• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Ítrekun
  • Umferðarlagabrot
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 18. apríl 2018 í máli nr. S-50/2017:

Ákæruvaldið

(Bryndís Ósk Jónsdóttir fulltrúi)

gegn:

Þórólfi Marel Jónassyni

 

I

 

Mál þetta, sem dómtekið var 23. mars sl., höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með ákæru 13. nóvember 2017 á hendur ákærða: „Þórólfi Marel Jónassyni, […], […], fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa mánudaginn 9. október 2017, ekið vinnuvélinni […], um vinnusal húsnæðis […], við […] […], ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ólöglegra ávana- og fíkniefna, sem og annarra deyfandi efna (í blóði mældist 150 ng/ml af kókaíni, 90 ng/ml af MDMA, 40 ng/ml af brómazepam, 5 ng/ml af klónazepam og 23 ng/ml af nítrazepam, auk þess sem amfetamín og tetrahýdrókannabínólsýra fannst í þvagsýni), en lögregla stöðvaði stjórnun ökutækisins.“

Í ákæru er brotið talið varða við 1., sbr. 2., mgr. 44. gr. og 1. og 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987 ásamt síðari breytingum. Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, ævilangrar sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Mál númer S-2/1018 var sameinað þessu máli. Það er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Vestfjörðum útgefinni 29. janúar 2018 á hendur ákærða:

 

„Fyrir eftirtalda þjófnaði, með því að hafa:

1.      Laugardaginn 19. nóvember 2016 í verslun Herragarðsins í verslunarmiðstöðinni Kringlunni við Kringluna 4-12 í Reykjavík, stolið fatnaði að verðmæti kr. 11.980.

 

2.      Fimmtudaginn 24. nóvember 2016 í vínbúð ÁTVR við Stekkjarbakka 6 í Reykjavík, stolið áfengisflösku að verðmæti kr. 5.599, en ákærði var kominn fram fyrir afgreiðslukassa vínbúðarinnar þegar starfsmaður hafði afskipti af honum.

 

Teljast brot þessi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Kröfur ákærða:

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins samkvæmt ákæru útgefinni
13. nóvember 2017, en til vara vægustu refsingar er lög heimila og að svipting ökuréttinda verði einungis í þrjú ár. Loks krefst ákærði þess að allur sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð, þar með talin hæfileg þóknun skipaðs verjanda ákærða.

Í þinghaldi 7. febrúar 2018 játaði ákærði brot sín samkvæmt ákæru útgefinni 29. janúar 2018 og krefst vægustu refsingar er lög heimila.

Þá er gerð krafa um að skipuðum verjanda ákærða verði tildæmd hæfileg málsvarnarlaun úr ríkissjóði, að mati dómsins, auk virðisaukaskatts á málsvarnarlaun, sbr. ákvæði laga nr. 50/1988 og laga nr. 119/1989.

 

A

Ákæra útgefin 13. nóvember 2017:

I

Samkvæmt skýrslu lögreglu 9. október 2017 sáu tveir lögreglumenn, sem við reglulegt eftirlit óku framhjá […], mann inn um glugga á húsinu, sem virtist óstöðugur og þurfa að styðja sig við vegg. Maðurinn gekk svo upp stiga og virtist eiga erfitt um gang. Þekktu lögreglumennirnir manninn sem ákærða.

Nokkru síðar óku lögreglumennirnir aftur framhjá húsinu og sáu þá ákærða þar sem hann stóð við fiskikar sem var á göfflum lyftara og var hann að moka ís í eða úr karinu. Virtist hann sljór og slapplegur.

Lögreglan ók framhjá húsinu í þriðja sinn og sást þá að lyftara var ekið með framenda út í dyr á húsinu og bakkað inn aftur. Ók lögreglan til móts við dyrnar að […] og sáu lögreglumennirnir ákærða bakka lyftaranum inn í húsnæði […]. Lögreglumenn ákváðu í framhaldi af þessu að ræða við ákærða. Hann neitaði að hafa ekið lyftaranum, þar sem hann væri hvorki með öku- né vinnuvélaréttindi. Ákærði var ósáttur við afskipti lögreglu og ekki reiðubúinn til að gefa þvagsýni eða koma með lögreglu. Var ákærði því handtekinn klukkan 19:01 og fluttur með lögreglubifreið til Ísafjarðar. Í skýrslu lögreglu kemur fram að haft var samband við […], yfirmann ákærða, þannig að unnt væri að útvega starfsmann fyrir ákærða. Samskipti við ákærða í lögreglubifreiðinni voru tekin upp í hljóði og mynd. Í þeirri upptöku má heyra ákærða gangast við því að hafa ekið lyftaranum í umrætt sinn.

