• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Brotaþoli
  • Líkamsárás
  • Fangelsi
  • Skaðabætur
  • Skilorð
  • Skilorðsrof

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands föstudaginn 8. júní 2018 í máli nr. S-2/2018:

Ákæruvaldið

(Margrét Harpa Garðarsdóttir

fulltrúi lögreglustjórans á Suðurlandi)

gegn

Jóni Viðari Óðinssyni

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

 

 

Mál þetta, sem þingfest var 8. febrúar sl. og dómtekið fimmtudaginn 17. maí sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Vestmannaeyjum þann 29. desember sl., á hendur Jóni Viðari Óðinssyni,  til heimilis að Herjólfsgötu 7, Vestmannaeyjum,  

 

I.

fyrir líkamsárás

með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 12. janúar 2017 við […] í Vestmannaeyjum veist að A og slegið hann hnefahöggi í andlitið af svo miklu afli að A féll í jörðina og er hann lá í götunni sest klofvega yfir hann og slegið A ítrekuðum hnefahöggum í andlitið allt með þeim afleiðingum að hann hlaut nefbrot, brot í gegnum tönn tvö vinstra megin og destruction í mandibula vinstra megin.

(Mál nr. 319-2017-144)

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.

 

II.

fyrir líkamsárás

með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 2. febrúar 2017 á skemmtistaðnum Lundanum, Kirkjuvegi 21 í Vestmannaeyjum, veist að B og slegið hann að minnsta kosti einu hnefahöggi í andlitið af svo miku [sic] afli að B féll í gólfið en af árásinni hlaut B skurð ofan á nefhrygg, mar undir vinstra auga, bólgu og hrufl á neðri vör og skurð innan á neðri vör sem þurfti að suma tvö spor í.

(Mál nr. 319-2017-428)

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.

 

 

 

III.

fyrir fíkniefnalagabrot

með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 5. ágúst 2017 haft í vörslum sínum 0,15 grömm af amfetamíni en efnin fundust í buxnavasa ákærða við almennt fíkniefnaeftirlit í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum.

(Mál nr. 319-2017-3138)

 

Telst þetta varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001 með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á 0,15 grömmum af amfetamíni samkvæmt 6. mgr. 5. gr. nefndra laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. nefndrar reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.

 

            Í ákæru eru uppteknar svofelldar einkaréttarkröfur:

 

Helgi Bragason, hrl., hefur krafist þess fyrir hönd A, að ákærði verði dæmdur til að greiða honum bætur samtals að fjárhæð kr. 500.000,- ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi sem var 12.01.2017 en síðan dráttavöxtum samkvæmt 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

 

Þá hefur Þ. Skorri Steingrímsson, hdl., krafist þess að ákærði greiði B, kr. 441.218 auk vaxta, samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 2. febrúar 2017 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

 

Ákærði kom fyrir dóminn þann 17. maí sl., ásamt skipuðum verjanda sínum, Guðmundi St. Ragnarssyni lögmanni. Ákærði viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Þá viðurkenndi ákærði bótaskyldu sína gagnvart brotaþola A, en mótmælti fjárkröfu hans sem of hárri. Sömuleiðir viðurkenndi ákærði bótaskyldu sína gagnvart brotaþola B, en mótmælti harðlega fjárhæð einkaréttarkröfu hans. Með vísan til skýlausrar játningar ákærða og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Af hálfu ákærða kom þar fram, hvað varðar atvik samkvæmt öðrum ákærulið, að brotaþoli hafi átt upptökin að áflögum þeirra í milli.

Samkvæmt gögnum málsins báru vitni að atvikum þeim sem lýst er í ákærulið II, að brotaþoli hefði verið til leiðinda umrætt sinn og sýnt ögrandi í hegðun. Þá hefði hann ýtt við ákærða og þannig átt upptökin að áflogum þeirra í milli. Um málavexti að öðru leyti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði fjórum sinnum áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Þann 11. september 2014 var ákærða gerð sekt vegna líkamsárásar. Þann 7. apríl 2015 var ákærði fundinn sekur um þjófnað og peningafals, en ákvörðun refsingar hans var þá frestað skilorðsbundið til tveggja ára. Þá var ákærða þann 29. nóvember 2016 gerð sekt vegna fíkniefnalagabrots. Að öðru leyti hefur sakaferill ákærða ekki áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu. Ljóst er að ákærði hefur með brotum sínum samkvæmt I. og II. lið ákæru rofið skilorð framangreinds dóms frá 7. apríl 2015. Með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ber að taka dóminn upp og dæma með hinum nýju brotum, og ákveða refsingu ákærða í einu lagi með vísan til 77. sömu laga. 

