• Lykilorð:
  • Ítrekun
  • Fangelsi
  • Umferðarlagabrot
  • Útivist

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands fimmtudaginn 1. febrúar 2018 í máli nr. S-238/2017:

  Ákæruvaldið

(Elimar Hauksson fulltrúi)

gegn

Hildiþóri Jónassyni

 

 

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið fimmtudaginn 18. janúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi þann 4. desember sl., á hendur Hildiþóri Jónassyni,  til heimilis að Háaleitisbraut 42, Reykjavík,   

 

fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa, síðdegis fimmtudaginn 26. október 2017, ekið bifreiðinni […] um Dynskála á Hellu í Rangárþingi ytra, sviptur ökurétti. 

 

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Ákærði mætti ekki við þingfestingu málsins þrátt fyrir lögmæta birtingu ákæru þann 21. desember sl., ásamt fyrirkalli þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að ákærða fjarstöddum. Málið var því tekið til dóms samkvæmt 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði tíu sinnum áður sætt refsingu, þar af fimm sinnum vegna aksturs sviptur ökurétti. Þann 10. október 2016 var ákærða gerð sekt vegna aksturs sviptur ökurétti. Þann 14. febrúar 2017 lauk ákærði þremur málum hjá lögreglu með sektargerð, er öll vörðurðu akstur sviptur ökurétti. Loks var ákærði þann 7. júní 2017 dæmdur til fangelsisrefsingar vegna aksturs sviptur ökurétti. Að öðru leyti hefur sakaferill ákærða ekki áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu.  

Refsing ákærða er hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga. Með vísan til dómvenju þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Engan sakarkostnað leiddi af máli þessu.

Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Hildiþór Jónasson, sæti fangelsi í 60 daga.

 

 

                                                                        Sólveig Ingadóttir.