• Lykilorð:
  • Sjómenn

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 9. mars 2018 í máli nr. E-70/2016:

Verkalýðsfélag Vestfirðinga

(Eva Bryndís Helgadóttir lögmaður)

gegn

Hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf.

(Jón R. Pálsson lögmaður)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 30. janúar sl., var höfðað af Verkalýðsfélagi Vestfirðinga, [...], [...], á hendur Hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf., [...], [...], með stefnu birtri 7. nóvember 2016.

Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði að stefnda hafi borið að greiða félagsmönnum stefnanda, skipverjum á fiskiskipinu Júlíusi Geirmundssyni ÍS-270, kauptryggingu í samræmi við núgildandi kjarasamning Alþýðusambands Vestfjarða og Landssambands Íslenskra útvegsmanna og Samtaka atvinnulífsins vegna tímabilsins 29. júní til 30. júlí 2016. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins auk álags er nemi virðisaukaskatti af málskostnaði.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að hann verði einungis dæmdur til að greiða þeim nafngreindu félagsmönnum stefnanda kauptryggingu sem hefðu verið í áhöfn skipsins Júlíusar Geirmundssonar á tímabilinu 29. júní til 30. júlí 2016, ef þeir staðfesta fyrir dómi að þeir hafi ekkert vitað um veiðistopp skipsins vegna viðhalds/slipps og þeir hafi boðið fram vinnuframlag sitt á sama tímabili og ekki verið í orlofi. Þá er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

Í greingargerð stefnda var þess aðallega krafist að málinu yrði vísað frá dómi en með úrskurði héraðsdóms 14. júní 2017 var þeirri kröfu hafnað.

Með bréfi dómstólaráðs, dagsettu 6. september 2017, var dómara málsins falin áframhaldandi meðferð þess en dómarinn hafði farið með málið frá þingfestingu þess sem héraðsdómari við Héraðsdóm Vestfjarða.

 

II

Málsatvik og yfirlit ágreiningsefna

Stefndi er rekstraraðili Júlíusar Geirmundssonar ÍS-270 og í áhöfn skipsins eru m.a. félagsmenn stefnanda. Á tímabilinu frá 29. júní til 30. júlí 2016 var skipinu ekki haldið til veiða og var það í slipp í Reykjavík. Í máli þessu deila málsaðilar um það hvort stefnda hafi borið að greiða skipverjum á skipinu kauptryggingu á þessu tímabili á grundvelli ákvæða kjarasamnings sem stefnandi stóð að og gerður var á milli Alþýðusambands Vestfjarða annars vegar og hins vegar Landssambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka atvinnulífsins, og tók gildi 1. janúar 2009. Stefnandi er félag verkafólks á Vestfjörðum og hefur félagið nú yfirtekið réttindi og skyldur Alþýðusambands Vestfjarða vegna kjarasamninga. Þá hefur stefndi á sama hátt yfirtekið réttindi og skyldur Landssambands íslenskra útvegsmanna.

Um aðdraganda þess að skipið fór ekki til veiða á þessum tíma eru málsaðilar ekki sammála. Stefnandi byggir á því að tilkynningar til áhafnar um fyrirhugað veiðistopp hafi verið óljósar, þ.e. varðandi það hvenær eða hvort veiðistopp væri fyrirhugað, auk þess sem áhöfninni hafi ekki verið greint frá því að til stæði að taka menn af launaskrá ef til veiðistopps kæmi. Áður en haldið var til veiða eftir sjómannadag, 5. júní 2016, hafi verið haldinn fundur með þeim hluta áhafnar sem þá átti að fara í veiðiferð en í hverja veiðiferð fari 18 hásetar, þrír vélstjórar, kokkur, fyrsti og annar stýrimaður skipstjóri. Á þeim fundi hafi verið framkvæmdastjóri og staðgengill útgerðarstjóra og hafi þá verið farið yfir tölur úr síðustu veiðiferð og það rætt að gert væri ráð fyrir að skipið færi í slipp að lokinni næstu veiðiferð og í framhaldi af því í kælimiðlaskipti. Hafi verið áætlað að þetta tæki um fjórar vikur. Þeir áhafnarmeðlimir sem ekki voru á fundinum hafi engar spurnir hafi af fyrirhuguðu viðhaldsstoppi nema af afspurn. Aldrei hafi verið greint frá því að menn yrðu kauplausir á meðan skipinu yrði ekki haldið til veiða og það sé í andstöðu við það sem áður hafði tíðkast.

