• Lykilorð:
  • Aðild
  • Meiðyrði
  • Miskabætur
  • Meiðyrðamál

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturfjarða 10. nóvember 2017 í máli nr. E-16/2017:

GJÁ útgerð ehf.

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

gegn

Rúnari Óla Karlssyni

(Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 16. október sl., er höfðað af GJÁ útgerð ehf., [...], [...], gegn Rúnari Óla Karlssyni, [...], [...], með stefnu birtri 15. apríl 2017.

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:

1.        Þess er krafist að eftirfarandi ummæli verði dæmd dauð og ómerk:

 

Frétt mbl.is 6. júní 2016 (fyrir hádegi).

A.       Einn veiðiþjófanna er í ferðaþjónustu á Vestfjörðum.

B.       … stóð veiðiþjófana að verki.

 

Frétt mbl.is 6. júní 2016 (eftir hádegi).

C.       Í samtali við mbl.is segir Rúnar að skýringar Strandferða standist ekki skoðun. Þannig hafi skipstjórar á tveimur bátum fyrirtækisins komið á föstudaginn og verið í sólarhring hið minnsta með veiðimönnunum og meðal annars hafi einn þeirra verið að drekka kaffi með þeim …

D.    Segir Rúnar að yfirlýsing Strandferða sé aumt yfirklór því það hafi verið alveg augljóst hvað var í gangi og skipstjórarnir sem hafi aðeins verið að „flytja þá til Hornvíkur og sækja þá viku síðar líkt og um hafði verið samið,‟ hafi vel getað gert sér grein fyrir brotunum í þann rúmlega sólarhring sem þeir voru á staðnum.

 

2.        Þess er krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 2.000.000 króna, með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. júní 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 4. september 2016 til greiðsludags. Til vara er krafist skaðabóta að álitum.

 

3.      Þess er krafist að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 300.000 krónur til þess að kosta birtingu á forsendum og niðurstöðu dóms í málinu. Til vara er gerð krafa um birtingarkostnað að álitum.

 

4.        Þess er krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti.

 

Með bréfi dómstólaráðs, dagsettu 6. september 2017, var dómara málsins falin áframhaldandi meðferð þess en dómari hafði farið með meðferð málsins frá þingfestingu þess sem héraðsdómari við Héraðsdóm Vestfjarða.

 

Málsatvik

Atvik málsins eru þau að 6. júní 2016 birtust á vefsíðunni mbl.is fréttir af því að ferðaþjónustuaðili, stefndi í máli þessu, sem leið átti um Hornvík á Hornströndum, hefði hitt þar fyrir fimm fullorðna karlmenn sem höfðu komið sér fyrir í neyðarskýli í Hornvík þar sem þeir stunduðu ólöglegar veiðar á öllu sem hreyfðist. Þegar mennirnir voru staðnir að verki hefðu þeir dvalið á svæðinu í rúma viku og hafi veiðiþjófanir verið staðnir að verki. Þá segir í fréttinni að aðkoman hafi verið slæm. Í fjörunni hafi legið selshræ sem var vaktað með hreyfimyndavél sem sendi frá sér merki inn í neyðarskýli til mannanna sem búnir voru byssum, háfum, netum og veiðistöngum, tilbúnir að skjóta refi sem gæddu sér á hræinu. Þá kemur fram í fréttinni millifyrirsögnin: Einn veiðiþjófanna er í ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Þá segir þar að stefndi hafi kannast við bátana sem lágu í víkinni. Svo sjáum við þá fara fram og til baka á Zodiac, þá voru þeir að hífa netin úr sjónum. Þá sagði hann eldhúsdót úr neyðarskýlinu hafa legið út um allt, í einum potti var soðið selkjöt og þá hafði plastskálum verið hent á bálið, kaffibollum hent hingað og þangað og mennirnir grillað á grónu landi. Síðan segir í fréttinni:

Að sögn Rúnars eru í hópnum fyrrverandi heimamenn sem þekktir séu fyrir ýmislegt misjafnt. Þá sé einnig aðili sem stundi ferðaþjónustu á sumrin, m.a. við að ferja ferðamenn í Hornvík. Segist Rúnar hafa heimildir fyrir því að Markaðsstofa Vestfjarða og bókunarskrifstofur ætli að taka viðkomandi út úr öllu sínu kynningarefni og hætta að selja ferðir hjá viðkomandi.

Síðar sama dag birtist önnur frétt um málið á mbl.is. Þar kemur fram að mennirnir hafi siglt í Hornvík með ferðaþjónustufyrirtækinu Strandferðum frá Norðurfirði og að það fyrirtæki hafi send frá sér tilkynningu fyrr þann dag þar sem gjörðir mannanna voru harmaðar og að fyrirtækið hafi aðeins skutlað þeim á svæðið og flutt þá til baka. Í fréttinni er þetta borið undir stefnda og segir þar:

Í samtali við mbl.is segir Rúnar að skýringar Strandferða standist ekki skoðun. Þannig hafi skipstjórar á tveimur bátum fyrirtækinu (sic) komið á föstudaginn og verið í sólarhring hið minnsta með veiðimönnunum og meðal annars hafi einn þeirra verið að drekka kaffi með þeim þegar Rúnar og samferðamenn hans bar að garði á laugardaginn. Segir hann að mjög augljóst hafi verið að sjá hvað var á seiði og það hafi ekki getað farið fram hjá skipstjórunum tveimur.

