• Lykilorð:
  • Rán
  • Skilorð
  • Sönnun
  • Tilraun

Árið 2018, föstudaginn 13. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er af Sigurði G. Gíslasyni héraðsdómara að Austurvegi 4, Selfossi, kveðinn upp í máli nr. S-70/2018:

 

Ákæruvaldið

(Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri )

gegn

Hafsteini Oddssyni

(Aníta Óðinsdóttir lögmaður)

og

Heimi Gylfasyni

(Helgi Bragason lögmaður)

 

svofelldur

d ó m u r :

Mál þetta er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Vestmannaeyjum 9. mars 2018, á hendur Hafsteini Oddssyni, Vestmannaeyjum og Heimi Gylfasyni,  Vestmannaeyjum

„I.

fyrir tilraun til ráns

á hendur báðum ákærðu með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 18. mars 2016 hótað A, líkamsmeiðingum í því skyni að hafa af honum fjármuni en ákærðu fóru með A að Landsbankanum, Bárustíg 15 í Vestmannaeyjum. Ákærði Hafsteinn Oddsson fór með A inn í anddyri bankans þar sem hraðbanki er staðsettur og reyndi að neyða hann til að taka fjármuni út úr hraðbankanum en ákærði Hafsteinn meinaði A ítrekað að komast út úr anddyri bankans er hann gerði tilraun til þess. Ákærði Heimir Gylfason beið fyrir utan anddyri bankans og stóð vörð er verknaðurinn átti sér stað en ákærði Hafsteinn hafði áður beðið hann að aðstoða sig við verknaðinn.

(Mál nr. 319-2016-943)

 

Telst þetta varða við 252. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.

II.

fyrir líkamsárás

á hendur ákærða Heimi Gylfasyni,  með því að hafa í kjölfar atvika sem lýst er í I. lið ákærunnar, eftir að ákærði og A, höfðu gengið sem leið lá frá Landsbankanum suður Bárustíg, vestur Vestmannabraut, suður Skólaveg og beygt þaðan vestur Faxastíg eða Hásteinsveg og þar slegið A í hnakkann þannig að hann féll í götuna en af árásinni hlaut hann bólgu aftan á hnakka.

(Mál nr. 319-2016-943)

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.

III.

fyrir umferðarlagabrot

á hendur ákærða Hafsteini Oddssyni, með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 15. janúar 2017 ekið bifreiðinni […] með 104 kílómetra hraða á klukkustund eftir Suðurlandsvegi til vesturs í Ölfusi, Ölfusshreppi þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund.

(Mál nr. 313-2017-1233)

 

Telst þetta varða við 2. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Málið var þingfest 12. apríl 2018.

            Ákærðu neita báðir sök að því er varðar ákærulið I.

Ákærði Heimir neitar sök að því er varðar ákærulið II.

Ákærði Hafsteinn játar sök hvað varðar ákærulið III.

            Aðalmeðferð málsins fór fram 13. júní 2018 og var málið tekið til dóms að henni lokinni. 

            Af hálfu ákæruvalds eru þær kröfur gerðar sem að ofan greinir.

            Af hálfu ákærða Hafsteins er krafist sýknu af ákærulið I, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa, en jafnframt krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa vegna ákæruliðar III. Þá er gerð krafa um hæfileg málsvarnarlaun úr ríkissjóði til handa skipuðum verjanda.

            Af hálfu ákærða Heimis er krafist sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá er þess krafist að sakarkostnaður greiðist að hluta eða fullu úr ríkissjóði, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun til handa skipuðum verjanda.

            Fyrir uppkvaðningu dóms var gætt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

 

Málavextir

            Ákæruliðir I og II.

            Samkvæmt frumskýrslu lögreglu 26. mars 2016 kom brotaþoli á lögreglustöð í Vestmannaeyjum kl. 03:00 þá um nóttina og var hann áberandi ölvaður og snöktandi. Kvaðst hann hafa verið að skemmta sér á Lundanum, en eftir lokun hefði hann verið að fara frá staðnum þegar maður hafi komið að honum og sagt að hann skuldaði sér 15.000 kr. Kvaðst brotaþoli ekki hafa þekkt mann þennan en hann hafi sagst vera að vinna á Lundanum. Lýsti brotaþoli manninum, sem hafi farið með sig í hraðbanka Landsbankans til að taka út peninga. Þangað hafi þeir farið og hafi maðurinn komið með honum inn. Hafi brotaþoli reynt að taka þar út peninga, en ekki tekist. Segir í frumskýrslunni að brotaþoli hafi skýrt frá því að þeir hafi þá farið út úr hraðbankanum og þá hafi maður þessi slegið sig í hnakkann þannig að brotaþoli hafi fallið í götuna og maðurinn tekið af honum seðlaveskið. Í veskinu hafi verið greiðslukort og 20-30.000 kr. í peningum. Hafi brotaþoli verið mjög hræddur en náð að hlaupa í burtu og sagst falið sig í skurði í nágrenninu og verið þar í töluverðan tíma og svo gengið þaðan á lögreglustöðina.

            Segir í frumskýrslu að frásögn brotaþola hafi ekki verið greinargóð og hann verið snyrtilegur til fara þó hann hafi sagst hafa falið sig í skurði og verið sleginn í götuna, en blautt hafi verið úti.

            Meðfylgjandi rannsóknargögnum er hljóðupptaka með frásögn brotaþola á lögreglustöð um nóttina. Má þar heyra brotaþola segja frá því að ráðist hafi verið á sig eftir að hann hafi verið á Lundanum af manni sem hafi sagst vera þar starfsmaður. Hafi maðurinn ráðist á sig og tekið veskið sitt og kortin og barið sig í hausinn og hlaupið í burtu. Þá hafi maðurinn farið með sig í hraðbanka til að láta sig taka út peninga. Er ljóst af upptökunni að brotaþoli er ölvaður og miður sín. Kemur ekki annað fram en að um einn mann hafi verið að ræða. Maðurinn hafi verið hávaxinn og með stutt ljóst hár.

            Fór lögregla í hraðbanka Landsbankans, en þar var ekkert að sjá.

            Þá segir að haft hafi verið samband við starfsmenn á Lundanum og í Landsbankanum til að kanna með eftirlitsmyndavélar.

            Kemur jafnframt fram að daginn eftir hafi brotaþoli aftur komið á lögreglustöð og sagst vera með kúlu á hnakkanum og að hann ætlaði að leita læknis.

