• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Skilorð

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 18. júlí 2018 í máli nr. S-31/2018:

Ákæruvaldið

(Bryndís Ósk Jónsdóttir fulltrúi)

gegn:

X

(Kristján Óskar Ásvaldsson lögmaður)

 

I

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið föstudaginn 13. júlí sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Vestfjörðum, dagsettri 21. júní 2018, á hendur

„X, fyrir brot í nánu sambandi og líkamsárás, með því að hafa á alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu og velferð eiginkonu sinnar, Z, með ofbeldi, að kvöldi fimmtudagsins 24. maí 2018, á heimili þeirra [...], með því að grípa í hár hennar og draga hana þannig fram úr rúmi sínu, slá hana í andlitið og grípa í handleggi hennar, en afleiðingar líkamsárásinnar voru þær að hún hlaut marbletti (5cm x 5cm að stærð), annars vegar við hægri olnboga og hins vegar aftan á hægri upphandlegg, auk marbletts (3cm x 3cm að stærð) ofan við vinstri úlnlið.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 1. mgr. 217. gr. sömu laga, sbr. síðari breytingar.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

II

Ákærði mætti við þingfestingu málsins og var Kristján Óskar Ásvaldsson lögmaður skipaður verjandi hans að ósk ákærða. Ákærði viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Með vísan til skýlausrar játningar ákærða og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

 

III

Um málavexti vísast til ákæruskjals og gagna málsins. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.

Í ákæru er brot ákærða talið varða við 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákvæðið var fest í lög með 4. gr. breytingarlaga við almenn hegningarlög nr. 23/2016. Í greinargerð með þeim lögum segir að með þessu ákvæði hafi ofbeldi í nánum samböndum verið sérstaklega lýst refsivert. Þá kemur þar og fram að með ákvæðinu hafi verið lögð áhersla á að ofbeldi í nánum samböndum feli ekki einungis í sér samansafn einstakra tilvika heldur megi virða slíka háttsemi sem eina heild. Athyglin sé þannig færð á það ógnar- og óttaástand sem getur skapast og jafnframt á þá viðvarandi andlegu þjáningu, kúgun og vanmátt sem þolandi upplifir við slíkar aðstæður. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins er það gert að skilyrði að háttsemi sé endurtekin eða alvarleg svo hún verði refsiverð samkvæmt ákvæðinu. Með því að háttsemi sé endurtekin er þar vísað til þess að hún hafi staðið yfir í lengri eða skemmri tíma þannig að telja megi að viðvarandi ógnarástand hafi skapast. Þó er ekki útilokað að einstakt brot geti fallið undir ákvæðið ef það nær tilteknu alvarleikastigi. Í samræmi við þetta er gert ráð fyrir að hinu nýja ákvæði verði að meginstefnu beitt einu og sér en ekki samhliða öðrum refsiákvæðum hegningarlaga.

Hvað heimfærslu brots ákærða til refsiákvæða varðar ber að mati dómsins til þess að líta að áður en atvik það sem ákært er fyrir átti sér stað hafði ákærði sýnt af sér óeðlilega hegðun í garð brotaþola um lengri tíma eins og gögn málsins bera með sér. Þann 24. maí sl. sauð uppúr er ákærði beitti brotaþola líkamlegu ofbeldi þannig að brotaþoli og [...] flúðu af heimilinu. Að framansögðu virtu verður háttsemi ákærða réttilega felld undir 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur sakaferill ákærða ekki áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu. Refsing ákærða er hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði. Að virtum atvikum máls og að teknu tilliti til skýlausrar játningar ákærða og þess að hann hefur ekki áður verið fundinn sekur um ofbeldisbrot, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Með vísan til 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, 215.964 krónur sem er útlagður kostnaður lögreglu á rannsóknarstigi, 53.980 krónur, þar með talin þóknun réttargæslumanns brotaþola, auk þóknunar skipaðs verjanda, sem er hæfilega ákveðin 161.984 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

 

Ákærði, X, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Ákærði greiði alls 215.964 krónur í sakarkostnað, sem er þóknun skipaðs verjanda hans Kristjáns Óskars Ásvaldssonar lögmanns, 161.984 krónur og 53.980 krónur í annan sakarkostnað.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir