• Lykilorð:
  • Börn
  • Hegningarauki
  • Kynferðisbrot
  • Líkamsárás
  • Miskabætur
  • Fangelsi
  • Skilorðsrof

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 19. maí 2017 í máli nr. S-2/2017:

Ákæruvaldið

(Karl Ingi Vilbergsson lögreglustjóri)

gegn

X

(Kristján Óskar Ásvaldsson hdl.)

I

Mál þetta, sem dómtekið var 3. maí sl., höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 20. mars 2017 á hendur ákærða, „X, kennitala [...], [...], [...]:

1.      fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum, með því að hafa aðfaranótt 13. apríl 2013, er ákærði stóð á svölum eða palli [...], [...], brotið gegn blygðunarsemi A, kennitala [...] og B, kennitala [...], sem þá voru 13 og 14 ára, með því að hafa beðið þær um að sýna brjóst sín er hann tók ljósmyndir af þeim er þær voru í heitum potti fyrir utan húsið og klæddar í bikiní.

Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

2.      Fyrir líkamsárás, með því að hafa að kvöldi 14. nóvember 2015, utandyra við [...], [...], hrint þáverandi unnustu sinni, C, kennitala [...], með þeim afleiðingum að hún féll til jarðar og lenti á hægri öxl og hægri síðu og mjöðm og hlaut tognun og liðbandaslit í hægri öxl og sköddun á axlarhyrnulið, hruflsár á hægri öxl og hægri framhandlegg og í kringum hægri hnéskel.

Telst brot þetta varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Í ákæru er getið um bótakröfu C, kennitala [...], vegna ólögráða dóttur hennar, B, kennitala [...]. Þar er þess krafist að ákærða verði gert að greiða A miskabætur að fjárhæð 800.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. apríl 2014 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Einnig er í ákæru getið um bótakröfu B, kennitala [...]. Þar er þess krafist að ákærða verði gert að greiða B miskabætur að fjárhæð 400.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. apríl 2014 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Loks er í ákæru getið um bótakröfu C, kennitala [...]. Þar er þess krafist að ákærða verði gert að greiða C miskabætur að fjárhæð 3.000.000 króna, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 4. nóvember 2015 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Hvað varðar framangreindar þrjár bótakröfur er þess í öllum tilvikum krafist að ákærða verði gert að greiða þóknun við réttargæslu að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á þóknun réttargæslumanns. Gerð er krafa um að dráttarvextir leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta, allt í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.

Þann 11. apríl 2017 var ákæra lögreglustjórans á Vestfjörðum, dagsett 1. apríl 2017, sbr. mál nr. S-11/2017, sameinuð meðferð málsins en þar er ákærði ákærður: „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa föstudaginn 24. mars 2017, ekið bifreiðinni [...]:

  1. suður Djúpveg, sviptur ökuréttindum, uns lögreglan stöðvaði akstur hans í Arnkötludal, um kl. 15:49. [...]
  2. suður Vesturlandsveg, sviptur ökuréttindum, uns lögreglan stöðvaði akstur hans móts við Hafnarskóg, um kl. 19:15. [...]

Telst ofangreind háttsemi ákærð[a] varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57/1997.

Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af fyrsta ákærulið ákæru héraðssaksóknara en verði vegna annars ákæruliðar ákærunnar og ákæru lögreglustjórans dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst ákærði þess aðallega að öllum bótakröfum verði vísað frá dómi en til vara að þær verði lækkaðar. Þá gerir verjandi ákærða kröfu um málsvarnarlaun er greidd verði úr ríkissjóði að öllu leyti eða hluta.

 

II

Ákæra héraðssaksóknara frá 20. mars 2017, fyrsti ákæruliður.

            Málið barst lögreglu með kæru A 15. desember 2015 og gaf hún skýrslu vegna málsins sama dag. Hún sagði atvikið hafa gerst á tímabilinu febrúar til maí 2014 og þá hafi ákærði verið sambýlismaður móður hennar, C. Vitnið kvaðst hafi verið í heitum potti við heimili sitt ásamt vinkonu sinni, B, og hafi þær báðar verið klæddar í bikini. Ákærði hafi þá staðið á svölunum og ætlað að taka af þeim mynd og hafi hann beðið þær um að „fara upp“ þannig að brjóstin á þeim sæjust á myndinni. Hann hafi einnig sagt að þær ættu að gera það af því að brjóstin á þeim væru flott. Ákærði hafi verið að drekka þegar þetta gerðist og hafi henni fundist þetta mjög óþægilegt. Kvaðst hún telja að ákærði hafi verið að taka myndir með farsíma.