            Frumskýrslu fylgja ljósmyndir af brotaþola og er ekkert athugavert að sjá á þeim.

            Við könnun á eftirlitsmyndavélum í hraðbanka Landsbankans sást að brotaþoli var þar inni ásamt ákærða Hafsteini.

            Lögregla tók skýrslu af ákærða Hafsteini þann 24. maí 2016. Kvaðst hann hafa verið á Lundanum og séð brotaþola þar, sem hafi verið mjög ölvaður og hafi brotaþoli verið eitthvað að tala um hraðbanka. Hafi ákærði farið með honum út. Hafi ákærði sagt honum af hraðbanka við hlið Lundans en brotaþoli hafi ekki viljað fara í hann. Hafi þá ákærði farið með honum í hraðbanka Landsbankans. Kvaðst ákærði halda að hann hafi rukkað brotaþola um peninga og minnti að hann hafi lánað brotaþola peninga á Lundanum, en var þó ekki viss. Kvað ákærði það stundum henda að hann lánaði ókunnugu fólki peninga. Aðspurður kvaðst hann ekki muna til þess að hafa sagt við brotaþola að hann skuldaði honum 15.000 kr., en það gæti þó vel verið. Kvaðst minna að hann hafi keypt bjór fyrir brotaþola. Aðspurður um hvort brotaþoli hafi viljað fara út úr hraðbankanum kvaðst ákærði halda að brotaþoli hafi ekki viljað vera þarna inni og að hann hafi örugglega eitthvað hindrað hann í því að fara út úr hraðbankanum, en þeir hafi þó farið út að lokum. Ekki vildi ákærði hins vegar kannast við að hafa slegið brotaþola í hnakkann svo að hann féll í götuna og síðan í framhaldinu stolið veski hans. Kvaðst ákærði hafa verið ölvaður en ekki mjög. Kvaðst hafa gengið með brotaþola en skilið við hann hjá Vöruhúsinu. Kvaðst jafnframt hafa reynt að hringja á leigubíl fyrir brotaþola.

            Aftur tók lögregla skýrslu af ákærða Hafsteini 27. september 2016 og lýsti hann því þá að hafa farið með brotaþolanum í hraðbanka þar sem hann hafi ætlað að taka út peninga. Hann hafi ætlað að fylgja brotaþola heim eftir það en svo ekki nennt því og farið heim til sín. Kvaðst ekkert muna hvað þeim hafi farið á milli á Lundanum og að hann vissi ekkert hvaða maður þetta væri. Kvaðst ákærði telja að brotaþoli hafi ætlað að taka út peninga fyrir leigubíl eða eitthvað, en hann hafi ekki tekið út neina peninga og myndi ekki hvort hann hafi reynt það. Þá kvaðst ákærði halda að hann hafi ekki ætlað að fá peninga hjá brotaþola og myndi hvorki til þess að brotaþoli hafi skuldað sér peninga né að hafa lánað brotaþola peninga, en kvaðst ekki geta útilokað það. Kvað ákærði að það gæti vel verið að hann hafi nokkrum sinnum varnað brotaþola að fara út úr hraðbankanum en hann myndi það ekki. Þá kvað ákærði að sér væri illa við að lána fólki peninga og hann gerði það yfirleitt ekki við fólk sem hann þekkti ekki. Kvaðst muna að hafa gengið smá með brotaþola sem hafi reynt að hringja á leigubíl. Leiðir þeirra hafi svo skilið skammt frá við Vöruhúsið að Skólavegi 1. Þá hafi brotaþoli verið standandi. Ákærði kvaðst muna þetta mjög illa og ítrekaði það margsinnis og kvaðst ekki nenna að rifja þetta upp.

            Brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu þann 27. september 2016 og kvaðst hafa verið við smíðavinnu í Vestmannaeyjum. Hafi svo vinur hans komið til Vestmannaeyja til að landa fiski og þeir ákveðið að hitta sameiginlegan vin þeirra og horfa saman á knattspyrnuleik og drekka bjór. Eftir það hafi þeir farið á Lundann. Vinur brotaþola hafi farið heim á undan. Svo þegar brotaþoli hafi farið af Lundanum um kl. 00:30 hafi elt hann maður sem hann hafi ekki séð áður. Hafi maður þessi sagt að hann skuldaði sér bjór því hann hafi greitt fyrir hann einn bjór á barnum. Maðurinn hafi farið að hóta sér þegar hann hafi sagt að hann vildi ekki borga neitt og að hann væri bara með kort. Maðurinn hafi hótað barsmíðum ef hann ekki borgaði. Maður þessi hafi farið með sig í hraðbanka Landsbankans og hafi brotaþoli þar reynt að taka út peninga en það hafi ekki tekist. Kvaðst brotaþoli muna það að hafa ekki komið með neina peninga út úr hraðbankanum. Þá kvað brotaþoli að þegar þeir hafi verið komnir út úr hraðbankanum hafi maðurinn rifið af honum veskið hans, gramsað í því og stungið því á sig. Síðan hafi þeir gengið að gatnamótum Vestmannabrautar og Skólavegar við Vöruhúsið. Beygt suður Skólaveg og fyrstu eða aðra götu til vesturs. Á þeirri götu hafi maðurinn lamið hann bylmingshögg í hnakkann þannig að hann hafi fallið í götuna. Kvaðst brotaþoli muna næst eftir sér þegar hann hafi verið að rísa á fætur og hafi hann verið mjög hræddur, hlaupið burt og falið sig í húsagarði skammt frá, en gat ekki gert grein fyrir hvaða garði. Þar hafi hann legið í hálfa til eina klukkustund og farið svo beint á lögreglustöðina. Kvað brotaþoli að hann hafi hitt manninn áður á Lundanum um kvöldið. Hafi brotaþoli verið ölvaður og hafi drukkið 6-8 bjóra. Kvað brotaþoli að maður þessi hafi sagt að hann skuldaði sér sem næmi einum bjór, eða 1.000 kr. Hafi maðurinn hótað sér líkamsmeiðingum ef hann myndi ekki ná í peninga. Hafi þeir farið að hraðbanka Landsbankans þar sem brotaþoli hafi farið einn inn, en þegar hann hafi komið út aftur og sagt að hann gæti ekki tekið út peninga hafi maðurinn farið með honum inn í hraðbankann. Brotaþoli kvaðst hafa ætlað að taka út peninga til að láta hann hafa til að losna við hann. Kvað brotaþoli aðspurður að hann telji bara hafa verið um að ræða einn mann enda muni hann ekki eftir neinum öðrum. Lýsti brotaþoli manni þessum sem hávöxnum og með húðflúr hægra megin á hálsi og með hring á vinstri hönd. Kvaðst brotaþoli vera bólginn á hnakka og með höfuðverk, en ekki hafi þó komið sár eða blætt. Þá lýsti brotaþoli því að rangt væri í fyrri framburði sínum að maðurinn hefði krafið hann um 15.000 kr., en hann myndi það ekki.