Í bréfi Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði 6. nóvember 2017 segir að í þvagsýni nr. 88820 hafi fundist amfetamín, kókaín, MDMA, tetrahýdrókannabínólsýra og brómazepam. Í blóðsýni nr. 88817 hafi mælst 40 ng/ml brómazepam, 5,0 ng/ml klónazepam, 150 ng/ml kókaín, 90 ng/ml MDMA og 23 ng/ml nítrazepam. Amfetamín og tetrahýdrókannabínólsýsa fundust ekki í mælanlegu magni í blóði en fundust í þvagsýni.

II

Skýrslur ákærða og vitna fyrir dómi:

Ákærði neitar sök og kvaðst ekki hafa ekið lyftara í umrætt sinn. Hans starf sé að vinna við að ísa fisk og merkja kör. Aðrir sjái um að aka lyftara, oftast maður að nafni […] en einnig flutningabílstjórar. Ákærði sagðist nokkuð viss um að fleiri starfsmenn hafi verið við störf þetta sinn en gat ekki nafngreint þá. Hann minnti að nefndur […] eða flutningabílstjóri, sem ákærði kvað hafa verið á svæðinu, hefðu ekið lyftaranum í umrætt sinn. Ákærði hafi enda ekki verið ráðinn til að aka lyftara en hann væri hvorki með vinnuvélaréttindi né ökuréttindi. Spurður um játningu sína í lögreglubifreið, þess efnis að hann hefði ekið lyftaranum umrætt sinn, kannaðist ákærði við það en sagðist hafa gengist við því vegna þess hversu þráspurður hann hefði verið af lögreglu.

A lögreglumaður skýrði frá því að hann hefði verið í reglubundnu eftirliti þegar sást inn um glugga í […]til manns sem var óstöðugur og átti erfitt með hreyfingar. Lögreglubifreiðinni hafi síðar verið ekið aftur framhjá opnum dyrum […] og þá hafi mátt sjá lyftara ekið út um dyr hússins og bakkað aftur inn í húsið. Hann hafi þekkt ákærða undir stýri, enda húsið upplýst innandyra. Lögreglumenn hafi því farið inn í húsið til að ræða við ákærða, sem var einn í húsinu. Ákærði hafi virst undir áhrifum og ekki verið samvinnuþýður og því hafi hann verið handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem tekin voru blóð- og þvagsýni.

B lögreglukona skýrði frá því að hún hefði verið í eftirliti með A þetta kvöld og þau hefðu ekið eftir hafnarkantinum í […]. Þau hefðu séð mann inn um glugga sem átti erfitt með gang, eins og hann væri fullur. Hún hefði þekkt hann sem ákærða. Aðspurð hvernig hún þekkti ákærða upplýsti hún að þau hefðu verið saman í skóla. Lögreglubifreiðinni hefði svo verið ekið tvisvar enn framhjá […] og í seinna sinnið hefði hún séð ákærða sitja á lyftaranum og aka honum út í dyr hússins og inn í það aftur. Lögreglumennirnir hefðu þá farið saman inn í húsið til að ræða við ákærða. Hann hafi þá verið kominn af lyftaranum og farinn að moka ís í kar sem var á göfflum lyftarans. Enginn annar starfsmaður hafi verið sjáanlegur á svæðinu. Ákærði hefði verið mjög stressaður, einkennilegur í háttum, slappur, veikur eða undir áhrifum fíkniefna. Ákærði hefði strax neitað að hafa ekið lyftaranum og ítrekað áréttað að hann hefði ekki til þess réttindi.

 

III

Forsendur og niðurstaða:

            Ákærða er gefið að sök umferðarlagabrot, með því að hafa mánudaginn
9. október 2017 ekið vinnuvélinni […] um húsnæði […], við […] […], ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ólöglegra ávana- og fíkniefna, sem og annarra deyfandi efna, en lögregla stöðvaði stjórnun ökutækisins.

            Fyrir dómi neitaði ákærði því að hafa ekið vinnuvélinni, hans vinna fælist í því að ísa kör. Annar starfsmaður æki lyftaranum og færði körin. Þrátt fyrir það gat ákærði ekki með vissu greint frá því hver hefði ekið vinnuvélinni í umrætt sinn né upplýst hvaða starfsmenn hefðu verið við störf þegar atvik urðu. Ákærði upplýsti að hann hefði hvorki gild ökuréttindi né réttindi til að aka vinnuvél. Á myndbandsupptöku sem tekin var upp í lögreglubifreið á leið á lögreglustöð viðurkenndi ákærði að hafa ekið lyftaranum í umrætt sinn, og sagðist áður hafa neitað að hafa ekið lyftaranum þar sem hann hefði ekki til þess réttindi.

            Tveir lögreglumenn hafa borið um það fyrir dómi að hafa séð ákærða undir stýri lyftarans þetta kvöld og aka honum út um dyr […] og inn aftur. Hvorugur lögreglumannanna sá eða hitti fyrir annan mann en ákærða þegar inn var komið, þar sem lyftarinn hafði verið stöðvaður. Þá liggur fyrir að haft var samband við yfirmann ákærða til þess að kalla út starfsmann til að leysa ákærða af þegar hann var handtekinn og færður á lögreglustöð.