Segir hann jafnframt að fyrirtækið hafi verið að flytja menn á friðlandið með skotvopn á tímabili sem veiði væri ekki leyfileg og þar að auki væri veiði bara heimil landeigendum sem þessi menn væru ekki og ólíklegt að hefðu leyfi til þess.

Segir hann að ef skipstjórar verði varir við að viðskiptavinir séu á veiðum ættu viðbrögðin auðvitað að vera að kalla til lögreglu og segja mönnum að hundskast strax í bátinn og sigla til baka.

Segir Rúnar að yfirlýsing Strandferða sé aumt yfirklór því það hafi verið alveg augljóst hvað var í gangi og skipstjórarnir sem hafi aðeins verið að „flytja þá til Hornvíkur og sækja þá viku síðar líkt og um hafði verið samið,“ hafi vel getað gert sér grein fyrir brotunum í þann rúmlega sólarhring sem þeir voru á staðnum.

Með bréfi til stefnda, dagsettu 4. ágúst 2016, krafði stefnandi stefnda um greiðslu miskabóta og leiðréttingu á ummælum um Strandferðir og starfsmenn fyrirtækisins sem fram komu í ofangreindum tveimur fréttum. Stefndi varð ekki við þeim kröfum.

Fyrirsvarsmaður stefnanda, Gunnar Ásgeirsson, gaf aðilaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Einnig gáfu þá vitnaskýrslur A, B, C og D.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að stefndi beri refsi- og fébótaábyrgð á hinum umstefndu ummælum á grundvelli 2. málsliðar A-liðar 1. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla, sbr. 234. eða 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Stefnandi njóti lagaverndar rétt eins og einstaklingar gegn óréttmætum „prentuðum“ ummælum sem fallin eru til að hnekkja atvinnurekstri þeirra á grundvelli laga nr. 71/1928, um vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum, en hann sé eigandi Strandferða sem ummælin beinist að.

Stefnandi byggir ómerkingarkröfu sína á því að hin umstefndu ummæli feli í sér ásökun þess efnis að stefnandi hafi í atvinnu- og hagnaðarskyni flutt meinta veiðiþjófa í friðlandið á Hornströndum þar sem starfsmenn stefnanda hafi látið sér brot viðkomandi í léttu rúmi liggja og tekið þátt í brotunum. Brotin sem stefndi ásakaði stefnanda um að hafa tekið þátt í að fremja séu refsiverð og svívirðileg að áliti alls almennings. Stefnandi vísar til þess að um alvarlegar ásakanir sé að ræða sem settar hafi verið fram án þess að stefnandi eða starfsmenn félagsins hafi verið kærðir til lögreglu hvað þá heldur ákærðir eða dæmdir fyrir brotin. Hann bendir á að það virðist ekki skipta stefnda neinu máli og setji hann ummælin fram gagnrýnislaust að því er virðist í þeim tilgangi einum að koma höggi á stefnanda sem rekur ferðaþjónustu í samkeppni við stefnda.

            Þá telur stefnandi að með þeim ummælum sem rekin eru í a-lið fyrstu dómkröfu, og hann byggir á að höfð séu eftir stefnda, fullyrði hann að einn veiðiþjófanna sé í ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Af samhengi við önnur ummæli megi ráða að hér sé stefndi að tala um stefnanda. Ummælin feli í sér ásökun þess efnis að starfsmaður stefnanda hafi í störfum sínum fyrir stefnanda gerst sekur um veiðiþjófnað og af samhengi við önnur ummæli sé ljóst að stefndi sé hér að ásaka stefnanda um að hafa í atvinnu- og hagnaðarskyni flutt veiðiþjófa í friðlandið á Hornströndum þar sem starfsmenn stefnanda hafi tekið þátt í veiðiþjófnaði og látið sér háttsemina í léttu rúmi liggja.

            Ummælin í b-lið fyrstu dómkröfu beri að skoða í samhengi við ummælin í a-lið kröfunnar sem hafið er yfir allan vafa að beinist að stefnanda. Ummælin feli því í sér ásökun um veiðiþjófnað starfsmanns/starfsmanna stefnanda í störfum þeirra fyrir stefnanda og að stefndi hafi staðið þá að verki.

Ummælin í c- og d-lið fyrstu dómkröfu séu efnislega á sama veg og verði að skoða í samhengi við ummælin í a- og b-lið. Í ummælunum nafngreini stefndi ferðaþjónustufyrirtæki stefnanda Strandferðir oger starfsmönnum stefnanda þar gefið að sök að hafa flutt veiðiþjófa á bátum stefnanda í friðlandið á Hornströndum og látið sér veiðiþjófnað mannanna í léttu rúmi liggja og að bátar stefnanda hafi verið notaðir við veiðiþjófnaðinn.