            Stefndi byggir hins vegar á því að allt frá ársbyrjun 2016 hafi veiðiáætlun og áætluð innivera skipsins verið áhöfninni ljós. Tilkynning um löndunarplan fyrir fyrstu fimm mánuði ársins 2016 hafi verið uppi á vegg í brú skipsins auk þess sem mánaðarlegir fundir hafi verið haldnir með áhöfn skipsins fyrir hverja brottför. Einnig hangi þar tilkynningar um brottför skipsins í næstu veiðiferð þess og fleira. Þá hafi allir áhafnarmeðlimir vitað eða átt að vita að skipið væri á leið í slipp og kælimiðlaskipti í framhaldi af því og að stoppið gæti tekið 4-6 vikur, án þess að nákvæm dagsetning væri gefin upp fyrr en við brottför eftir sjómannadag. Þá hafi verið haldinn fundur með áhöfn og henni tilkynnt að eftir næsta túr yrði farið í slipp eins og áætlað hefði verið. Stefndi segir rangt að hluta áhafnar hafi verið gerð grein fyrir því með óformlegum hætti hvað stæði til áður en skipinu var siglt til Reykjavíkur í slipp. Stefndi beri einungis ábyrgð á upplýsingaskyldu gagnvart þeim 25 stöðugildum sem séu um borð í skipinu en útgerðin geti ekki borið ábyrgð á þeim sem séu í skiptimannakerfi.

            Með bréfi, dagsettu 24. ágúst 2016, var af hálfu stefnanda gerð krafa um að stefndi greiddi félagsmönnum stefnanda, skipverjum á skipinu, kauptryggingu vegna tímabilsins í samræmi við kjarasamning. Leiddi það til bréfaskipta milli aðila og síðan til málsóknar þessarar.

            Í þinghaldi í máli þessu 21. júní 2017 skoraði stefndi á stefnanda að upplýsa hvaða félagsmenn hans, þ.e. hvaða einstaklingar, teldu sig hafa verið hlunnfarna um veiðiferð með frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni á tímabilinu 29. júní 2016 til 30 júlí 2016 og hefðu ekki verið í orlofi (fríi) á þessu tímabili. Einnig skyldi stefnandi upplýsa, ef slíkum einstaklingum væri til að dreifa, af hverju þessir einstaklingar mættu ekki til vinnu hjá útgerðinni á sama tímabili og þáðu ekki vinnu hjá útgerðinni, t.d. viðhaldsvinnu um borð í skipinu. Í tilefni af bókun þessari lagði stefnandi fram bókun í þinghaldi 6. september 2017. Segir þar að stefnandi telji að bókun stefnda samrýmist ekki réttarfarslögum. Stefnandi hafi ekki undir höndum nein gögn sem falli að hugtaksskilyrðum 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 og lúti að þeim atriðum sem rakin eru í bókun stefnda. Málsaðila verði ekki ætlað að útbúa skjöl eða gögn til framlagningar í dómsmáli. Þá feli spurningar stefnda í sér staðhæfingar um málsatvik sem verði ekki lagðar til grundvallar svörum við spurningum þessum og staðhæfingum sem fjallað verði annaðhvort um í munnlegum framburði fyrir dómi eða í málflutningi af hálfu stefnanda.

            Við aðalmeðferð málsins gaf A, formaður stefnanda, aðilaskýrslu. Þá gáfu vitnaskýrslur B, fyrrverandi háseti, C, fyrrverandi útgerðarstjóri stefnda, D yfirstýrimaður, E háseti, F, fyrrverandi forstöðumaður skipaþjónustu stefnda, og G vélstjóri.

 

III

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi höfðar mál þetta samkvæmt heimild í 3. tölulið 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem meðal annars er kveðið á um að félagi eða samtökum manna sé heimilt í eigin nafni að reka mál til viðurkenningar á tilteknum réttindum félagsmanna sinna. Í máli þessu sé leitað viðurkenningar á rétti félagsmanna stefnanda samkvæmt kjarasamningi sem stefnandi hefur gert á grundvelli lagaskyldu þar um í 5. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Tilgangur stefnanda sé sá, meðal annars, að annast samningagerð fyrir félagsmenn sína og hagsmunagæslu fyrir þá.

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á kjarasamningi sem stefnandi stóð að á milli Alþýðusambands Vestfjarða annars vegar og hins vegar Landssambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka atvinnulífsins, sem undirritaður var 17. desember 2008 og hefur gilt frá 1. janúar 2009. Stefnandi hefur nú yfirtekið réttindi og skyldur Alþýðusambands Vestfjarða hvað kjarasamninga áhrærir og stefndi á sama hátt yfirtekið réttindi og skyldur Landssambands íslenskra útvegsmanna.

Þá bendir stefnandi á því kjarasamningur aðila fjalli um lágmarkskjör í skilningi 1. gr. laga nr. 55/1980, sem stefnandi hafi samið um fyrir félagsmenn sína á grundvelli lögbundins umboðs, sbr. 5. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938. Stefndi sé bundinn af þeim kjarasamningi sem stefnandi hafi gert við Samtök atvinnulífsins og Samtök fyrirtækja í fiskiðnaði (áður LÍÚ) og geti ekki vikist undan þeim samningum.

Einnig vísar stefnandi til þess að í ákvæðum kjarasamningsins felist að útgerð stefnda beri skylda til að greiða skipverjum kauptryggingu þegar skipið er frá veiðum, þar með talið vegna viðgerðar og viðhalds í slipp, nema áhöfninni hafi verið sagt upp af því tilefni, en þá gildi eftir atvikum ákvæði kjarasamningsins þar að lútandi. Í þessu tilviki hafi engum í áhöfninni verið sagt upp né hafi skipulagi verið hagað þannig að viðhaldsstoppið félli saman við orlofstöku áhafnar. Áhöfn hafi verið kynntar áætlanir um landanir í ársbyrjun 2016 en þar hafi ekkert komið fram um fyrirhugað viðhaldsstopp. Þá hafi áætlunin einungis tekið til fyrstu fimm mánaða ársins, fram til sjómannadags í byrjun júní, en stoppið hafi verið nánast mánuði síðar. Loks beri yfirlit yfir landanir skipsins með sér að skipið hafi farið í tvær ferðir til viðbótar þeim sem kynntar voru í ársbyrjun, áður en að veiðistoppinu kom. Áhöfn skipsins hafi því ekki verið grandsöm um fyrirhugað stopp í veiðiferðum skipsins í maí eða júní eða að til stæði að taka áhöfnina af launaskrá á þeim tíma. Af þeim sökum gildi í þessu tilviki öll almenn ákvæði kjarasamningsins um rétt áhafnar þegar skipi er ekki haldið til veiða að ákvörðun útgerðar.

Þá vísar stefnandi til þess að í gr. 1.18 í kjarasamningnum segir berum orðum að fari viðhalds- eða viðgerðarvinna fram utan heimahafnar skips skuli skipverjar, aðrir en vélstjórar sem vinna viðhaldsvinnu við skipið, fá greitt á dag sem svarar kauptryggingu eins og hún sé á hverjum tíma. Af því sé stefndi bundinn. Óumþrætt sé að skipinu var siglt frá Ísafirði til Reykjavíkur 30. júní 2016. Skipið fór í slipp 8. júlí og var í Reykjavík þar til því var haldið til veiða 30. júlí. Þann tíma hafi stefnda borið að greiða allri áhöfn skipsins kauptryggingu samkvæmt fyrrgreindu ákvæði með sama hætti og áður hafi verið gert hjá stefnda í svipuðum tilvikum vegna viðhalds skipsins.

