• Lykilorð:
  • Húsbrot
  • Hylming
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 11. júlí 2018 í máli nr. S-11/2018:

Ákæruvaldið

(Bryndís Ósk Jónsdóttir fulltrúi)

gegn

Adam Szablowski

(Kristján Óskar Ásvaldsson hdl.)

 

Mál þetta sem dómtekið var 3. júlí 2018 höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með tveimur ákærum. Fyrri ákæran var gefin út 20. febrúar s.l. á hendur Adam Szablowski, X og Z, fyrir eftirtalin brot:

 

I.

(m. 314-2017-4326)

[…]

II.

(m. 314-2017-4326)

[…]

III.

(m. 314-2017-4326)

á hendur ákærða Adam, fyrir hylmingu, með því að hafa þann 6. september 2017, haft í vörslum sínum á heimili sínu, Sundstræti 41 á Ísafirði, tvo bjórkúta sem stolið var samkvæmt ákæruliðum I. og II., þrátt fyrir ákærða hafi verið ljóst að um þýfi væri að ræða, og haldið þannig kútunum ólöglega fyrir eigendunum, en ákærðu Adam og X fluttu þá í sameiningu frá Hrannargötu 4 og að Sundstræti 41.

 

IV.

(m. 007-2017-62987)

á hendur ákærðu öllum, fyrir þjófnað, með því að hafa, í sameiningu, föstudaginn 29. september 2017, stolið mat- og drykkjarvöru úr verslun Bónus að Nýbýlavegi 4 í Kópavogi, nánar tiltekið sjö bökkum af bleikjuflökum, 19 bökkum af kjúklingabringum, tveimur hálfslítra flöskum af Tonic vatni, og 12 hálfslítra dósum af Pilsner, alls að fjárhæð kr. 45.519, á eftirgreindan hátt:

 

Ákærðu Adam og Z fóru inn í verslunina, Z sótti þar innkaupakerru og ók henni um verslunina, Adam gekk um verslunina, tók vörur úr hillum hennar og setti í kerruna, en X beið fyrir utan verslunina. Er Adam og Z komu aftur að inngangsdyrum verslunarinnar, sá X til þess að þau kæmust út úr henni með vörurnar í innkaupakerrunni, með því að ganga sjálfur inn í verslunina í gegnum sjálfvirkar einstefnudyr, þannig að dyrnar opnuðust, en á sama tíma gengu Adam og Z út um inngangsdyrnar og út úr versluninni með vörurnar, án þess að greiða fyrir.

 

V.

(m. 314-2017-4740)

á hendur ákærða Adam, fyrir þjófnað, með því að hafa að kvöldi þriðjudagsins
3. október 2017, farið inn á veitingastaðinn Við Pollinn á Hótel Ísafirði, í gegnum útidyr að eldhúsi staðarins, og stolið þaðan fjórum hálfslítra dósum af bjór, nánar tiltekið einni dós af Víking lager og þremur dósum af Víking classic, en þær voru geymdar í kæliskáp í afgreiðslu veitingastaðarins, en lögregla fann áfengið á heimili ákærða að Sundstræti 41 á Ísafirði við húsleit síðar um kvöldið.

 

VI.

(m. 314-2017-5103)

á hendur ákærða Adam, fyrir brot í nánu sambandi, með því að hafa þann 1. nóvember 2017, á alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu og velferð sambýliskonu sinnar, Z, með því að ráðast á hana, stappa og sparka ítrekað í andlit hennar og líkama, þar sem hún lá á göngustíg við grindverk gervigrasvallar á Torfnesi á Ísafirði, með þeim afleiðingum að hún hlaut mar á hægra auga, bólgu á efra og neðra augnlok á hægra auga, eymsli yfir os zygomaticus hægra megin, eymsli yfir gagnaugasvæði, verk í hægra hné og niður á hægri fótlegg.

 

VII.

(m. 314-2017-5611)

[…].

 

Telst ákæruliður III. varða við 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ásamt síðari breytingum.

Teljast ákæruliðir IV. og V. varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Telst ákæruliður VI. varða við 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Er þess krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og alls sakarkostnaðar.