Stefnandi byggir á því að ummæli stefnda séu ærumeiðandi aðdróttanir og feli í sér brot gegn 235. gr. og 1. og 2. mgr. 236. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 71/1928 og því beri að ómerkja ummælin með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Hin umstefndu ummæli séu ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta stefnanda. Hagsmunir stefnanda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir. Ef ekki verður fallist á að ummælin feli í sér ærumeiðandi aðdróttun er til vara byggt á því að þau feli í sér ærumeiðandi móðgun og þar með brot gegn 234. gr., sbr. 1. mgr. 241. gr., almennra hegningarlaga.

Hvað varðar skaðabótakröfu sína þá byggir stefnandi á því að stefndi hafi vegið með alvarlegum hætti að hagsmunum stefnanda. Stefndi reki ferðaþjónustufyrirtæki í samkeppni við stefnanda og byggi stefnandi á því að brot stefnda séu framin af ásetningi í því skyni að skaða samkeppnisaðila. Ekki verði annað séð en að stefndi hafi náð því markmiði sínu, sbr. ummæli hans þess efnis í fyrra viðtali hans við mbl.is þar sem hann segir að Markaðsstofa Vestfjarða og bókunarskrifstofur ætli að taka stefnanda út úr öllu sínu kynningarefni og hætta að selja ferðir stefnanda. Vegna framangreinds telur stefnandi að stefndi hafi framið ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda og skaðað viðskiptavild hans og valdið honum fjártjóni með ummælum sínum enda um ærumeiðandi aðdróttanir að ræða sem séu rangar og bornar út og birtar opinberlega. Fjárhæð skaðabótakröfu stefnanda taki mið af alvarleika aðdróttana stefnda og því að brotið er framið af ásetningi. Fjárhæð skaðabótakröfu stefnanda sé því hófleg. Eðli málsins samkvæmt sé erfitt fyrir stefnanda að sanna nákvæmlega hvert fjártjón hans sé, bæði hvað varðar almennt fjártjón og tjón á viðskiptavild. Til vara sé því gerð krafa um skaðabætur að álitum.

            Stefnandi byggir kröfu sína um skaðabætur á 2. gr. laga nr. 71/1928, almennum skaðabótareglum, s.s. sakarreglunni og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, enda er um að ræða skýr og ótvíræð brot á réttarreglum sem ætlað er að vernda stefnanda, s.s. 235. gr. eða 234. gr. almennra hegningarlaga.

            Þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 300.000 krónur til að kosta birtingu á forsendum og niðurstöðu í málinu í einu dagblaði, byggir stefnandi á 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Til vara sé gerð krafa um birtingarkostnað að álitum.

            Hvað varðar tjáningarfrelsi stefnda þá byggir hann á 2. og 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og að það falli utan marka stjórnarskrárvarins tjáningarfrelsis þegar brotið er gegn réttinum og mannorði annarra manna.

Stefnandi telur að í ljósi framangreinds sé ljóst að réttur stefnanda til æruverndar gangi framar tjáningarfrelsi stefnda eins og hér hátti til og því beri að taka dómkröfur stefnanda til greina og ómerkja ummælin og dæma stefnda til refsingar og til greiðslu miskabóta.

Þá gerir stefnandi kröfu um vexti frá þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað, 6. júní 2016, sbr. 4. og 8. gr. laga nr. 38/2001. Stefnandi byggi kröfu sína um dráttarvexti á 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, en þar komi fram að skaðabótakröfur beri dráttarvexti þegar mánuður er liðinn frá þeim degi er kröfuhafi lagði fram upplýsingar til að meta tjón og fjárhæð bóta. Því beri hér að miða við kröfubréf stefnanda til stefnda, dagsett 4. ágúst 2016, og sé því krafist dráttarvaxta frá 4. september 2016 til greiðsludags.

Loks gerir stefnandi, með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, kröfu um að stefnda verði gert að greiða honum málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

Um lagarök að öðru leyti vísar stefnandi til 234., 235. og 226. gr. og 1. og 2. mgr. 241. gr. og 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 71. og 72. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 1. mgr. b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, almennra skaðabótareglna, m.a. sakarreglunnar, laga nr. 71/1928, um vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum, og laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Loks er vísað til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, m.a. hvað varðar varnarþing, málsaðild og málskostnað.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Hvað varðar kröfu stefnanda um ómerkingu ummæla þá hafnar stefndi málatilbúnaði stefnanda og byggir á því að hann sé í fullum rétti til að hafa skoðun á því sem stefnandi hafi haldið fram, að starfsmenn hans hafi ekki gert sér grein fyrir að mennirnir hygðust stunda veiðar eða hafi verið að stunda veiðar. Honum sé einnig heimilt að lýsa upplifun sinni að þeirri aðkomu sem við honum blasti og séu lýsingar hans réttar og studdar sönnunargögnum, sbr. framlagðar ljósmyndir. Þá sé sá galli á málatilbúnaði stefnda að í a- og b-lið fyrstu dómkröfu stefnanda sé krafist ógildingar á ummælum sem eru ekki höfð eftir stefnda heldur eru frásögn þess blaðamanns sem fréttina ritaði.

