• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða fimmtudaginn 8. febrúar 2018 í máli nr. S-23/2017:

 

Ákæruvaldið

(Karl Ingi Vilbergsson lögreglustjóri)

gegn

Aroni Óla Arnarsyni

(Úlfar Guðmundsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 15. janúar síðastliðinn, höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með ákæru, útgefinni 17. júní 2017, á hendur ákærða, Aroni Óla Arnarsyni, kennitala […], […], […], „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa að morgni sunnudagsins 17. júlí 2016, ekið bifreiðinni […], undir áhrifum áfengis, frá […] að […], þar sem lögregla kom að honum sofandi í bifreiðinni.“

Í ákæru er brotið talið varða við 1., sbr. 3., mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998, og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Mál númer S-40/2017 var sameinað þessu máli. Það er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Vestfjörðum, útgefinni 30. ágúst 2017, á hendur ákærða fyrir líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 6. febrúar 2016, veist að A, í afgreiðslusal […], og kastað farsíma sínum í andlit A, með þeim afleiðingum að hann hlaut 1 cm skurð á vinstri augabrún og 1 cm skurð undir vinstra auga. Telst brotið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981. Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. 

Kröfur ákærða:

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins samkvæmt ákæru útgefinni 17. júní 2017, en til vara vægustu refsingar sem lög heimila. Þá krefst ákærði vægustu refsingar af kröfum ákæruvaldsins samkvæmt ákæru útgefinni 30. ágúst 2017. Loks krefst ákærði þess að allur sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð, þar með talin hæfileg þóknun skipaðs verjanda ákærða.

A

Ákæra útgefin 17. júní 2017:

I

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var tilkynnt þann 17. júlí 2016, klukkan 07:24, til neyðarlínu um […] […]-bifreið sem ekið var frá tjaldstæðinu hjá […] í suðurátt. Var ökumaður bifreiðarinnar sagður ölvaður. Lögregla lagði af stað frá […] klukkan 07:35 og ók sem leið lá að […] án þess að verða bílsins var. Kom lögreglan að […] klukkan 08:46 og hitti þar tilkynnanda og vitnið B sem greindi frá því að ákærði væri ökumaður bifreiðarinnar og hefði hann tilkynnt að hann ætlaði til Reykjavíkur. Var talið að ákærði hefði ekki farið langt þar sem lögreglan hefði ekki mætt honum á leiðinni. Því hefði verið ekið nokkra kílómetra til baka og fannst bifreiðin, […], […], við bæinn […] klukkan 08:52. Var ákærði sofandi frammi í í bifreiðinni og lá yfir bæði sætin með höfuðið ökumannsmegin. Þar sem ákærði opnað ekki bifreiðina þrátt fyrir beiðni lögreglu var rúða í bifreiðinni brotin og ákærði handtekinn klukkan 08:55 og færður í lögreglubifreið og síðan fluttur á Ísafjörð.

Í skýrslunni er haft eftir vitninu B að ákærði hefði verið mjög reiður og pirraður og ætlað að keyra til Reykjavíkur. Hefði hann sest upp í bílinn og keyrt yfir tjaldsvæðið og út á […] og haldið í suðurátt. Vitnið kvaðst ekki muna hvað ákærði hefði verið að drekka um kvöldið og nóttina, en hann hefði augljóslega verið ölvaður. Þá segir að við leit í bifreiðinni [...] hafi fundist átta 500 ml óopnaðar dósir af Tuborg, fjórar tómar 330 ml dósir af Nordic cider og ein tóm 330 ml dós af Cool grape.