            Að mati dómsins er framburður ákærða ótrúverðugur um að annar starfsmaður, sem ákærði gat ekki upplýst með vissu hver var, hefði ekið lyftaranum, aðeins stundarkorni áður en lögreglumenn komu að ákærða þar sem hann stóð við fiskikar sem enn var á göfflum lyftarans. Sá framburður er enda í misræmi við það sem fram kemur á myndbandsupptöku úr lögreglubifreið þegar ákærði var fluttur á lögreglustöð, en þar viðurkenndi ákærði skýlaust að hafa ekið lyftaranum.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið og þegar litið er til framburðar vitnanna A og B þykir sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, sbr. 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi ekið vinnuvélinni […] um húsnæði […]mánudaginn 9. október 2017, þegar lögregla kom að.

Í málinu liggur fyrir skriflegt mat Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði vegna rannsóknar á blóð- og þvagsýnum sem ákærði gaf í þágu rannsóknar málsins. Samkvæmt því mati mældust samtals sex mismunandi ávana- og fíkniefni, sem óheimil eru á íslensku forráðasvæði, í þessum sýnum. Þá mældust að auki þrjú lyfseðilsskyld lyf, sem samkvæmt matinu hafa öll slævandi áhrif á miðtaugakerfið, eru samverkandi og geta dregið úr aksturshæfni.

Að þessu virtu verður að telja hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi verið ófær um að stjórna ökutæki eða vinnuvél vegna áhrifa ólöglegra ávana- og fíkniefna, sem og annarra deyfandi efna, þegar lögregla kom að honum við akstur
9. október 2017 og er brot ákærða rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru. 

 

B

Ákæra útgefin 29. janúar 2018:

 

Ákærði er samkvæmt ákæru, útgefinni 29. janúar 2018, sakaður um þjófnað í tvígang.

Í fyrsta lagi með því að hafa laugardaginn 19. nóvember 2016, í verslun Herragarðsins í verslunarmiðstöðinni Kringlunni við Kringluna 4-12 í Reykjavík, stolið fatnaði að verðmæti kr. 11.980. Í öðru lagi með með því að hafa fimmtudaginn 24. nóvember 2016, í vínbúð ÁTVR við Stekkjarbakka 6 í Reykjavík, stolið áfengisflösku að verðmæti kr. 5.599, en ákærði var kominn fram fyrir afgreiðslukassa vínbúðarinnar þegar starfsmaður hafði afskipti af honum. Ákærði hefur játað sök hvað þessa ákæruliði varðar. Með vísan til játningar ákærða, sem samrýmist gögnum málsins, verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi sem greinir í ákærunni sem er þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

 

 

C

Ákærði er fæddur í […]. Samkvæmt sakavottorði ákærða gekkst hann undir sátt hjá lögreglustjóra um greiðslu sektar og sviptingu ökuréttar í þrjá mánuði fyrir brot gegn 1., sbr. 2., mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga í apríl 2014. Í september sama ár gekkst ákærði undir aðra sátt hjá lögreglustjóra um greiðslu sektar vegna brots gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Með dómi 15. apríl 2015 var ákærði dæmdur til greiðslu sektar fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. 45. gr. og 1. og 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr. umfl., auk þess sem ákærði var þá sviptur ökurétti í tvö ár. Ákærði er nú sakfelldur fyrir brot gegn 1., sbr. 2., mgr. 44. gr. og 1. og 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987 ásamt síðari breytingum og fyrir brot gegn 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hefur hann með þeim brotum unnið sér til refsingar.

Við ákvörðun refsingar ákærða er litið til sakaferils hans og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing ákærða vegna þeirra brota sem hann er nú sakfelldur fyrir þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 45 daga. Með vísan til dómvenju þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna. Ákærði hefur nú ítrekað öðru sinni brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a í umferðarlögum. Ber samkvæmt 3. mgr. 101. gr. sömu laga að svipta hann ökurétti ævilangt.

Þá ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sbr. 235. gr. laga nr. 88/2008. Sakarkostnaður á rannsóknarstigi samkvæmt yfirliti saksækjanda nam 288.651 krónu. Auk þess greiði ákærði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Jóhannessonar lögmanns, 168.640 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk útlagðs kostnaðar lögmannsins af flugfargjaldi samkvæmt reikningi, 33.225 krónur. 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð :

 

Ákærði, Þórólfur Marel Jónasson, sæti fangelsi í 45 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Jóhannessonar lögmanns, 168.640 krónur, auk útlagðs kostnaðar lögmannsins, 33.225 króna og 288.651 krónu í annan sakarkostnað.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir