• Lykilorð:

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Suðurlands 26. júní 2018 í máli nr. E-54/2018:

Ásvélar ehf.

(Sverrir Sigurjónsson lögmaður)

gegn

Byggingarfélaginu Hraunborg ehf.

(Ágúst Ólafsson lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar þann 30. maí sl., er höfðað af Ásvélum ehf.,  Laugarvatni, með stefnu birtri þann 1. mars sl., á hendur Byggingarfélaginu Hraunborg ehf.,  Kópavogi. 

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 2.453.000 kr., auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð frá 23. nóvember 2017. Þá er krafist málskostnaðar, þ.m.t. virðisaukaskatts.

Af hálfu stefnda er krafist frávísunar, en til vara sýknu. Þá gerir stefndi kröfu um málskostnað, ásamt virðisaukaskatti.

Mál þetta á rætur að rekja til þess að stefnandi tók að sér jarðvinnu fyrir stefnda, vegna bygginga er stefndi er að reisa í Hveragerði. Kveðst stefnandi hafa sent reglulega reikninga fyrir vinnu sinni og hafi stefndi greitt inn á kröfu hans, án þess þó að greiða reikninga að fullu. Þegar verkið hafi verið komið vel af stað hafi stefnandi þurft að stöðva framkvæmdir vegna mannvirkja er stóðu á lóðinni og stefndi hugðist fjarlægja. Síðar hafi stefndi samið við annan verktaka um að ljúka jarðvinnunni, og hafi stefnandi þá sent reikninga fyrir þeirri vinnu sem unnin hafði verið og var enn óreikningsfærð. Í stefnu gerir stefnandi grein fyrir reikningum sínum sem og innborgunum stefnda. Eftir standi 2.453.000 kr., sem sé stefnufjárhæð málsins.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglu kröfu- og samningaréttar um efndir fjárskuldbindinga, sbr. m.a. 45., 47. og 54. gr. laga nr. 50/2000. Um gjalddaga kröfunnar er einkum vísað til meginreglu 49. gr. sömu laga. Einnig er byggt á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um dráttarvexti vísar stefnandi til III. og V. kafla laga nr. 38/2001. Um málskostnað vísar stefnandi til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og um varnarþing til 35. gr. sömu laga.

Stefndi hefur krafist frávísunar og byggir hann kröfu sína á því að samkvæmt verksamningi aðila, sem liggi frammi í málinu, skuli ágreiningur sem rís vegna hans rekinn fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Þar að auki byggir stefndi á því að málatilbúnaður stefnanda sé vanreifaður. Enginn rökstuðningur fylgi útreikningi stefnanda og erfitt sé að átta sig á hvað standi dómkröfu að baki. Um lagarök vísar stefndi til d., e., g. og i. liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem og 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936.

Meðal gagna málsins er verksamningur milli aðila um jarðvegsvinnu. Í honum segir „Rísi mál út af samningi þessum skal reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.“ Samkvæmt 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, er aðilum rétt að semja um varnarþing. Ljóst þykir að ágreining aðila máls þessa megi rekja til framangreinds samnings. Ákvæði samningsins um varnarþing kveður skýrt á um skyldu aðila til að reka ágreiningsmál vegna hans fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og teljast aðilar bundnir af því. Gegn andmælum stefnda verður málið því ekki rekið hér fyrir dómi og verður málinu þegar af þeirri ástæður vísað frá dómi.

Rétt er að stefnandi greiði stefnda kr. 200.000 í málskostnað.

            Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

            Máli þessu er vísað frá dómi.

            Stefnandi skal greiða stefnda kr. 200.000 í málskostnað.

 

 

                             Sigurður G. Gíslason