• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Skilorð

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 8. október 2018 í máli nr. S-41/2018:

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)

gegn:

Przemyslaw Stanislaw Olszewski

 

 

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið miðvikudaginn 3. október 2018, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Vestfjörðum þann 23. ágúst sl., á hendur „Przemyslaw Stanislaw Olszewski, kennitala [...], [...], [...],

 

fyrir eftirfarandi brot gegn valdstjórninni, framin að kvöldi föstudagsins 1. desember 2017 í fangaklefa á lögreglustöðinni á Ísafirði, Hafnarstræti 1, sem hér greinir:

1.      Með því að hafa skallað lögreglumanninn A vinstra megin í höfuð hans, er hann gegndi skyldustarfi sínu.

 

2.      Með því að hafa hótað lögreglumönnunum B, C, D og A lífláti, er þau gegndu skyldustarfi sínu.

 

Teljast brot þessi varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Ákærði mætti ekki við þingfestingu málsins þrátt fyrir lögmæta birtingu ákæru þann 5. september sl., ásamt fyrirkalli þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að ákærða fjarstöddum. Málið var því tekið til dóms samkvæmt 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Við ákvörðun refsingar ber að líta til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en jafnframt til 2. ml. 1. mgr. 106 gr. sömu laga. Er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.

Engan sakarkostnað leiddi af máli þessu.

Bergþóra Ingólfsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Przemyslaw Stanislaw Olszewski, sæti fangelsi í 60 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.

 

                                                                        Bergþóra Ingólfsdóttir.