            Loks telur stefnandi að engu breyti þó hluta áhafnarinnar hafi verið gerð grein fyrir því með óformlegum hætti hvað til stæði áður en skipinu var siglt til Reykjavíkur. Engum formlegum tilkynningum hafi verið komið á framfæri þar að lútandi þrátt fyrir skyldu útgerðarinnar í því efni. Kveðið sé á um það í c-lið gr. 5.3.1 í kjarasamningi að upplýsa beri áhöfn um ætlaða lengd veiðiferðar að minnsta kosti þrjá mánuði fram í tímann og tilkynna beri áhöfn svo fljótt sem verða má ef breytingar verða á þeirri áætlun. Stefnandi byggi á því að kjarasamningur geri þannig ráð fyrir því að áhöfn sé haldið upplýstri um það með góðum fyrirvara hvernær fyrirhugað sé að halda skipi til veiða og þá að sama skapi hvenær ekki stendur til að veiða. Það hafi ekki verið gert og áhöfnin hafi því verið í góðri trú um að skipinu yrði haldið til veiða allt sumarið, enda hafi skipinu yfirleitt verið haldið til veiða allt árið. Þar sem það hafi ekki verið gert beri að greiða áhöfn kauptryggingu samkvæmt ákvæði 1.18. Rétt sé einnig að halda því til haga að enginn skyndilegur ófyrirséður atburður olli því að viðhald á skipinu fór fram í júlí 2016. Útgerðinni hafi því ekkert verið að vanbúnaði að upplýsa um viðhaldið með góðum fyrirvara í samræmi við ákvæði kjarasamnings.

            Í þessu samhengi byggi stefnandi einnig sérstaklega á því að greiðsla kauptryggingar standi ekki í neinu sambandi við eða sé háð því skilyrði að skipverjar séu til taks í skipi til vinnu meðan þeir njóti kauptryggingarinnar. Þvert á móti geri kjarasamningurinn sérstaklega ráð fyrir því að áhöfn sem vinnur við veiðarfæri eða frágang skips áður en það fer í slipp skuli fá greitt fyrir þá vinnu samkvæmt tímavinnutaxta kjarasamnings, sbr. III. lið gr. 1.29. Þannig sé gert ráð fyrir því að skipverjum sé umbunað sérstaklega fyrir slíka vinnu, sem er annars konar en vinnan er jafnan um borð. Hvergi sé hins vegar að finna í kjarasamningi ákvæði er lúti að sérstakri vinnu eða viðveruskyldu sjómanna meðan skip er í slipp. Þá hafi slíkt aldrei tíðkast né þekkist slíkt í framkvæmd hjá stefnda. Málatilbúnaði stefnda í þá veru sé því mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Þá sé því og mótmælt sem röngu og ósönnuðu að skipverjum hafi verið gerð grein fyrir því að forsenda þess að þeim yrði greidd kauptrygging meðan skipið var í slipp væri sú að þeir mættu til skips. Enginn skipverji hafi verið boðaður til skips á þessum tíma og slík skylda eigi sér enga stoð, hvorki í kjarasamningi né lögum. Þvert á móti hafi réttmætar væntingar áhafnar staðið til þess að fá greitt með venjubundnum hætti eins og endranær, með sama hætti og áður hefði verið gert þegar skipið Júlíus Geirmundsson ÍS-270 hefði verið frá veiðum vegna viðhalds.

            Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna samningaréttar um skyldu til efnda samninga og vinnuréttar um réttar efndir ráðningarsamninga og rétt stefnanda til endurgjalds fyrir vinnu sína. Þá er vísað til laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og til sjómannalaga nr. 38/1985. Um aðild stefnanda er vísað til 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, krafa um málskostnað styðst við 130. gr. sömu laga og krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur og ber því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

 