Stefndi byggir á grundvallarreglunni um tjáningarfrelsi sem lögvarið sé af 73. gr. stjórnarskrárinnar. Tjáningarfrelsið sé jafnframt varið af 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Honum sé því frjálst að láta í ljós hugsanir sínar og skoðanir. Tjáningarfrelsið sé eitt af grundvallarréttindum í lýðræðislegu þjóðfélagi og ekki skuli takmarka það frelsi, sbr. 2. mgr. 73. gr., nema með lögum og þurfi takmarkanir jafnframt að teljast nauðsynlegar og samrýmast lýðræðishefðum, sbr. 3. mgr. 73. gr. Allar takmarkanir beri jafnframt að túlka þröngt í samræmi við viðtekin lögskýringarsjónarmið. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á það með málsókn sinni að nauðsynlegt sé að takmarka þann rétt til tjáningarfrelsis sem stefndi nýtur samkvæmt framangreindum lagaákvæðum. Þá hafnar stefndi því að þau ummæli sem hann hafi látið falla skuli dæmd dauð og ómerk og að þau eigi ekki við rök að styðjast.

Stefndi byggir á því að þau ummæli sem mál þetta varðar hafi verið sannleikanum samkvæm. Lengi hafi verið viðurkennd regla og dómvenja að ekki sé refsað fyrir sönn ummæli né þau dæmd ómerk. Ef sannað þykir að stefnandi hafi framið verknaðinn sem hann hefur verið borinn og aðdróttunin (eða hugsanlega móðgunin) er ekki úr hófi þá skal sýkna stefnda.

Þá vísar stefndi til þess að í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994 komi fram í 1. mgr. 10. gr. að veiðar skuli vera óheimilaðar á svæðum sem friðlýst eru vegna dýralífs. Hornvík sem partur af Hornströndum sé á lista yfir friðlýst svæði og því sé ljóst að óheimilt var að fara til veiða á svæðinu. Þessu til viðbótar hafi dýrahræ legið á svæðinu og við hræ af sel hafi verið tengd hreyfimyndavél sem hafi látið vita ef fleiri dýr væru á svæðinu. Það hafi blasað við hverjum sem það hafi viljað sjá hvað væri í gangi í Hornvík og sama eigi við um starfsmenn stefnanda sem fluttu menn með vopn og veiðibúnað á staðinn.

Einnig vísar stefndi til þess að í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu og Hæstaréttar hafi verið byggt á því að flokka þurfi ummæli annað hvort sem gildisdóm eða staðhæfingu um staðreynd. Í gildisdómi felist huglægt mat á staðreynd en ekki miðlun staðreynda. Í dómaframkvæmd sé ekki refsað fyrir gildisdóma nema þeir séu af þeim mun alvarlegri toga, þar sem þeir feli í sér mat á staðreynd og mat hljóti alltaf að vera huglægt. Að mati Mannréttindadómstólsins verði kröfu um sönnun gildisdóma ekki fullnægt og þar af leiðandi felist í kröfu um slíkt óheimil skerðing á tjáningarfrelsi. Ein af þessum meintu ummælum, sem nánar verða tekin fyrir hér að neðan, er að stefnda finnist skýringar stefnanda aumt yfirklór. Er það ekkert nema skoðun stefnda á skýringum stefnanda og er sú skoðun hvorki svo móðgandi né meiðandi að hún njóti ekki verndar. Því sé hér um gildisdóm að ræða sem ekki verði refsað fyrir. Ummæli stefnda byggist þannig fullkomlega á upplifun hans sjálfs sem og ljósmyndum sem styðja þá frásögn. Framsetning ummælanna beri það heldur ekki með sér að ekki hafi verið gætt hófs eða að farið hafi verið út fyrir mörk leyfilegs tjáningarfrelsis.

Með hliðsjón af framansögðu telur stefndi það ágreiningslaust að hin umstefndu ummæli séu ekki af þeim meiði að dæma eigi þau dauð og ómerk líkt og stefnandi krefst. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Hvað varðar þau ummæli sem krafist er ómerkingar á þá eru í a- og b-lið fyrstu dómkröfu rakin ummæli sem tekin eru úr frétt mbl.is og eru ekki tekin upp eftir stefnda eða eignuð honum í fréttinni. Stefndi kannast ekki við að hafa viðhaft þessi ummæli sem stefnandi eignar honum og tilvísuð frétt beri það með sér að þau séu ályktun blaðamanns en ekki ummæli stefnda. Sú setning í tilvísaðri frétt þess efnis að stefndi „... stóð veiðiþjófana að verki“ er að auki augljóslega ekki ummæli stefnda heldur frásögn blaðamanns.

Líkt og fram komi í málavöxtum stefnda þá höfðu fimm karlmenn komið sér fyrir í neyðarskýli í Hornvík þaðan sem þeir stunduðu veiðar sem ólöglegar teljast samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994. Stefndi var á staðnum og tók mynd af þessum aðstæðum. Vilji svo ólíklega til að stefndi verði talinn bera ábyrgð á efni fréttar mbl.is að þessu leyti bendir hann á að ummælin teljist ekki alvarleg og hvað þá að þau teljist vera móðganir eða aðdróttanir í skilningi almennra hengingarlaga nr. 19/1940. Teljist þau þvert á móti vera sanngjörn lýsing á því sem blasti við stefnda er hann kom að starfsmönnum stefnanda í Hornvík þar sem augljóslega höfðu átt sér stað ólögmætar veiðar og vopnaburður.