 

Vegna ákæruliðar IV.

Finnur Árnason, f.h. Haga hf.,  krefst þess að Adam Szablowski, X og Z verði gert að greiða skaðabætur samtals að fjárhæð kr. 45.519, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað, eða þann 26. september 2017, og þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvexti, sbr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

 

            Síðari ákæran var gefin út 17. febrúar á hendur Z og Adam Szablowski fyrir eftirtalin brot:

I.

(m. 314-2018-1403)

[…].

II.

á hendur ákærðu Z og Adam Szablowski, fyrir húsbrot og þjófnað, með því að hafa í sameiningu strax í kjölfar atvika skv. ákærulið I., farið inn um bakdyr Bakarans ehf. að Hafnarstræti 15 á Ísafirði og stolið þaðan, úr kæli fyrir innan dyrnar, tveimur pakkningum af osti, einni öskju af smjöri og tveimur flöskum af safa, alls að andvirði kr. 2.790, en lögreglan stöðvaði för þeirra skömmu síðar við Norðurveg þar sem vörurnar voru endurheimtar. 

            Telst ákæruliður II. varða við 1. mgr. 244. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ásamt síðari breytingum.

Er þess krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Mál samkvæmt síðari ákæru var sameinað fyrra máli á hendur ákærðu með vísan til heimildar 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008. Með hliðsjón af atvikum var þáttur ákærða Adams skilinn frá því sameinaða máli með vísan til heimildar í 2. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008.

 

A

Fyrri ákæra, útgefin 20 febrúar 2018

 

Ákæruliður III og IV:

Ákærði kom fyrir dóm við þingfestingu málsins 27. mars sl. og játaði sök samkvæmt ákæruliðum III og IV, eins og þeim er lýst í ákæru og féllst á bótakröfu sem höfð er uppi í málinu. Ákærði mætti ekki fyrir dóm við aðalmeðferð málsins, en upplýst var að hann væri farinn af landi brott. Játning ákærða samræmist gögnum málsins og meðákærðu hafa játað á sig sakir samkvæmt þessum ákæruliðum sömuleiðis. Háttsemi ákærða samkvæmt nefndum ákæruliðum telst því sönnuð og réttilega heimfærð til lagaákvæða.

 

Ákæruliður V:

I

Ákærði neitaði sök hvað varðar ákærulið V við þingfestingu málsins og í skýrslutöku hjá lögreglu. Skýrsla var tekin af ákærða daginn eftir að þau atvik áttu sér stað sem ákært er fyrir. Ákærði kaus að koma ekki fyrir dóm við aðalmeðferð málsins, en fór af landi brott ásamt meðákærðu Z. Í skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst ákærði hafa verið að veiða þetta kvöld ásamt X, en farið heim á undan honum. Hann hafi neytt áfengis, drukkið vodka og bjór, sem hann hafi átt heima. Taldi hann það hafa verið Viking bjór í gulum og rauðum dósum. Þá hélt hann að hann hefði verið klæddur í ljósbláar gallabuxur og leðurjakka þetta kvöld.

            Við aðalmeðferð málsins gaf skýrslu vitnið A, sem kvaðst hafa séð tvo grímuklædda menn hlaupa frá suðurhlið hótelsins og framhjá Klæðakoti þegar hún var að skila bílaleigubíl.

            B kom fyrir dóminn og lýsti atvikum þetta kvöld, en þá var hann einn að vinna. Kvaðst hann hafa verið í „lobbyi“ hótelsins fram undir hálf ellefu en hafi þá farið fram í eldhús. Þar hafi hann séð mann krjúpa við peningakassann. Maðurinn hafi verið með lambhúshettu og honum hefði brugðið þegar B kom og ávarpaði hann. Maðurinn hafi farið út gegnum eldhúsið, þar sem annar maður hafi verið fyrir. B hafi elt þá að útdyrum eldhússins og ætlað út á eftir þeim en hurðinni hafi verið haldið fastri. Hafi hann þá ýtt á hurðina og komist út og séð tvo menn hlaupa burt og fyrir horn á klæðaverslun í næsta húsi. Á steinvegg við útidyrnar hafi staðið bjórdósir sem hann taldi vera úr kæli hótelsins, bjór sem hann hafði sett á kælinn daginn áður. Vitninu var sýnd mynd af fjórum bjórum, af gerðinni Viking, í grænni dós og svörtum. Kannaðist hann við að þetta væri bjór, eins og hann hefði sett í kælinn og gæti stemmt að hefði vantað eftir þjófnaðinn. Vitnið kvaðst hafa heyrt á tal mannanna, sem hafi talað saman á pólsku. Hann tali ekki pólsku en þekki tungumálið þar sem margir starfsmenn hótelsins séu pólskir. Þá kvað vitnið manninn sem hann sá innan dyra hafa verið í dökkri úlpu með eitthvað hvítt á öxlinni.

            Fyrir dóminn komu einnig og gáfu skýrslu lögreglumenn nr. 0821, nr. hl290 og hl1290, sem komu að atvikum umrætt kvöld. Báru þau öll í aðalatriðum á sama veg um atvik. Tilkynning hefði komið um að stolið hefði verið áfengi og mögulega fleiru á Hótel Ísafirði. Þjófarnir hefðu hlaupist á brott og verið með lambúshettur. Lögreglumenn nr. 0821 og hl1290 kváðust hafa kannast við lýsingu á gerendum og talið sig hafa haft afskipti af þeim fyrr um daginn. Tilkynnt hefði verið um menn að bera bjórkúta inn í hús. Þegar til kastanna kom hefði raunin ekki verið sú heldur hefði ákærði ásamt Z verið að bera ísskáp inn á heimili þeirra. Hefði þetta átt sér stað um kl. 17:00. Þá hefði sést til ákærða og X á gangi við bryggjuna um kl. 20:30 þetta kvöld með veiðistöng í hendi og gular bjórdósir. Þar sem lýsing starfsmanns hótelsins á fatnaði gerenda passaði við fatnað nefndra manna og hann hefði heyrt á tali þeirra að þeir væru Pólverjar hefði vaknað grunur um að hér væru sömu menn á ferðinni. Menn sem lögregla hefði ítrekað haft afskipti af og þekkti vel í sjón. Hefði því verið farið strax heim til hinna grunuðu þar sem ákærði og Z hittust fyrir. Á staðnum hefðu fundist fjórar ískaldar bjórdósir, af þeirri tegund er saknað var úr kæli hótelsins, nánar tiltekið á gólfi inni í herbergi ákærða og Z. Þá hafi hangið á snaga í herberginu, dökk úlpa með hvítu merki á öxl. Aðspurð á staðnum hefði þeim Z og ákærða ekki borið saman um það hvar bjórinn hafði verið geymdur áður en hann var borinn í herbergið þar sem hann fannst. Ákærði hafi sagt bjórinn hafa verið úti en Z sagt hann hafa verið í ísskápnum. Töldu lögreglumennirnir allir útilokað annað en bjórinn væri sá sem saknað var, hann hafi verið svo kaldur að unnt var að „skrifa á hann“. Hlýtt hafi verið í veðri, um sjö stiga hiti og ísskápurinn á staðnum ekki fullkaldur, enda aðeins verið í húsinu í nokkar klukkustundir og var auk þess tómur. Samkvæmt rannsóknargögnum fannst auk fyrrnefndra bjórdósa kassi af gulum bjórdósum í húsinu, en engin þeirra mun hafa verið köld.

II

            Eins og áður var rakið nýtur, hvað sakargiftir ræðir, framburðar vitnanna A og B og eru frásagnir þeirra fyrir dómi trúverðugar og í samræmi við skýrslur þeirra hjá lögreglu á rannsóknarstigi. Þá gáfu skýrslu þrír lögreglumenn sem einnig báru í góðu samræmi við skýrslur þær sem gerðar voru á rannsóknarstigi. Á vettvangi fundust bjórdósir sömu gerðar og þær sem teknar höfðu verið af hótelinu, skömmu áður en lögreglumenn komu á heimili ákærða, eini kaldi bjórinn á heimilinu, þar sem aðeins var að finna ísskáp sem ekki hafði verið í sambandi nema stuttan tíma. Þá fannst þar og fatnaður sem var í samræmi við lýsingu vitna á þeim mönnum sem til sást á vettvangi brotsins, þ.e. úlpa ákærða sem auðþekkt er af merki á upphaldlegg. Flíkin var ekki haldlögð en ljóst má vera að hún er eign ákærða, þar sem í málinu liggur fyrir mynd af ákærða í flíkinni. Þá ber og til þess að líta að ákærði og Z voru missaga á vettvangi um hvar títtnefndur bjór hafði verið geymdur til kælingar. Að öllu þessu virtu verður að telja að með framburði vitna og rannsóknargögnum hafi verið færð fram fullnaðarsönnun fyrir því að ákærði hafi gerst sekur um það brot sem honum er gefið að sök í þessum ákærulið og brotið sé réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru.

 

Ákæruliður VI:

I

            Ákærði neitaði sök samkvæmt þessum ákærulið við þingfestingu málsins 27. mars sl., en er sem fyrr segir farinn af landi brott ásamt brotaþola Z. Í skýrslu sinni hjá lögreglu lýsti ákærði atvikum með þeim hætti að hann og Z hefðu verið á heimleið úr Bónus. Hún hefði verið frekar full og ýtt í hann og þá hefði hann ýtt við henni svo hún hefði dottið. Hann hefði svo hjálpað henni á fætur. Hann kvaðst ekki muna eftir því að hafa sparkað í Z. Að öðru leyti kvaðst hann ekki muna eftir atvikum en Z myndi mögulega betur eftir þessu.

            Vitnið Z, brotaþoli, bar í skýrslu sinni hjá lögreglu, daginn eftir atvikið, að hún myndi ekki eftir þessum atvikum. Hún myndi ekki eftir að hafa dottið, hún myndi ekki neitt.

            C, kom fyrir dóminn og lýsti atvikum á þá leið að hann hefði komið að líkamsárás. Hann hafi verið að aka Skutulsfjarðarbraut í átt að heimili sínu þegar hann sá mann ráðast á stelpu, kvenmann. Hún hafi legið varnarlaus upp við girðingu og hann hafi séð árásarmanninn sparka allt að sjö sinnum í hana þar til hann náði að stöðva bifreið sína úti í kanti. Maðurinn hafi sparkaði í andlit stúlkunnar, síðu, brjóst, frá mjöðm og uppúr. Vitnið kvaðst hafa farið úr bílnum og öskrað á manninn, sem þá hafi verið að stappa á konunni. Árásarmaðurinn hafi hætt og komið ógnandi á móti sér svo hann hafi bakkað frá, en ekki látið það stöðva sig vegna þess sem þarna fór fram. Árásarmaðurinn hafi þá farið en vitnið hringt til lögreglu og beðið hjá stúlkunni. Hún hafi verið mjög hrædd. Hann hafi reynt að tala við hana en ekki skilið hana. Hún hafi kveinkað sér undan verk í síðu og þá hafi hann séð roða á andliti hennar eins og eftir högg. Þá sagðist vitninu svo frá að þriðji maður hefði verið á staðnum en farið strax. Áður en lögregla kom á staðinn hefði árásarmaðurinn snúið aftur á vettvang. Hann hefði gengið rösklega til stúlkunnar svo vitnið hafi hörfað frá, sér til varnar. Þau hafi talað saman og öskrað hvort á annað en svo fallist í faðma og gengið saman í burtu. Þegar lögreglu bar að garði benti vitnið á parið sem aðila málsins. Vitnið kvaðst hafa þekkt árásarmanninn af myndum sem hann hefði séð á vef Ísafjarðarmarkaðarins.

            Lögreglumaður nr. 9610 bar fyrir dómi að hann hefði komið á vettvang og hitt þar fyrir tilkynnanda sem benti á geranda og þolanda. Stúlkan hafi verið hrædd og illa áttuð, rauð í andliti og hélt fyrir það. Ákærði hafi sýnt lögreglu ógnandi hegðun, rétt hnefa að sér. Hefði hann verið handtekinn og færður í klefa.

