• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Sakarkostnaður
  • Skilorð

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 9. janúar 2019 í máli nr. S-26/2018:

Ákæruvaldið

(Bryndís Ósk Jónsdóttir fulltrúi)

gegn:

Alex Maroni Einarssyni

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 4. desember 2018, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Vestfjörðum 6. júní 2018 á hendur „Alex Maroni Einarssyni, kennitala [...], [...], [...], fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, að kvöldi fimmtudagsins 12. október 2017, að [...] [...], haft í vörslum sínum 49,57 grömm af maríhúana, og selt A efnin, en lögregla haldlagði þau síðar um kvöldið við leit í bifreið sem A ók.

 

Telst þetta varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 1. og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. rgl. nr. 789/2010 og 513/2012.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Ákærði neitar sök og krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvalds en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá gerir ákærði kröfu um greiðslu málsvarnarlauna til handa verjanda sínum úr ríkissjóði.

 

II

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu stöðvaði lögregla bifreið á leið til [...] frá [...] að kvöldi 12. október 2017, eftir ábendingu um að fíkniefni væru í bifreiðinni. Ökumaður bifreiðarinnar og farþegi voru handtekin grunuð um vörslur fíkniefna og ökumaðurinn sömuleiðis um akstur undir áhrifum. Viðurkenndi ökumaðurinn að fíkniefni væru í bifreiðinni og kvaðst hafa neytt kannabisefna fyrr um kvöldið á leið sinni frá [...]. Blóð- og þvagsýni úr ökumanni sýndu jákvæða svörun á THC og vísaði hann lögreglumönnum á 10 plastbox með ætluðum kannabisefnum sem voru haldlögð.

            Í kjölfar fyrrgreinds, eftir ábendingu hinna handteknu, vaknaði grunur um að ákærði, Alex Maron Einarsson, stundaði sölu á fíkniefnum. Lögregla hélt þegar á staðinn þar sem ákærði var sagður búa og hittist hann þar fyrir ásamt húsráðanda. Gerð var húsleit á staðnum með aðstoð fíkniefnahunds, en ekkert fannst. Hundurinn sýndi þó bakpoka í íbúðinni áhuga og gaf lögreglu merki þar um. Ákærði gaf þvagsýni á staðnum sem sýndi neikvæða niðurstöðu hvað neyslu fíkniefna varðaði.

Við rannsókn málsins var gerð leit að fingraförum á umbúðum undan þeim efnum sem haldlögð höfðu verið í bifreiðinni sem áður gat. Fundust þá annars vegar fingraför farþega þeirrar bifreiðar og hins vegar af ákærða. Þá liggur fyrir í málinu niðurstaða efnarannsóknar tæknideildar Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á innihaldi þessara plastboxa, sem greindi innihaldið sem maríhúana, 49,57 grömm. Ekki var gerð styrkleikarannsókn á efnunum. Auk þess liggja fyrir símagögn og skýrslur sem teknar voru af ökumanni og farþega í bifreið þeirri sem ætluð fíkniefni fundust í og af ákærða og vinkonu hans, áðurnefndum húsráðanda.

 

III

Ákærði, Alex Maron, kom fyrir dóm og kannaðist við að hafa verið gestkomandi á heimili C að [...] umrætt kvöld, en kvað vitnin A og B ekki hafa komið þangað að finna sig. Ákærði kvaðst ekki þekkja þau mikið, en hann hefði unnið með A og hitt hann á djamminu, líkt og vitnið B. Ákærði kvaðst ekki muna eftir því að hafa verið í símasambandi eða samskiptum við A þetta kvöld. Ákærði kannaðist við að eiga svartan bakpoka, sem hann geymdi aðallega föt í. Aðspurður kunni ákærði ekki skýringu á því að fíkniefnahundur hefði merkt fíkniefnalykt af bakpokanum við húsleit og heldur ekki á framburði vitna um að hann hafi selt þeim fíkniefni, en ákærði neitaði því staðfastlega. Ákærði kvaðst á þessum tíma hafa starfað sem vaktstjóri hjá [...]. Hluti af verkefnum hans þar hefði verið að fylgjast með og taka sýni af framleiðslunni. Kannaðist ákærði við plastdósir eins og þær sem liggja fyrir í málinu og kvað slíkar dósir notaðar undir sýni í [...] og hann hefði handleikið slíkar dósir þar. Kvaðst hann aldrei hafa notað hanska við það verk, sér þættu þeir óþægilegir. Aðrir sem sinntu sýnatöku hefðu notað hanska. Að öðru leyti kunni ákærði ekki skýringar á því hvers vegna fingraför hans hefðu fundist á hinum haldlögðu dósum.