IV

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi tilkynnt um veiðistopp frystiskipsins Júlíusar Geirmundssonar vegna viðhalds og slipps skipsins með sannanlegum hætti. Fullyrðingar í stefnu um að tilkynningar um veiðistoppið hafi verið „mjög óljósar“ styðjast ekki við framburð neins skipverja á skipinu, hvorki undirmanna né yfirmanna. Orðfæri í stefnu þar sem talað er um að „kallsað“ hafi verið um það á vegum útgerðarinnar í „ársbyrjun“ að skipið færi í slipp sýni glöggt að rætt hafi verið við áhöfnina með mjög löngum fyrirvara um að skipið færi í slipp um sumarið, í júlímánuði. Þetta hafi verið rætt á mánaðarlegum fundum áhafnar og stjórnenda. Áhöfn hafi verið tilkynnt um áætlaða inniveru samkvæmt c-lið gr. 5.31 í kjarasamningi í upphafi veiðiferðar eftir sjómannadag. Það sé því bæði rangt og ósannað að áhöfn skipsins ekki haft neina vitneskju um þetta veiðistopp vegna viðhalds, eins og stefnandi byggi á í stefnu. Þá sé ljóst að yfirmenn skipsins haldi ekki fram þeim fullyrðingum að þeir hafi verið grandsamir um slipp skipsins.

Þá byggir stefndi á því að skipverjar hafi vel vitað að ef þeir vildu halda kauptryggingu, launum, að loknu hafnarfríi í slippstoppinu þá yrðu þeir að mæta til vinnu við skipið. Þetta byggist á gr. 1.15 í kjarasamningi sem tekur til rekstrartruflana, þar sem tekið er fram að trygging falli niður sjö dögum eftir að skip er stöðvað. Ákvæðið sé sambærilegt við ákvæði í gr. 5.13 um tryggingartímabil á frystitogurum í kjarasamningi SSÍ og SFS en þar segir að eftir hafnarfrí megi líða sjö dagar án sérstakrar kaupgreiðslu og án vinnuskyldu. Aðeins einn háseti hafi óskað eftir að vinna um borð á þessu tímabili við viðhald á fiskvinnsluvélum sem hann gerði og kláraði það verk. Í framhaldi hafi verið haft samband við tvo háseta sem eru handlagnir og þeim boðin vinna við viðhald um borð í skipinu þar sem útgerðin hafi litið svo á að þeir væru í fríi og vildu kannski vinna á meðan skipið væri til viðgerðar. Einungis annar hásetinn hafi þegið vinnuna. Hafi hann unnið um borð á þessu tímabili og því fengið greidd laun fyrir vinnuframlag sitt. Það sé því rangt að enginn skipverji hafi verið boðaður til skips á þessum tíma, eins og fram komi í stefnu.

Einnig bendir stefndi á að útgerðin hafi einungis greitt tryggingu vegna ófyrirsjáanlegra stöðvana á Júlíusi Geirmundssyni ÍS-270. Það sé því einnig rangt sem fram komi í stefnu að útgerðin borgi tryggingu alltaf þegar skipið sé frá veiðum vegna viðhalds. Það hafi hins vegar verið hefð að útgerðin færi fram á að skipverjar tækju orlof á sama tíma og skipið væri frá veiðum vegna viðhalds.

Stefndi telur að þeir skipverjar sem ekki mættu til vinnu á umræddu tímabili eigi því hvorki rétt til tímavinnukaups né kauptryggingar. Skipverjar eigi að mæta til vinnu eins og þeim (og öðrum launþegum) beri að gera og sérstaklega eigi menn að mæta til vinnu ef þeir eru í einhverjum vafa, til að tryggja launarétt sinn. Meginregla vinnuréttarins sé að til að eiga rétt á kaupi þá verði skipverjar, eins og annað launafólk, að inna af hendi vinnu í þágu vinnuveitanda, eins og fram kemur í 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og einnig í dómum Hæstaréttar í málum nr. 129/2002 og 375/2004. Af ákvæðum sjómannalaga og kjarasamninga og dómum sé ljóst að kauptrygging sé ekki greidd nema fyrir vinnu sem skipverji er tilbúinn að inna af hendi á lögskráningartíma. Kauptrygging sé greidd fyrir sjóferð, veiðitúr, ef hlutur nær ekki tryggingu, sbr. gr. 1.03 og 1.17. Fullyrðingar í stefnu um að greiða skuli áhöfn kauptryggingu vegna viðhalds og slipps nema áhöfn hafi áður verið sagt upp og án tillits til vinnuskyldu eða orlofs skipverja eigi því enga stoð í lögum eða kjarasamningum. Grein 1.18 fjalli um uppihald og ferðir þegar skip eru í viðgerðum og áhöfn fer í ferð með skipinu til vinnu. Í raun gangi krafa stefnanda út á að hásetar fái greidd laun á sama tíma og þeir voru í orlofi og séu því á tvöföldum launum.