Hvað varðar c- og d-lið fyrstu dómkröfu þá komu skýringar stefnanda á því sem við er átt í þessum ummælum fram í fréttatilkynningu stefnanda þar sem hann harmar framgöngu mannanna og tekur fram að félagið hafi aðeins séð um að ferja þá á svæðið og leitast að öðru leyti við að gera lítið úr hlutdeild og vitneskju starfsmanna sinna í málinu. Stefndi er hér í fyrsta lagi að lýsa skoðun sinni á skýringum Strandferða og finnst þær ekki standast skoðun. Tjáningarfrelsi sé tryggt í stjórnarskrá og á fleiri stöðum og sé fullljóst að einstaklingur megi hafa skoðanir á öðrum einstaklingum eða fyrirtækjum svo lengi sem ekki sé um ærumeiðandi móðganir eða aðdróttanir að ræða. Stefndi telur ekkert af ummælum sem mál þetta fjallar um vera ærumeiðandi og honum sé frjálst að lýsa þeirri skoðun sinni að skýringar stefnanda standist ekki skoðun.

Hvað varðar seinni hluta ummælanna í c-lið þá eigi það sama við og sé stefnda frjálst að hafa þá skoðun að það sé aumt yfirklór hjá stefnanda að starfsmenn fyrirtækisins hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað mennirnir aðhöfðust á þeim tíma sem starfsmennirnir voru á svæðinu. Fyrir liggi að þegar stefndi kom á staðinn sat þar skipstjóri á vegum stefnanda og drakk kaffi með veiðimönnunum. Stefndi hafði einnig fengið það staðfest að bátarnir höfðu komið á staðinn á föstudegi og ekki farið fyrr en á laugardegi. Sé það skoðun stefnda að augljóst hafi verið hvað væri í gangi, m.a. með vísan til þess að í neyðarskýlinu hafi menn verið með skotvopn. Sé það svo að skipstjórarnir skutluðu mönnum á friðland með skotvopn, háfa til að veiða fugla, net, kaðla og annan veiðibúnað, á tímabili þar sem veiði var ekki leyfileg. Því sé hér hvorki sagt ósatt né ýkt um aðstæður en stefndi á myndir af aðstæðum á svæðinu á þeim tíma sem um ræðir.

Stefndi telur nauðsynlegt að litið sé heildstætt á ummæli stefnda sem birtust á mbl.is 6. júní 2016. Orðalag sé ekki þess háttar að það keyri úr hófi fram. Hafni stefndi því öllum kröfum stefnanda og krefst sýknu.

Þá telur stefndi að sýkna beri hann vegna aðildarskorts. Til er firmað Strandferðir ehf., með kennitöluna 670411-0360, sem ekki er í eigu stefnanda, en verði talið að vegið hafi verið að nafninu Strandferðir með ummælum stefnda verður að ætla að það séu hagsmunir sem væru á hendi þessa félags. Þá sé ekki til vörumerki með þessu heiti og því hafi stefnandi ekki sýnt fram á það hvaða lögvörðu hagsmunir það séu sem hann sé þarna að vernda. Þó svo að hann noti heitið Strandferðir yfir ferðir þær sem hann fer á Hornstrandir sé það ekki nægilegt til að hann teljist hafa lögvarða hagsmuni eða geti haft uppi kröfur til verndar firmanu eða vörumerkinu Strandferðir.

Ef ummæli í a- og b-lið eru sérstaklega skoðuð þá sé það ekki aðeins þannig, líkt og áður kom fram, að meint ummæli stafi ekki frá stefnda heldur geti stefnandi ekki borið fyrir sig að meint ummæli brjóti gegn réttindum sínum þegar hvergi er minnst á stefnanda í þeim.

Stefnandi krefst sýknu af miskabótakröfu stefnanda enda hafi stefndi ekki framið nokkra ólögmæta meingerð í garð stefnanda. Þá sé í hinum tilvitnuðu ummælum hvergi minnst á stefnanda heldur Strandferðir en stefnandi hafi engin gögn lagt fram um vörumerki eða firmanafn með þessu nafni. Skilyrði þess að stefnanda verði dæmdar miskabætur sé að hann eigi slíkt vörumerki eða firmanafn og það hafi skaðast en ekkert liggi fyrir um það. Ekki sé fullnægjandi að stefnandi kalli ferðir sínar Strandferðir en hann hafi ekki sýnt fram á að sú nafngift njóti verndar í atvinnurekstri hans. Þá telur stefndi að skilyrði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu ekki uppfyllt og að krafa stefnanda sé lítt rökstudd. Jafnvel þótt ummælin yrðu ómerkt verði ekki séð að stefnandi geti átt rétt til miskabóta þar sem þau geti ekki verið talin af svo alvarlegum toga að þau réttlæti að stefnanda verði bættur miski vegna þeirra en í greinargerð sem fylgdi ákvæðinu segir að verulegt gáleysi þurfi til að skylda til greiðslu miskabóta stofnist.