            Í vottorði B læknis, dags. 24. ágúst 2016, segir að brotaþoli hafi komið á vaktina á heilsugæslunni þann 18. mars vegna líkamsárásar nóttina áður. Kemur fram að í nótum þess læknis sem hafi tekið á móti brotaþola, C, segi að við þreifingu finnist bólga aftan á hnakka en líka dæld og sé óljóst hvort það sé sjálf höfuðkúpan eða vegna bólgu. Ekki sjáist önnur áverkamerki, en brotaþoli hafi lýst höfuðverk og eymslum.

            Lögregla tók skýrslu af ákærða Heimi þann 21. nóvember 2016. Kvaðst hann hafa hitt meðákærða á Lundanum og drukkið þar. Rámaði í að meðákærði hafi talað um að einhver skuldaði honum peninga og kvað meðákærða hafa beðið sig að hjálpa sér að innheimta það. Hafi ákærði samþykkt það. Kvaðst næst muna eftir sér fyrir utan Landsbankann og þaðan hafi hann farið heim. Kvað meðákærða ekki hafa sagt hve mikla peninga þessi maður hafi skuldað og að hann vissi ekki hver brotaþoli væri og gæti ekki þekkt hann aftur. Kvaðst muna eftir að hafa staðið fyrir utan hraðbanka Landsbankans og snúið baki í anddyrið og hafi ekki séð hvað hafi verið að gerast inni í anddyrinu. Kvað fyrst að hann myndi ekki eftir meðákærða og brotaþola við bankann, en síðar í skýrslunni kvað hann þá hafa verið inni í anddyrinu. Kvaðst ekki hafa farið inn í anddyrið. Kvaðst ekki muna hverjir aðrir hafi verið fyrir utan anddyrið þegar hann hafi staðið þar sjálfur. Kvaðst hafa vaknað einn heima að morgni. Kvaðst ekki muna þetta vel. Kvaðst ekki muna eftir að hafa slegið brotaþola og kvaðst ekki muna eftir að hafa gengið með honum meðfram Vöruhúsinu. Almennt lýsti ákærði því að muna atvik kvöldsins illa og var framburður hans óglöggur. Þá kom fram að ákærði gæti ruglað saman atvikum.

            Aftur tók lögregla skýrslu af ákærða Hafsteini 21. nóvember 2016 og kvaðst hann muna að hafa gengið að Landsbankanum með brotaþola. Hann hafi hitt brotaþola á Lundanum en myndi ekki hvort hann hafi lánað honum peninga eða hvað hafi farið þeim á milli. Kvaðst ekki muna hvort hann hafi verið að rukka brotaþola um peninga. Kvaðst hafa farið með honum að hraðbankanum þar sem hann hafi ætlað að taka út peninga en ekki gert það. Þetta hafi tekið svolítinn tíma og svo hafi þeir farið út aftur. Hafi ákærði gengið með brotaþola nokkurn spöl áleiðis þangað sem brotaþoli hafi gist, en svo ekki nennt því og farið heim til sín eftir að hafa skilið við brotaþola á mótum Skólavegar og Kirkjuvegar. Kvaðst hvorki hafa tekið veski brotaþola né hafa slegið hann. Hann hafi bara verið einn með brotaþola. Kvaðst aðspurður ekki muna að meðákærði hafi verið með þeim og kvaðst síðar alveg viss um að hafa bara verið einn með brotaþola. Kvaðst ekki muna til þess að hafa lánað brotaþola peninga og kvað sér vera illa við að lána fólki fé.

            Aftur tók lögregla skýrslu af ákærða Heimi 21. nóvember 2016 og kvað hann meðákærða hafa beðið sig um aðstoð við að rukka brotaþola um peninga. Ákærði hafi samþykkt það. Hafi meðákærði ekki sagt hve mikla peninga eða hvernig hann ætlaði að rukka. Svo muni hann næst eftir sér til hliðar á tröppunum utan við Landsbankann þar sem hann hafi snúið baki í anddyrið. Það hafi verið læti inni í anddyrinu þegar meðákærði og brotaþoli hafi verið þar inni að ná í peninginn. Annar hvor eða sennilega báðir hafi talað hátt og brotaþoli hafi sagt við meðákærða að hann skuldaði honum ekki peninga. Kvaðst muna þetta. Kvaðst ekki muna eftir líkamlegum átökum og kvaðst ekki muna hvort meðákærða hafi tekist að rukka peninginn. Kvaðst ekki muna eftir því þegar meðákærði og brotaþoli hafi komið út úr anddyri hraðbankans og ekki muna að hafa gengið með brotaþola eftir það. Kvaðst hafa lesið frétt um þetta eftir á en ekki strax hugsað út í að það væri þetta mál. Aðspurður um hvort hann hafi staðið fyrir utan hraðbankann til að vera á verði kvað ákærði það örugglega hafa verið svoleiðis.

            Meðfylgjandi rannsóknargögnum er mynddiskur með upptöku úr eftirlitsmyndvél í hraðbanka Landsbankans í Vestmannaeyjum þar sem sjá má ákærða Hafstein og brotaþola, sem virðist ölvaður og óstöðugur á fótum. Má þar sjá ákærða ítrekað varna brotaþola útgöngu, ýta brotaþola að úttektarvélinni og standa þar yfir honum. Er ekki að sjá á upptökunni að ákærði Hafsteinn sé þar undir áhrifum.

            Ekki eru efni til að gera frekari grein fyrir málavöxtum.

 

            Forsendur og niðurstaða

            Ákærði Hafsteinn hefur skýlaust játað að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem  honum er gefin að sök í ákærulið III. Er með játningu ákærða og gögnum málsins hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök skv. þessum ákærulið og varðar hún við þau ákvæði sem tilgreind eru í ákærunni.

