu lögreglu kvað ákærði að sér þætti afar einkennilegt að B hafi fylgt bifreiðinni allan tímann og ekki misst sjónar á henni, þar sem þó nokkrar mínútur hafi liðið frá því að ákærði hafi sest inn í bifreiðina þangað til B hafi komið á vettvang. Vegna upplýsingaskýrslu B þar sem fram komi að ákærði hafi verið undir stýri kvað ákærði að þar sé rétt lýst akstursleiðinni. Hins vegar hafi þeir báðir, ákærði og C, farið út úr bifreiðinni og inn í […], en auk þess hafi ákærði ekki ekið. Ákærði hafi verið í farþegasætinu meðan aksturinn hafi átt sér stað og ekki komið í ökumannssætið fyrr en eftir að hann hafi komið út úr […]. Auk þess væri skrýtið hvernig B hefði átt að geta séð þetta þar sem dimmt hafi verið, auk þess að þeir C séu líkir útlits og hafi verið í áþekkum klæðnaði. Enda hafi ákærði ekki verið undir stýri. Kvaðst þekkja B í sjón frá því hann hafi verið […] og vita vel hver hann sé.

Aðspurður kvaðst ákærði hafa nefnt það við lögreglu á leiðinni á lögreglustöð  að C hafi ekið, enda hafi hann verið að reyna að ná í C í síma þegar hann hafi setið aftur í lögreglubifreiðinni. Hann hafi ætlað að fá C til að staðfesta frásögn sína og lögreglumennirnir hafi vitað í hvern hann hafi verið að hringja og hvers vegna og það hafi verið með samþykki lögreglu.

Vitnið B lögreglumaður kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hafa verið á frívakt þetta sinn. Hafi vitnið verið að aka Tryggvagötu í átt að Suðurhólum og beðið þar á gatnamótum eftir bifreið sem hafi ekið í austurátt eftir Suðurhólum og sem hafi gefið stefnumerki inn á Tryggvagötuna. Hafi sér verið litið inn í bifreiðina og þar hafi hann þekkt ökumanninn sem ákærða. Vitnið hafi séð þetta inn um hliðarrúðu hinnar bifreiðarinnar. Þar sem vitnið hafi vitað að ákærði væri sviptur ökurétti þá hafi vitnið ekið á eftir bifreiðinni og hringt í varðstjórasíma lögreglunnar. Hafi vitnið sagt lögreglu frá þessu og elt bifreiðina á meðan hann hafi verið í símanum og sagt frá því hvar bifreiðinni hafi verið lagt fyrir utan […]. Vitnið hafi farið út úr sinni bifreið og að bifreiðinni og talað þar við ákærða og staðið við bílstjórahurðina og sagt ákærða að lögregla væri á leiðinni. Vitnið kvaðst aldrei hafa misst sjónar á bifreiðinni. Í þann mund sem vitnið hafi komið að bílstjórahurðinni og byrjað að tala við ákærða þá hafi farþeginn í framsætinu farið út farþega megin. Ákærði hafi aldrei farið út úr bifreiðinni og verið undir stýri allan tímann, allt frá því vitnið hafi fyrst séð til bifreiðarinnar og þangað til lögreglan hafi komið á staðinn. Ekki kvaðst vitnið muna hvað ákærði hafi verið að gera undir stýri, en vitnið kvaðst hafa fundið mikla áfengislykt. Sér hafi sýnst augu ákærða vera vot, sem sé merki þess að viðkomandi sé undir áhrifum. Kvaðst ekki muna hver farþeginn hafi verið, enda ekki verið að einbeita sér að því hver það væri. Farþeginn hafi gengið fram fyrir bifreiðina og taldi vitnið að farþeginn hafi farið inn í […]. Vitnið hafi ekki skipt sér af farþeganum, enda verið með allan hugann við að hafa augun á ákærða. Vitnið hafi staðið við bifreiðina uns lögreglubifreiðin hafi komið og með henni tveir lögreglumenn. Hafi svo ákærði verið beðinn að koma yfir í lögreglubifreiðina. Hafi þarna lokið afskiptum vitnisins. Vitnið kvaðst ekki muna hvernig birta og skyggni hafi verið, en hann hafi þekkt andlitsfall ákærða strax og hann sá bifreiðina. Vitnið hafi verið alveg viss um þetta. Ekki mundi vitnið hvernig bifreið þetta hafi verið, eða hvort hún hafi verið með skyggðar rúður. Vitnið kvaðst þekkja ákærða vegna vinnu sinnar úr samskonar máli, en þekki hann ekkert umfram það. Kannist ekkert við hann. Ekki mundi vitnið til þess að ákærði hafi verið að hlaða síma sinn. Ákærði hafi verið áberandi ölvaður. Kvaðst muna mjög óljóst eftir farþeganum, en hann hafi farið fram fyrir bifreiðina og vitnið rétt aðeins litið á hann. Bifreiðin hafi ekki verið í gangi. Ekki sé rétt hjá ákærða að hann hafi verið einn í bifreiðinni þegar vitnið hafi komið að. Vitnið áréttaði að hafa aldrei misst sjónar á bifreiðinni og enginn hafi farið úr henni fyrr en eftir að vitnið hafi verið kominn að bifreiðinni. Framburður um annað sé einfaldlega ósannur. Vitnið kvaðst aðspurður vera mjög viss um þetta. Aðspurður kvaðst vitnið þekkja deili á C sem búi […]. Verið geti að hann hafi verið farþeginn, en um það geti vitnið ekki fullyrt.

Vitnið E lögreglumaður kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og kvaðst muna þetta sæmilega. Þau hafi verið á lögreglustöðinni þegar B hafi haft samband í vaktsímann og látið vita um réttindalausan ökumann sem hann væri að aka á eftir. Þau hafi farið strax út að sinna þessu og hafi ætlað að hafa upp á viðkomandi. Svo hafi B upplýst þau um að hann væri að aka á eftir manninum og að maðurinn hafi stoppað við […]. Hafi þau þá ekið þangað og þar hafi bifreiðin verið kyrrstæð við […] og B hafi staðið við bílstjórahurðina og ökumaður hafi setið í bílstjórasæti. Þau hafi rætt við ökumanninn, sem hafi verið ákærði. Komið hafi í ljós að hann væri sviptur ökurétti, en þegar þau hafi verið að ræða við hann þá hafi verið mikil áfengislykt úr vitum hans. Þau hafi fengið ákærða til að blása í áfengismæli og það hafi reynst vera yfir leyfilegum mörkum. Þá hafi þetta farið í hefðbundið ferli og farið hafi verið með ákærða á lögreglustöð þar sem honum hafi verið dregið blóðsýni. Þá hafi ákærði líka gefið þvagsýni sem hafi verið jákvætt. Enginn annar hafi verið þarna. Aðeins B og ákærði. Kvaðst ekki muna nákvæmlega hvað B hafi sagt við komu þeirra, en hann hafi sagt þeim að hann hafi ákveðið að vera hjá ákærða til að tryggja að hann væri undir stýri þegar þau kæmu. Um það hvort B hafi nefnt einhvern farþega kvað vitnið að það hafi ákærði gert, en þau hafi ekki séð neinn slíkan. Ekki mundi vitnið til þess að B hafi nefnt farþega. Ekki kvaðst vitnið muna sérstaklega eftir ferðinni á lögreglustöð. Á leiðinni á lögreglustöð hafi ákærði nefnt það að vinur hans ætti heima þarna inni og að hann hafi verið ökumaður, enda hafi ákærða verið ekið þangað eftir að afskiptum lögreglu var lokið og hafi þá ákærði ætlað að tala við hann. Eftir það hafi ákærða verið ekið að […]. Aðspurð kvaðst vitnið ekki vera alveg viss hvort ákærði hafi nefnt þetta í bifreiðinni. Ákærði hafi talað um annan mann og að einhvern tíma í þessu ferli hafi ákærði talað um að sá maður hafi verið ökumaðurinn. Ekki mundi vitnið til þess að ákærði hafi nefnt nafn þessa manns. Vitnið mundi ekki hvort ákærði hafi talað um að fá að hafa samband við mann þennan eða hringja í hann. Vitnið kvaðst ekki muna þetta mjög vel, enda hafi hún ekki séð um skýrslugerð vegna málsins. Ekki vissi vitnið til þess að reynt að hafi verið að hafa upp á manni þessum við meðferð málsins, enda hafi B sagt þeim að ákærði hafi ekið og ekkert hafi bent til að það væri rangt. Ákærði hafi í rauninni verið staðinn að akstri. Áfengislykt hafi verið af ákærða og hann sýnilega undir áhrifum. Að því er vitnið minni hafi ástand ákærða verið svipað þegar honum hafi verið ekið af lögreglustöðinni.   

Vitnið C kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hafa verið með ákærða í […] bifreið á þeim tíma sem lýst er í ákæru. Hafi vitnið ekið bifreiðinni á Selfoss og stoppað við […] og kíkt þar á félaga sinn. Ákærði hafi ætlað að laga símann hjá sér eða eitthvað og svo hafi vitnið ekki séð hann meira. Þegar vitnið hafi komið út úr húsinu þá hafi ákærði bara verið á bak og burt. Hafi vitnið þá bara farið annað. Þeir hafi verið að koma heiman frá vitninu […]. Þegar þeir hafi komið fyrir utan […] þá hafi þeir bara farið inn og svo hafi ákærði farið út, eitthvað að vesenast með að hlaða eða eitthvað. Svo hafi vitnið ekki séð ákærða frekar. Ekki hafi vitnið orðið var við að einhver hafi verið að elta bifreiðina. Vitnið kvaðst ekki geta sagt neitt um framburð vitnisins B. Þeir ákærðu séu gamlir kunningjar eða vinir og hittist reglulega. Vitnið hafi verið edrú, en ákærði verið í glasi. Ákærði hafi verið í farþegasætinu. Ekki hafi vitnið séð neina lögreglumenn á vettvangi.

Aðspurður um hvaða leið vitnið hafi ekið á Selfoss kvaðst vitnið hafa farið hefðbundna leið. Hann muni ekki vel hvaða leið hann hafi ekið í þetta skipti. Kvaðst halda að þetta hafi verið um miðjan dag eða að kvöldlagi, en hann myndi það ekki frekar enda ekkert verið að hugsa sérstaklega um þetta síðan. Kvaðst ekki muna aðstæður, þannig t.a.m. hvort bjart hafi verið eða dimmt, snjór eða auð jörð, rigning eða þurrt. Bifreiðin hafi verið […] og hafi ákærði átt hann eftir því sem vitnið viti best. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um það hve lengi hann hafi stoppað […], en það hafi kannski verið hálftími í mesta lagi. Þar hafi hann hitt F félaga sinn, sem hafi átt heima þarna. Ekki minntist vitnið þess að hafa séð að ákærði væri undir miklum áhrifum. Ítrekað aðspurður mundi vitnið ekki hvaða leið hann hafi ekið, þannig t.d. hvort hann hafi ekið eftir Austurvegi á Selfossi eða ekki, ekki frekar en t.d. hvað hann hafi borðað þennan tiltekna dag fyrir mörgum mánuðum. Venjulega myndi vitnið aka inn á Selfoss frá Eyravegi, en vitnið myndi ekki hvaða leið hafi verið ekin þetta sinn. Vitnið kvaðst ekki hafa rætt þetta mál við ákærða eða verjanda hans, ekki einu sinni til að boða hann til þinghaldsins.

Vitnið G lögreglumaður kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því tilkynning hafi borist frá B lögreglumanni á frívakt um að hann væri á eftir bifreið og ökumanni sem B hafi talið vera sviptan ökurétti. Hafi vitnið farið ásamt öðrum lögreglumanni á vettvang. Þá hafi B verið búinn að stöðva fyrir aftan bifreiðina ákærði var í. Þegar lögreglan hafi komið þá hafi B staðið við hlið bifreiðarinnar. Sagður ökumaður, þ.e. ákærði, hafi verið í ökumannssæti og hafi hann verið færður yfir í lögreglubifreiðina til viðræðu. Megna áfengislykt hafi lagt frá ákærða sem hafi verið látinn blása í áfengismæli og reynst yfir mörkum. Hafi verið farið með ákærða á lögreglustöð þar sem hann hafi látið lögreglu fá þvagsýni sem hafi svarað við einhverjum fíkniefnum. Hafi jafnframt verið dregið blóð úr ákærða og tekin framburðarskýrsla af honum, en síðan hafi hann verið látinn laus. Ekki mundi vitnið sérstaklega hvernig B hafi tilkynnt þetta, en hann hafi ekki verið í beinu símasambandi við vitnið. Þegar lögregla kom á vettvang hafi vitnið talað við B, sem hafi sagt að hann hafi elt bifreiðina frá Suðurhólum að því vitnið minnti, inn Tryggvagötu og að […]. Hann hafi verið með sjónar á bifreiðinni allan tímann og það hafi bara verið einn maður í bifreiðinni og sá hafi ekki farið úr bifreiðinni allan tímann. Vitnið mundi ekki til þess að ákærði hafi verið að gera neitt sérstakt annað en að tala við B þegar lögreglan kom að. Vitnið hafi boðið ákærða yfir í lögreglubifreiðina til viðræðu og gengið út frá því að hann væri ökumaðurinn, miðað við frásögn B. Í lögreglubifreiðinni hafi ákærði sagt að hann væri þarna gestkomandi hjá einhverjum manni og hann hafi ekki ekið bifreiðinni. Hafi ákærði sagt að hann hafi bara startað bifreiðinni og athugað hvort hún væri í lagi og að hann hefði ekki viljað fara út í umferðina. Hann hafi líka sagt að hann hafi gengið einhverja hringi í kringum bifreiðina. Þetta hafi þó ekki verið sagt undir réttarfarsákvæðum og þess vegna ekki ritað í skýrslu. Á lögreglustöð hafi svo ákærði gefið formlega framburðarskýrslu eftir að gætt hafi verið við hann ákvæða. Ekki hafi ákærði í öllu þessu ferli sagt neitt um að einhver annar hafi ekið bifreiðinni. Kvaðst vitnið eiginlega alveg viss um þetta, enda hefði þessa þá verið getið í frumskýrslu. Ef einhver annar ökumaður hefði verið nefndur þá hefði það komið fram í skýrslu og þá hefði verið tekin skýrsla af honum. Ekki mundi vitnið eftir að ákærði hafi viljað hafa samband við einhvern. Vitnið mundi ekki hvort ákærði hafi verið með farsíma. Enginn hafi verið á vettvangi nema ákærði, B og þeir lögreglumenn sem hafi sinnt þessu. Nánar aðspurður kvaðst vitnið ekki geta staðfest að ákærði hafi ekki fengið að hringja. 

Eins og að framan greinir er ákærða í máli þessu gefið að sök að hafa ekið umræddri bifreið á þeim stað og tíma sem greinir í ákæru, sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa nánar tilgreindra ávana- og fíkniefna.

Ákærði bar ekki hjá lögreglu að hafa ekið bifreiðinni. Fyrir dómi hefur ákærði  þverneitað að hafa ekið bifreiðinni og hefur lýst því rækilega að hafa verið farþegi í bifreiðinni, sem C hafi ekið. Hafi svo ákærði skotist aftur út í bifreiðina til að hlaða síma sinn og hafi hann setið þar þegar B kom að honum. Hefur ákærði að auki lýst því að hafa setið í bifreiðinni í þó nokkrar mínútur áður en vitnið B kom að honum og að B geti því ekki hafa verið í beinni eftirför á eftir honum. Framburður ákærða nýtur stuðnings í framburði vitnisins C sem kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið með ákærða umrætt sinn og hafa ekið bifreiðinni, en það nýtur jafnframt stuðnings í framburði vitnisins B að ákærði hafi ekki verið einn í bifreiðinni þegar henni var ekið. Vitnið C var ekki mjög glöggur í framburði sínum og gat hann þannig t.a.m. ekki gert neina grein fyrir því hvaða leið hafi verið ekin, en ekki eru þó nein efni til að rengja að hann hafi verið í bifreiðinni enda kvað vitnið B það geta verið að hann hafi verið með ákærða í bifreiðinni. Þrátt fyrir að framburður vitnisins C sé ekki mjög glöggur þá verður allt að einu ekki horft fram hjá honum við úrlausn málsins, enda liggur fyrir í framburði vitnisins E að ákærði hafi á einhverjum tíma talað um að annar maður hafi ekið bifreiðinni eins og ákærði hefur sjálfur borið og lýst að hann hafi reynt að hringja í C eftir að afskipti lögreglu hófust. 

Aðeins eitt vitni, þ.e. B lögreglumaður, hefur borið um að ákærði hafi ekið bifreiðinni umrætt sinn. Hefur vitnið lýst þessu í trúverðugum framburði sínum og kvaðst vitnið vera alveg viss um þetta.

Andspænis staðfastri neitun ákærða og framburði hans, sem studdur er með framburði vitnisins C, þykir hins vegar ekki vera hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi ekið bifreiðinni umrætt sinn og þannig gerst sekur um þann verknað sem honum er gefinn að sök. Er því óhjákvæmilegt að sýkna ákærða af öllum kröfum ákæruvalds í málinu.

Eftir þessari niðurstöðu verður ákærða ekki gert að greiða sakarkostnað og fellur hann á ríkissjóð, sbr. 234. og 235. gr. laga nr. 88/2008, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Snorra Sturlusonar lögmanns, kr. 500.000 að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, A, skal vera sýkn af öllum kröfum ákæruvalds í málinu.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Snorra Sturlusonar lögmanns, kr. 500.000 að meðtöldum virðisaukaskatti.

Sigurður G. Gíslason