Hvað varðar kröfu um greiðslu kostnaðar af birtingu dóms þá hafnar stefndi alfarið þeirri kröfu. Vísar hann til þess að í 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga er fjallað um það skilyrði að þeim sem sekur reynist um ærumeiðandi aðdróttun verði gert að greiða kostnað vegna opinberrar birtingar dómsniðurstöðu. Um ærumeiðandi aðdróttun sé fjallað í 235. og 236. gr. sömu laga og sé aðdróttun talin alvarleg og töluvert alvarlegri en ærumeiðandi móðgun sem fjallað er um í 234. gr. Ærumeiðandi móðganir samkvæmt 234. gr. hafa verið skilgreindar sem tilefnislaus eða tilefnislítil óvirðingarorð. Hér sé ekki um slíkt að ræða þar sem ummælin lýstu aðeins því sem blasti við stefnda þegar hann kom í Hornvík og skoðunum hans á þeim staðhæfingum sem stefnandi hélt fram um starfsmann, að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að mennirnir hafi verið vopnaðir eða að þeir hafi stundað ólögmætar veiðar eða dráp á dýrum. Stefndi hafnar því að um ærumeiðandi ummæli sé að ræða sem réttlætt geti beitingu 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Verði ekki fallist á kröfu um sýknu byggir stefndi á því að lækka beri fjárkröfu stefnanda verulega.

Um lagarök vísar stefndi til 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, með síðari breytingum, 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, almennra reglna um ærumeiðingar og meiðyrði, 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Málskostnaðarkröfu byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 129. og 130. gr.

 

Forsendur og niðurstaða

Í máli þessu byggir stefnandi á því að ummæli sem hann telur að höfð hafi verið eftir stefnda í tveimur fréttum á mbl.is, 6. júní 2016, hafi falið í sér ærumeiðandi aðdróttun eða móðgun og ólögmæta meingerð gegn honum.

Samkvæmt 73. gr. stjórnarskrár eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en hann verður að ábyrgjast þær fyrir dómi. Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmast lýðræðishefðum. Þá nýtur tjáningarfrelsið sömuleiðis verndar í 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Telja verður að tjáningarfrelsi sé mikilvægt sem grundvallarréttindi, vernduð af stjórnarskránni, og verða takmarkanir á því að eiga sér örugga stoð í settum lögum og þeim alþjóðlegu skuldbindingum um mannréttindi sem Ísland hefur gengist undir. Verður að skýra ákvæði 234., 235., 236. og 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem stefnandi byggir kröfugerð sína á, með hliðsjón af þessu.

Samkvæmt a-lið 51. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 ber einstaklingur refsi- og fébótaábyrgð á ummælum sem eru réttilega eftir honum höfð brjóti þau í bága við lög. Óumdeilt er að þau ummæli sem tilgreind eru í stefnu birtust í tveimur fréttum á vefsíðunni mbl.is 6. júní 2016, annars vegar í frétt sem birtist fyrir hádegi og hins vegar eftir hádegi.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á aðildarskorti. Annars vegar byggir stefndi þá kröfu sína á því að ummælin í a- og b-lið fyrstu dómkröfu sem koma fram í fyrri fréttinni stafi ekki frá honum, auk þess sem hvergi sé minnst á stefnanda í þeim. Þá hafi ummælin ekki verið eignuð honum þar og hann kannist ekki við að hafa viðhaft þau. Stefndi staðfesti í greinargerð sinni að hann hefði rætt við blaðamann mbl.is vegna málsins en ekkert liggur fyrir um það hvaða orð stefndi viðhafði í umræddu viðtali. Ummælin í a-lið voru sett fram sem millifyrirsögn í fréttinni sem ætla verður að ákveðin hafi verið af blaðamanni enda er ekkert fram komið um það að stefndi hafi haft eitthvað um það eða um efnistök blaðsins að segja. Þá verður ekki af texta fréttarinnar ráðið að þetta hafi verið haft beint eftir stefnda. Með vísan til framangreinds verður stefndi ekki talinn bera ábyrgð á þeim ummælum sem koma fram í a-lið fyrstu dómkröfu stefnanda. Þau ummæli í b-lið sem krafist er ómerkingar á eru ... stóð veiðiþjófana að verki. Af orðalaginu má ráða að að þarna sé verið að vísa til einhvers sem ætla má að hafi sagt blaðamanni að hann hafi staðið veiðiþjófana að verki. Skoða verður þau ummæli sem krafist er ómerkingar á með hliðsjón af efni fréttar í heild. Hvorki þetta orðalag né annað sem fram kemur í fréttinni bendir því til þess að ummælin séu höfð beint eftir stefnda og eru ummælin ekki eignuð honum í fréttinni. Þá er, eins og áður hefur verið rakið, ekkert fram komið um það að stefndi hafi haft eitthvað um efnistök blaðsins að gera né heldur ráðið einhverju um það hvernig blaðamaður kaus að hafa það sem hann sagði eftir honum. Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á að ummælin í b-lið hafi verið höfð beint eftir stefnda, eins og hann byggir málatilbúnað sinn á. Verður stefndi ekki talinn bera á byrgð á því hvernig blaðamaðurinn kaus að setja fréttina fram. Þegar með vísan til framangreinds verður stefndi sýknaður af kröfu stefnanda um ómerkingu þeirra ummæla sem fram koma í a- og b-lið.

