• Lykilorð:
  • Svipting ökuréttar
  • Upptaka
  • Vörslur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 8. október 2018 í máli nr. S-23/2018:

Ákæruvaldið

(Bryndís Ósk Jónsdóttir fulltrúi)

gegn:

Karol Nesteruk

 

I

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið miðvikudaginn 3. október sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Vestfjörðum þann 28. maí sl., á hendur Karol Nesteruk, kennitala [...], [...], [...].

I.

(mál nr. 314-2018-805)

fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 7. mars 2018, haft í vörslum sínum á heimili sínu [...], tólf kannabisplöntur sem vógu alls 253,03 grömm, 77,55 grömm af kannabislaufum, 0,65 grömm af maríhúana og 0,14 grömm af tóbaksblönduðu maríhúana, en lögregla fann efnin við húsleit.

 

II.

(mál nr. 314-2018-862)

fyrir umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot, með því að hafa að kvöldi mánudagsins 12. mars 2018, ekið bifreiðinni [...], um Strandgötu í Hnífsdal, ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 4,8 ng/ml af tetrahýdrókannabínól), og án þess að hafa öðlast ökuréttindi, allt þar til lögregla stöðvaði akstur hans fyrir framan hús að Strandgötu 3, auk þess hafa haft í vörslum sínum eitt gramm af maríhúana, sem hann framvísaði til lögreglu við leit.

 

III.

(mál nr. 314-2018-907)

fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa að kvöldi laugardagsins 17. mars 2018, ekið bifreiðinni [...], suður Hnífsdalsveg, ófær um að að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 3,8 ng/ml af tetrahýdrókannabínól), og án þess að hafa öðlast ökuréttindi, allt þar til lögregla stöðvaði akstur hans við hús að Hnífsdalsvegi 10 á Ísafirði. 

 

Teljast ákæruliðir I. og II. varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 1. og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. rgl. nr. 789/2010 og 513/2012, auk þess sem ákæruliðir II. og III. varða jafnframt við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. síðari breytingar.

 

Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. síðari breytingar, og greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Þá er krafist upptöku á fyrrgreindum fíkniefnum, tólf kannabisplöntum sem vógu alls 253,03 grömm, 77,55 grömmum af kannabislaufum, 1,65 grammi af maríhúana og 0,14 grömmum af tóbaksblönduðu maríhúana, með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, ásamt síðari breytingum. Þá er krafist upptöku á mulningskvörn og glerkrukku, en munir þessir voru notaðir eða ætlaðir til ólögmætrar meðferðar efna skv. I. ákærulið, með vísan til 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni, og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, ásamt síðari breytingum.“

 

II

 

Ákærði mætti ekki við þingfestingu málsins þrátt fyrir lögmæta birtingu ákæru þann 6.september 2018, ásamt fyrirkalli þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að ákærða fjarstöddum. Málið var því tekið til dóms samkvæmt 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði gekkst ákærði undir ákvörðun viðurlaga á formi sektar í júní 2016 vegna brots gegn 2. sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.

Ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir vörslur fíkniefna, og fyrir að hafa tvívegis ekið bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna og það án þess að hafa öðlast ökuréttindi. Við ákvörðun refsingar verður því meðal annars litið til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þykir refsing ákærða réttilega ákveðin fjögurra mánaða fangelsi. Þá þykir og rétt, með vísan til lagaákvæða í ákæru, að svipta ákærða ökuréttindum í 18 mánuði frá uppkvaðningu dómsins, enda felur svipting ökuréttar í sér sviptingu réttar til þess að öðlast ökuskírteini, sbr. 5. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru gerð upptæk til ríkissjóðs haldlögð fíkniefni, tólf kannabisplöntur, alls 253,03 grömm, 77,55 grömm af kannabislaufum, 1,65 gramm af maríhúana og 0,14 grömm af tóbaksblönduðu maríhúana auk mulningskvarnar og glerkrukku sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði 90.864 krónur í sakarkostnað.

Bergþóra Ingólfsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Karol Nesteruk, sæti fangelsi í fjóra mánuði.

Ákærði er sviptur ökurétti í 18 mánuði frá uppkvaðningu dómsins.

Upptækar eru gerðar til ríkissjóðs tólf kannabisplöntur, alls 253,03 grömm, 77,55 grömm af kannabislaufum, 1,65 gramm af maríhúana og 0,14 grömm af tóbaksblönduðu maríhúana, mulningskvörn og glerkrukka.

Ákærði greiði 90.864 krónur í sakarkostnað.

                                                                        Bergþóra Ingólfsdóttir.