• Lykilorð:
  • Nytjastuldur
  • Fangelsi
  • Skilorð

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 13. desember 2018 í máli nr. S-50/2018:

Ákæruvaldið

(Bryndís Ósk Jónsdóttir fulltrúi)

gegn:

Michael Ziese

(Kristján Óskar Ásvaldsson hdl.)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 6. desember 2018, höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með ákæru 7. nóvember sl. á hendur Michael Ziese, fæddum [...], [...], fyrir þjófnað, en til vara fyrir nytjastund, með því að hafa að kveldi laugardagsins 13. október 2018, stolið seglskútunni INOOK, eign A, að verðmæti um 750.000 evrur, þar sem hún lá bundin við bryggju í Ísafjarðarhöfn, með því að spenna upp hurð í stýrisrými hennar með skrúfjárni, og í auðgunarskyni og heimildarleysi, á leið sinni til Skotlands eða Færeyja, siglt henni, undir eigin vélarafli, út úr Ísafjarðarhöfn og norður Ísafjarðardjúp, vestur fyrir Vestfirði og suður fyrir Látrabjarg og fyrir Breiðafjörð uns áhöfn þyrlunnar TF-LIF varð hennar vör daginn eftir kl. 16:26, 65°07,700 ̓ N-24°25,113 ̓ V, norðvestur af Snæfellsnesi, þar sem honum var fyrirskipað að sigla rakleiðist til hafnar á Rifi, þar sem ákærði var handtekinn kl. 20:40.

Er ofangreind háttsemi ákærða talin varða við 244. gr. en til vara við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu ákærða er aðallega krafist sýknu en til vara vægustu refsingar er lög leyfa auk málsvarnarlauna samkvæmt málskostnaðarreikningi verjanda hans er greiðist úr ríkissjóði.

 

II

Samkvæmt rannsóknarskýrslu lögreglu var tilkynnt um þjófnað á skútunni INOOK, sunnudaginn 14. október kl. 13:45, en skútan hafði legið bundin við bryggju í Ísafjarðarhöfn. Skútan hefði átt að vera þar í geymslu í vetur og B tekið að sér að gæta hennar.

Lögregla fékk nánari upplýsingar frá nefndum B og tilkynnanda, C, um skútuna og eiganda hennar, sem búsettur er í Frakklandi. Var upplýst að vel hefði verið gengið frá skútunni, landfestum og fleiru og hún hefði legið innan um aðrar skútur. Í kjölfar þessa hafi verið haft samband við hafnarstjóra og kannaðar upptökur úr eftirlitsmyndavélum. Þar hefði mátt greina mann færa skútu til, sem var fyrir framan skútuna INOOK, og ýta henni svo án vélarafls fram fyrir aðrar skútur. INOOK hefði svo verið siglt í burtu aðfaranótt sunnudagsins 14. október kl. 00:06, fram hjá Sundahöfn, um kl. 00:23, og til norðurs með siglingaljós tendruð. AFS-eftirlitskerfi hefði ekki verið virkt og því ekki unnt að sjá staðsetningu skútunnar.

Þá segir jafnframt í skýrslunni að haft hafi verið samband við Landhelgisgæslu Íslands og óskað aðstoðar við leit að skútunni. Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar hefði tilkynnt kl. 16:22 að skútan væri fundin, um 20 sjómílur suðvestur af Snæfellsnesi. Ekki hefði verið svarað kalli fyrr en eftir nokkra stund og staðfest að einn maður væri um borð sem hefði kynnt sig með nafninu „X“. Hefði hann fengið fyrirmæli um að sigla þegar í stað til hafnar á Rifi. 

Ákærði hafi verið handtekinn er hann kom að Rifi. Í skýrslu hjá lögreglu hafi ákærði viðurkennt að hafa tekið skútuna ófrjálsri hendi og hefði ætlað að sigla henni til Reykjavíkur. Hann hefði notað skrúfjárn til að komast inn í hana.

Þá kemur fram í skýrslunni að haft hafi verið samband við eiganda skútunnar sem hefði staðfest að enginn hefði haft leyfi til að sigla skútu sinni. Þá hefði rannsókn leitt í ljós að ákærði væri eigandi annarrar skútu sem lægi bundin við flotbryggju á Ísafirði, á sama svæði og skútan INOOK hafði legið.

Ákærði var úrskurðaður í farbann að kröfu lögreglustjórans á Vestfjörðum, fyrst til 12. nóvember sl. og síðar til 10. desember 2018.

Við rannsókn málsins voru teknar skýrslur af ákærða, vitnum og eiganda skútunnar. Farangur og persónulegir munir ákærða, sem hann hafði meðferðis á siglingu sinni, voru haldlagðir. Kannað var með flugpantanir og ferðir ákærða til og frá Íslandi. Þá var gerð vettvangsrannsókn á skútunni INOOK og húsleit um borð í skútu ákærða.

 

III

Ákærði gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hann kvað þeirri hugmynd hafa skotið upp í kolli sér, undir miðnætti 13. október sl., að sigla til Reykjavíkur á öðrum báti en sínum. Hann hefði verið að skoða veðurspá, sem var góð, og rétt fyrir miðnætti hefði hann verið lagður af stað. Báturinn INOOK hefði orðið fyrir valinu þar sem það var eini báturinn sem var yfirgefinn og ákærði þekkti ekki eigandann. Ákærði kvaðst hafa leyst lítinn bát sem var fyrir framan INOOK og fært hann til og þá hefði leiðin út úr höfinni verið greið. Aðspurður hvers vegna ákærði hefði gert þetta að næturlagi kvaðst hann hafa verið að stela bátnum. Ákærði kvaðst hafa komist inn í skútuna með því að brjóta lás með skrúfjárni og sexkanti. Hann hefði sett aðalrofa í gang og gert bátinn kláran til sjóferðar. Ákærði kvað sér hafa liðið eins og hann hefði ekki verið með sjálfum sér þegar hann gerði þetta, en hefði, kannski tveimur tímum síðar, eins og vaknað til meðvitundar, en þá hefði hann ekkert getað gert. Hann hefði verið fastur á bátnum og hefði þurft að ljúka þessu. Ákærði kunni ekki skýringu á því hvers vegna hann hefði þá ekki snúið við til Ísafjarðar. Ákærði kvaðst hafa ætlað að dvelja í Reykjavík í nokkra daga og kynnast borginni, en hann hefði átt flugfar frá Íslandi í nóvember. Hann hefði því haft rúman tíma en engar sérstakar fyrirætlanir. Kannski of rúman tíma.

Aðspurður um sms-skilaboð til unnustu sinnar, sem ákærði sendi henni úr bátnum að morgni sunnudagsins 14. október, þess efnis að hann ætlaði að færa bát með Breta, til Færeyja eða Skotlands, kvað ákærði þau hafa verið hvíta lygi sem hann hefði sent svo að unnustan hefði ekki áhyggjur af honum. Hún væri [...] og hefði áhyggjur af ákærða ef hann væri ekki reglulega í sambandi við hana. Hann hefði því skáldað þetta upp. Ákærði kvaðst einnig hafa gefið upp rangt nafn við Landhelgisgæsluna í þeirri von að komast undan refsingu en kunni að öðru leyti ekki skýringar á háttsemi sinni. Ákærði neitaði því staðfastlega að hafa ætlað að selja eða gefa skútuna, hann væri ekki glæpamaður heldur ævintýramaður sem lifði fyrir siglingar. Þá kvað hann það ekki ráðlegt að sigla yfir hafið á þessum árstíma af öryggisástæðum.

Vitnið C kom fyrir dóminn og upplýsti að hann hefði tekið eftir því að skútu vantaði í höfnina sunnudaginn 14. október og hann hefði því haft samband við B sem hefur eftirlit með bátum í höfninni. Þeir hefðu haft samband við Strandstöð siglinga og lögreglu vegna málsins. Aðspurt kvað vitnið einum manni auðvelt að sigla skútu sem INOOK, þess vegna um heimins höf.

            Símaskýrsla var tekin af eiganda skútunnar, A. Hann kvaðst ekki þekkja ákærða né hafa átt í samskiptum við hann á Ísafirði. Hann hefði einu sinni orðið var við ákærða á bát, nálægt Hornstöndum, en ekki verið í neinu sambandi við hann. Vitnið kvað verðmæti skútu sinnar vera um 600-650 þúsund evrur. Hann kvaðst hafa verið á Íslandi 10.-11. október sl. og þá gengið frá bátnum fyrir veturinn, en seglin hefðu verið tekin af í ágúst og sett í geymslu við höfnina. Þá kvaðst vitnið hafa fengið B til þess að annast um bátinn fyrir sig í vetur. 

C, hafnarstjóri Ísafjarðabæjar, gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti að ákærði hefði rætt við sig um að fá að hafa skútu sína á Ísafirði í vetur og beðið sig fyrir lykla að henni, eins og tíðkanlegt er ef skútur eru geymdar yfir vetur, í öryggisskyni. Aðspurður kvað hann ákærða ekki hafa beðið sig um að ganga frá bátnum fyrir veturinn, bara að líta eftir honum þegar hann væri farinn.

            B kom fyrir dóm og staðfesti að hafa haft umsjón með skútunni INOOK. Eigandinn hefði farið utan föstudaginn áður en atvik urðu. Þeir hefðu þá átt samtal um lásinn á bátnum. Á lásnum hefðu verið skemmdir eins og átt hefði verið við hann með skrúfjárni. Aðspurður um verðmæti skútunnar taldi vitnið að það gæti verið á milli 70-80 milljónir, í engu hefði verið til sparað um borð.

D, þyrluflugmaður Landhelgisgæslu Íslands, staðfesti að hafa fengið fyrirmæli um að leita að skútu sem saknað hafi verið frá Ísafirði og hún hefði fundist norðvestur af Snæfellsnesi. Reynt hefði verið að kalla í hana en ekki verið svarað strax. Einn maður hefði verið um borð og skútunni verið beint að næstu höfn, að Rifi. Vitnið staðfesti skýrslu sem frá honum stafar í málinu.

            Lögreglumaður nr. 8405 staðfesti skýrslur sínar í málinu. Hann kvaðst hafa fengið upplýsingar um hvarfið frá B og sett sig í samband við Landhelgisgæsluna. Hann hefði lagt til að flogið yrði vestur fyrir, enda stutt í myrkur, og síðar fengið upplýsingar um að skútan hefði fundist. Eftir handtöku ákærða hefði verið haft samband við eiganda skútunnar sem gaf upp andvirði hennar. Þá hefði verið kannað með eftirlitsmyndavélar og samkvæmt þeim hefði einn maður verið að verki og ekkert í rannsóknargögnum benti til þess að ákærði ætti sér vitorðsmann, ekkert utan sms-skilaboða til kærustu hans um að ákærði færi með öðrum í siglingu, skilaboð sem send voru eftir að ákærði fór úr höfninni.

            Þá upplýsti lögreglumaðurinn að rannsókn á skírteinum, sem ákærði hafði í fórum sínum og tilheyrðu öðrum manni, hefði leitt í ljós að tilkynnt hefði verið um þjófnað á þessum gögnum.

            Lögreglumaður nr. 8527 kvaðst hafa tekið á móti skútunni er hún kom að landi. Þá staðfesti vitnið að ákærði hefði verið með bakpoka og tvo poka með vistum. Þá kannaðist vitnið við að hafa heyrt ákærða segja að hann hefði notað skrúfjárn til að komast inn í skútuna.

IV

Ákærði hefur viðurkennt fyrir dómi og hjá lögreglu að hafa tekið seglskútuna INOOK ófrjálsri hendi, þar sem hún lá bundin við bryggju á Ísafirði, og siglt henni sem leið lá vestur fyrir land þar til för hans var stöðvuð af Landhelgisgæslunni. Ákærði hefur jafnframt viðurkennt að hafa fært til aðra báta í Ísafjarðarhöfn þannig að hann mætti koma skútunni INOOK fram fyrir þær og síðan brotist inn í skútuna með skrúfjárni og við það eyðilagt lás. Þá hafi hann gert bátinn kláran til siglingar og lagt af stað vestur um land frá Ísafirði, en án þess að tengja bátinn við AES-eftirlitskerfi og án þess að kveikja siglingaljós fyrr en út úr höfninni var komið. 