Í bréfi Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði 21. júlí 2016 segir að alkóhólákvörðun með gasgreiningu hafi sýnt 0,76‰ í blóðsýni númer 81921 og 0,61‰ í blóðsýni númer 81924. Í þvagsýni númer 81923 hafi mælst 1,37‰ alkóhól. Um er að ræða endanlega niðurstöðu að teknu tilliti til vikmarka. Með bréfi dagsettu 5. ágúst 2016 óskaði lögreglan á Vestfjörðum eftir mati rannsóknastofunnar á ölvunarstigi ákærða klukkan 07:25 þann 17. júlí 2016 með rannsókn á blóð- og þvagsýnum. Segir í beiðninni að þyngd ákærða sé […] kg og hæð hans […] cm. Í svarbréfi rannsóknastofunnar segir að hlutaðeigandi hafi verið ölvaður þegar hinn meinti ölvunarakstur hafi átt sér stað að því gefnu að hann hafi drukkið lítið sem ekkert áfengi eftir klukkan 06:30. Niðurstaða rannsóknastofunnar er nánar rakin í III. kafla hér á eftir.

Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglu klukkan 17:39 þann 17. júlí 2016. Neitaði ákærði því að hafa ekið bifreiðinni og kvaðst hafa verið sofandi í bifreiðinni þegar rúða í henni hefði verið brotin og hann handtekinn. Kvaðst ákærði hafa verið á dansleik í […] síðastliðna nótt og drukkið áfengi og verið undir áhrifum áfengis, en muna eftir nóttinni „í heild sinni.“ Neitaði ákærði að upplýsa lögreglu um það hver hefði ekið bifreiðinni. Skýrslur lögreglu af vitnum voru teknar 17. júlí og 21. júlí 2016.

II

Skýrslur ákærða og vitna fyrir dómi:

Ákærði neitar sök og kvaðst ekki hafa ekið bílnum undir áhrifum áfengis. Hann kvaðst hafa verið í farþegasæti hans, en maður sem ákærði kvaðst hafa hitt fyrr um kvöldið hefði ekið bílnum. Hefði hann ekið bílnum að bænum […] án þess að ákærði hefði gefið fyrirmæli um það. Ákærði kvaðst ekki vita nein frekari deili á manninum. Ákærði hefði sofnað á leiðinni frá […] að […] og ekki séð þegar ökumaðurinn fór út úr bílnum og ekki séð hann aftur eftir þetta. Ákærði kvaðst hafa verið pirraður og hefði viljað fara af staðnum. Hann hefði verið „eitthvað“ undir áhrifum áfengis um nóttina, en mundi hvorki hvenær hann hefði hafið neyslu áfengis né lokið henni. Spurður um lýsingu á manninum sagði ákærði að hann væri […], um […] cm á hæð, grannur með […]. Þá kvaðst ákærði hafa setið í farþegasætinu frammi í og hefði sætið legið niðri. Lyklar að bílnum hefðu legið í hólfi fyrir ofan hanskahólfið í bílnum. Ákærði kvaðst hafa tekið lyklana með sér þegar hann fór út úr bílnum. Bílnum hefði ekki verið ekið nálægt þeim stað sem fólkið var á í […]. Spurður um þann framburð vitnanna B og D hjá lögreglu að þau hefðu séð ákærða aka bílnum frá tjaldsvæðinu í […] og að hann hefði verið einn í bílnum sagði ákærði „góða ástæðu“ vera fyrir því að þau hefðu ekki séð neitt enda hefðu þau verið hinum megin á tjaldsvæðinu og bíllinn þá lengst í burtu. Kvaðst ákærði hafa labbað frá þeim og hitt manninn og sagt honum að koma með sér og aka bílnum.

E, sambýliskona ákærða, skýrði frá því að ákærði hefði labbað í burtu frá þeim stað þar sem þau hefðu verið á tjaldstæðinu. Vitnið kvaðst hafa labbað á eftir honum og séð ákærða fara inn í bíl með öðrum strák og hefðu þeir ekið í burtu. Vitnið kvaðst ekki hafa hitt ákærða eftir þetta fyrr en hann hefði verið laus úr fangaklefa á Ísafirði. Spurt sagði vitnið að strákur sem vitnið þekkti ekki og hefði ekki séð áður hefði ekið bílnum. Vitnið sagði strákinn vera aðeins lægri en ákærði og grannur. Spurt um misræmi í framburði vitnisins hjá lögreglu og fyrir dómi sagði vitnið að það sem það hefði sagt hjá lögreglu væri rangt en það sem vitnið segði nú væri rétt. Vitnið kvaðst hafa verið undir áhrifum og því ekki munað atburðina rétt. Vitnið kvaðst hafa séð að ákærði og strákurinn hefðu farið inn í bílinn og hefði ákærði ekki keyrt bílinn.

B greindi frá því að hún hefði verið á balli í […] og setið við tjald ásamt fleirum og séð […] […] bíl keyra fram hjá þeim og niður til hægri eins og hann væri að fara inn […]. Þau hafi horft á eftir bílnum og áttað sig á því að þetta væri bíll ákærða. Kærasta ákærða hefði síðan komið hlaupandi til þeirra í uppnámi og hágrátandi. Hún hefði sagt vitninu að ákærði hefði fengið brjálæðiskast og keyrt í burtu og bað vitnið um að hringja á lögregluna. Spurt kvaðst vitnið ekki hafa séð ökumanninn, en séð aftan á bílinn og ekki séð hvort fleiri en einn var í bílnum. Vitnið kvaðst hafa hringt á lögreglu að beiðni kærustu ákærða þar sem hún hafði miklar áhyggjur af honum. Engin af þeim var í standi til að keyra á eftir ákærða. Spurt um það sem vitnið hefði sagt hjá lögreglu að ákærði hefði verið einn í bílnum ítrekaði vitnið að það hefði það haft frá kærustu ákærða, E, sem hefði tekið það sérstaklega fram að ákærði hefði keyrt í burtu.

D skýrði frá því að hann hefði séð ákærða keyra bíl frá tjaldsvæðinu og í burtu og hefði hann verið einn í bílnum. Vitnið kvaðst hafa setið ásamt fleirum við tjald og hefði bílinn verið rétt hjá tjaldinu, tvo til fjóra metra frá því. Þá kvaðst vitnið hafa séð ákærða fyrr um kvöldið án þess þó að hafa rætt við hann. Vitnið sagði bílinn hafa verið lítinn smábíl, en mundi ekki hvernig á litinn. Vitnið sagðist hafa verið edrú þetta kvöld. 

F lögreglumaður greindi frá því að tilkynnt hefði verið um að ölvaður ökumaður hefði lagt af stað rúmlega 07:00 um nóttina frá […] eftir sveitaball sem þar hefði verið. Kvaðst vitnið hafa ekið á lögreglubíl frá […] til móts við ökumanninn, en keyrt alla leið á […] án þess að mæta bílnum. Vitni á staðnum hefðu greint lögreglu frá því hver hefði ekið bílnum og að ferðinni væri heitið til Reykjavíkur. Bíllinn hefði fundist skammt frá bænum […] þar sem honum hefði verið lagt á útskoti við veginn. Ökumaðurinn hefði verið sofandi í bílnum og ekki svarað lögreglu sem hefði bankað í rúðuna. Ákærði hefði opnað augun og séð lögreglu en ekki opnað bifreiðina. Það hefði endað með því að rúða í bílnum hefði verið brotin, bílinn opnaður og ákærði handtekinn. Ákærði hefði verið frammi í bílnum og legið á grúfu yfir bæði sætin með höfuðið ökumannsmegin. Vitnið kvaðst aðspurt ekki muna hvar lyklarnir að bílnum hefðu verið. Nokkrar mismunandi dósir af bjór hefðu verið í bílnum og ávaxtaáfengi, sumar opnar en aðrar óopnaðar. Spurt sagði vitnið að eins og fram kæmi í frumskýrslu lögreglu hefði verið rætt við vitnið B á staðnum sem hefði veitt upplýsingar um það að hún hefði verið að rífast við ákærða morguninn eftir ballið og hefði ákærði verið henni reiður og sagt við vitnið að hann ætlaði að keyra til Reykjavíkur. Hefði hann gangsett bílinn og ekið yfir tjaldsvæðið, út á […] og í áttina til Reykjavíkur. Vitnið kvaðst ekki muna hvað ákærði hefði verið að drekka, en verið visst um að ákærði hefði verið ölvaður um nóttina.

