• Lykilorð:
  • Fyrning
  • Líkamsárás
  • Lögreglurannsókn
  • Reynslulausn

Árið 2018, föstudaginn 23. nóvember, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er af Sigurði G. Gíslasyni héraðsdómara að Austurvegi 4, Selfossi, kveðinn upp í máli nr. S-129/2017:

 

Ákæruvaldið

(Arndís Bára Ingimarsdóttir saksóknarfulltrúi )

gegn

Ólafi Darra Sturlusyni

(Snorri Sturluson lögmaður)

 

svofelldur

d ó m u r :

Mál þetta er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Vestmannaeyjum 27. júlí 2017, á hendur Ólafi Darra Sturlusyni,

 

„fyrir líkamsárás

með því að hafa að kvöldi laugardagsins 1. ágúst 2015 fyrir utan útibú Íslansbanka [sic.] við Kirkjuveg í Vestmannaeyjum veist að […] og slegið hann í hálsinn vinstra megin með þeim afleiðingum að hann hlaut mar og þreifieymsli við barkakýlið.

(Mál nr. 319-2015-2922)

 

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Mál þetta var þingfest 12. október 2017.

Ákærði neitar sök.

Aðalmeðferð málsins fór fram 26. október 2018 og var málið dómtekið að

henni lokinni.

Af hálfu ákæruvalds eru gerðar þær dómkröfur sem að ofan greinir.

Af hálfu ákærða er þess krafist að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds, en til vara að honum verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Þá er krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði til handa skipuðum verjanda ákærða. Með úrskurði dómsins 2. júlí 2018 var hafnað frávísunarkröfu ákærða.

 

Málavextir

Þann 4. ágúst 2015 kom brotaþoli, […], á lögreglustöðina í Vestmannaeyjum til að leggja fram kæru vegna líkamsárásar sem hann hafi orðið fyrir að kvöldi til þann 1. ágúst s.á. fyrir utan hraðbanka Íslandsbanka í Vestmannaeyjum. Gaf brotaþoli þá skýrslu hjá lögreglu og kvaðst hafa verið að taka út peninga í hraðbankanum umrætt sinn, kr. 11.500 og hafi þá ákærði setið á bekk við veitingastaðinn Lundann þar skammt frá og kallað á sig að koma. Hafi brotaþoli sagt honum að bíða, enda væri hann að taka út peninga. Ákærði hafi svo komið og spurt hvað hann væri að taka út mikið og brotaþoli spurt á móti hvað honum kæmi það við, en í sama bili hafi peningarnir komið út úr hraðbankanum. Þá hafi ákærði hrifsað af honum peningana, en við það hafi brotaþoli litið á ákærða, sem þá hafi slegið hann beint í barkakýlið og gengið á brott. Hafi ákærði svo verið að tala við einhvern vin sinn og sá hafi fengið ákærða til að skila peningunum og hafi þá ákærði gengið að brotaþola og kastað þeim í hann. Ákærði hafi jafnframt sagt eitthvað sem brotaþoli myndi ekki hvað hafi verið. Hafi ákærði aðeins slegið sig þessu eina höggi og hafi það verið með krepptum hnefa, að því er brotaþoli hélt með vinstri hendi. Lýsti brotaþoli því að hafa lítið sem ekki getað talað fyrst á eftir og hafi farið til læknis. Gat brotaþoli um að ákærði hafi sakað sig um að hafa selt litla bróður sínum „gras“. Þá krafðist brotaþoli þess að mál yrði höfðað á hendur ákærða vegna þessa.

Í vottorði B læknis, dags. 5. september 2015, segir að C hafi skoðað brotaþola þann 4. ágúst 2015. Hafi brotaþoli lýst atvikum og sagt að hann hafi orðið mjög aumur og átt erfitt með að tala, ásamt því að hafa óþægindi við að kyngja og anda. Við skoðun sé brotaþoli ekki veikindalegur og hreyfi háls eðlilega. Hann hafi þreifieymsli yfir barkakýli, bólga sé ekki sjáanleg, en lítið mar. Atvikið flokkist sem minniháttar líkamsárás og af skoðun að dæma muni brotaþoli ekki bera af þessu varanlegan skaða. Hafi brotaþoli ekki leitað sér aðstoðar á heilbrigðisstofnuninni eftir þetta.