Gögn sem lögð hafa verið fram í málinu, ljósmyndir og skjáskot úr eftirlitsmyndavélum, framburður ákærða og vitna renna stoðum undir sakargiftir á hendur ákærða. Telst því sannað svo óyggjandi sé að ákærði hafi í heimildarleysi tekið skútuna INOOK og siglt henni á brott frá Ísafirði. Kemur þá til skoðunar hvort ásetningur ákærða hafi staðið til þjófnaðar eða hvort um nytjastuld hafi verið að ræða.

Ákærði hefur staðfastlega neitað því að hafa ætlað að slá eign sinni á skútuna og sömuleiðis neitar hann að hafa átt sér vitorðsmann. Ákærði hefur ekki getað skýrt hvað honum gekk til með verknaði sínum, öðruvísi en að um skyndihugdettu hafi verið að ræða og einhvers konar ævintýramennsku. Þrátt fyrir það hefur framburður ákærða verið stöðugur og í sjálfu sér ekki ótrúverðugur.

Í málinu nýtur engra gagna við sem rennt geti stoðum undir að ásetningur ákærða hafi staðið til þess að slá eign sinni á skútuna utan sms-skilaboð sem ákærði sendi unnustu sinni að morgni sunnudagsins 14. október, eftir að hann hafði tekið skútuna. Ákærði hefur gefið þá skýringu á þeim að unnusta hans sé hrædd um hann og um það vísað til heilsu hennar. Að mati dómsins kann sú skýring allt eins að vera rétt, auk þess sem þau skilaboð ein og sér nægja ekki til þess að fella sök samkvæmt 244. gr. laga nr. 19/1940 á ákærða. Í þessu samhengi er rétt að árétta að samkvæmt skýrslu lögreglu hafði ákærði yfirgefið bát sinn með þeim hætti að ótrúlegt þykir að hann hafi ekki ætlað að koma aftur fljótlega til þess að ganga frá honum, í það minnsta áður en hann héldi af landi brott.

Þrátt fyrir að ákærði hafi ekki getað gefið skýringar á verknaði sínum frekar en áður greindi, þá hvílir sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag á ákæruvaldinu, sbr. 108 gr. laga nr. 88/2008. Mat á því hvort nægileg sönnun sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum sé fram komin um hvert það atriði  sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti er hjá dómara, sbr. 109. gr. s.l. Að ofanrituðu virtu er það mat dómsins að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna nægilega að ákærði hafi haft ásetning til þjófnaðar þegar hann tók skútuna INOOK ófjálsri hendi og verður 244. gr. almennra hegningarlaga því ekki beitt um háttsemi hans, en brot ákærða talið rétt heimfært til 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, líkt og varakrafa ákæruvaldsins hljóðar upp á.

 

V

Ákærði hefur samkvæmt gögnum málsins ekki áður sætt refsingu. Við mat á refsingu ákærða verður að líta til þess að ákærði kaus að eigin sögn að halda siglingu sinni áfram eftir að hann áttaði sig á verknaði sínum. Á hinn bóginn ber og til þess að líta að ákærði hefur gengist við verknaði sínum og verið samvinnuþýður meðan á rannsókn málsins stóð. Þá verður ekki annað séð en að óverulegt tjón hafi hlotist af verknaði hans. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu þeirrar refsingar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Þá ber með vísan til 1. mgr. 233. gr., sbr. 235. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti lögreglu er þegar greidd þóknun tilnefnds verjanda ákærða á rannsóknarstigi, 122.929 krónur, auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða, Kristjáns Óskars Ásvaldssonar lögmanns, sem með hliðsjón af tímaskýrslu lögmannsins þykja hæfilega ákveðin 948.600 krónur að meðtöldum viðisaukaskatti.

     Bergþóra Ingólfsdóttir dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Michael Ziese, sæti fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu þeirrar refsingar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði greiði 1.071.529 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Óskars Ásvaldssonar lögmanns, 948.600 krónur.

                                        

Bergþóra Ingólfsdóttir