G lögreglumaður skýrði frá því að tilkynnt hefði verið um ölvaðan ökumann sem hefði lagt af stað frá […] og stefndi suður. Lögregla hefði ekið á móti bílnum frá […]. Vitnið kvaðst hafa tekið við þeim handtekna í […] og flutt hann á Ísafjörð til að láta hann blása og draga úr honum blóð. Spurt kvaðst vitnið halda að kærasta ákærða hefði tilkynnt um ölvunaraksturinn, annaðhvort hringt sjálf eða beðið einhvern að gera það. 

Kristín Magnúsdóttir, lyfjafræðingur og deildarstjóri Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, skýrði frá því að tvö blóðsýni og eitt þvagsýni hefði borist í málinu og niðurstöður rannsóknarinnar kæmu fram á vottorði og í matsgerð. Mælst hefðu 0,84‰ í fyrra blóðsýni, 0,68‰ í því síðara og 1,52‰ í þvagsýni. Að beiðni lögreglu hefði ölvunarstig verið reiknað aftur í tímann til klukkan 07:24. Brottfallshraði hjá viðkomandi einstaklingi hefði reynst vera 0,16‰ á klukkustund. Hlutföll milli þvags og blóðs hefðu verið tiltölulega há, eða 1,8, sem segir að einhver tími hafi verið liðinn frá því að drykkju lauk. Með því að reikna til baka með tilgreindum brottfallshraða þá hefur styrkur etanóls í blóði verið 1,2‰ rúmum tveimur klukkustundum fyrir fyrri blóðsýnatökuna, það er tveimur klukkustundum fyrir klukkan 10:26 eða klukkan 08:26, og reiknað 30-45 mínútum lengra aftur þegar tilkynnt var um ölvunarakstur þá væri það um 1,3‰.

III

Forsendur og niðurstaða:

Ákærða er gefið að sök umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bílnum […] að morgni sunnudagsins 17. júlí 2016 undir áhrifum áfengis frá […] að bænum […] þar sem lögregla kom að honum sofandi í bílnum.

Fyrir dómi neitaði ákærði því að hafa ekið bílnum undir áhrifum áfengis og kvaðst hafa verið í farþegasæti hennar. Sagði ákærði mann sem hann hefði hitt fyrr um kvöldið hafa ekið bílnum. Vissi ákærði ekki deili á manni þessum og kvaðst hafa sofnað í bílnum á leiðinni frá [..] að […] og ekki séð þegar ökumaðurinn fór út úr bílnum. Vitnið D kvaðst fyrir dómi hafa séð ákærða aka bílnum frá tjaldsvæðinu og verið einan í bílnum. Sagði vitnið að tveir til fjórir metrar hefðu verið á milli bílsins og tjaldsins sem vitnið sat við þegar bílnum var ekið þar fram hjá. Vitnið B sá bíl ákærða ekið fram hjá vitninu og inn […]. Kærasta ákærða hefði síðan komið hlaupandi til vitnisins, hágrátandi og í uppnámi, og sagt að ákærði hefði fengið brjálæðiskast og keyrt í burtu. Bað kærastan vitnið um að hringja á lögreglu, enda hafði hún áhyggjur af ákærða. Hjá lögreglu sagði B að hún hefði séð ákærða aka bílnum, en fyrir dómi sagðist vitnið hafa séð aftan á bílinn og ekki séð hver ók eða hve margir hefðu verið í bílnum, en kvaðst hafa vitneskju um það frá kærustu ákærða að hann hefði ekið bílnum í umrætt sinn frá tjaldsvæðinu. Kærasta ákærða, E, bar um það fyrir dómi að hún hefði séð ákærða fara inn í bíl með öðrum strák sem hefði ekið bílnum á brott. Hjá lögreglu bar vitnið á þann veg að það hefði reynt að ná ákærða inn í tjald um nóttina en það hefði ekki tekist og því hafi hún farið að sofa. Síðan hafi hún kíkt út úr tjaldinu og séð að ákærði var farinn. Sagði vitnið lögreglu að það hefði ekki séð ákærða aka í burtu en fólk á svæðinu hefði sagt vitninu að ákærði og annar hefðu farið saman akandi í burtu. Ekki hefði verið rætt um það hvor hefði ekið bílnum.