Lögreglu tók skýrslu af ákærða vegna þessa þann 13. júlí 2017. Í upphafi skýrslunnar lýsir ákærði því að hann muni ekki eftir atvikinu, þetta hafi verið á Þjóðhátíð og ákærði muni ekki neitt og viti ekkert hver brotaþoli er. Þá lýsir ákærði því að hafa verið í Eyjum með kærustunni sinni og hún hafi sagt sér að brotaþoli hafi selt litlu systur vinkonu sinnar fíkniefni. Þetta hafi ákærða þótt miður og því farið og skammað brotaþola við hraðbankann. Fyrst hafi hann hrifsað peningana af brotaþola sem hafi reynt að taka peningana til baka og þá hafi ákærði slegið til hendinni eða varnað því að brotaþoli næði peningunum. Hafi ákærði ekki komið við hann heldur bara slegið út í loftið. Hafi ákærði ekki ráðist á brotaþola og ekki ætlað sér að meiða hann.

Fyrir liggur að brotaþoli kom á lögreglustöðina í Vestmannaeyjum 20. ágúst 2015 til að draga til baka kæru sína á hendur ákærða, en brotaþoli bar þar að ákærði hafi hringt í sig og beðið sig afsökunar á að hafa slegið sig.

Ekki eru efni til að gera nánari grein fyrir rannsókn málsins.   

           

            Forsendur og niðurstaða

            Ákærði kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hafa verið með vinafólki sínu og þau hafi séð brotaþola og sagt að hann hafi verið að láta litlu systur vinafólksins fá „gras“ eða eitthvað. Ákærði hafi farið og talað við ákærða og bent honum á að þetta væri ekki í lagi. Hafi brotaþoli verið í hraðbanka þegar þetta var. Hafi ákærði gripið eitthvað í hann og brotaþoli svarað í sömu mynt. Hafi ákærði tekið af honum peninga en skilað þeim aftur strax í kjölfarið. Ekki hafi ákærði slegið brotaþola neitt.

            Aðspurður um hvenær hann hafi fengið vitneskju um málið kvað ákærði að það hafi verið einhverju seinna. Minnti ákærða að það hafi verið einhverjum vikum eftir þetta. Þessi vitneskja hafi komið til hans með því að hann hafi verið boðaður til skýrslutöku í Vestmannaeyjum, en ekki hafi þó komið til þess að hann gæfi þar skýrslu vegna málsins. D hafi hringt í kærustu ákærða og hún hafi hringt í ákærða og sagt honum að það væri kæra á hann í Vestmannaeyjum fyrir líkamsárás. Hafi komið fram að D hafi farið og gefið skýrslu vegna málsins. Þetta hafi verið á svipuðum tíma og ákærði hafi verið boðaður til skýrslugjafar. Þá kannaðist ákærði við að hafa haft samband við brotaþola stuttu eftir atvikið og beðist afsökunar á því ef brotaþola hafi fundist ákærði hafa brotið eitthvað gegn honum, en á þessum tíma hafi ákærði verið nýlega laus úr fangelsi á reynslulausn. Hafi ákærði vitað að brotaþoli hafi verið búinn að kæra málið til lögreglu.

            Aðspurður neitaði ákærði því að hafa slegið brotaþola. Kannaðist við að hafa slegið í átt til hans til að varna því að brotaþoli tæki peningana til baka.

