• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Gáleysi
  • Líkamsmeiðing af gáleysi
  • Líkamstjón
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Upptaka

            Ár 2018, miðvikudaginn 10. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er í dómsal embættisins að Austurvegi 4, Selfossi af Hirti O. Aðalsteinssyni dómstjóra í málinu nr. S-151/2017: 

 

                                                Ákæruvaldið

                                                (Margrét Harpa Garðarsdóttir ftr.)

                                                gegn

                                                Vigni Þór Liljusyni

                                                ( Steinbergur Finnbogason hdl.)

 

 

kveðinn upp svohljóðandi

 

dómur:

           

Mál þetta, sem dómtekið var þann 15. desember sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi, dagsettri 24. ágúst sl. á hendur ákærða, Vigni Þór Liljusyni,

 

 

„ I. fyrir hegningar- og umferðarlagabrot

 

með því að hafa, að morgni miðvikudagsins 15. febrúar 2017, ekið bifreiðinni A vestur Suðurlandsveg skammt vestan við Rauðalæk í Rangárþingi ytra, sviptur ökurétti ævilangt og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa MDMA, amfetamíns og tetrahýdrókannabínóls, þannig að hann hafði ekki fulla stjórn á bifreiðinni sem fór út af veginum og hafnaði ofan í skurði með þeim afleiðingum að farþegi í bifreiðinni, B, hlaut brot á lendarlið og mar á brjóstkassa.

 

Teljast brot ákærða varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

 

II.                 fyrir fíkniefnalagabrot

 

með því að hafa,  á sömu stund og stað og greinir í ákærulið I, haft í vörslu sinni 11,91 g af amfetamíni, sem lögregla fann þar sem ákærði hafði komið því fyrir í grasi, skammt hjá þar sem bifreiðin A hafnaði utan vegar samanber ákærulið I.

 

Teljast brot ákærða varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974 með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001 með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum,  til að sæta upptöku á framangreindum fíkniefnum samanber ákærulið II. (efnaskrá nr. 34361), samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

 Fyrir þingfestingu málsins þann 21. september sl., hafði Steinbergur Finnbogason hdl., sem ákærði hafði óskað eftir að skipaður yrði verjandi hans við birtingu fyrirkalls, samband við dóminn og upplýsti að honum hefði ekki tekist að hafa upp á ákærða. Var málinu því frestað til 5. október sl. Þann dag mætti ákærði ásamt lögmanninum sem var skipaður verjandi ákærða að hans ósk. Af hálfu ákæruvaldsins var gerð sú breyting á ákæru að fallið var frá eftirfarandi hluta háttsemislýsingar í ákærulið I: „[...] hlaut brot á lendarlið [...]“ Að teknu tilliti til framangreindrar breytingar játaði ákærði sök í ákærulið I. Ákærði neitaði hins vegar sök í ákærulið II. Verjandi ákærða óskaði ekki eftir að leggja fram greinargerð í málinu.

Aðalmeðferð málsins var fyrirhuguð þann 15. desember sl. en í upphafi þinghalds þann dag óskaði ákærði eftir því að breyta afstöðu sinni til ákæru þannig að hann játaði skýlaust brot samkvæmt ákærulið II.   

Með vísan til skýlausrar játningar ákærða og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að sækjanda og ákærða sjálfum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Um málavexti vísast til ákæruskjals. Samkvæmt matsgerð Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði vegna rannsóknar á þvagsýni sem ákærði gaf kemur fram að í sýninu fannst amfetamín, MDMA og tetrahýdrókannabínólsýra. Í blóðsýni sem tekið var úr ákærða mældist magn amfetamíns 55 ng/ml og magn tetrahýdrókannabínóls 0,9 ng/ml, MDMA var hins vegar ekki í mælanlegu magni í blóði. 

Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í báðum ákæruliðum og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða sættist hann á 34.000 króna sektargreiðslu árið 2010 fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöf og sama ár sættist hann á 100.000 króna sektargreiðslu og 6 mánaða ökuréttarsviptingu fyrir ölvun við akstur og akstur án þess að hafa öðlast ökuréttindi. Árið 2011 sættist hann á 20.000 króna sekt fyrir eignaspjöll og sama ár sættist hann á 195.000 króna sektargreiðslu og 18 mánaða ökuréttarsviptingu fyrir brot gegn 10. gr. umferðarlaga, ölvunarakstur og akstur sviptur ökurétti. Þann 2. júní 2016 var ákærði dæmdur í 75 daga fangelsi, þar af voru 30 dagar skilorðsbundnir í 2 ár fyrir of hraðan akstur, akstur undir áhrifum fíkniefna og áfengis, akstur án þess að hafa gilt ökuskírteini og brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöf. Þá var ákærði sviptur ökurétti ævilangt frá 15. júní 2016. Þann 24. nóvember sama ár var ákærði dæmdur í 2 mánaða fangelsi, þar af var 1 mánuður skilorðsbundinn í 3 ár fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna, of hraðan akstur og akstur án þess að hafa endurnýjað ökuskírteini sitt. Um var að ræða hegningarauka og var ævilöng ökuréttarsvipting ákærða áréttuð. Þann 29. nóvember sama ár var ákærði dæmdur í 60.000 króna sekt fyrir vörslu fíkniefna. Um skilorðsrof var að ræða en skilorðsdómur var ekki dæmdur upp. Síðast var ákærði dæmdur þann 17. nóvember sl. og samkvæmt upplýsingum sækjanda var sá dómur birtur ákærða sama dag og mál þetta var dómtekið. Var ákærði dæmdur í fangelsi í 4 mánuði fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna, akstur sviptur ökurétti og vörslu fíkniefna. Skilorðshluti dómsins frá 24. nóvember 2016 var tekinn upp og dæmdur með og þá var ævilöng ökuréttarsvipting ákærða ítrekuð.

 Við ákvörðun refsingar ákærða ber að hafa í huga að um hegningarauka er að ræða á 4 mánaða fangelsi en einnig er um ítrekuð brot af hans hálfu að ræða. Þá verður ekki fram hjá því litið að ákærði játar brot sín skýlaust. Með hliðsjón af öllu framansögðu þykir refsing ákærða  hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði. Ekki eru efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Með vísan til þeirra lagaákvæða er í ákæru greinir eru gerð upptæk framangreind fíkniefni líkt og nánar greinir í dómsorði.

Með vísan til þeirra lagaákvæða er í ákæru greinir ber að árétta ævilanga ökuréttarsviptingu ákærða.

Þá ber með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talinn útlagðan kostnað, 406.335 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Steinbergs Finnbogasonar hdl., 280.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar lögmannsins, 18.000 krónur.

 Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

 

Ákærði, Vignir Þór Liljuson, sæti fangelsi í 2 mánuði.

Áréttuð er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða.

Upptæk eru gerð 11,91 g af amfetamíni sem lagt var hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talinn útlagðan kostnað 406.335 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Steinbergs Finnbogasonar hdl., 280.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar lögmannsins, 18.000 krónur. 

                       

                                                                                                Hjörtur O. Aðalsteinsson