• Lykilorð:
  • Eignaspjöll
  • Hótanir
  • Fangelsi
  • Skaðabætur
  • Skilorð

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 12. júní 2017 í máli nr. S-13/2017:

Ákæruvaldið                                                                      

(Karl Ingi Vilbergsson lögreglustjóri)

gegn

Eiríki Arnari Tryggvasyni

(Guðmundur Ágústsson hrl.)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 6. júní sl., höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með ákæru 1. apríl 2017 á hendur ákærða: „Eiríki Arnari Tryggvasyni, kt. [...], [...], [...],

 

I.

fyrir eignaspjöll með því að hafa að kvöldi föstudagsins 19. ágúst 2016, brotið hurð og rúðu í útidyrum veitingastaðarins Edinborg við Aðalstræti 7 á Ísafirði, með því skella henni á [e]ftir sér, og sömuleiðis brotið rúðu í glugga staðarins á vesturgafli hússins með því að kasta grjóti í hana og rúð[u] í útidyrahurð hússins, Aðalstrætismegin, með því að kasta grjóti í hana.

 

II.

fyrir hótanir, með því að hafa í ofangreint sinn, hótað A, starfsmanni veit[i]ngastaðarins, ofbeldi og lífláti, sem var til þess fallið að vekja ótta hjá henni um líf sitt og velferð.

Háttsemi ákærða skv. ákæ[r]ulið I. telst varða við 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en ákæruliður II. við 233. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Þá gerir B, kennitala [...], rekstrarstjóri Edinborgarhússins ehf., kennitala [...], þá kröfu fyrir hönd félagsins, vegna ákæruliðar I. að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 432.965 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá tjónsdegi og dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga til greiðsludags.

Ákærði krefst þess að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst ákærði þess að bótakrafa verði lækkuð. Þá gerir verjandi ákærða kröfu um málsvarnarlaun er greidd verði úr ríkissjóði.

 

II

Ákærði hefur viðurkennt þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Farið var með málið samkvæmt ákvæðum 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjandi og ákærði höfðu tjáð sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Málsatvikum er lýst í ákæru. Það er mat dómsins að játning ákærða samræmist rannsóknargögnum málsins og verður hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og eru brot hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

Ákærði er fæddur árið [...]. Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði ekki sætt refsingu. Við ákvörðun refsingar ákærða er litið til skýlausrar játningar hans, ungs aldurs og eðlis þeirra brota sem hann er ákærður fyrir. Með vísan til framangreinds og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Af hálfu Edinborgarhússins ehf. er gerð krafa um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 432.965 krónur auk vaxta, eins og að framan er rakið. Þá hafa verið lagðir fram reikningar því til stuðnings. Ákærði hefur samþykkt bótakröfuna en krefst þess að hún verði lækkuð sem nemi greiddum virðisaukaskatti með vísan til þess að tjónþoli hefði geta fengið skattinn endurgreiddan. Fyrir liggur að tjónþoli er ekki með virkt virðisaukaskattsnúmer. Með því verður hann ekki talinn hafa vanrækt að takmarka tjón sitt. Um er að ræða tjón sem er bein afleiðing af þeirri háttsemi sem ákærði hefur viðurkennt. Verður ákærði því dæmdur til greiðslu kröfunnar eins og hún er sett fram, auk vaxta eins og í dómsorði greinir.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns Guðmundar Ágústsonar hrl., 325.000 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, og útlagðan kostnað verjandans, 33.535 krónur.

Annan sakarkostnað leiddi ekki af meðferð málsins.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Eiríkur Arnar Tryggvason, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði Edinborgarhúsinu ehf., kennitala [...], 432.965 krónur í skaðabætur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. ágúst 2016 til 9. desember 2016 en dráttarvaxta samkvæmt 9., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 358.535 krónur í sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ágústssonar hrl., 325.000 krónur, og útlagðan kostnað verjandans, 33.535 krónur.

 

Sigríður Elsa Kjartansdóttir