            Brotaþoli A kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hafa verið þarna að hjóla með E vini sínum og hafi brotaþoli farið í hraðbanka. Svo hafi brotaþoli heyrt eitthvað kallað fyrir aftan sig og hafi litið við, en þá hafi hann umsvifalaust fengið hnefa í barkakýlið. Hafi ákærði hirt af sér peningana, en verið fljótur að skila þeim aftur. Hafi höggið frá ákærða verið greitt með krepptum hnefa. Þetta hafi verið eitt högg. Brotaþoli hafi orðið eins og hás eftir þetta og eins og með hálsbólgu. Ekki kvaðst brotaþoli geta sagt hvað hafi verið kallað að baki sér. Um það hvernig ákærði hafi verið umrætt sinn kvað brotaþoli að sér hafi virst hann eins og allir á Þjóðhátíð, þ.e. aðeins kominn í glas. Hafi ekki verið sjáanlegt á honum að hann væri undir miklum áhrifum. Hafi ákærði virst vera eitthvað pirraður og verið reiðilegur í framan. Brotaþoli hafi ekki borið sjáanlega áverka eftir þetta. Kvaðst brotaþoli ekki hafa leitað læknis eftir þetta, en myndir hafi verið teknar af honum á lögreglustöð en þangað hafi hann farið eiginlega strax eftir atvikið. Kvaðst ekki muna betur en að hann hafi ekki farið til læknis, en það geti þó vel verið. Hann hafi verið fullur og ekki í flottu ástandi. Hann hafi hvorki þekkt ákærða né séð hann áður. Hafi brotaþoli ekki verið í sérstökum samskiptum við ákærða eftir þetta, en hitt hann einu sinni eða tvisvar á götu. Ákærði hafi hringt í sig stuttu eftir árásina og brotaþoli hafi dregið kæru sína til baka, en ákærði hafi beðist fyrirgefningar. Ekki gat brotaþoli lýst því nákvæmlega hvað hafi farið á milli þeirra, en í símtalinu hafi ákærði sagst hafa verið í annarlegu ástandi og beðist fyrirgefningar. Ákærði hafi ekki beitt brotaþola neinum þrýstingi til að draga kæru sína til baka. Í upphafi hafi verið ýtt á brotaþola að leggja fram kæru, en sér hafi sjálfum ekki þótt þetta ýkja alvarlegt, enda áverkarnir ekki það miklir. Aðspurður kvaðst brotaþoli ekki muna mjög vel eftir þessu. Kvaðst hafa hálf dottið í jörðina við höggið og átt erfitt með að anda.  

            Vitnið D kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hafa setið á bekk við skemmtistaðinn Lundann í Vestmannaeyjum, skammt frá Íslandsbanka. Hafi hann verið þar með ákærða ásamt fleira fólki. Brotaþoli hafi verið í hraðbankanum. Þá hafi F, sem með þeim var, sagt að þarna væri gæinn sem hafi selt litla frænda hennar „gras“. Þá hafi ákærði staðið upp og gengið að brotaþola og rifið í hann og látið hann heyra það og komið svo aftur til þeirra á bekkinn. Hafi ákærði tekið peningana af brotaþola en kastað þeim nánast strax aftur í hann. Kvaðst aðspurður ekki muna til þess að hafa séð neitt frekar, enda langt um liðið. Ekki hafi vitnið séð ákærða slá brotaþola. Aðspurður kvaðst vitnið hafa sagt ákærða frá því að hafa farið í skýrslutöku vegna þessa máls. Minnti að hafa gert það með því að senda honum skilaboð. Sér hafi þótt það eðlilegt.

            Vitnið E kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hafa verið ásamt brotaþola að hjóla á leið í hraðbanka. Þeir hafi farið í hraðbankann og þar hafi verið einhverjir strákar, tveir eða þrír. Brotaþoli hafi tekið út peninga og einn strákurinn hafi farið að rífast eitthvað við brotaþola og lamið hann svo í barkakýlið og tekið af honum peningana en hent þeim aftur í  hann. Svo hafi brotaþoli og vitnið farið burt. Vitnið kvaðst hafa séð höggið. Þetta hafi verið eitt högg. Kvaðst ekki alveg muna hvor höndin hafi verið notuð, en hélt frekar að það hafi verið hægri. Vitnið lýsti því að höggið hafi verið greitt með krepptum hnefa og taldi að því hafi verið ætlað að hafna í andliti brotaþola. Brotaþoli hafi kvartað um áverka eftir þetta þegar þeir hafi verið að fara burt af staðnum. Kvartanir brotaþola hafi verið um að það væri vont að anda og eitthvað þannig. Vitnið kvað þá brotaþola vera góða vini. Kvaðst vitnið ekki muna hvort brotaþoli hafi leitað til læknis eftir þetta. Ákærði sé sá maður sem hafi slegið brotaþola. Ákærði hafi eiginlega staðið fyrir framan brotaþola. D vinur ákærða hafi verið fyrir aftan ákærða. Vitnið hafi staðið fyrir aftan brotaþola og séð aftan á hann, en vitnið hafi séð framan á ákærða. Vitnið kvaðst hafa séð höggið fara í háls brotaþola. Vitnið þekkti sjálfan sig á myndum af vettvangi.

            Vitnið G lögreglumaður gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð og skýrði frá því hafa tekið á móti brotaþola á lögreglustöð þann 4. ágúst 2015, þar sem hann hafi lagt fram kæru vegna líkamsárásar þann 1. ágúst sama ár. Hafi brotaþoli m.a. skýrt frá því að árásarmaðurinn hafi slegið brotaþola í hálsinn. Vitnið hafi rannsakað málið, m.a. með því að taka skýrslur af vitnum og afla gagna úr eftirlitsmyndavélum frá Íslandsbanka. Hafi svo vitnið sent málið til lögreglustjórans á Suðurnesjum til að taka skýrslu af sakborningi, en komið hafi í ljós að það væri ákærði. Þann 20. ágúst 2015 hafi brotaþoli dregið kæru sína til baka og hafi sagst hafa náð sáttum við sakborninginn, en það hafi verið daginn eftir að skýrsla hafi verið tekin af vitninu D sem hafi verið á vettvangi. Ekki kvaðst vitnið geta sagt til um hvort brotaþoli hafi verið undir þrýstingi um að draga kæru sína til baka. Ekki hafi legið fyrir hver væri gerandi þegar brotaþoli hafi lagt fram kæru sína. Upplýsingar hafi verið um að sakborningur héti Ólafur Darri, en ekki hafi verið vitað hvaða Ólafur Darri það hafi verið. Það hafi ekki komið endanlega í ljós fyrr en ákærði hafi gefið skýrslu í júlí 2017, þar sem hann hafi staðfest að málið ætti við hann. Ekki kannaðist vitnið aðspurður við að myndir hafi verið teknar af brotaþola á lögreglustöð. Þær hefðu þá verið í gögnum málsins. Aðspurður kvað vitnið að ekki hafi verið ljóst hver sakborningur væri þegar skýrsla hafi verið tekin af D þann 19. ágúst 2015. Vitnið D hafi bara talað um einhvern Óla sem hafi verið einhver vinur kærustu D. Það hafi þarna verið grunur um að sakborningur væri ákærði, en það hafi ekki orðið ljóst fyrr en hann hafi gefið skýrslu sína í júlí 2017. Aðspurður um hvers vegna hafi liðið nærri 9 mánuðir frá kæru þar til að vitnið hafi átt fyrsta símtal til ákærða vegna málsins kvað vitnið að ekki hafi verið víst að sakborningur væri ákærði. Mögulega hafi vitnið reynt að ná til ákærða í millitíðinni þó það hafi ekki verið bókað í dagbók lögreglu, en ekki gat vitnið fullyrt um það.

