• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Fangelsi
  • Skilorð

            Ár 2018, fimmtudaginn 4. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er í dómsal embættisins að Austurvegi 4, Selfossi af Hirti O. Aðalsteinssyni dómstjóra í málinu nr. S-160/2017:

 

                                                Ákæruvaldið

                                                (Elimar Hauksson fulltrúi)                                      

                                                gegn

                                                A

                                                (Trausti Ágúst Hermannsson hdl.)

 

kveðinn upp svohljóðandi

 

dómur:

            Mál þetta, sem dómtekið var þann 7. desember sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi, dagsettri 5. september 2017 á hendur ákærða, A,

 „fyrir líkamsárás

með því að hafa, að morgni mánudagsins 16. maí 2016, í hjólhýsi að  ………., veist að þáverandi sambýliskonu sinni og barnsmóður B, slegið ítrekað í líkama hennar og höfuð, rifið í hár hennar og skellt höfði hennar utan í gluggasyllu hjólhýsisins, allt framangreint með þeim afleiðingum að hún hlaut mar og bólgu yfir vinstra kinnbeini, bólgið nef, kúlu aftan við vinstra eyra, eymsli yfir vinstri kjálkalið, bólgur og eymsli yfir rifbeinum út undir síðu vinstra megin og þreyfieymsli (svo) yfir kvið.

 

Telst brot ákærða varða 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

          Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

             

            Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða málskostnaðar sem greiðist úr ríkissjóði auk kostnaðar vegna aksturs til Selfoss.

 

 

Málavextir.

Samkvæmt lögregluskýrslu barst lögreglu tilkynning snemma að morgni mánudagsins 16. maí 2016 um heimilisofbeldi á tjaldsvæðinu við ……………. Kvað B, brotaþoli í máli þessu, ákærða hafa ráðist á sig en hann væri fyrir utan hjólhýsi þeirra á tjaldsvæðinu. Lögreglumenn fóru á vettvang og segir í skýrslunni að þeir hafi rætt við C sem hafi vísað þeim á hjólhýsið. Hafi ákærði verið sofandi í garðstól fyrir utan hjólhýsið. Hafi verið rætt við brotaþola sem hafi skýrt frá því að ákærði hefði verið að koma heim eftir sex vikna túr á sjó. Hann hefði verið á fylleríi í öðru hjólhýsi og hefði hún sótt hann þangað. Hann hafi þá byrjað að saka hana um framhjáhald og kallað hana hóru og mellu. Hann hafi byrjað að berja hana og slegið hana 14-15 höggum, rifið í hárið á henni og reynt að berja hana í andlitið. Lögreglumenn hafi vakið ákærða og tjáð honum að hann væri handtekinn. Þá hafi brotaþoli verið flutt á heilbrigðisstofnun Suðurlands til skoðunar. 

Í læknisvottorði D dagsettu 16. maí 2016 segir að við skoðun sé brotaþoli marin og bólgin yfir vinstra kinnbeini, nef sé rauðleitt og vægt bólgið en klínískt óbrotið. Eymsli séu yfir vinstra kjálkalið, hún sé bólgin og aum yfir 4.-6. rifbeini vinstra megin út undir síðu og hvellaum þar undir palp. Einnig sé hún aum í kvið að eigin sögn og sé hún aum við þreifingu yfir kvið en áverkamerki sjáist ekki þar með berum augum. Lausar hárflygsur séu í hári hennar og hún sé með greinilega og auma kúlu eftir högg aftan við vinstra eyrað.

Þann 23. september 2016 óskaði brotaþoli eftir því að draga kæru sína til baka, en þann 1. júlí sl. skýrði hún lögreglu svo frá að hún væri hætt við að draga kæru sína til baka og óskaði eftir því að málið færi sinn farveg hjá lögreglunni.

                       

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

             Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi komið að luktum dyrum í hjólhýsinu snemma morguns eftir skemmtanahald næturinnar og barið að dyrum. Hafi brotaþoli þá komið út með barnapíuna og leitt hann yfir í næsta hjólhýsi. Eitthvað hafi þau verið að rífast, hugsanlega um framhjáhald hennar. Hann hafi þá gengið að bifreið sinni til að losna undan brotaþola, hafi brotaþoli sótt hann þangað en meira muni hann ekki. Hann kvaðst næst vita af sér í lögreglubifreiðinni. Hann kvaðst ekki kannast við neitt af því sem honum sé gefið að sök, annað hvort hefði hann verið það drukkinn eða þetta hefði ekki gerst. Hann kvaðst hafa verið mikið ölvaður. Hann kvað sér hafa verið illt í höndunum eftir handjárnin en að öðru leyti hafi hann ekki verið með áverka. Hann kvaðst hafa orðið hálfhræddur við brotaþola eftir því sem liðið hefði á sambúðartímann. Hann kvað áður hafa komið til átaka á milli þeirra, hefði það verið um borð í …………….. u.þ.b. ári fyrir umræddan atburð. Hann kvað þau varla hafa rifist fyrir þennan atburð en eftir það hefðu samskipti þeirra breyst. Hann kannaðist ekki við að það væru gluggasyllur í hjólhýsinu. 

            Brotaþoli skýrði svo frá fyrir dómi að ákærði hafi verið orðinn töluvert drukkinn, hann hafi gengið á eftir henni og kallað hana hóru og hafi hún látið eins og hún hafi ekki heyrt það. Hún hafi þá rifið kjaft á móti og rifist og hafi hann borið á hana framhjáhald. Þau hafi verið fyrir framan hjólhýsið og hafi ákærði sest inn í bíl og ætlað að fara. Hafi hún tekið lyklana að bílnum og hafi hann þá orðið alveg brjálaður og hafi hún þá espað hann upp. Hún hafi farið inn í  hjólhýsið og læst því. Hafi hún vakið barnapíuna og farið út og farið með hann í sitt hjólhýsi. Hafi hún farið til baka í  hjólhýsið, ákærði á eftir og er þau hafi verið komin inn í hjólhýsið hafi ákærði rifið í hár hennar og skellt henni nokkrum sinnum utan í gluggakistuna, sest yfir hana og látið  höggin dynja á henni. Hafi eldri stelpa þeirra verið farin að gráta og hafi hún þá sparkað ákærða út úr hjólhýsinu. Hafi ákærði þá sest í garðstól og sofnað þar. Hafi hún svo hringt á lögregluna. Hún kvaðst ekki hafa fengið mikla áverka en henni hafi sviðið þegar ákærði hafi rifið í hár hennar.

            Vitnið E skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að hann hafi verið sofandi í umræddu hjólhýsi og hefði hann vaknað við hurðaskell og komið fram og talað við brotaþola sem hafi sagt að ráðist hefði verið á hana. Hún hafi verið í uppnámi og hágrátandi. Hann kvaðst ekki hafa séð neitt á henni en hann hefði ráðlagt henni að hringja á lögregluna. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við það hvað gerðist en rámaði í að hafa heyrt hávaða í svefnrofunum. Hann kvaðst hafa verið drukkinn þegar hann hafi lagst til svefns. Hann mundi ekki hvernig ölvunarástand ákærða og brotaþola hafi verið um kvöldið og nóttina.

            Vitnið C skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið sofandi og hafi hann ekki orðið vitni að neinum átökum. Hann kvaðst hafa vaknað við það að E og brotaþoli hafi ýtt við honum og sagt að búið væri að hringja á lögregluna.

            Vitnið F lögregluvarðstjóri staðfesti fyrir dómi frumskýrslu og afskipti sín af máli þessu. Hafi brotaþoli greint frá því að ákærði hefði ráðist á hana og hefði ákærði verið handtekinn og fluttur á Selfoss. Hafi ákærði verið sofandi og töluvert ölvaður og hefði verið erfitt að vekja hann. Hann kvað brotaþola hafa sýnt sér hárflygsur sem rifnar hefðu verið úr hári hennar. Hann mat brotaþola trúverðuga og hafi hún ekki virkað eins ölvuð og ákærði.

            Vitnið G lögreglumaður kom fyrir dóm og staðfesti afskipti sín af máli þessu. Hafi ákærði verið sofandi fyrir utan en brotaþoli inni í hjólhýsi í uppnámi og hafi hún sagt ákærða hafa gengið í skrokk á henni og hafi hún gefið greinargóðan framburð. Hárflygsur hafi verið inni í hjólhýsinu en eitthvað lítið hafi séð á brotaþola. Hann kvað allt hafa verið á rúi og stúi inni í hjólhýsinu.

            Vitnið D læknir kom fyrir dóm og staðfesti læknisvottorð sitt. Hann kvað augljóst að brotaþoli hefði hlotið áverka af hálfu einhvers sem væri rétthentur.  Hann kvað brotaþola hafa lýst atvikum á greinargóðan hátt. Hann minnti að hún hafi talað um að hún hefði verið hárreytt en það hefði ekki komið fram í vottorðinu. Hann kvað brotaþola ekki hafa verið ölvaða við skoðun. Hann kvað áverka brotaþola hafa getað samrýmst því að þeir hefðu verið nýtilkomnir.

 

Niðurstaða.   

 Ákærða er í máli þessu gefið að sök að hafa veist að þáverandi sambýliskonu sinni, slegið ítrekað í líkama hennar og höfuð, rifið í hár hennar og skellt höfði hennar utan í gluggasyllu hjólhýsis með nánar tilgreindum afleiðingum og er háttsemi ákærða talin varða við 217. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði kvaðst fyrir dómi ekki kannast við neitt af því sem honum sé gefið að sök, annað hvort hefði það ekki gerst eða hann hefði verið það drukkinn. Hann kvaðst muna eftir að hafa rifist eitthvað við brotaþola, hugsanlega um framhjáhald hennar. Hann hafi gengið að bifreið sinni til að losna undan brotaþola, hún hafi sótt hann þangað en meira kvaðst ákærði ekki muna og næst vita af sér í lögreglubifreiðinni. Brotaþoli hefur lýst atvikum og fær lýsing hennar stoð í læknisvottorði og þá hafa verið lagðar fram ljósmyndir af hjólhýsinu þar sem sjást lausar hárflygsur.  Þá hefur vitnið E skýrt svo frá að hann hefði vaknað við hurðaskell í hjólhýsinu, komið fram og talað við brotaþola sem hafi sagt að ráðist hefði verið á hana. Hún hafi verið í uppnámi og hágrátandi. Þá hefur vitnið F   lögregluvarðstjóri sagt brotaþola hafa greint frá því að ákærði hefði ráðist á hana. Hafi ákærði verið sofandi og töluvert ölvaður og hefði verið erfitt að vekja hann. Hann mat brotaþola trúverðuga og hafi hún ekki virkað eins ölvuð og ákærði. Hann kvað brotaþola hafa sýnt sér hárflygsur sem rifnar hefðu verið úr hári hennar.

            Samkvæmt framansögðu er brotaþoli ein til frásagnar um það sem gerðist og hefur ákærði ekki með nokkrum hætti getað hrakið frásögn hennar og virðist mega rekja það til ölvunarástands hans. Að mati dómsins er brotaþoli trúverðug og gögn málsins benda eindregið til þess að hún hafi orðið fyrir árás af hálfu ákærða. Er því ekki varhugavert að telja sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði ekki áður sætt refsingu.  

Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga en fullnustu hennar þykir mega fresta og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þá ber með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans,  Trausta Ágústs Hermannsonar hdl., 250.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar lögmannsins, 13.200 krónur.

 Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

 

 Ákærði, A, sæti fangelsi í 30 daga en fullnustu refsingarinnar skal frestað og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans,  Trausta Ágústs Hermannsonar hdl., 250.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar lögmannsins, 13.200 krónur. 

                       

                                                                                                Hjörtur O. Aðalsteinsson