• Lykilorð:
  • Fangelsi
  • Skaðabætur
  • Skilorð
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 2. maí 2018 í máli nr. S-19/2018:

Ákæruvaldið

(Bryndís Ósk Jónsdóttir fulltrúi)

gegn:

Tomasz Ogrodnik

Magdalena Boguska

 

I

Mál þetta sem dómtekið var 18. apríl sl. höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með tveimur ákærum. Fyrri ákæran var gefin út 20. febrúar 2018 á hendur Tomasz Ogrodnik, […], […], […], Magdalena Boguska, […], […], […] (dvalarstaður) og X fyrir eftirtalin brot;

 

I.

(m. 314-2017-4326)

á hendur ákærða Tomasz, fyrir þjófnað, með því að hafa að kvöldi 4. eða aðfaranótt 5. september 2017, stolið 25 lítra bjórkút af gerðinni Egils Gull af veitingastaðnum Edinborg Bistró á Ísafirði, en kúturinn var í geymslu í suðvesturenda hússins, og komið honum fyrir við sorptunnur húss nr. […], og farið síðan með hann heim til sín að […], en kúturinn fannst þar við húsleit lögreglu þann 6. september 2017.

 

II.

(m. 314-2017-4326)

á hendur ákærða Tomasz, fyrir þjófnað, með því að hafa á sama tíma og greinir í ákærulið I. farið inn fyrir girðingu veitingastaðarins Hússins að Hrannargötu 2 á Ísafirði, og stolið þaðan 30 lítra bjórkút af gerðinni Víking lager, og komið honum fyrir við sorptunnur húss nr. […], og farið síðan með hann heim til sín að […], en kúturinn fannst þar við húsleit lögreglu þann 6. september 2017.

 

III.

(m. 314-2017-4326)

[…]

IV.

(m. 007-2017-62987)

á hendur ákærðu öllum, fyrir þjófnað, með því að hafa, í sameiningu, föstudaginn 29. september 2017, stolið mat- og drykkjarvöru úr verslun Bónus að Nýbýlavegi 4 í Kópavogi, nánar tiltekið sjö bökkum af bleikjuflökum, 19 bökkum af kjúklingabringum, tveimur hálfslítra flöskum af Tonic vatni, og 12 hálfslítra dósum af Pilsner, alls að fjárhæð kr. 45.519, á eftirgreindan hátt:

Ákærðu X og Magdalena fóru inn í verslunina, Magdalena sótti þar innkaupakerru og ók henni um verslunina, X gekk um verslunina, tók vörur úr hillum hennar og setti í kerruna, en Tomasz beið fyrir utan verslunina. Er X og Magdalena komu aftur að inngangsdyrum verslunarinnar, sá Tomasz til þess að þau kæmust út úr henni með vörurnar í innkaupakerrunni, með því að ganga sjálfur inn í verslunina í gegnum sjálfvirkar einstefnudyr, þannig að dyrnar opnuðust, en á sama tíma gengu X og Magdalena út um inngangsdyrnar og út úr versluninni með vörurnar, án þess að greiða fyrir.

 

V.

(m. 314-2017-4740)

[…]

VI.

(m. 314-2017-5103)

[…]

VII.

(m. 314-2017-5611)

á hendur Tomasz, fyrir þjófnað, með því að hafa að kvöldi 11. desember 2017, í fatahengi Ísafjarðarkirkju, að Sólgötu 1 á Ísafirði, stolið úr vösum yfirhafna ýmsum verðmætum frá nokkrum aðilum, nánar tiltekið tveimur greiðslukortum, aðgangskorti að dyrum Háskólaseturs Vestfjarða, BMW bíllyklum ásamt Webasto fjarstýringu og tveimur eldsneytislyklum, Samsung farsíma, tveimur lyklakippum með einum húslykli á hvorri kippu, seðlaveski ásamt kr. 3.500 í reiðufé og örorkukorti, VW-Golf bíllyklum, varalit, auk bréfmiða og greiðslukvittana, en munir þessir fundust í póstkassa Póstsins sem staðsettur er á norðurausturhlið húss að Hafnarstræti 9-11 á Ísafirði, þann 12. desember 2017, að undanskildum kr. 3.500 sem fundust á ákærða við handtöku að kvöldi 11. desember 2017.

Teljast ákæruliðir I., II., IV., og VII. varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Er þess krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Vegna ákæruliðar IV.

Finnur Árnason, kt. 120961-3499, f.h. Haga hf., kt. 670203-2120, krefst þess að X, Tomasz Ogrodnik, […], og Magdalena Boguska, […], verði gert að greiða skaðabætur samtals að fjárhæð kr. 45.519, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað, eða þann 26. september 2017, og þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvexti, sbr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

 

II

Síðari ákæran var gefin út 17. febrúar sl. á hendur Magdalena Boguska, […], […], […] (dvalarstaður) og X fyrir eftirtalin brot:

I.