Loks byggir stefndi sýknukröfu sína á aðildarskorti stefnanda, sem eigi enga aðild að launakröfum félagsmanna sinna.

 

V

Forsendur og niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt skipverja á togaranum Júlíusi Geirmundssyni ÍS-270 til kauptryggingar í júlí 2016 þegar skipið var frá veiðum vegna slipptöku.

Stefnandi byggir á því að samkvæmt ákvæðum kjarasamnings beri stefnda að greiða skipverjum kauptryggingu þegar skipið er frá veiðum, þar með talið vegna viðgerðar eða viðhalds í slipp, nema að áhöfninni hafi verið sagt upp af því tilefni. Stefnandi höfðaði mál þetta á grundvelli heimildar í 3. tölulið 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málsástæðum stefnda til stuðning kröfum hans byggðum á aðildarskorti var hafnað með úrskurði dómsins 14. júní 2017 þar sem til úrlausnar var frávísunarkrafa stefnda. Verður ekki fallist á þá málsástæðu nú sem grundvöll sýknukröfu þar sem dómurinn telur að stefnandi hafi heimild til að fara með kröfu félagsmanna sinna á grundvelli 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, með vísan til laga stefnanda, aðallega 3. gr.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda skulu laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, vera lágmarkskjör. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir. Í gr. 1.04 í kjarasamningi háseta, matsveina og vélstjóra milli Alþýðusambands Vestfjarða og Landssambands íslenskra útvegsmanna og samtaka atvinnulífsins, hér eftir kallaður kjarasamningur, kemur fram að kauptrygging er lágmarkskaup sem útgerðarmaður skal tryggja skipverjum fyrir hvern mánuð (30 daga) af lögskráningartíma og er fjárhæð tryggingar þar nánar tilgreind.

Samkvæmt 27. gr. sjómannalaga tekur skipverji kaup frá og með þeim degi sem hann kemur til vinnu á skipinu. Þurfi hann að ferðast frá ráðningarstað til skips tekur hann kaup frá og með þeim degi er sú ferð hefst. Þá tekur skipverji, samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins, kaup til þess dags og að honum meðtöldum er ráðningu hans lýkur samkvæmt ráðningar- eða kjarasamningi og skiptir þá ekki máli þótt hann hafi áður verið afskráður. Loks á skipverji ekki rétt á kaupi fyrir þann tíma sem hann hliðrar sér hjá að vinna án þess að næg ástæða sé til, sbr. 3. mgr. ákvæðisins.

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á gr. 1.18 í kjarasamningi, sem ber yfirskriftina; Uppihald og ferðir þegar skip eru í viðgerðum, en þar segir í 1. mgr.: Fari viðhalds- eða viðgerðavinna fram utan heimahafnar skips skulu skipverjar, aðrir en vélstjórar sem vinna viðhaldsvinnu við skipið, fá greitt pr. dag sem svarar kauptryggingu eins og hún er á hverjum tíma. Í 2. mgr. ákvæðisins segir: Sé skip til viðgerðar utan heimahafnar, innanlands eða erlendis skal þeim skipverjum er bundnir eru skipinu, verða séð fyrir fæði og gistingu, á kostnað útgerðar. Þá er í 3. mgr. ákvæðisins fjallað um það tilvik þegar skipverjar geta ekki búið um borð vegna aðstæðna þar. Telur stefnandi að samkvæmt gr. 1.18 beri stefnda að greiða kauptryggingu fari viðhaldsvinna fram utan heimahafnar og að það sé ekki skilyrði fyrir greiðslu kauptryggingar að skipverji sé til taks til vinnu.