            Vitnið C læknir gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð. Vitnið skýrði frá því að hafa verið á vakt umrætt sinn og tekið á móti manni sem hafi sagst hafa orðið fyrir líkamsárás. Hafi maðurinn kvartað um eymsli í barkakýli og verið með verki þar. Hafi maðurinn verið aðeins aumur við þreifingu yfir barkakýli. Hafi vitnið skoðað mann þennan. Þetta hafi verið á þeim tíma sem greini í læknisvottorði B, þ.e. 4. ágúst 2015. Hafi maðurinn ekki verið veikindalegur, en verið með áverka á barkakýli. Ekki hafi þó sést bólga eða slíkt, en örlítið mar yfir barkakýlinu. Hafi hann verið þreifiaumur yfir barkakýlinu sjálfu. Ekki hafi verið um að tefla meiri háttar áverka. Þetta geti vel komið heim og saman við frásögn mannsins. Aðspurður um hvort vitnið myndi eftir að hafa hitt manninn kvað vitnið að hann ræki lítillega minni til þess. Vitnið muni að hafa tekið á móti manni sem hafi fengið högg á barkakýlið. Upplýsingarnar í læknisvottorðinu séu teknar upp úr samskiptaseðli vitnisins við mann þennan, en þær upplýsingar hafi vitnið skráð samdægurs. Læknisvottorðið sé ekki ritað af manni sem hafi séð mann þennan, en vitnið hafi verið hættur störfum í Vestmannaeyjum þegar vottorðið hafi verið ritað. Þetta geti hafa verið um verslunarmannahelgina 2015 eða þar um bil. Aðspurður hvort þetta geti hafa verið einhver allt annar maður en A kvað vitnið að maðurinn hafi haft þessa kennitölu, eða sagst hafa hana og þetta tiltekna nafn, og komið þann 4. ágúst 2015 á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum. Ekki kvaðst vitnið geta svarað til um það hvort maður þessi hafi gefið upp rangt nafn og kennitölu. Aðspurður um útlit þess manns sem vitnið hafi skoðað umrætt sinn kvaðst vitnið ekki geta það nákvæmlega. Nánar aðspurður hvort hann gæti lýst manninum að einhverju leyti kvaðst vitnið minna að maðurinn hafi verið hávaxinn og dálítið þrekvaxinn. Áverki sem þessi geti vitaskuld orðið af öðrum orsökum en hnefahöggi.

            Í máli þessu er ákærða gefin að sök minniháttar líkamsárás gagnvart brotaþola A, eins og nánar greinir í ákæru. Óumdeilt er að ákærði og brotaþoli hittust umrætt sinn við hraðbanka Íslandsbanka í Vestmannaeyjum. Brotaþoli hefur lýst því að ákærði hafi slegið hann í hálsinn einu hnefahöggi, en ákærði hefur fyrir dómi aðeins kannast við að að hafa slegið í áttina til hans, en hjá lögreglu kvaðst ákærði bara hafa slegið út í loftið. Vitnið D, sem var með ákærða umrætt sinn, kvaðst ekki hafa séð ákærða slá brotaþola, en vitnið E, sem var með brotaþola, kvaðst hafa séð ákærða slá brotaþola í barkakýlið.

            Fyrir liggur í málinu upptaka úr öryggismyndavél Íslandsbanka þar sem sjá má atburði þessa. Þar má sjá ákærða slá brotaþola hnefahöggi í hálsinn. Jafnframt má sjá að vitnið E var í aðstöðu til að sjá ákærða slá brotaþola téðu höggi og horfði á brotaþola og ákærða þegar höggið var greitt, þó mögulega hafi verið erfitt fyrir hann að sjá nákvæmlega hvort höggið hafi lent í barkakýlinu. Þykir vera hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi slegið brotaþola í hálsinn eins og greinir í  ákæru. Í ákæru er lýst tilteknum afleiðingum umræddrar árásar, án þess þó að afleiðiingar séu nauðsynlegur efnisþáttur í broti gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hjá lögreglu lýsti brotaþoli því óhikað og á sannfærandi hátt að hafa farið til læknis þann sama dag og hann gaf skýrslu hjá lögreglu. Vitnið C læknir bar um það að maður sem hafi sagst heita nafni brotaþola og bera sömu kennitölu hafi komið til skoðunar vegna þessa og hafi vitnið skoðað manninn. Liggur fyrir vottorð B læknis um þetta. Þó að brotaþoli hafi ekki sagst muna eftir því við aðalmeðferð að hann hafi farið til læknis, þykir allt að einu hafið yfir skynsamlegan vafa að brotaþoli hafi gert það og þá borið þá áverka sem lýst er í téðu læknisvottorði og ákæru. Er þannig hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þann verknað sem lýst er í ákæru.