            Aðspurður um sms-samskipti sín við vitnið A kvaðst ákærði halda að þau hefðu snúist um að fá vitnið, sem er rafvirki, til að gera við rafmagn fyrir kunningja sinn. Að öðru leyti myndi hann ekki um hvað samskipti þeirra eða samtöl snerust.

Vitnið A bar fyrir dómi að hafa farið á [...] til að hitta ákærða. Þeir hefðu áður sammælst um það og vitnið hefði sótt efnin til ákærða og svo haldið aftur til [...] en verið tekið af lögreglunni á bakaleiðinni. Vitnið kvaðst hafa vitað að ákærði hefði verið að selja efni, og þeir hefðu unnið saman í [...]. Vitnið kvað B hafa verið með sér og komið með sér inn til ákærða. Á staðnum hefði einnig verið stelpa sem vitnið taldi að hefði séð viðskiptin eiga sér stað. Efnið hefði verið geymt úti á svölum í poka, í litlum plastglösum. Vitnið kvaðst ekki muna eftir bakpoka á staðnum. Fyrir þetta hefði hann átt að greiða um 100.000 krónur, sem hann hefði ekki greitt á staðnum, hann hefði greitt inn á þetta og hefði svo átt að greiða vikulega skv. samningi. Vitnið kvaðst áður hafa keypt efni af ákærða með sama hætti. Aðspurt kannaðist vitnið ekki við að ákærði hefði óskað eftir því að vitnið tæki að sér rafvirkjastarf fyrir vin ákærða. Vitnið upplýsti að hann væri rafvirki og hefði starfað sem slíkur í [...]. Þá kannaðist hann við að hafa séð dósir eins og liggja fyrir í málinu þar, þær hefðu verið notaðar undir prufur.

Vitnið B kvaðst hafa farið með vitninu A yfir á [...] til að hitta ákærða og kaupa af honum 50 grömm af grasi. Þau hefðu svo farið aftur heim og reykt eina jónu á leiðinni en hefðu verið tekin af lögreglu í göngunum. Vitnið kvað ákærða hafa farið út á svalir og sótt þangað svartan bakpoka með grasinu. Þau hefðu stoppað stutt, en á meðan hefði komið fram stúlka en vitnið var ekki visst um að hún hefði séð þessi viðskipti. Vitnið kvað efnið hafa verið í „pissuboxum“ en mundi ekki hversu mörgum og sá enga greiðslu eiga sér stað.  Vitnið kvaðst hafa komið við eina dolluna, þegar hún útbjó jónu á leiðinni.

Vitnið C , [...] ákærða og húsráðandi að [...], þar sem ætluð viðskipti fóru fram, gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið kannaðist við að ákærði hefði verið á heimili sínu en hann hefði ætlað að gæta barns hennar næsta morgun. Sjálf hefði hún farið snemma í rúmið. Vitnið kannaðist við að ákærði hefði verið með gesti þetta kvöld, mann og konu sem hún þekkti ekki, en hefði séð tilsýndar er hún brá sér fram. Vitnið gat ekki lýst þeim frekar. Þá kvað vitnið ákærða ekki hafa verið búsettan þarna á þessum tíma en hann hefði gist hjá sér annað slagið. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vart við fíkniefnaneyslu á heimili sínu.