(m. 314-2018-1403)

á hendur ákærðu Magdalenu, fyrir þjófnað, með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 11. apríl 2018, farið inn í veitingasal veitingastaðarins Við Pollinn á Hótel Ísafirði, við Silfurtorg 2 á Ísafirði og stolið þaðan þremur léttvínsflöskum, alls að andvirði kr. 15.900, og farið með þær út af hótelinu, en starfsmaður hótelsins elti hana uppi og endurheimti flöskurnar fyrir utan hótelið.

 

II.

á hendur ákærðu Magdalenu og X, fyrir húsbrot og þjófnað, með því að hafa í sameiningu strax í kjölfar atvika skv. ákærulið I., farið inn um bakdyr Bakarans ehf. að Hafnarstræti 14 á Ísafirði og stolið þaðan, úr kæli fyrir innan dyrnar, tveimur pakkningum af osti, einni öskju af smjöri og tveimur flöskum af safa, alls að andvirði kr. 2.790, en lögreglan stöðvaði för þeirra skömmu síðar við Norðurveg þar sem vörurnar voru enduheimtar.

Teljast báðir ákæruliðir varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ásamt síðari breytingum, auk þess sem ákæruliður II. varðar einnig við 231. gr. sömu laga.

Er þess krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Mál samkvæmt síðari ákæru var sameinað þessu máli með vísan til heimildar 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008. Þáttur X í hinu sameinaða máli var skilinn frá málinu og dæmt um hann í sérstöku máli.

 

III

 

Við fyrirtöku málsins 27. mars sl. kom ákærða Magdalena fyrir dóm og játaði sök hvað varðaði ákæruliði á hendur henni í fyrri ákæru og féllst á bótakröfu sem höfð er uppi í málinu. Ákærða mætti einnig fyrir dóm í fyrirtöku málsins 18. apríl sl. og játaði þá sök samkvæmt seinni ákæru. Í ljósi játningar ákærðu var farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu.

            Um málavexti vísast til ákæruskjala. Sannað þykir með játningu ákærðu og gögnum málsins að ákærða hefur gerst sek um þá háttsemi sem henni er þar gefin að sök og þar þykir rétt heimfærð til refsiákvæða.

Með vísan til 2. málsliðar 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, breytir það engu um sekt ákærðu, þó tilgreining á dagsetningu brots sé röng í ákæru, en samkvæmt gögnum málsins átti brotið sér stað þriðjudaginn 26. september, en ekki föstudaginn 29. september, líkt og greinir í ákæru. Er það mat dómsins að vörnum ákærðu hafi ekki verið áfátt vegna þessa.

Ákærða hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Ákærða er fædd […]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, útgefnu 19. febrúar sl. sætti ákærða tvisvar á liðnu ári refsingu vegna brots gegn 244. gr. almennra hegningarlaga. Ákærða er nú fundin sek um ítrekuð þjófnaðarbrot, ein og með atbeina samákærðu. Við refsiákvörðun verður til þessa litið. Að framanrituðu virtu þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin tveggja mánaða fangelsi. Að virtum sakarferli ákærðu þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Ákærða Magdalena samþykkti fyrir dómi skaðabótakröfu Haga hf. að fjárhæð kr. 45.519, auk vaxta og dráttarvaxta. Á grundvelli þess verður ákærða dæmd til greiðslu nefndar fjárhæðar með vöxtum og dráttarvöxtum, svo sem nánar greinir í dómsorði.

 

IV

Ákærði, Tomasz Ogrodnik, kom fyrir dóm þann 18. apríl sl. játaði sök hvað varðaði ákæruliði á hendur honum og féllst á bótakröfu sem höfð er uppi í málinu.

Í ljósi játningar ákærða var farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu.

Um málavexti vísast til ákæruskjala. Sannað þykir með játningu ákærða og gögnum málsins að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er þar gefin að sök og þar þykir rétt heimfærð til refsiákvæða.

Með vísan til 2. málsliðar 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, breytir það engu um sekt ákærða, þó að tilgreining á dagsetningu brots sé röng í ákæru, en samkvæmt gögnum málsins átti brotið sér stað þriðjudaginn 26. september, en ekki föstudaginn 29. september, líkt og greinir í ákæru. Er það mat dómsins að vörnum ákærðu hafi ekki verið áfátt vegna þessa.

Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Ákærði er fæddur […]. Ákærði er með hreinan sakarferil. Ákærði er nú fundinn sekur um fjögur þjófnaðarbrot, einn og með atbeina samákærðu. Að þessu virtu og með vísan til dómafordæma þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið eins og greinir í dómsorði.

Ákærði samþykkti fyrir dómi skaðabótakröfu Haga hf. að fjárhæð kr. 45.519, auk vaxta og dráttarvaxta. Á grundvelli þess verður ákærði dæmdur til greiðslu nefndar fjárhæðar með vöxtum og dráttarvöxtum, svo sem nánar greinir í dómsorði.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

 

Ákærða, Magdalena Boguska, sæti fangelsi í tvo mánuði.

Ákærði, Tomasz Ogrodnik, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að tveimur árum liðnum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Ákærðu Magdalena Boguska og Tomasz Ogrodnik greiði Högum hf. óskipt 45.519 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 26. september 2017 til 12. apríl 2017, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Bergþóra Ingólfsdóttir