            Af hálfu ákærða hefur verið byggt á þeirri málsvörn að brot ákærða sé fyrnt. Vísar ákærði um þetta til 1. tl. 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot ákærða er framið 1. ágúst 2015 og hófst fyrningarfrestur þann dag, sbr. 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn málsins hófst þann 4. ágúst 2015 með því að brotaþoli lagði fram kæru og gaf skýrslu. Í skýrslu brotaþola kemur fram að hann veit ekkert hver ákærði er og getur ekki upplýst um nafn hans. Hins vegar kemur fram að ákærði hafi sagst vera stóri bróðir H með tiltekna kennitölu. Ekkert kemur fram um hvort það hafi verið kannað nánar. Þann 11. ágúst 2015 er gerð upplýsingaskýrsla lögreglu um skoðun á upptökum úr eftirlitsmyndavélinni þar sem fram kemur að lögregla veit þá ekki hver ákærði er, en vísar til hans sem mannsins „í rauðu peysunni“. Þann 19. ágúst 2015 tók lögregla skýrslu af D, en í skýrslu hans kemur ekki nánar fram hver ákærði er en að hann sé kallaður Óli og sé kærasti vinkonu kærustu D. Daginn eftir þetta, þ.e. þann 20. ágúst 2015, kemur brotaþoli til lögreglu til að draga kæru sína til baka og þá kemur fram hjá honum að nafn sakborningsins sé Ólafur Darri. Þá kemur það fram í skýrslu þessari að þar er sakborningur nefndur af hálfu lögreglu sem ákærði, með fullu nafni. Í dagbók lögreglu frá sama tíma, þ.e. 19. ágúst 2015, segir að líklegt sé að sakborningurinn í málinu sé ákærði. Þá kemur fram í dagbókinni að næst er þar bókað um málið 23. maí 2016 að „Óli Darri“ svarar ekki síma. Aftur er bókað 8. september 2016 að „Óli“ svarar ekki síma og slökkt er á honum. Sama dag er stillt upp skýrslu og spurningum í skýrslu fyrir „Óla Darra“. Þann 13. september 2016 er bókað í dagbókina að „Óli Darri“ svarar ekki. Loks er svo bókað að þann 13. júlí 2017 sé Ólafur Darri tekinn til yfirheyrslu á lögreglustöðinni í Keflavík. Þá liggur fyrir bréf lögreglunnar í Vestmannaeyjum 6. janúar 2016, þar sem hún fer þess á leit við lögregluna á Suðurnesjum að tekin verði skýrsla af ákærða vegna líkamsárásar hans á brotaþola umrætt sinn. Er augljóst að þá gengur rannsókn málsins út frá því að ákærði sé sakborningurinn í málinu, en þó hefur ekki, skv. gögnum málsins, komið fram neitt nýtt um hver sakborningurinn er allar götur frá 19. ágúst 2015. Verður því að miða við að rannsókn hafi hafist gegn ákærða sem sakborningi þann 19. ágúst 2015, en þann dag virðist hafa verið a.m.k. rökstuddur grunur um að ákærði væri sakborningurinn. Þann dag rofnaði þannig fyrningarfrestur gagnvart ákærða, sbr. 4. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eftir það verður hins vegar að telja að rannsókn málsins hafi í raun stöðvast um óákveðinn tíma allt til þess er skýrsla af ákærða þann 13. júlí 2017 og ber því að ganga út frá því að fyrningarfrestur hafi ekki rofnað við hina skammvinnu rannsókn í ágúst 2015. Við skýrslutöku af ákærða þann 13. júlí 2017 var brot hans ekki fyrnt, en við þá skýrslutöku rofnaði fyrningarfrestur. Málið var svo sent á ný til Lögreglustjórans í Vestmannaeyjum með bréfi Lögreglustjórans á Suðurnesjum þann 21. júlí 2017 og var ákæra gefin út í málinu þann 27. júlí 2017 og hún send dóminum sama dag og móttekin við dómstólinn 31. júlí 2017. Fyrirkall var gefið út þann 1. september 2017 og málið þingfest 12. október 2017. Það er mat dómsins að frá því að fyrningarfrestur rofnaði þann 13. júlí 2017 hafi hann þannig haldist rofinn allar götur síðan, enda ekki um að ræða að neina óeðlilega töf eftir það eða neina þá aðstöðu sem lýst er í 5. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þrátt fyrir að við rannsóknina hafi orðið óútskýrðar tafir á fyrri stigum hennar. Verður því ekki fallist á þá málsvörn ákærða að sök hans sé fyrnd.