Hins vegar byggir stefndi sýknukröfu sína, byggða á aðildarskorti, á því að firmað Strandferðir ehf. sé ekki í eigu stefnanda. Verði því að ætla að þeir hagsmunir sem á er byggt að vegið hafi verið að væru á hendi þess félags og því hafi stefnandi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Þessu hefur stefnandi mótmælt og lagði hann fram leyfi sem hann fékk útgefið 25. mars 2015 af Ferðamálastofu til að starfa sem ferðaskipuleggjandi samkvæmt III. kafla laga um skipan ferðamála nr. 73/2005. Samkvæmt 8. gr. laganna er leyfið ótímabundið og skal hver sá sem hyggst starfa sem ferðaskipuleggjandi eða ferðaskrifstofa hafa slíkt leyfi og er öðrum ekki heimilt að stunda slíka starfsemi. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. er gert ráð fyrir því að hvort heldur einstaklingur eða lögaðili geti fengið útgefið leyfi samkvæmt lögunum. Þá kemur fram í 5. mgr. sama ákvæðis að í umsókn um leyfi skuli koma fram heiti ferðaskipuleggjanda eða ferðaskrifstofu og skal geta um öll hjáheiti sem aðili hyggst nota í starfsemi sinni og að óheimilt sé að reka starfsemina undir öðrum heitum en þeim sem leyfi hljóðar um. Þegar atvik máls og málatilbúnaður er skoðaður í samhengi er ljóst að stefndi taldi að um fyrirtæki stefnanda Strandferðir væri að ræða þegar hann nefndi ferðaþjónustufyrirtækið fyrst á nafn í seinni fréttinni sem birtist á mbl.is eftir hádegi 6. júní 2016 enda var stefnandi þá búinn að birta yfirlýsingu og staðfesta þar að um fyrirtæki hans væri að ræða. Þar bar hann af sér allar sakir um þau atvik sem lýst var í fyrri frétt mbl.is. Þessi tilkynning hefur ekki verið lögð fram í málinu en frétt sem ætla má að sé sama efnis af vefsíðunni bb.is frá 7. júní 2016 hefur verið lögð fram. Af hálfu stefnanda hefur því ekki verið mótmælt að yfirlýsingin hafi birst í millitíðinni. Einnig má ráða af efni seinni fréttarinnar að svo hafi verið og verður á því byggt. Verður með framangreindu talið nægilega sýnt fram á að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni tengda notkun heitisins og verður því að játa honum aðild að málinu hvað varðar c- og d-lið fyrstu dómkröfu.

Þá byggir stefndi sýknukröfu á því að þau ummæli sem krafist er ómerkingar á hafi verið sannleikanum samkvæm og því verði þau ekki dæmd ómerk. Vísar hann í greinargerð til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og telur að brotið hafi verið gegn því ákvæði í umrætt sinn.

Fyrir liggja ljósmyndir af aðstæðum í Hornvík þegar starfsmenn stefnda komu þangað og sýna aðstæður sem að mestu samrýmast lýsingum sem hafðar eru eftir stefnda í þessum tveimur fréttum. Í framburði Gunnars Kristins Ásgeirssonar, fyrirsvarsmanns stefnanda, við aðalmeðferð málsins, kom fram að hann teldi að þær lýsingar sem þar komu fram á umgengni um svæðið hafi verið réttmætar en að hann og starfsmenn hans hafi ekki átt þar neinn hlut að máli. Verður lagt til grundvallar með vísan til framburðar Gunnars, sem fær stuðning í framburði vitnanna C, B og A, og hefur ekki verið hrakinn með öðrum gögnum, að af hálfu stefnanda voru þrír menn fluttir í Hornvík og sóttir þangað viku seinna, eða laugardaginn 4. júní 2016. Þá verður á grundvelli framburða sömu einstaklinga lagt til grundvallar að þau hafi siglt á tveimur bátum í Hornvík föstudaginn 3. júní 2016 og dvalið þar í sólarhring og hafi C flutt mennina þrjá til baka laugardaginn 4. júní. Þá kom fram í framburði C að hann hafi, þegar hann kom aftur í Hornvík á föstudegi, rætt við mennina og sagt þeim að þeir yrðu fluttir til baka daginn eftir. Önnur samskipti hafi ekki verið höfð við mennina fyrr en á laugardeginum, samkvæmt bæði framburði C og Gunnars, utan þess að Gunnar rak á eftir þeim að pakka saman fyrir ferðina til baka og hafi C á meðan drukkið kaffi skammt frá neyðarskýlinu eins og framlögð ljósmynd sýnir. Ekkert er fram komið sem bendir til þess að vitneskja starfsmanna stefnanda um atvik hafi verið meiri en ráða mátti af því sem við þeim blasti við komu í Hornvík á föstudegi og laugardegi. Er þá til þess að líta að stefnandi hefur samkvæmt gögnum málsins hvorki verið fundinn sekur um þá háttsemi sem lýst er í fréttinni né sætt rannsókn lögreglu af því tilefni.