B gaf skýrslu hjá lögreglu vegna málsins 9. janúar 2016. Hún kvaðst hafa verið í heita pottinum við heimili A ásamt henni og hafi báðar verið klæddar bikini. Kvaðst hún halda að þetta hafi verið um vetur, það hafi verið komið myrkur, en ekki muna nánari tímasetningu en að þetta hafi verið árið 2013 eða 2014. Ákærði hafi komið út á svalir og hafi hann ætlað að taka mynd af þeim í heita pottinum. Ákærði hafi þá verið einn á svölunum en fleira fólk hafi verið innandyra. Hann hafi sagt þeim að þær ættu að kreista brjóstin út eða sýna brjóstin. Kvaðst hún halda að ákærði hafi verið ölvaður þegar þetta gerðist. Vitninu var kynntur sá framburður A að ákærði hafi beðið þær um að „fara upp“ þannig að brjóstin á þeim sæjust á myndinni og sagði vitnið að það væri rétt. Henni hafi fundist þetta vera mjög vandræðalegt og óþægilegt og kvaðst halda að A hafi heldur ekki liðið vel með þetta.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu vegna málsins 3. febrúar 2016. Ákærði kvaðst muna eftir að hafa tekið myndir af stúlkunum þegar þær voru í heita pottinum í bikini. Hann kvaðst ekki kannast við að hafa sagt þeim að kreista brjóstin út og „fara upp“ svo að brjóstin á þeim sæjust en hafi hann sagt þetta hafi það verið í gríni. Þá kvaðst hann ekki muna hvenær þetta gerðist en muna að þá hafi verið gestir hjá þeim og nafngreindi hann D sem einn af gestunum. Ákærði samþykkti að afhenda lögreglu til rannsóknar þann síma sem hann tók myndirnar á.

Þá liggur fyrir upplýsingaskýrsla lögreglu um samtal við framangreindan D. Hann kveðst einhverju sinni hafa verið hjá ákærða og C þegar stúlkurnar voru í heitum potti sem staðsettur var við húsið. Ákærði hafi þá farið eitthvað niður og verið að væflast í kringum pottinn á meðan stúlkurnar voru í honum.

Meðal framlagðra gagna eru tvær skýrslur lögreglu með ljósmyndum, dagsettar 17. febrúar 2016. Þar kemur fram að um sé að ræða myndir sem ákærði kvaðst sjálfur hafa tekið. Í annarri skýrslunni kemur fram að þar sé að finna myndir sem teknar voru af Samsung-síma ákærða 3. febrúar 2016. Þar segir að dagsetning mynda sé ekki rétt þar sem um „screenshot“ sé að ræða. Í hinni möppunni kemur fram að um sé að ræða myndir sem ákærði sendi lögreglu í tölvupósti 17. febrúar 2016. Þá kemur þar einnig fram að myndirnar voru teknar af Samsung-síma ákærða og samkvæmt upplýsingum úr símanum voru myndirnar teknar á símann 13. apríl 2014, á 18 mínútna tímabili skömmu eftir miðnætti.

 

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði kvaðst hafa verið í sambúð með móður A þegar atvik gerðust en þeirri sambúð væri nú lokið. Í umrætt sinn hafi hann verið að taka myndir af stúlkunum og beðið þær um að reisa sig eitthvað upp í pottinum til þess að það sæist eitthvað í þær. Hann kvaðst aldrei hafa beðið þær um að bera á sér brjóstin og það sé fráleitt að þetta hafi verið eitthvað kynferðislegt. Hann hafi vegna myndatökunnar beðið þær um að stilla sér aðeins upp og koma betur upp úr vatninu en fyrst hafi bara sést í höfuðið á þeim. Hann hafi verið að reyna að ná betri mynd. Þetta hafi einungis tengst myndatökunni og hafi honum fundist þær vera eitthvað krúttlegar þarna saman í pottinum. Þetta hafi ekki verið til að það sæist betur í brjóstin á þeim. Þær hafi ekki verið berar og því hefðu brjóstin ekki sést þó að þær hefðu risið upp. Hann hafi ekki verið að biðja þær um að sýna brjóstin, það hafi ekki verið þannig meint. Ákærði kvaðst hafa verið staddur uppi á palli, sem einnig séu svalir, þegar þetta gerðist og ekki hafa farið niður af pallinum. Nánar aðspurður kvaðst hann halda að verið gæti að hann hafi farið niður af pallinum. Þá kvaðst hann hafa verið að drekka áfengi þetta kvöld.