Að mati dómsins er framburður ákærða ótrúverðugur um það að maður sem hann vissi ekki deili á hefði ekið bílnum frá tjaldsvæðinu og að […] og verður ekki á honum byggt í málinu. Í frumskýrslu lögreglu er sérstaklega tekið fram að ákærði hafi orðið lögreglu var þegar bankað var í rúðu bílsins og opnað augun þar sem hann var liggjandi í farþegasæti bílsins með höfuðið ökumannsmegin, en þóst sofa. Þykir ákærði með þessu háttalagi hafa reynt að koma sér hjá afskiptum lögreglu í umrætt sinn. Þá þykir ótrúverðugur sá framburður kærustu ákærða, vitnisins E, sem lýsti því fyrir dómi að ákærði hefði ekki farið einn í ökuferðina, heldur með öðrum strák sem hefði ekið bílnum. Misræmi er í framburði vitnisins frá því sem fram kom í skýrslu þess hjá lögreglu þar sem vitnið greindi frá því að ákærði hefði ekið bílnum. Þá er ótrúverðug skýring vitnisins á breyttum framburði, en vitnið kvaðst fyrir dómi hafa verið ölvað þegar það gaf skýrslu hjá lögreglu vegna málsins. Þá greindi sama vitni vitninu B frá því að ákærði hefði fengið æðiskast og ekið á brott. Vitnið D sá ákærða aka bílnum og greindi frá því á sama veg bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið og þegar litið er til framburðar vitnanna B og D þykir sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, sbr. 108. og 109 gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi ekið bílnum […] frá tjaldsvæðinu í U að bænum […] þar sem lögregla fann ákærða sofandi í bifreiðinni.

Í ákæruskjali lögreglustjórans á Vestfjörðum er ákærða gefið að sök að hafa ekið fyrrnefndri bifreið undir áhrifum áfengis án þess að tilgreint sé vínandamagn í blóði ákærða að teknu tilliti til vikmarka. Bendir ákærði á að þar með uppfylli ákæran ekki skilyrði 152. gr. laga nr. 88/2008. Á það er ekki fallist með ákærða, enda er ætluð refsiverð háttsemi ákærða tilgreind í ákæruskjalinu og önnur atriði sem talin eru upp í tilvitnuðu ákvæði, stafliðum a.-f. í 1. mgr., eftir því sem við á. Þrátt fyrir að ætlað ölvunarstig ákærða sé ekki tekið upp í ákæruna verður ekki séð að með því sé gengið á svig við áskilnað 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. 

Í málinu liggur fyrir skriflegt álit Rannsóknastofu í lyfja og eiturefnafræði vegna rannsóknar á blóð- og þvagsýnum sem ákærði gaf í þágu rannsóknar málsins. Í álitinu, sem er dagsett 7. nóvember 2016, og var unnið af Kristínu Magnúsdóttur og Elísabetu Sólbergsdóttur deildarstjórum, segir meðal annars svo:  