Refsing ákærða er hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði. Að virtum atvikum máls og að teknu tilliti til skýlausrar játningar ákærða, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum. Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, eru gerð upptæk framangreind fíkniefni líkt og greinir í dómsorði. Með vísan til 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, með síðari breytingum, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem nemur samkvæmt yfirliti lögreglu samtals 25.000 kr., auk þóknunar skipaðs verjanda síns, sem er hæfilega ákveðin 295.120 kr., að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

            Í háttsemi ákærða gagnvart brotaþola A, sem lýst í er ákærulið I, fólst ólögmæt meingerð gegn frelsi og friði og æru brotaþola og ber ákærða að greiða honum miskabætur vegna þess, sbr. b lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Eru miskabætur hæfilega ákveðnar kr. 300.000 og skulu bera vexti og dráttarvexti eins og í dómsorði greinir. Með vísan til 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður ákærði jafnframt dæmdur til að greiða brotaþola málskostnað auk virðisaukaskatts, líkt og nánar greinir í dómsorði, enda þess krafist í bótakröfu brotaþola sem liggur meðal gagna málsins, þó láðst hafi að geta þess ákæru. Samkvæmt gögnum málsins var bótakrafan birt ákærða við skýrslutöku hjá lögreglu þann 5. desember sl.

            Í háttsemi ákærða gagnvart brotaþola B, sem lýst er í ákærulið II, fólst ólögmæt meingerð gegn frelsi og friði og æru brotaþola og ber ákærða að greiða honum miskabætur vegna þess, sbr. b lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Eru miskabætur hæfilega ákveðnar kr. 100.000 og skulu bera vexti og dráttarvexti eins og í dómsorði greinir. Meðal gagna málsins liggur einkaréttarkrafa brotaþola, þar sem fram kemur að auk miskabóta krefjist brotaþoli bóta vegna útlagðs kostnaðar, sem nemur samtals 3.618 kr., og þjáningabóta skv. 3. mgr. skaðabótalaga, samtals að fjárhæð 37.600. Meðal gagna málsins eru og tveir reikningar, dagsettir 2. febrúar 2017, vegna læknisþjónustu sem brotaþoli leitaði sér eftir árásina, samtals að fjárhæð 3.618 kr. Verður því fallist á kröfu hans um bætur vegna útlagðs kostnaðar. Aftur á móti liggja engin gögn frammi til stuðnings kröfu brotaþola um þjáningabætur, né heldur er hún studd nokkrum rökum. Verður því ekki fallist á kröfu brotaþola um þjáningabætur. Með vísan til 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður ákærði jafnframt dæmdur til að greiða brotaþola málskostnað, líkt og nánar greinir í dómsorði, enda þess krafist  framangreindu kröfuskjali brotaþola, þó láðst hafi að geta þess ákæru. Samkvæmt gögnum málsins var bótakrafan birt ákærða við skýrslutöku hjá lögreglu þann 5. desember sl.

Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Jón Viðar Óðinsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Gerð eru upptæk 0,15 g af amfetamíni.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, 320.120 krónur, þar af þóknun skipaðs verjanda, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 295.120 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Ákærði greiði brotaþola, A, miskabætur að fjárhæð 300.000 krónur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 12. janúar 2017 til 5. janúar 2018, en síðan dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði brotaþolanum A, 389.980 krónur í málskostnað, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Ákærði greiði brotaþola, B, skaðabætur að fjárhæð 103.618 krónur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 2. febrúar 2017 til 5. janúar 2018, en síðan dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði brotaþolanum B, 150.000 krónur í málskostnað.

 

 

                                                                        Sólveig Ingadóttir.