Borinn var undir ákærða framburður hans hjá lögreglu, þar sem hann var spurður hvort hann hafi beðið þær um að sýna brjóst sín og hafi svarað að vel geti verið að hann hafi gert það, og kvaðst hann ekki þræta fyrir það en það hafi ekki verið í þeim skilningi að hafa beðið þær um að sýna ber brjóst. Um þennan framburð sagði ákærði að það gæti verið að hann hafi beðið þær um þetta ef þær eru alveg harðar á því að svo hafi verið. Þá var ákærða kynntur framburður stúlknanna hjá lögreglu og kvaðst hann ekki vilja tjá sig um hann. Ákærði kvaðst ekki hafa orðið var við að tíminn hafi verið rangur í þeim síma sem notaður var við myndatökuna. Þá minntist hann þess ekki að hafa sagt eitthvað annað við stúlkurnar, ekki beðið þær um að bera aðra líkamshluta, né reynt að snerta þær eða muna eftir frekari afskipum af þeim þetta kvöld. Þá kvaðst hann halda að hann hafi aldrei sagt við þær að brjóstin á þeim væru flott eða beðið þær um að kreista fram brjóstin.

Vitnið A sagði hana og B hafa verið í heita pottinum þegar ákærði kom út á svalir og fór að taka myndir. Hann hafi svo beðið þær að fara aðeins upp með brjóstin til að sýna þau betur. Þá minni hana að ákærði hafi komið niður og tekið þar einhverjar myndir. Hún hafi skilið það svo að ákærði hafi ekki verið að biðja þær um að sýna ber brjóstin en að biðja þær um að sýna skoruna. Hann hafi beðið þær um að reisa sig upp svo að brjóstin sæjust betur. Henni hafi fundist þetta óþægilegt og skrítið en þetta hafi verið fyrir framan vinkonu hennar. Henni hafi liðið neyðarlega af því að þetta var heima hjá henni og mamma hennar var með þessum manni og henni hafi fundist þetta vera pínulítið henni að kenna af því að hún var að bjóða B heim í heita pottinn. Þegar ákærði bað þær að reisa sig upp úr vatninu var hann uppi á svölunum. Hann var meira að biðja þær um að sýna skoruna, var að segja þeim að rétta úr bakinu, að sýna brjóstin betur eða fara upp með brjóstin. Ákærði hafi beðið þær um þetta tvisvar eða þrisvar. Fyrst þegar ákærði tók myndir af þeim hafi þær verið eitthvað að fíflast og gera „pose“ merki, en alls ekki að sýna skoruna. Þegar hann bað þær um þetta hafi þeim fundist þetta óþægilegt. Þær voru 14 ára og vissu ekki betur. Aðspurð hvort þær hafi farið eftir því sem hann sagði kvað hún þær hafa brosað en þær hafi ekki kunnað við að segja: „Nei, farðu.“ Þær hafi báðar verið feimnar. Aðspurð hvað henni fyndist um þetta í dag sagði hún að þetta snerti hana ekki mjög mikið. Hún sagði engum frá þessu. Þetta særi hana ekki á neinn hátt, væri bara óþægileg tilhugsun en hún kvaðst ekki hafa farið aftur með vinkonur sínar í pottinn.

Vitnið B kvaðst hafa verið í heita pottinum með A í apríl 2014. Þær hafi þá báðar verið klæddar bikini. Ákærði hafi þá spurt þær hvort hann mætti taka myndir af þeim og síðan hafi hann spurt hvort þær gætu sýnt á sér brjóstin. Hann hafi fyrst verið uppi á svölunum en komið svo niður og þá hafi hann spurt hvort þær gætu sýnt brjóstin. Haldi hún að ákærði hafi spurt að þessu einu sinni. Henni hafi liðið skringilega vegna þess, þar sem þetta hafi verið stjúppabbi A, en ekki hugsað meira um þetta fyrr en annað mál kom upp. Sagði vitnið að það mætti ekki spyrja 14-15 ára stelpur að því hvort þær vildu kreista upp brjóstin og láta taka myndir af því. Þegar hún líti til baka finnist henni þetta hafa verið rangt.