Hvað varðar þau ummæli sem tilgreind eru í c- og d-lið þá liggur fyrir að þau birtust í frétt á mbl.is síðar sama dag og ummælin í a- og b-lið birtust. Af texta fréttarinnar má ráða að þau voru höfð eftir stefnda og hefur hann ekki mótmælt því. Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann sé að lýsa skoðun sinni á skýringu stefnanda vegna Strandferða sem komu fram í fréttatilkynningu eftir að fyrri fréttin var birt og sé honum það heimilt í ljósi þess tjáningarfrelsis sem honum sé tryggt í stjórnarskrá. Í fréttinni kemur fram að stefndi telur að skýringar stefnanda á atvikum séu yfirklór. Það sem komið hafi fram sé hvorki ósatt né ýkjur og byggi á því sem hann sá þegar hann kom á staðinn, aðstæðum eins og þær sjást á myndum en auk þess hafi hann þá verið búinn að fá staðfest að skipstjórarnir hefðu þegar hann kom verið búnir að vera í sólarhring á staðnum.

Í meiðyrðamálum hefur við mat á ummælum verið gerður greinarmunur á staðhæfingum um staðreyndir og gildisdómum en einungis það fyrrnefnda getur fallið undir ærumeiðandi ummæli að öðrum skilyrðum uppfylltum. Staðhæfingar um staðreyndir er unnt að sanna með hefðbundinni sönnunarfærslu, en gildisdómar verða hins vegar yfirleitt ekki sannaðir á slíkan hátt enda sé þá um að ræða huglægt mat. Telja verður að ummælin bæði í c- og d-lið feli í sér skoðun stefnda á því sem fram kom í yfirlýsingu stefnanda. Þar kemur m.a. fram að hann telur að skýringar stefnanda standist ekki skoðun með vísan til þess sem við stefnda blasti við komu í Hornvík. Vísar stefndi til staðreynda málsins en gera verður þá kröfu til ummæla, til að talið verði að um gildisdóma sé að ræða, að þau hafi einhverja stoð í atvikum málsins. Er hér um að ræða mat á stefnda staðreyndum eins og þær blöstu við þegar stefndi kom á vettvang og komu fram í yfirlýsingu stefnanda sjálfs. Kemur í báðum ummælunum fram álit hans á aðstæðum og aðkomu starfsmanna Strandferða á grundvelli þess sem hann sá. Þá er í báðum ummælunum gerður greinarmunur á þeim mönnum sem starfsmenn stefnanda fluttu í Hornvík og starfsmönnum stefnanda. Í þeim ummælum sem tilgreind eru í c-lið tiltekur hann sérstaklega að hann hafi vitað að tveir starfsmenn stefnanda hafi þá verið búnir að vera þar í sólarhring og að annar þeirra hafi þá verið að drekka kaffi með veiðimönnunum. Þá kemur fram í d-lið það álit stefnda að starfsmenn stefnanda hafi, á þeim sólarhring sem þeir voru á staðnum, átt að gera sér grein fyrir þeim brotum sem hann taldi að verið væri að fremja þar. Þegar efni ummælana er skoðað og höfð hliðsjón af efni fréttarinnar í heild verður ekki talið að með þeim hafi stefndi sakað starfsmenn stefnanda um refsiverða háttsemi heldur sett fram álit sitt á efni yfirlýsingar stefnanda og skoðun sína á grundvelli þess sem hann hafi vitað um atvik. Þá verður að telja að tilgreining stefnda, í ummælunum í d-lið, á brotunum hafi verið svo almenn að ekki verði talið að með þeim hafi stefndi sakað starfsmenn stefnanda um hlutdeild í refsiverðum brotum eða um siðferðislega ámælisverða háttsemi. Loks verður að telja, með hliðsjón af málsatvikum, að ummælin hafi verið sett fram í góðri trú um réttmæti þeirra. Verður með vísan til framangreinds að telja að þau ummæli sem koma fram í c- og d-lið feli í sér gildisdóma og að efni ummælanna verði ekki talið vera þess eðlis að það feli í sér ærumeiðandi aðdróttun eða móðgun í garð stefnanda, eða að hann hafi borið slíka aðdróttun út, sbr. 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga. Þegar þessa er gætt verður ekki talið að stefndi hafi með ummælum sínum vegið svo að æru stefnanda að það hafi farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar.

Með vísan til framangreinds verður stefndi því sýknaður af fyrstu dómkröfu stefnanda um ómerkingu ummæla. Þá verður stefndi einnig, vegna framangreindrar niðurstöðu hvað varðar fyrstu dómkröfu, sýknaður af miskabótakröfu stefnanda og kröfu um greiðslu kostnaðar við birtingu dómsins í dagblaði.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað eins og í dómsorði greinir.

Af hálfu stefnanda flutti málið Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl. og af hálfu stefnda flutti málið Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Rúnar Óli Karlsson, er sýkn af öllum kröfum stefnanda, GJÁ útgerðar ehf.

Stefnandi greiði stefnda 750.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                        Sigríður Elsa Kjartansdóttir (sign.)