Um það bil 2% af neyttu etanóli skilst óumbreytt úr líkamanum og þá fyrst og fremst með þvagi. Útskilnaður etanóls úr blóði í þvag hefst strax og frásog etanóls í blóði hefst úr meltingarvegi. Þegar etanól í þvagi er lægra en í blóði bendir það til þess að viðkomandi hafi nýlega hætt neyslu áfengis og jafnvægi milli þvags og blóðs hafi ekki verið náð. Þegar neyslu etanóls er hætt líður nokkur tími þar til allt það etanól sem kann að vera í maga og þörmum hefur náð að frásogast. Venjulega er gert ráð fyrir að því ljúki að mestu innan eins til tveggja klukkustunda. Þegar jafnvægi milli etanóls í blóði og þvagi er náð má búast við að styrkur þess í þvagi sé um 20-30% hærri en í blóði. Þá fer styrkur etanóls í blóði að falla en hann fellur með nokkuð jöfnum hraða sem er einstaklingsbundinn og getur verið 0,12-0,25‰ á klukkustund. Bendir hátt hlutfall milli etanólstyrks í þvagi og blóði til þess að talsverður tími sé frá því að viðkomandi losaði þvag síðast og er einnig sterk vísbending um að etanól í blóði hafi verið fallandi á þeim tíma sem sýnin voru tekin. Lágt hlutfall bendir á hinn bóginn til þess að drykkju hafi nýlega verið hætt og frásogi ekki lokið. Þegar jafnvægi er á milli þvags og blóðs er hlutfallið nálægt 1,2 – 1,3.

Þá segir í bréfinu að þegar litið sé á niðurstöður etanólmælinga í blóð- og þvagsýnum sýni þær að etanólstyrkur í blóði hlutaðeigandi hafi náð hámarki klukkan 10:26. Niðurstaða úr blóðsýni númer 81924 styðji það. Brotthvarfshraði úr blóðinu sé 0,16‰/klst. Hlutfall milli þvags og blóðs sé 1,8, það er að jafnvægi hafi náðst talsvert fyrir klukkan 10:26. 1,52‰ etanólstyrkur í þvaginu segi til um meðalstyrk etanóls í blóðinu einhvern tíma á undan. Sambærilegur etanólstyrkur í blóðinu hafi því verið að minnsta kosti 1,2‰ fyrir klukkan 10:33. Þá segir orðrétt í bréfi rannsóknastofunnar: „Ef reiknað er til baka með brotthvarfshraðanum (0,16‰/klst.), þá hefur etanólstyrkur verið 1,2‰ rúmum tveimur klukkustundum fyrir fyrri blóðsýnistöku, þ.e. milli kl. 08 til 08:15 og 1,3‰ um kl. 07:26. Hlutaðeigandi hefur því verið ölvaður, þegar hinn meinti ölvunarakstur átti sér stað að því gefnu að hann hafi drukkið lítið sem ekkert áfengi eftir kl. 06:30.“  

Tilkynnt var til lögreglu um akstur bílsins […] frá tjaldsvæðinu í […] klukkan 07:24. Blóðsýni voru tekið úr ákærða klukkan 10:26 og 11:26 samkvæmt blóðtökuvottorðum í málsgögnum. Ekkert hefur komið fram um það að fyrrnefndir tímar séu ekki áreiðanlegir og er því lagt til grundvallar að fyrra blóðsýnið hafi verið tekið úr ákærða um þremur klukkustundum eftir að tilkynnt var um ætlaðan ölvunarakstur ákærða og síðara blóðsýnið klukkustund síðar. Samkvæmt blóðsýni frá ákærða númer 81924 kom fram að etanólstyrkur í blóði ákærða var í hámarki klukkan 10:26. Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði reiknaði brotthvarfshraða úr blóðinu 0,16 ‰/klst. Hlutfall milli þvags og blóðs reyndist 1,8, það er að jafnvægi hefði náðst talsvert fyrir klukkan 10:26. Þá segir að 1,53‰ etanólstyrkur í þvaginu segi til um meðalstyrk etanóls í blóðinu einhvern tímann á undan og að sambærilegur etanólstyrkur í blóðinu hafi verið að minnsta kosti 1,2‰ fyrir klukkan 10:33. Þá segir í bréfi rannsóknastofunnar að ef reiknað sé til baka með brotthvarfshraðanum 0,16 ‰/klst. hefur etanólstyrkur í blóði ákærða verið 1,3‰ um klukkan 07:26. Fyrir dómi greindi Kristín Magnúsdóttir, deildarstjóri Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, frá því að reiknað hefði verið út frá blóðsýnum hver brotthvarfshraði úr blóði hjá viðkomandi einstaklingi hefði verið og hefði niðurstaðan verið 0,16‰ á klukkustund. Þá hefði hlutfall milli þvags og blóðs verið tiltölulega hátt, eða 1,8, sem staðfestir að nokkur tími var liðinn frá því að drykkju lauk. Út frá því væri hægt að sjá meðalstyrk í blóði einhvern tíman á undan, en 80% af styrk þvags speglaði blóðið, sem sýni að það væri þá 1,2‰ og væri reiknað til baka með tilgreindum brotthvarfshraða þá hefur styrkur etanóls í blóði verið 1,2‰ rúmum tveimur klukkustundum fyrir fyrri blóðsýnatöku, þar til tveimur klukkustundum fyrir 10:26 eða klukkan 08:26 og reiknað aftur til þess tíma þegar tilkynnt var um ölvunarakstur þá væru það um 1,3‰.  Að þessu virtu og með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu númer 326/2002 þykir ekki varhugavert að álykta sem svo að áfengismagn í blóði ákærða þegar hann ók hafi að minnsta kosti verið 1,2‰. Er því hafið yfir skynsamlegan vafa að áfengismagn í blóði ákærða við aksturinn hafi verið yfir lögleyfðum mörkum og er brot ákærða því rétt heimfært til 1., sbr. 3. mgr., 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