            Ákærði Hafsteinn gaf skýrslu við aðalmeðferð og kvaðst hafa verið á fylleríi á Lundanum. Það sé svo langt síðan að hann muni eiginlega ekkert eftir þessu. Kvaðst ekki muna eftir að hafa hitt þar mann sem hann hafi gengið með út. Kvaðst eiginlega ekki muna eftir að hafa farið í hraðbanka með manni. Hann hafi verið mjög ölvaður og það sé mjög langt síðan. Hann muni mjög fátt af þessu kvöldi. Kvaðst ekki muna eftir meðákærða þetta kvöld. Kvaðst ekki muna eftir að hafa vakið ofurölvi mann á Lundanum. Kvaðst ekki muna eftir að hafa lánað manni peninga þetta kvöld og ekki heldur að hafa gefið einhverjum bjór. Kvaðst ekki muna eftir að hafa splæst á einhvern á barnum, en myndi þó að hafa sjálfur verið á barnum. Kvaðst muna óljóst eftir að hafa verið inni í hraðbankanum þetta kvöld. Kvaðst ekki muna hvað hann hafi verið að gera þar. Kvaðst aldrei hafa unnið á Lundanum, en hafa aðstoðað þar við að hemja óðan mann fyrir löngu síðan. Kvaðst ekki vera gjarn á að lána fólki peninga og ekki heldur ókunnugum, en þó gæti hent að hann splæsti kannski einum bjór eða svo, en það sé þó fátítt. Kvaðst þekkja meðákærða og hafa unnið með honum.

            Aðspurður kvaðst ákærði ekki bera nein húðflúr. Hann hafi ekki borið hring á fingri. Kvaðst ekki minnast þess að hafa hitt brotaþola á Lundanum þetta kvöld. Kvaðst heldur ekki kannast við að hafa gengið með honum að hraðbankanum þetta kvöld. Kvaðst ekki hafa ætlað að ræna brotaþola og hann hafi hvorki hótað né ógnað brotaþola. Kvaðst ekki muna eftir meðákærða þarna.

            Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa slegið brotaþola þetta kvöld. Hvorki í hnakkann né annars staðar. Þetta kvaðst ákærði muna og vera  viss um það, enda muni hann ekki einu sinni eftir þessum manni.

Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu um að hafa splæst bjór á brotaþola kvað ákærði vera mjög langt síðan og hann myndi ekki eftir þessu. Var ákærði spurður rækilega um framburð sinn hjá lögreglu og kvaðst muna eftir skýrslutökum en hann myndi ekki frekar eftir þessu og gat ekki skýrt mun á framburði sínum fyrir dómi og hjá lögreglu, að öðru leyti en því að langt væri um liðið. Kvaðst m.a. ekki muna eftir að hafa verið með öðrum manni í hraðbankanum og kvaðst ekki muna eftir að hafa verið í hraðbankanum. Kvað minni sitt slæmt, en hann hafi örugglega munað atburði betur þegar hann gaf framburð hjá lögreglu, en fyrir dómi. Framburður hans hjá lögreglu geti verið réttur. Kvaðst að sjálfsögðu segja rétt frá við skýrslugjöf hjá lögreglu. Kannaðist við að þekkja meðákærða en kvaðst ekki muna eftir honum þetta kvöld, en þeir hittist stundum á Lundanum. Kvaðst ekki muna neitt eftir því að hafa reynt að hindra að brotaþoli færi út úr anddyri hraðbankans. Aðspurður kvaðst ákærði í raun ekki muna eftir að hafa verið í hraðbankanum, heldur aðeins að hafa verið einhvers staðar annars staðar en á Lundanum. Kvaðst ekki muna neitt eftir meðákærða þetta kvöld, hvorki í sambandi við brotaþola né annað.

Ákærði Heimir gaf skýrslu við aðalmeðferð og skýrði frá því að hafa verið að fá sér bjór á Lundanum. Þar hafi hann hitt meðákærða. Þeir hafi verið slakir og fengið sér bjór. Svo hafi ákærði farið heim að sofa. Kvaðst ekki muna hvað þeir meðákærði hafi talað þarna inni. Kvaðst ekki muna eftir að hafa hitt einhverja fleiri á Lundanum. Kvaðst ekki muna sérstaklega eftir einhverjum ölvuðum manni á Lundanum, en þarna hafi verið margt ölvað fólk. Kvaðst ekki muna eftir að meðákærði hafi beðið sig um aðstoð við eitthvað. Eftir að hafa farið af Lundanum hafi ákærði gengið upp frá Lundanum og snúið baki í Landsbankann. Hann hafi bara farið heim. Hann muni að hafa gengið Vestmannabraut og snúið baki í Landsbankann, sem hafi verið beint fyrir aftan hann. Hafi gengið rakleiðis heim og kvaðst muna að hafa beygt upp hjá Fiskibarnum, sem þá var Vöruhúsið, og þaðan heim. Hann hafi verið einn á ferð og kvaðst muna það. Hann hafi verið búinn að drekka mikinn bjór, en þó ekki verið alltof drukkinn. Hann hafi á þessum tíma verið gjarn á að gleyma eftir drykkju en þessi tími hafi verið sér erfiður. Þó hafi ekkert gerst sem hann muni ekki eftir. Kvaðst hvorki muna eftir að hafa orðið var við mannaferðir hjá hraðbankanum né heldur hávaða. Ákærði kannaðist við að hafa borið hring á þessum tíma og að hafa verið með húðflúr á hálsinum hægra megin. Sýndi ákærði húðflúrið í dómsalnum. Ákærði kvaðst vera 198 sentimetrar á hæð.

Aðspurður kvaðst ákærði hafa verið tíður gestur á Lundanum á þessum tíma, en hann hafi ekki starfað þar þá, en það hafi hann gert áður. Stundum hafi hann hitt meðákærða á Lundanum. Á þessum tíma hafi ákærði verið drykkfelldur. Ákærði kvaðst vera með athyglisbrest og eiga erfitt með að einbeita sér. Minni sitt sé líkt og í svipmyndum og hann eigi erfitt með að tengja minningar við ákveðinn tíma eða skipti. Kvaðst ekki þekkja brotaþola og kvaðst ekki þekkja hann á myndum sem honum voru sýndar í dómsalnum. Hafi ekki séð manninn áður. Kvaðst ekki muna eftir að hafa á þessum tíma gengið frá Lundanum að Landsbankanum með meðákærða og öðrum manni. Hafi ekki séð brotaþola í bankanum.

Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu kvað ákærði að hann væri sennilega að rugla saman skiptum og búa jafnvel til minningar vegna athyglisbrestsins. Þá lýsti ákærði því að vist í fangaklefa hafi vond áhrif á sig og valdi sér streitu sem valdi því að hann geti gengist við hlutum sem hann kannist í raun ekki við. Nánar aðspurður lýsti ákærði því að vegna athyglisbrests hafi hann ekki sagt rétt frá hjá lögreglu, en hann hafi þó ekki verið að segja ósatt. Frásögn hans hjá lögreglu hafi byggt á misskilningi. Kvaðst ákærði vera að segja rétt frá við aðalmeðferðina. Hann hafi verið undir miklu álagi við skýrslugjöf sína hjá lögreglu. Kannaðist við að vera að breyta framburði sínum eftir að hafa kynnt sér gögn málins fyrir skýrslugjöf fyrir dómi. Kvað að meðákærði hafi ekki beðið sig að aðstoða sig, nema einu sinni þegar þeir hafi haft afskipti af pari á Þjóðhátíð. Hann hafi stundum stoppað meðákærða af í að ráðast á fólk. Hafi hann ekki logið að lögreglu, en hafi þó verið að rugla saman atvikum og búa til eitthvað. Þá sé hann ekki að segja ósatt fyrir dómi. Hann hafi ekki munað þetta betur hjá lögreglu á árinu 2016 en fyrir dómi árið 2018. Þá kvað ákærði að hann væri aldrei að lenda í svipuðum atvikum og lýst væri í þessu máli.

Aðspurður kvað ákærði að leiðir hans og meðákærða hefðu skilið inni á Lundanum og eftir að hann hafi farið af Lundanum hafi hann verið einn og gengið einn heim alla leið. Kannaðist ekkert við að hafa lamið nokkurn mann og engan hitt á leiðinni.

Vitnið D lögreglumaður kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og lýsti því að brotaþoli hafi komið á lögreglustöð greint sinn og verið töluvert ölvaður og grátandi. Hafi hann sagt að hann hafi orðið fyrir líkamsárás. Hafi brotaþoli sagt að maður hafi ráðist á hann og farið með hann að hraðbanka Landsbankans og reynt að láta sig taka út peninga vegna þess að hann skuldaði honum peninga, en svo hafi maðurinn tekið einhverja peninga úr veskinu hans. Þetta hafi verið að næturlagi um þrjúleytið. Hafi brotaþoli gefið einhverja lýsingu á manninum og sagt hann ljóshærðan og grannan, hærri en brotaþoli sjálfur. Frásögnin hafi ekki verið greinargóð. Hann hafi sagst hafa verið sleginn í höfuðið og verið ógnað eða hótað. Hafi brotaþoli ekki kannast við að skulda manni þessum peninga. Vitnið staðfesti frumskýrslu sem vitnið gerði í málinu og staðfesti það sem þar kom fram. Ekki kvaðst vitnið vita hvernig ákærði Heimir hafi komið inn í málið, en brotaþoli hafi bara talað um einn mann.

Vitnið E rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að ekki hafi í raun legið fyrir miklar upplýsingar í byrjun rannsóknar. Hafi verið skoðaðar upptökur úr eftirlitsmyndavél í anddyri Landsbankans þar sem hraðbankinn sé. Þar hafi sést ákærði Hafsteinn með brotaþola. Hafi hann verið boðaður til skýrslutöku. Hins vegar hafi lýsing brotaþola á árásarmanninum ekki alveg komið heim og saman við ákærða Hafstein. Vitninu hafi svo dottið í hug að lýsingin passaði akkúrat við ákærða Heimi sem vitnið hafi þekkt til. Þá hafi ákærði Heimir verið boðaður til skýrslutöku og hafi hann þá kannast við þetta. Ákærði Heimir hafi komið til skýrslutöku og fengið verjanda. Ekki hafi verið rætt við ákærða án þess að verjandinn hafi verið viðstaddur. Vitnið kannaðist ekki við að ákærði Heimir hafi verið undir sérstöku álagi við skýrslugjöfina eða verið spurður leiðandi spurninga. Ákærði Heimir hafi vitað um málið, en hafi ekki gert sér grein fyrir að það væri þetta atvik. Hafi þurft að útskýra fyrir honum málið og þá hafi hann kannast við þetta. Brotaþoli hafi talað um hávaxinn ljóshærðan mann með há kollvik og húðflúr á hálsi og hring á fingri. Hafi þetta smellpassað við ákærða Heimi. Lýsingin passi ekki við neinn annan sem vitnið viti um. Ákærði Heimir hafi kannast við að hafa verið á Lundanum og farið með meðákærða sem hafi beðið sig um aðstoð við að innheimta skuld. Hafi ákærði Heimir farið með ákærða Hafsteini að hraðbankanum og staðið þar fyrir utan meðan ákærði Hafsteinn hafi verið þar inni með brotaþolanum. Vitnið kvaðst muna eftir frásögn ákærða Heimis um þetta og lýsti vitnið því hvernig ákærði Heimir hefði nákvæmlega lýst því hvar hann hafi staðið fyrir utan hraðbankann. Vitnið lýsti því að þrátt fyrir leit hafi ekki fundist sá staður sem brotaþoli hafi sagst hafa falið sig á, en brotaþoli hafi ekki sjálfur getað lýst staðsetningunni nákvæmlega. Ekki hafi verið sérstök pressa á ákærða Heimi við skýrslutöku umfram það sem fylgi því að vera í skýrslutöku hjá lögreglu sem sakborningur, en ákærði hafi munað þetta illa.

Vitnið C læknir gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð og staðfesti að hafa skoðað brotaþola sem hafi leitað á vaktina vegna líkamsárásar nóttina áður. Hafi brotaþoli lýst því að hafa verið rændur og neyddur til að taka peninga út úr hraðbanka. Hafi komið fram hjá honum að hann hafi verið laminn í hnakkann og fallið við það. Hafi brotaþoli lýst því að hugsanlega hafi áhald verið notað við þetta, en ekki verið viss um það. Hann hafi virst ekki hafa misst meðvitund en vankast eitthvað smávegis og náð að komast undan árásarmanninum. Brotaþoli hafi verið áttaður en lýst höfuðverk og bólgu og jafnvel dæld aftan á hnakka og eymslum þar. Þá hafi brotaþoli lýst kvíða. Við þreifingu hafi fundist einhvers konar dæld. Við tölvusneiðmynd hafi ekki sést neinir beináverkar. Hafi því verið um að ræða mjúkpartabólgu eftir högg. Taugaskoðun hafi verið eðlileg og ekki hafi verið nein ástæða til að efast um frásögn brotaþola. Áverkarnir hafi verið smávægilegir, en höggi á hnakka geti alltaf fylgt hætta og sé alvarlegt. Brotaþoli hafi lýst því að hafa áður verið haldinn af kvíða og hafi þetta atvik aukið á kvíðann. Áverkar hafi komið heim og saman við frásögn brotaþola, en ómögulegt sé að segja til um hvort áhaldi hafi verið beitt. Svona áverki geti verið eftir ýmislegt.

Vitnið A brotaþoli kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hafa komið í vinnuferð til Vestmannaeyja á föstudeginum á undan og hafi verið að fylgja eftir sumarbústað sem hann hafi smíðað á Selfossi og hafi verið að selja í Vestmannaeyjum. Hafi verið að vinna í honum alla vikuna og svo verið að ljúka við það og afhenda lykla á fimmtudeginum. Svo hafi vinur hans boðið honum í kvöldmat og svo hafi brotaþoli átt far upp á land á föstudeginum. Hafi brotaþoli þegið kvöldverðarboðið og svo hafi þeir horft á knattspyrnuleik í sjónvarpi og þeir horft á leikinn og brotaþoli þá drukkið nokkra bjóra. Svo hafi þriðji vinurinn bæst í hópinn og þeir tveir svo farið á Lundann. Þar hafi verið drukknir nokkrir bjórar til viðbótar. Hafi brotaþoli jafnframt hitt þarna gamla kunningja og boðið þeim upp á bjór. Svo hafi brotaþoli verið að fara heim af Lundanum og þá hafi komið til sín maður, rétt þegar brotaþoli hafi verið kominn yfir götuna hjá Lundanum. Hafi maður þessi sagt að hann hafi þurft að borga bjór fyrir brotaþola á barnum og brotaþoli skuldaði sér peninga fyrir bjórnum. Hafi brotaþoli neitað þessu. Þá hafi maðurinn tekið undir höndina á brotaþola og teymt sig af stað og sagt að þeir þyrftu að fara í hraðbanka að ná í peninga fyrir þessu. Hafi maðurinn teymt brotaþola alla leið í hraðbankann. Brotaþoli hafi haldið að þetta væri út af einum bjór, en hafi þó neitað því enda ekki þekkt manninn og aldrei séð hann áður. Svo hafi brotaþoli opnað anddyrið að hraðbankanum með korti sínu og farið inn og hafi þá maðurinn sagt sér að taka út af öllum kortum eins mikið og hann gæti. Hafi brotaþoli verið með ein 5 kort í veskinu. Hafi brotaþoli reynt það og áttað sig á því að þetta væri mjög óeðlilegt og að það væri bara verið að ræna sig. Hafi reynt að taka út af fyrsta korti og stimpla inn pin númer og ýtt á hámarksúttekt. Hafi brotaþoli verið kominn í panik og liðið illa þarna inni og ýtt á kr. 30.000 úttekt. Hafi þá komið einhver texti um að það væri umfram hámark dagsins. Svo hafi brotaþoli reynt aftur og það ekki gengið. Þá hafi hann reynt annað kort og gert nákvæmlega það sama. Það hafi ekki heldur gengið. Hafi reynt þriðja kortið ítrekað. Ekki hafi þetta tekist og skilaboðin ýmist verið ekki heimilað eða yfir hámarksúttekt dagsins. Hafi svo maðurinn verið orðinn óskaplega pirraður og öskrað eitthvað á brotaþola þarna inni í anddyrinu. Svo hafi þeir farið út og þá hafi brotaþoli mætt þarna öðrum manni fyrir utan. Hafi maðurinn sagt þeim manni að brotaþoli hafi ekki náð út neinum peningum. Hafi þá maðurinn rifið af sér veskið og gramsað í því og stungið því svo í vasann. Hafi maðurinn spurt hvort hann hefði peninga annars staðar og brotaþoli sagt hafa reiðufé í íbúð dóttur sinnar. Þá hafi maðurinn sagt að þeir skyldu þá fara þangað og ná í það og hafi farið að teyma sig af stað og upp götuna fram hjá veitingastað sem einu sinni hafi heitið Verksmiðjan eða eitthvað þannig. Þar hafi verið beygt upp til vinstri og svo götu til hægri. Þegar þeir hafi verið búnir að ganga svona 4-5 einbýlishúsaraðir á hægri hönd þá hafi maðurinn verið sér á vinstri hönd. Svo muni hann ekki meira fyrr en hann hafi fengið bylmingshögg og sársauka í hnakkann. Svo hafi brotaþoli bara vaknað upp liggjandi á gangstéttinni hægra megin á götunni. Hafi þá litið til hliðar og fram fyrir sig og verið mjög hræddur og óttast að maðurinn væri fyrir aftan sig. Hafi brotaþoli þá ákveðið að standa á fætur og hlaupa eins og fætur toguðu upp brekkuna. Hafi hlaupið fram hjá svona 4-5 einbýlishúsum og stungið sér milli tveggja húsa og farið þar á bakvið tröppur og lagst niður kylliflatur meðfram tröppunum ofan á grjót og legið á bakinu grafkyrr. Þar hafi hann legið nokkra stund, máske 20-30 mínútur. Hafi svo farið til lögreglu og haft varann á sér á leiðinni. Hafi verið geysilegur léttir að koma inn á lögreglustöðina og hafi hann brotnað saman þar og grátið.