Vitnið D kvaðst muna eftir að hafa verið staddur á vettvangi þegar tvær stúlkur voru í heita pottinum, og hafi önnur þeirra verið A, en ekki muna hvenær eða á hvaða tíma kvölds atvik gerðust. Sjálfur hafi hann á meðan bæði verið í eldhúsi og á svölum. Kvað hann sig minna að ákærði hafi verið að taka myndir af stúlkunum en geti ekki sagt til um það hvort ákærði átti í orðaskiptum við þær. Eftir að hafa verið kynntur framburður sinn hjá lögreglu kvaðst vitnið ráma í að ákærði hafi verið að væflast í kringum heita pottinn en muna þetta óljóst en telja jafnvel að ákærði hafi verið að „græja“ pottinn fyrir þær.

Vitnið C, móðir A, kvaðst ekki hafa heyrt af atvikinu fyrr en A fór með starfsmanni barnaverndar til að kæra annað mál í lok árs 2016. A sagði henni þá að um hafi verið að ræða atvik þegar þær voru í heita pottinum og hafi ákærði þá beðið þær um eitthvað í sambandi við brjóstin. Hann hafi þá verið uppi á svölum og tekið myndir af þeim. Vitnið kvaðst ekki geta beint séð að þetta hafi haft áhrif á A en hún sé lokaður einstaklingur. Þegar þetta gerðist hafi A verið á unglingsárum. Ýmislegt hafi gengið á meðan vitnið var í sambúð með ákærða sem hafi haft áhrif á alla í fjölskyldunni. Hún geti því ekki sagt til um það hvort einstakt atvik hafi haft áhrif á líðan A. Vitnið kvaðst halda að atvikið hafi gerst vorið eða sumarið 2014 en þá hafi potturinn verið í notkun. Vitninu voru sýndar framlagðar myndir af stúlkunum í heita pottinum og kvaðst vitnið telja að A hafi verið um 14 ára þegar þær voru teknar. Þá kvaðst hún hafi kynnst ákærða í desember 2012.

Vitnið E lögreglufulltrúi sagði málið hafa komið upp þegar A gaf skýrslu vegna annars máls. Hann kvaðst hafa unnið þær tvær skýrslur með ljósmyndum af stúlkunum sem fyrir liggja í málinu. Í seinni skýrslunni sé um að ræða myndir sem ákærði sendi vitninu með tölvupósti. Aðspurður hvort hann geti út frá myndunum sagt til um það hvenær þær voru teknar kvaðst hann hafa látið fylgja með myndunum „properties“ sem fengið sé með því að smella á myndirnar og þannig komi fram dagsetningin 13.04.2014 og fyrir aftan hana tími. Ætla megi að myndirnar hafi verið teknar á þessum tíma. Þá sagði vitnið að ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að þetta sé röng tímasetning.

Aðspurður hvort myndirnar í fyrri möppunni hafi verið teknar 2012, þar sem það ártal komi þar fram, sagði vitnið svo ekki vera. Hann sagði ákærða hafa ætlað að framvísa þessum myndum með því að láta vitnið hafa síma sinn eftir að skýrsla var tekin af ákærða 3. febrúar 2016. Ákærði hafi hætt við að afhenda símann. Ekki hafi tekist að sækja myndirnar með því að tengja símann við tölvu. Vitnið hafi þá tekið „screenshot“ af myndunum. Þegar það sé gert þá afbakist tíminn og megi ætla að síminn hafi verið vanstilltur á því augnabliki þegar skjámyndin var tekin.

 

Niðurstaða.

Ákærði er í máli þessu ákærður fyrir brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Ákærði neitar sök. Hann kvaðst kannast við að hafa tekið myndir af stúlkunum, A og B, eins og lýst er í ákæru og á þeim tíma sem þar greinir, en byggir sýknukröfu sína á því að ósannað sé að hann hafi beðið þær um að sýna brjóst sín. Þá byggir ákærði sýknukröfu sína einnig á því að verði talið sannað að ákærði hafi sýnt af sér þá háttsemi sem greinir í ákæru þá verði hún ekki heimfærð undir þau lagaákvæði sem þar greinir og að ákvæði 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga sé ekki fullnægjandi refsiheimild þar sem ákvæðið sé of almennt orðað og beri, vegna reglu um skýrleika refsiheimilda, að túlka þröngt.