B

Ákæra útgefin 30. ágúst 2017:

Ákærða er samkvæmt ákæru, útgefinni 30. ágúst 2017, gefin að sök líkamsárás með því að hafa aðfaranótt 6. febrúar 2016 veist að A, í afgreiðslusal […], og kastað farsíma sínum í andlit A, með þeim afleiðingum sem lýst er í ákærunni. Ákærði hefur játað sök. Með vísan til játningar ákærða, sem samrýmist gögnum málsins, verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi sem greinir í ákærunni sem er þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

C

Ákærði er fæddur […]. Samkvæmt sakavottorði ákærða gekkst hann undir sátt hjá lögreglustjóra um greiðslu sektar og sviptingu ökuréttar í þrjá mánuði fyrir brot gegn umferðarlögum. Með dómi 23. febrúar 2015 var ákærði dæmdur til greiðslu sektar fyrir brot gegn umferðarlögum. Þá var ákærði dæmdur til greiðslu sektar með dómi 14. október 2015 fyrir brot gegn almennum hegningarlögum. Ákærði er sakfelldur fyrir brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og fyrir brot gegn 1., sbr. 3. mgr., 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Hefur hann unnið sér til refsingar. Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 45 daga. Eftir atvikum þykir mega fresta fullnustu refsingar ákærða og skal refsingin falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga verður ákærði einnig sviptur ökurétti í 12 mánuði uppkvaðningu dómsins.

D

Með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað samkvæmt tveimur framlögðum sakarkostnaðaryfirlitum lögreglustjóra, samtals 87.263 krónur (77.263+10.000 krónur). Ákærði greiði einnig þóknun skipaðs verjanda síns, Úlfars Guðmundssonar lögmanns, sem eftir umfangi málsins og að teknu tilliti til tímaskýrslu lögmannsins þykir hæfilega ákveðin 423.336 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá greiði ákærði útlagðan aksturskostnað verjanda svo sem greinir í dómsorði.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Karl Ingi Vilbergsson lögreglustjóri.

Dóm þennan kveður upp Jón Höskuldsson héraðsdómari sem falin var meðferð málsins 19. október 2017.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, Aron Óli Arnarson, sæti fangelsi í 45 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði er sviptur ökurétti í 12 mánuði frá uppkvaðningu dómsins að telja.

Ákærði greiði 521.243 krónur í sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Úlfars Guðmundssonar lögmanns, 423.336 krónur, og útlagðan aksturskostnað verjanda, 10.644 krónur.

 

Jón Höskuldsson