Þá byggir stefnandi á því að samkvæmt c-lið greinar 5.31 í kjarasamningi skuli tilkynna áhöfn við upphaf veiðiferðar hvenær áætlað sé að veiðiferð ljúki. Í ákvæðinu kemur einnig fram að verði breytingar á áætlaðri lengd veiðiferðar skuli það tilkynnt áhöfn eins fljótt og verða megi. Þá skal útgerð upplýsa áhöfn um áætlaða lengd veiðiferða a.m.k. þrjá mánuði fram í tímann. Loks kemur fram í ákvæðinu að breytingar frá áætlun varði ekki viðurlögum. Stefnandi byggir á því að áhöfn hafi ekki verið tilkynnt um veiðistoppið nema í mesta lagi hluta áhafnar, og þá óformlega, og því beri stefnda að greiða skipverjum kauptryggingu í samræmi við dómkröfu á grundvelli gr. 1.18 í kjarasamningi.

Þessu hafnar stefndi og byggir hann á því að skipverjum hafi verið tilkynnt um áætlaða inniveru í samræmi við framangreindan c-lið og hafi skipverjar vitað að samkvæmt gr. 1.15 í kjarasamningnum hefðu þeir að loknu hafnarfríi átt að mæta til vinnu við skipið til að halda kauptryggingu. Samkvæmt gr. 1.15 er gert ráð fyrir að trygging falli niður fyrir þau tímabil þar sem stöðvun verður vegna óviðráðanlegra orsaka, svo sem vegna skipskaða, verkfalls eða verkbanns. Ef um meiriháttar vélarbilanir er að ræða eða íshindranir fellur trygging þó ekki niður fyrr en sjö dögum eftir að skipstjóri eða útgerðarmaður hefur tilkynnt skipverjum stöðvunina. Þá vísar stefndi einnig til 27. gr. sjómannalaga hvað þetta varðar.

Óumdeilt er að skipverjum var ekki sagt upp umrætt sinn og að tilkynning um brottfarir og komur skipsins fram í byrjun júní 2016 hékk uppi í brú skipsins. Ljósrit af tilkynningunni liggur fyrir í málinu. Þar er ekki að finna neinar upplýsingar um áætlað stopp vegna töku skipsins í slipp heldur einungis áætlun um veiðiferðir fram að sjómannadegi. Er því ljóst að tilkynning þessi nær ekki til þess tíma sem skipið var í viðgerðarstoppi. Þá vísar stefndi til þess stefnandi byggi á því að „kallsað“ hafi verið um það meðal skipverja að slíkt stæði til og að tilkynnt hafi verið um stöðvun skipsins á fundi með áhöfn sem fór fram í upphafi síðustu veiðiferðar fyrir stöðvunina, en stefnandi telur að ekki hafi verið um fullnægjandi tilkynningu að ræða hafi hluta áhafnar verið sagt óformlega frá því hvað stæði til.

Af orðalagi stefnu um að kallsað hafi verið um fyrirhugað stopp má ráða að skipverjar hafi haft einhverja vitneskju um að til stæði að skipið færi í slipp, en samkvæmt framlögðum gögnum voru í janúar 2016 liðin tvö ár síðan skipið fór síðast í slipp. Stefndi leiddi fyrir dóminn nokkur vitni til skýrslugjafar við aðalmeðferð málsins. Í skýrslu D, yfirstýrimanns á skipinu, kom fram að fundur hefði verið haldinn um borð fyrir brottför skipsins eftir sjómannadag og þar hefði komið fram að búið væri að panta slipp í byrjun júlí og að það gæti skeikað einhverjum dögum til eða frá hvenær skipið færi í slipp. Hafi þá verið talað um að það ylti á því skipi sem væri á undan í slippnum. Á sama veg var framburður E, háseta á skipinu, og G vélstjóra. Þá bar F, útgerðarstjóri stefnda, á sama veg og taldi að allir hefðu vitað að til stæði að skipið færi í slipp um sumarið og hefði verið pantað pláss í slipp fyrir skipið í lok árs 2015. Stefnandi leiddi fyrir dóminn til skýrslugjafar B, sem var háseti á skipinu þegar atvik gerðust. Hann staðfesti að fundur hefði verið haldinn um borð áður en haldið var út eftir sjómannadag og kvaðst reikna með að þar hefðu verið viðstaddir flestir sem voru í þeirri áhöfn sem var að fara út á sjó. Á fundinum hafi einn skipverji spurt hvenær slippur yrði og fengið það svar að það væri óákveðið og færi skipið í slipp þegar pláss losnaði, en hann kvaðst ekki telja að þá hefði verið eitthvað rætt um dagsetningar eða um launagreiðslur. Síðar í framburði vitnisins kom fram að hann minnti að ekki hefði verið minnst á að skipið færi í slipp um mánaðamótin júní/júlí. Þá staðfesti hann að skipverjar hefðu rætt það hvort skipið færi í slipp um sumarið. Við mat á því hvort skipverjum hafi verið tilkynnt um stöðvun skipsins þarf að líta til þess að þeir einstaklingar sem stefndi leiddi fyrir dóminn til skýrslugjafar eru allir enn starfsmenn hjá stefnda. Það á hins vegar ekki við um vitnið B. Framburður hans varðandi það hvort rætt hafi verið um að slippurinn yrði um mánaðamótin júní/júlí var hins vegar ekki afdráttarlaus, og eins og rakið er hér að framan styður framburður hans að vissu marki það sem önnur framangreind vitni báru um. Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að sannað sé að á framangreindum fundi hafi verið tilkynnt um veiðistoppið. Ósannað er hins vegar hvað þar var rætt að öðru leyti, t.d. kauptrygging, og hvort þarna hafi verið viðstaddir allir þeir sem átt gætu rétt til kauptryggingar verði krafa stefnanda tekin til greina.