Af hálfu ákæruvalds var þess óskað, í upphafi aðalmeðferðar, að bókað yrði að í ákæru hafi misritast að ætlað brot ákærða samkvæmt fyrsta ákærulið ákæru héraðssaksóknara frá 20. mars 2017 hafi verið framið 13. apríl 2013 en það eigi að vera 13. apríl 2014. Eins komi þar fram að stúlkurnar hafi þá verið 13 og 14 ára en af framangreindu leiði að þær hafi þá verið 14 og 15 ára. Eins og ákæru er háttað er það mat dómara að hér sé um að ræða aukaatriði brots, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og verði ekki talið að vörn ákærða sé áfátt vegna þessa.

Ákærði hefur í gegnum alla meðferð málsins kannast við að hafa tekið myndir af stúlkunum, klæddum bikini, í heitum potti, á þeim tíma sem greinir í ákæru, að teknu tilliti til framangreindrar leiðréttingar á ártali, og aldri stúlknanna. Er það í samræmi við gögn málsins og fær stuðning í framburði stúlknanna, og vitnanna C og D. Ákærði neitaði því í upphafi skýrslutöku við aðalmeðferð málsins að hafa beðið stúlkurnar að sýna brjóstin fyrir myndatökuna en breytti þeim framburði áður en skýrslutöku af honum lauk á þann veg að líklega væri það rétt fyrst stúlkurnar segðu það. Þá bar ákærði um það í skýrslu hjá lögreglu við rannsókn málsins að hann neitaði því ekki að hafa beðið þær um þetta en hafi hann gert það hafi verið um grín að ræða. Með vísan til framangreinds verður að telja að framburður ákærða hafi verið reikull hvað þetta varðar og ekki verði talið að um staðfasta neitun hans sé að ræða.

Fyrir dómi staðfestu báðar stúlkurnar að þær hafi skilið ákærða svo að hann vildi að þær færu með brjóstin upp úr vatninu svo að þau sæjust á þeim myndum sem ákærði ætlaði að taka af þeim. Þær kváðust ekki hafa orðið við beiðni ákærða en liðið illa vegna hennar. Þótt ekki sé fullt samræmi milli orðalags stúlknanna þegar þær lýstu beiðni ákærða, hvorki í skýrslutöku hjá lögreglu né heldur fyrir dómi, þá má af framburði þeirra ráða að skilningur þeirra var sá sami, eins og hér að ofan er lýst. Þá er framburður þeirra beggja fyrir dómi í samræmi við framburð þeirra hjá lögreglu. Þá liggja fyrir fimm ljósmyndir sem ákærði tók í umrætt sinn og má af þeim ráða að ákærði tók myndirnar á 18 mínútna tímabili. Framburður stúlknanna er í samræmi við það sem þar má sjá. Þær eru báðar klæddar í bikini, sumar myndanna voru teknar ofan frá og af þeim má ráða að stúlkurnar voru að stilla sér upp fyrir myndatöku. Þá er ekkert fram komið sem rýrir framburð stúlknanna. Framburður ákærða er hins vegar óstöðugur og niðurstaða málsins verður ekki á honum byggð. Með vísan til framangreinds er það mat dómsins að sannað sé að ákærði hafið beðið stúlkurnar að sýna brjóstin í umrætt sinn, eins og lýst er í ákæru.

Samkvæmt 209. gr. almennra hegningarlaga skal hver sá sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis sæta fangelsi allt að fjórum árum, en fangelsi allt að sex mánuðum eða sektum ef brot er smávægilegt. A var 14 ára þegar atvik gerðust og B 15 ára og voru þær þá í heitum potti, klæddar einungis bikini. Ákærði hefur ekki sett fram neinar haldbærar skýringar á beiðni sinni og sá framburður hans fyrir dómi að þær hafi verið krúttlegar þar saman er ekki til þess fallinn að varpa nýju ljósi á atvik. Þá var ákærði undir áhrifum áfengis þegar atvik gerðust en hann var þá sambýlismaður móður A. Telja verður ótvírætt að beiðni ákærða var sett fram í þeim tilgangi að sjá meira af fáklæddum líkömum stúlknanna og ná af þeim myndum. Af framburði stúlknanna má ráða að þær upplifðu atvikið sem óþægilegt. Þá liggur fyrir að ákærði átti myndirnar enn í síma sínum þegar rannsókn málsins hófst hátt í tveimur árum eftir að atvik gerðust. Með vísan til framangreinds, og eins og atvikum var háttað, verður því að telja að háttsemi ákærða sé af kynferðislegum toga og sé lostugt athæfi í skilningi 209. gr. almennra hegningarlaga sem hafi verið til þess fallið að særa blygðunarkennd stúlknanna.

Í ákæru er brot ákærða jafnframt talið varða við 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga en samkvæmt ákvæðinu skal hver sá sem sýnir barni yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, særir það eða móðgar, sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Hér að framan hefur dómari komist að þeirri niðurstöðu að háttsemi ákærða teljist vera lostugt athæfi í skilningi 209. gr. almennra hegningarlaga. Verður með sömu rökum talið að háttsemi hans teljist einnig vera ósiðlegt athæfi í skilningi 3. mgr. 99. gr. og verður því, eins og hér stendur á, ekki fallist á þá vörn ákærða að ákvæðið sé ófullnægjandi refsiheimild vegna óskýrs orðalags. Þá eru, vegna aldurs stúlknanna þegar atvik gerðust, skilyrði til að beita ákvæðinu ásamt 209. gr. almennra hegningarlaga.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða dómsins að sannað sé að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákæru og að brot hans sé þar rétt heimfært til refsiákvæða.

 

III

Annar ákæruliður ákæru héraðssaksóknara frá 20. mars 2017 og ákæra lögreglustjórans á Vestfjörðum frá 1. apríl 2017.

Ákærði hefur skýlaust játað sök hvað varðar þau brot sem rakin eru í öðrum ákærulið í ákæru héraðssaksóknara frá 20. mars 2017 og báðum ákæruliðum ákæru lögreglustjórans á Vestfjörðum frá 1. apríl 2017. Eru þessar játningar ákærða studdar framlögðum gögnum. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir þau brot sem þar er lýst og eru þau réttilega heimfærð til refsiákvæða.

 

IV

Ákærði er fæddur árið 1969. Samkvæmt framlögðu sakavottorði nær sakaferill hans aftur til ársins 1993 og hefur hann fjórum sinnum verið sakfelldur og dæmdur til refsingar vegna líkamsárása og sex sinnum vegna umferðarlagabrota. Það sem hér kemur til skoðunar er að ákærði var með dómi héraðsdóms 7. desember 2016 dæmdur í 165 daga fangelsi en þar af voru tveir mánuðir skilorðsbundnir í tvö ár vegna brota gegn 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., 1., sbr. 3. mgr. 45. gr., 1. mgr. 48. gr., vegna aksturs sviptur ökurétti, og 1. mgr. 5. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Með dómnum var skilorðsdómur sem ákærði hlaut 2. nóvember 2015 dæmdur upp. Með sektargerð lögreglustjóra frá 20. maí 2016 gekkst ákærði undir greiðslu sektar vegna umferðarlagabrota, þar á meðal brots gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga vegna aksturs sviptur ökurétti. Þá gekkst ákærði 2. mars 2016 undir sektargerð lögreglustjóra vegna umferðarlagabrota. Með dómi héraðsdóms var ákærði 2. nóvember 2015 dæmdur í tveggja mánaða fangelsi skilorðsbundið í tvö ár vegna brots gegn 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Loks gekkst ákærði 26. janúar 2015 undir sektargerð lögreglustjóra vegna brots gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga, vegna aksturs sviptur ökurétti, og 8. apríl 2014 undir sektargerð lögreglustjóra vegna umferðarlagabrota.

Með vísan til framangreinds teljast þau brot ákærða nú að aka sviptur ökurétti, sbr. 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga, vera ítrekuð í þriðja sinn. Brot ákærða annars vegar gegn 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og hins vegar gegn 217. gr. almennra hegningarlaga telst vera hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga, við framangreinda dóma frá 7. desember 2016 og sektargerðir frá 20. maí 2016 og 2. mars 2016 en það fyrrnefnda einnig vegna dóms frá 2. nóvember 2015 og sektargerð frá 26. janúar 2015. Þá telst ákærði með broti sínu gegn 217. gr. almennra hegningarlaga hafa rofið skilorð dóms frá 2. nóvember 2015. Skilorðshluti þess dóms hefur þegar verið dæmdur upp, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga, með dómi héraðsdóms frá 7. desember 2016. Brot ákærða samkvæmt ákæru lögreglustjóra frá 1. apríl 2017 framdi ákærði 24. mars 2017 og með þeim telst ákærði hafa rofið skilorð framangreinds dóms frá 7. desember 2016. Verður skilorðshluti þess dóms því dæmdur upp, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga, og ákærða dæmd refsing í einu lagi vegna hans og þess máls sem hér er til meðferðar.