            Hefur ákærði því unnið sér til refsingar.

            Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða hófst sakaferill hans árið 2007 og hefur honum alls 11 sinnum verið gerð refsing fyrir ýmis brot. Á árinu 2008 var ákærði dæmdur fyrir minniháttar líkamsárás, á árinu 2010 var ákærði dæmdur fyrir rán, minniháttar líkamsárás og frelsissviptingu skv. 2. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nrt. 19/1940. Enn var ákærði dæmdur fyrir minniháttar líkamsárás á árinu 2011 og á árinu 2012 var hann sakfelldur fyrir líkamsárás en ekki gerð sérstök refsing þar sem um var að ræða hegningarauka. Þá var ákærði dæmdur í 2 ára fangelsi þann 5. júní 2014 fyrir líkamsárásir skv. 2. mgr. 218. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk annarra brota. Þann 11. júní 2015 var ákærða veitt reynslulausn af 240 daga eftirstöðvum refsingarinnar, skilorðsbundið í 2 ár.

Með broti því sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir í máli þessu rauf ákærði skilorð framangreindrar reynslulausnar. Í 1.mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga segir að „Nú fremur maður nýtt brot eftir að hann hlýtur reynslulausn, og rannsókn hefst hjá lögreglu gegn honum sem sakborningi fyrir lok reynslutíma, og ákveður þá dómstóll sem fjallar um mál þetta refsingu í einu lagi fyrir brot það sem nú er dæmt um og svo með hliðsjón af fangelsisrefsingu sem óafplánuð er samkvæmt reglum 60. gr. almennra hegningarlaga þannig að fangelsi samkvæmt eldra dómi er virt með sama hætti og skilorðsdómur.“ Til að eftirstöðvar reynslulausnar verði dæmdar upp er því sett það skilyrði að rannsókn hefjist hjá lögreglu gegn manni sem sakborningi fyrir lok reynslutíma. Fyrir liggur að rannsókn málsins hófst gegn ákærða sem sakborningi í ágúst 2015. Hins vegar liggur jafnframt fyrir að ekkert var aðhafst gagnvart ákærða sem sakborningi fyrr en í júlí 2017 og lá rannsóknin í raun og veru niðri frá 19. ágúst 2015 og allt til 13. júlí 2017 þegar tekin var skýrsla af ákærða, en þá voru liðin meira en 2 ár frá reynslulausn ákærða. Við þessar aðstæður þykir bera að skýra 1. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 til samræmis við grunnreglur um fyrningu sakar á þann veg að rannsókn hafi ekki hafist gegn ákærða sem sakborningi fyrir lok reynslutímans og er því ekki heimilt að dæma upp reynslulausnina, en allan vafa um lögskýringu verður að túlka ákærða í hag.

Að virtum sakaferli ákærða, 1. mgr. 218. gr. c almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 71. gr. sömu laga, sem og því að all langt er um liðið, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 45 daga og er að virtum sakaferli ákærða ekki fært að skilorðsbinda refsinguna. Þá eru engin efni til að beita refsilækkunarástæðum 2,. og 3. mgr. 218. gr. c almennra hegningarlaga.

Rétt er að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar sbr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Útlagður kostnaður vegna rannsóknar málsins er kr. 20.000 og ber ákærða að greiða þann kostnað, ásamt málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns, Snorra Sturlusonar lögmanns, kr. 1.095.000 að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar verjandans kr. 79.600.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Ólafur Darri Sturluson, sæti fangelsi í 45 daga.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, alls kr. 1.194.600, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Snorra Sturlusonar lögmanns, kr. 1.095.000 að virðisaukaskatti meðtöldum, auk ferðakostnaðar verjandans, kr. 79.000.

 

Sigurður G. Gíslason