Eins og rakið hefur verið er skipverjum tryggð kauptrygging í gr. 1.04 í kjarasamningi. Stefnandi byggir kröfu sína í máli þessu á gr. 1.18. Það er mat dómsins að samkvæmt orðskýringu á 1. mgr. gr. 1.18 og samanburði á orðalagi 1. mgr. og 2. og 3. mgr. ákvæðisins verði ekki fallist á það með stefnanda að ákvæðið tryggi skipverjum þeim sem krafan varðar greiðslu kauptryggingar á þeim tíma sem skipið er í viðgerð eða viðhaldi utan heimahafnar án vinnuframlags, heldur taki ákvæðið til þeirra tilvika þegar skipverjar fylgja skipi til viðgerðar utan heimahafnar. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu, og eins og málatilbúnaði stefnanda er háttað, verður ekki fallist á að munnleg tilkynning til hluta skipverja breyti rétti skipverja til kauptryggingar á grundvelli ákvæðisins. Þá er til þess að líta að í dómaframkvæmd hefur verið áréttuð sú grundvallarregla vinnuréttar að launþegi eigi ekki rétt til launa nema að hann inni af hendi vinnu eða sé reiðubúinn til þess, nema um annað sé samið í kjarasamningi eða ráðningarsamningi. Kemur regla þessi m.a. fram í dómi Hæstaréttar í máli nr. 129/2002, en þar er vísað til lögskýringargagna sem varða 27. gr. sjómannalaga hvað þetta varðar. Af ákvæði 1.04 í kjarasamningi sjómanna, sem þá var efnislega eins og nú, verði ekki annað ráðið en að miðað sé við sama grunnsjónarmið. Með vísan til þessa er fallist á það með stefnda að til að viðhalda kauptryggingu í tilviki sem þessu þurfi skipverjar að bjóða fram vinnukrafta sína. Ekki er á því byggt af hálfu stefnanda í máli þessu að skipverjar hafi boðist til að vinna á þessu tímabili og kemur framangreint ákvæði gr. 1.04 því ekki til frekari skoðunar.

Með vísan til framangreinds er stefndi sýknaður af kröfu stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að málsaðilar beri hvor sinn kostnað af málinu.

Af hálfu stefnanda flutti málið Eva Bryndís Helgadóttir lögmaður og af hálfu stefnda flutti málið Jón R. Pálsson lögmaður.

Uppkvaðning dómsins hefur dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Lögmenn aðila og dómari töldu að ekki væri þörf á endurflutningi málsins.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Hraðfrystihúsið Gunnvör hf., er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Málskostnaður fellur niður.

 

                                                                        Sigríður Elsa Kjartansdóttir