Við ákvörðun refsingar ákærða er, auk þess sem hér að framan hefur verið rakið, litið til skýlausrar játningar hans vegna annars ákæruliðar í ákæru héraðssaksóknara og beggja ákæruliða í ákæru lögreglustjóra. Þá er, til refsiþyngingar, litið til 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga þar sem brot ákærða samkvæmt ákæru héraðssaksóknara beindust annars vegar að þáverandi sambýliskonu hans og hins vegar dóttur þeirrar sambýliskonu hans. Með hliðsjón af framangreindu, þeirri háttsemi sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir og með vísan til 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í níu mánuði. Vegna sakarferils ákærða er ekki tilefni til að skilorðsbinda refsingu hans.

Í ákæru er getið um kröfur brotaþola, A, B og C, um að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta, sem byggjast allar á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Eins og að framan greinir hefur ákærði verið sakfelldur fyrir þau brot sem í ákæru héraðssaksóknara greinir. Með háttsemi sinni hefur ákærði bakað sér skyldu til greiðslu miskabóta samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga gagnvart öllum framangreindum brotaþolum.

Ekki liggja fyrir önnur gögn um afleiðingar brots ákærða gagnvart A og B en framburður vitna. Það er engu að síður mat dómsins að háttsemi ákærða sé til þess fallin að hafa áhrif á andlega líðan þeirra. Með vísan til þess, svo og málsatvika og eðli brotsins þykir fjárhæð miskabóta hæfilega ákveðin 75.000 krónur til hvorrar þeirra.

Hvað varðar bótakröfu C þá liggja fyrir læknisvottorð þar sem nánar er gerð grein fyrir þeim áverkum sem lýst er í ákæru. Kemur þar m.a. fram að um alvarlegan áverka sé að ræða á öxl hennar og hugsanlegt sé að hann muni leiða til einhverrar örorku. Þá bar C um það í skýrslu sinni fyrir dómi að áverkarnir hafi valdið henni mikilli vanlíðan og svo væri enn. Með vísan til framangreinds, málsatvika og eðli brotsins þykja miskabætur henni til handa hæfilega ákveðnar 500.000 krónur.

Dæmdar bætur bera í öllum tilvikum vexti og dráttarvexti eins og í dómsorði greinir. Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu er mælt fyrir um að sé vaxtatímabil lengra en 12 mánuðir án þess að vextirnir séu greiddir skulu þeir lagðir við höfuðstól og nýir vextir reiknaðir af samanlagðri fjárhæð. Því þykir ekki ástæða til að kveða sérstaklega á um þetta í dómi.

Eftir úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, er ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins, 1.539.455 krónur. Til sakarkostnaðar teljast málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Kristjáns Óskars Ásvaldsonar hdl., sem eru hæfilega ákveðin 700.000 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, A, B og C, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 250.000 krónur vegna hverrar þeirra, og útlagður kostnaður réttargæslumanns, samtals 42.455 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Einnig teljast til sakarkostnaðar kostnaður samkvæmt framlögðum yfirlitum ákæruvalds, samtals 47.000 krónur, en hafnað er kröfuliðum samtals að fjárhæð 60.000 krónur vegna vélritunar á skýrslum. Þessi kostnaður fellur utan þess sem talið hefur verið til sakarkostnaðar samkvæmt 1. mgr. 216. gr. laga um meðferð sakamála sem óhjákvæmileg útgjöld vegna rannsóknar máls og verður ákærða því ekki gert að greiða þennan kostnað.

Af hálfu ákæruvalds flutti mál þetta Karl Ingi Vilbergsson lögreglustjóri.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í níu mánuði.

Ákærði greiði A 75.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 13. apríl 2014 til 3. mars 2016, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði B 75.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 13. apríl 2014 til 3. mars 2016, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði C 500.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 14. nóvember 2015 til 3. mars 2016, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Óskars Ásvaldssonar hdl., 700.000 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, A, B og C, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 250.000 krónur vegna hverrar þeirra, útlagðan kostnað réttargæslumanns, 42.455 krónur og 47.000 krónur í annan sakarkostnað.

 

Sigríður Elsa Kjartansdóttir