Aðspurður kvaðst brotaþoli ekki muna eftir neinum samskiptum við menn þessa á Lundanum. Hann hafi verið talsvert ölvaður. Inni í hraðbankanum hafi maðurinn hótað sér líkamsmeiðingum og barsmíðum ef hann tæki ekki út peninga. Hafi hann verið reiður og pirraður og öskrað á sig. Hafi brotaþoli verið mjög hræddur og ætlað sér að hlýða manninum. Ákærði Heimir hafi svo verið fyrir utan bankann þegar þeir hafi komið þangað út og hafi hann tekið veskið af brotaþola þegar ákærði Hafsteinn hafi sagt að brotaþoli hafi ekki tekið út neinn pening. Ákærði Heimir hafi svo spurt hvort hann hefði peninga annars staðar og sagt að þeir skyldu þá fara þangað og sækja peninga. Aðspurður um lýsingu á þessum mönnum kvaðst ákærði ekki muna mjög vel eftir útliti ákærða Hafsteins, en ákærði Heimir hafi verið þunnhærður og skolhærður með há kollvik, stærri en brotaþoli, kannski 180 sm eða a.m.k. hærri en brotaþoli sem kvaðst vera 170 sm. Hafi ákærði Heimir verið brotaþola á vinstri hönd allan tímann. Hafi brotaþoli tekið eftir hring á fingri hans og húðflúri á hálsinum. Kvaðst alveg viss um að ákærði Heimir hafi tekið veskið. Þegar brotaþoli hafi verið sleginn hafi bara ákærði Heimir verið með honum. Kvaðst ekki vita hvað hafi orðið um ákærða Hafstein, en hann hafi ekki verið með í för eftir að þeir hafi beygt hjá Vöruhúsinu og eftir það hafi brotaþoli bara gengið með ákærða Heimi og hafi þá ákærði verið brotaþola á vinstri hönd og þess vegna hafi brotaþoli séð húðflúrið hægra  megin á hálsi ákærða. Lýsti brotaþoli húðflúrinu. Aðspurður um höggið í hnakkann kvað brotaþoli að því hafi fylgt gríðarlegur sársauki og hann hafi svo vaknað liggjandi í gangstéttinni. Kvaðst halda að þetta hafi frekar verið með barefli eða rörbút eða einhverju slíku miðað við sársaukann. Hann hafi þó ekki séð ákærða með neitt slíkt. Fyrst eftir að ranka við sér hafi brotaþoli haldið að ákærði Heimir hafi verið fyrir aftan sig og orðið mjög hræddur. Hann hafi hvorugan ákærða séð eftir að ranka við sér á gangstéttinni. Hann hafi bara hlaupið eins og fætur toguðu. Brotaþoli kvaðst ekki vita hvort hafi verið peningar í veskinu eða hvort þeir hafi allir verið búnir. Aðspurður um staðinn þar sem hann hafi legið kvað brotaþoli að grjót hafi verið undir og dimmt þar í skotinu. Brotaþoli kvaðst hafa verið bólginn á hnakkanum og með dæld þar og haft mikinn höfuðverk í 2 daga á eftir. Brotaþoli hafi fengið mikinn kvíða eftir þetta og fengið lyf við því.

Aðspurður kvaðst brotaþoli ekki minnast þess að þessir menn hafi keypt neinn bjór fyrir sig þetta kvöld, enda hafi hann sjálfur verið með peninga og kort. Aðeins ákærði Hafsteinn hafi komið að sér þegar brotaþoli hafi verið kominn út af Lundanum. Þetta hafi verið á að giska um tvöleytið um nóttina. Vinur hans hafi verið farinn á undan. Kvaðst brotaþoli hafa ætlað gangandi til dóttur sinnar að Áshamri, en ekki taka leigubíl. Ákærði Hafsteinn hafi komið upp að hliðinni á sér. Hafi hann fljótlega farið að vera með hótanir um líkamsmeiðingar og slíkt og leiðindi þegar brotaþoli hafi ekki sagst skulda honum neitt. Þeir hafi gengið saman í hraðbankann. Hafi ekki séð eða orðið var við ákærða Heimi fyrr en eftir að hann hafi komið út úr hraðbankanum. Sér hafi staðið ógn af ákærða Hafsteini sem hafi hótað að berja hann. Hafi brotaþoli verið alveg viss um að verða barinn ef hann léti ekki að vilja hans. Hafi ákærði Hafsteinn verið yfir honum allan tímann inni í hraðbankanum og gætt þess jafnframt að brotaþoli færi ekki út, með því að standa í vegi fyrir honum. Aðspurður um að á upptöku sjáist að ákærði Hafsteinn hafi farið út úr hraðbankanum og komið inn aftur kvað brotaþoli að sér hafi ekki hugkvæmst að hringja á lögreglu. Aðspurður kvaðst brotaþoli hafa haft kvíða fyrir þetta atvik. Þá lýsti brotaþoli því að hafa ekki áttað sig á að ákærði Heimir væri með í þessu fyrr en eftir að koma út úr hraðbankanum. Fyrst hafi þeir gengið saman þrír, en svo hafi ákærði Hafsteinn skilið við þá við Fiskibarinn eða Vöruhúsið. Alveg sé kristaltært að sá sem sló brotaþola hafi verið sá með húðflúrið á hálsinum og hring á fingri.

Aðspurður kvaðst brotaþoli muna þetta nokkuð vel alveg frá því að ákærði Hafsteinn hafi komið að sér fyrir utan Lundann. Aðspurður kvað brotaþoli það ekki rétt sem ráða megi af frumskýrslu að hann hafi bara talað um einn mann. Það sé ljóst að þeir hafi verið tveir eins og hann hafi lýst. Vera kunni að hann hafi misskilist eða talað óskýrt um þetta hjá lögreglu. Aðeins ákærði Hafsteinn hafi verið með honum í bankanum og hann hafi ekki orðið neitt var við návist ákærða Heimis fyrr en eftir að brotaþoli hafi komið út úr bankanum með ákærða Hafsteini. Aðspurður um veður kvað brotaþoli að dimmt hafi verið og kalt en hann myndi ekki hvort hafi rignt. Aðspurður kvað brotaþoli ekki koma til greina að hann hafi fengið áverka við annað en það högg sem hann hafi lýst. Brotaþoli endurþekkti sjálfan sig og ákærða Hafstein á myndum úr eftirlitsmyndavél í hraðbankanum. Þá endurþekkti brotaþoli ákærða Heimi á myndum af facebook síðu ákærða, þar sem m.a. sést húðflúr á hálsi og hringur á fingri. Aðspurður um að í frumskýrslu komi fram að hann hafi talað um að ákærði Hafsteinn hafi verið að vinna á Lundanum kvað brotaþoli að það hafi verið eins og hann hafi skuldað bjór á barnum fyrir 1.000 kr. Aðspurður kvað brotaþoli að hann hafi ekki legið á baki í mold eða slíku, en þetta hafi verið grjót og einhvers konar laut undir tröppunum, en greinilega hafi verið einhverjar framkvæmdir í garðinum.

Að mati dómsins var framburður brotaþola við aðalmeðferð afar trúverðugur og heilsteyptur. Er þar hvergi að finna ýkjukennda frásögn eða innbyrðis mótsagnir sem geti rýrt sönnunargildi framburðar hans. Þá verður ekki talið að rýri sérstaklega gildi framburðar hans að hjá lögreglu hafi hann talað um einn mann, en bæði er að upplýst er að brotaþoli var mjög miður sín eftir atvikið, en jafnframt hitt að þáttur hvors ákærðu fyrir sig í atburðarásinni, miðað við framburð brotaþola, er nokkuð aðskilinn. Þá er vafalaust að báðir ákærðu komu við sögu. Ákærði Hafsteinn sést ásamt brotaþola á upptöku úr eftirlitsmyndavél í hraðbankanum og hefur sjálfur borið um veru sína þar. Þá bar ákærði Heimir um það hjá lögreglu að hafa komið við sögu, auk þess að brotaþoli gaf afgerandi lýsingu á honum, en fyrir liggur að þeir þekktust ekkert fyrir atvikið. Er framburður brotaþola í fullu samræmi við það sem lýst er í ákærunni á hendur báðum ákærðu, þó að því frátöldu að ekki hefur neitt komið fram um að ákærði Heimir hafi tekið þátt í því að hóta brotaþola líkamsmeiðingum áður en farið var inn í anddyri Landsbankans. Þá verður ekki horft fram hjá því sem upplýst er, m.a. með framburði vitnisins D, um ástand brotaþola við komu hans á lögreglustöð um nóttina, en það ástand rennir ótvírætt stoðum undir sönnunargildi frásagnar hans. Þá er upplýst að brotaþoli bar áverka á hnakka sem eru í samræmi við frásögn hans um að hafa verið barinn í hnakkann.

Þá verður ekki horft fram hjá því að skv. upptökum úr eftirlitsmyndavél í hraðbankanum, sem dómari hefur kynnt sér, er ljóst að ákærði Hafsteinn og brotaþoli voru drykklanga stund í anddyri Landsbankans umrætt sinn og má þar sjá ákærða stýra brotaþola, sýnilega ölvuðum, að úttektarvélinni, standa þar yfir honum og varna honum útgöngu ítrekað.

Ákærðu hafa báðir fyrir dómi neitað alfarið að kannast við sakargiftirnar, en þó hefur ákærði Hafsteinn kannast við að hafa verið í hraðbankanum með brotaþola umrætt sinn. Á þessu hefur ákærði hins vegar ekki gefið nokkrar frambærilegar skýringar. Að mati dómsins er framburður beggja ákærðu fyrir dómi ótrúverðugur og afar brotakenndur en hvorugur þeirra kveðst muna eftir þessu kvöldi af nokkru viti. Er framburður ákærða Heimis um að hann hafi lýst öðru skipti eða öðrum minningum hjá lögreglu óljós og ótrúverðugur og ekki á honum byggjandi. Hins vegar liggur fyrir að hjá lögreglu könnuðust báðir ákærðu mun meira við atburðarásina sem brotaþoli lýsti heldur en þeir gerðu fyrir dómi. Þannig kannaðist ákærði Hafsteinn við að hafa sennilega varnað brotaþola útgöngu úr hraðbankanum, við að hafa ætlað að láta brotaþola taka út fé eða rukka hann á annan hátt um óljósa skuld. Ákærði Heimir kannaðist við að ákærði Hafsteinn hafi beðið sig um að innheimta peninga af manni og hann samþykkt það, hann kannaðist við að hafa verið utan við hraðbankann þar sem meðákærði Hafsteinn hafi verið inni með brotaþola og hafi verið hávaði í þeim og brotaþoli ekki sagst skulda neitt. Jafnframt jánkaði ákærði Heimir því að hafa verið á verði fyrir utan bankann meðan brotaþoli og ákærði Hafsteinn voru þar inni og sá síðarnefndi að þvinga fé af brotaþola, en fyrir liggur skv. framburði brotaþola að þegar þeir komu út úr hraðbankanum sagði ákærði Hafsteinn við ákærða Heimi að brotaþoli hafi ekki tekið út neinn pening, en það hefði hann vart sagt nema ákærði Heimir hefði verið meðvitaður þátttakandi í atburðarásinni. Fyrir liggja upptökur af skýrslugjöf ákærðu hjá lögreglu og verður þar ekki greint að þeir hafi verið undir sérstöku álagi eða að neitt hafi verið athugavert við skýrslugjöfina að öðru leyti.

Að öllu framangreindu virtu telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi gerst sekir um alla þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæruliðum I og II, að því frá töldu sem áður segir að ekki er upplýst að ákærði Heimir hafi tekið þátt í því að hóta brotaþola líkamsmeiðingum. Er háttsemi ákærðu réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Báðir ákærðu hafa þannig unnið sér til refsingar, en hvorugur þeirra hefur áður sætt refsingu skv. framlögðum sakavottorðum þeirra.

Við ákvörðun refsingar beggja ákærðu ber að líta til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem og 2. mgr. 70. gr. sömu laga enda ránsbrotið unnið í samverknaði. Þá ber að líta til þess að einungis var um að ræða tilraunabrot sem ekki skilaði ákærðu neinu fé skv. ákærunni. Þá ber að líta til þess að nokkuð er um liðið og ákærðu báðir með hreint sakavottorð. Þáttur ákærða Hafsteins í ránsbrotinu er stærri en þáttur ákærða Heimis, en á móti því kemur háttsemi ákærða Heimis skv. ákærulið II. Er hæfileg refsing beggja ákveðin fangelsi í 6 mánuði, en að virtum tíma sem liðinn er frá brotum ákærðu, sem og hreinum sakavottorðum beggja, er rétt að fresta fullnustu refsinganna og skulu þær falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þá ber að dæma ákærðu til greiðslu alls sakarkostnaðar, en útlagður kostnaður við rannsókn var kr. 12.600 vegna læknisvottorðs og ber ákærða Heimi að greiða hann. Þá ber ákærðu að greiða málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, ákærða Hafsteini kr. 450.120 vegna málsvarnarlauna skapaðs verjanda síns, Anítu Óðinsdóttur lögmanns, og ákærða Heimi kr. 484.840 vegna málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Helga Bragasonar lögmanns. Báðar fjárhæðir eru að virðisaukaskatti meðtöldum.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærðu, Hafsteinn Oddsson og Heimir Gylfason, sæti hvor fyrir sig fangelsi í 6 mánuði.

Fresta skal fullnustu refsinga beggja ákærðu og skulu refsingarnar falla niður að liðnum 2 árum, haldi ákærðu hvor fyrir sig almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærðu greiði allan sakarkostnað, ákærði Hafsteinn málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Anítu Óðinsdóttur lögmanns, kr. 450.120 og ákærði Heimir alls kr. 497.440, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Helga Bragasonar lögmanns, kr. 484.840.

Sigurður G. Gíslason