            Lögreglumaður nr. 9713 bar á sama veg. Ákærði hafi haldið konunni og leitt hana áfram þegar lögregla kom á vettvang. Hann kvað konuna hafa verið „eins og hrædd[a] mús“. Hún hafi verið rauð um augun og þrútin. Á lögreglustöð hafi hún komið inn á skrifstofu sína en hún tali ekki íslensku. Starfsmaður Velferðarsviðs hafi verið sóttur og kallaður til lögreglumaður, sem er pólskumælandi. Brotaþoli hafi fyrst viljað þiggja aðstoð velferðarsviðs til að fara frá ákærða en fallið frá því síðar.

            Lögreglumaður hl1290, bar fyrir dómi að brotaþoli hefði fyrst sagt sér að hún hefði dottið í stiga. Hún hefði svo brotnað saman og sagt að ákærði hefði meitt sig. Hún hafi verið mjög hrædd, meidd í andliti og kvartað undan verk í hné og mjöðm.

            Læknir nr. 1422 gaf skýrslu í síma og staðfesti læknisvottoð sitt í málinu. Læknirinn hafði skoðað þrotaþola að kvöldi 1. nóvember 2017 með aðstoð túlks. Taldi hann að áverka konunnar hafa verið „ferska“, mögulega eftir stapp með fæti, eitt högg eða fleiri, eftir þunga.

            Í málinu liggur fyrir skýrsla lögreglu um eftirfylgni lögreglu og félagsþjónustu vegna meints heimilisofbeldis. Á þeim fundi kvaðst Z ekki hafa orðið fyrir heimilisofbeldi af hálfu sambýlismanns. Hún hefði ekki leitað aftur til læknis vegna þeirra áverka sem hún hlaut við atvikið sem málið varðar. Þá afþakkaði hún þjónustu félagsþjónustunnar. Z upplýsti jafnframt að hún væri atvinnulaus. Hefði ekki íslenska kennitölu er sambýlismaður hennar hefði fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Þá kvaðst hún ekki eiga ættingja eða vini hér á landi.

 

II

Í skýrslu ákærða, sem tekin var hjá lögreglu, bar ákærði við minnisleysi um atvikið en taldi ólíklegt að brotaþoli væri með honum ef hann hefði verið henni vondur. Verður lítið á því byggt um hvað átti sér stað miðvikudaginn 1. nóvember 2017.

Vitnið C, sjónarvottur að atvikum, bar fyrir dómi að hann hefði séð ákærða sparka og stappa ítrekað í höfuð, andlit og búk Z. Þá mat vitnið aðstæður svo alvarlegar að hann taldi sig knúinn til að grípa inn í þær, jafnvel þó ákærði hefði í frammi ógnandi tilburði gangvart honum.

Framburður brotaþola hjá lögreglu, þar sem brotaþoli þóttist koma af fjöllum um atvik málsins, verður ekki metinn trúverðugur, enda í algerri mótsögn við rannsóknargögn, framburð vitnisins C, læknisvottorð og ljósmyndir af brotaþola sem teknar voru sama dag. Allt þetta er að mati dómsins því til sönnunar að brotaþoli hafi orðið fyrir ofbeldi. Þá ber við mat á framburði brotaþola einnig að líta til þess að brotaþoli hefur búið hjá ákærða frá því hún kom til landsins, hún er tuttugu árum yngri en hann og honum algerlega háð um lífsviðurværi, auk þess sem verulegur og sjáanlegur munur er á líkamsburðum þeirra. Brotaþoli hefur ekki íslenska kennitölu, hefur ekki haft hér atvinnu, né átt rétt á bótum sér til framfærslu hér á landi. Liggur því fyrir að mati dómsins að verulegur aðstöðumunur er með aðilum og brotaþoli háður ákærða með þeim hætti að óvarlegt er að leggja framburð hennar til grundvallar í málinu.

            Að mati dómsins eru framburðir þeirra vitna sem komu fyrir dóminn í góðu samræmi við rannsóknargögn málsins og trúverðugir.

Að framangreindu virtu og gögnum málsins er það niðurstaða dómsins að sannað sé að ákærði hafi með háttsemi sinni veist að brotaþola með þeim hætti sem lýst er í ákæru, þannig að hún hlaut áverka af.

Hvað heimfærslu brots ákærða til refsiákvæðis varðar skal til þess litið að
1. mgr. 218. gr. b, almennra hegningarlaga nr. 19/19194, sbr. 4. gr. laga nr. 23/2016 um brot í nánu sambandi, er ætlað að færa athygli á ógnar- og óttaástand sem getur skapast milli sambúðarfólks og jafnframt á viðvarandi, kúgun og vanmátt sem þolandi við slíkar aðstæður upplifir. Er gert ráð fyrir því að ákvæðinu sé að meginstefnu beitt einu og sér en ekki samhliða öðrum refisákvæðum hegningarlaga. Í þessu samhengi er rétt að árétta að ákvæðið er ekki bundið við fólk í skráðri sambúð, né hefur brotavettvangur sérstaka þýðingu fyrir beitingu þess.

Samkvæmt 1. mgr. 218. gr. b. laga alm. hgl. er það gert að skilyrði að háttsemi sé endurtekin eða alvarleg svo hún verði refsiverð samkvæmt ákvæðinu. Með því að háttsemi sé endurtekin er vísað til þess að hún hafi staðið yfir í lengri eða skemmri tíma þannig að telja megi að viðvarandi ógnarástand hafi skapast. Þó er ekki útilokað að einstakt brot geti fallið undir ákvæðið ef það nær tilteknu alvarleikastigi.

            Í máli þessu var um að ræða eitt alvarlegt tilvik. Ítrekuð spörk og stapp á andlit, höfuð og líkama brotaþola, sem er smágerð kona. Taldi sjónarvottur að um barn væri að ræða og hikaði ekki við að grípa í aðstæður. Telur dómurinn sýnt að háttsemi ákærða gagnvart brotaþola hafi verið til þess fallin að ógna lífi og heilsu brotaþola og brot hans því réttilega heimfært til refsiákvæðis.

 

B

Seinni ákæra, útgefin 17. apríl 2018

Ákæruliður II:

Ákærði kom fyrir dóm þann 18. apríl s.l. og viðurkenndi brot sitt samkvæmt þessum ákærulið. Játning ákærða samrýmist gögnum málsins. Umrætt brot telst því sannað og varðar það við tilgreind lagaákvæði í ákærulið II.

 

C

Samkvæmt framansögðu hefur ákærði verið fundinn sekur um margvísleg og ítrekuð hegningarlagabrot og þannig unnið sér til refsingar með háttsemi sinni. Við ákvörðun refsingar verður litið til 77. gr. sem og 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sérstaklega 5., 6. og 7. tl. 1. mgr. sem og 3. mgr. 70. gr. hvað líkamsárásina varðar, þar sem brotaþoli var honum algerlega háð og árásin fólskuleg. Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða hefur hann í tvígang áður sætt viðurlögum vegna þjófnaðarbrota. Í ljósi framangreinds þykir hæfileg refsing ákærða vera fangelsi í sex mánuði.

Ákærði samþykkti fyrir dómi skaðabótakröfu Haga hf. að fjárhæð kr. 45.519, auk vaxta og dráttarvaxta. Á grundvelli þess verður ákærði dæmdur til greiðslu nefndar fjárhæðar með vöxtum og dráttarvöxtum, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sbr. 235. gr. laga nr. 88/2008. Sakarkostnaður á rannsóknarstigi samkvæmt yfirliti saksækjanda nam 91.924 kr. Auk þess greiði ákærði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Óskars Ásvaldsssonar lögmanns, 168.640 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti.

Bergþóra Ingólfsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

 

Ákærði, Adam Szablowski, sæti fangelsi í sex mánuði.

Ákærði Adam Szablowski greiði Högum hf. óskipt með meðákærðu X og Z 45.519 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 26. september 2017 til 12. apríl 2017, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Óskars Ásvaldssonar lögmanns, 168.640 krónur, og 91.924 kr. í annan sakarkostnað.

 

                                                            Bergþóra Ingólfsdóttir