D, fyrrverandi framleiðslustjóri hjá [...], gaf símskýrslu við aðalmeðferð málsins og kannaðist við að hafa verið yfirmaður ákærða þar. Vitnið kvað ákærða hafa verið vaktstjóra sem hefði, ásamt fleirum, annast um sýnatökur og því handleikið plastdollur sem við það eru notaðar. Vitnið kvað þessar dollur geymdar í skúffu, þær væru þar í stöflum. Þá mundi vitnið eftir að hafa afhent slíka dós til nota við samanburðarrannsóknir og staðfesti að um sams konar dósir væri að ræða og ljósmyndir eru af í gögnum málsins. 

Lögreglumaður nr. [...] greindi frá því fyrir dómi að hafa tekið vitnin A og B fyrir fíkniefnaakstur og í framhaldi af því farið í húsleit á [...], þar sem meint sala fór fram. Vitnið kvað A hafa strax upplýst að hann hafi keypt efnin af ákærða og lýst húsinu þar sem salan hefði átt sér stað. Lögregla hefði farið á staðinn og fíkniefnahundur sett trýni við bakpoka á staðnum, en með því móti léti hundurinn vita af því að fíkniefni væri að finna. Ekkert hefði þó fundist á staðnum annað en lykt úr þessum poka. Ákærði hefði á staðnum kannast við að eiga þennan poka. Þá hefði vitnið C greint frá komu tveggja einstaklinga sem hún hefði sjálf ekki haft samskipti við.

Lögreglumaður nr. [...] kvaðst hafa verið kallaður út þessa nótt og farið með lögreglumanni nr. [...] að aðsetri ákærða. Þar hefði verið leitað með fíkniefnahundi en ekkert fundist. 

Lögreglumaður nr. [...] kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið að því að stöðva vitnið A við fíkniefnaakstur og verið viðstaddur þegar vitnið framvísaði efnunum og upplýsti að hann hefði fengið þau frá ákærða og sýnt lögreglu síma sinn sem hann hefði hringt úr í ákærða. Það hefði vitnið gert á varðstöðinni.

Lögreglumaður nr. [...] gaf símaskýrslu við aðalmeðferð. Vitnið staðfesti skýrslu sína um fingrafararannsókn sem er meðal gagna málsins. Vitnið kvað ómögulegt að segja hvað fingraförin á dósunum væru gömul.

E, sérfræðingur hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, gaf símaskýrslu við aðalmeðferð. Vitnið staðfesti skýrslu sem frá því stafar í málinu og varðar efnagreiningu þeirra efna sem fundust í 10 litlum plastdósum í bifreið vitnisins A. Vitnið kvað efnin hafa verið prófuð með svokölluðum forprófum sem gefi litasvörun, efnin hefðu svo verið vigtuð. Dósirnar hefðu síðan verið sendar í fingrafararannsókn. Vitnið kvað styrkleika efnanna ekki hafa verið rannsakaðan en til þess þyrfti að senda efnin til rannsóknar hjá Rannsóknastofu Háskóla Íslands í eiturefnafræðum. Það hefði ekki verið gert í þessu tilviki, það væri aðeins gert í stærri málum og ef um fíkniefnaakstur væri að ræða.

 

IV

Ákærða í máli þessu er gefið að sök að hafa haft í vörslum sínum 49,57 grömm af maríhúana og selt þau A að kvöldi fimmtudagsins 12. október 2017, en efnin voru haldlögð síðar um kvöldið við leit í bifreið A.

Ákærði hefur ekki viljað kannast við að hafa tekið á móti A og B á heimili [...] sinnar, C, að kvöldi 12. október 2017. Nefnd C hefur þó fyrir dómi kannast við að ákærði hafi tekið á móti karli og konu á heimili hennar þetta kvöld. Í þessu samhengi þykir dóminum einnig skipta máli að bæði ákærði og húsráðandi voru ákveðin í þeim framburði sínum fyrir dómi að ákærði hafi ekki verið heimilisfastur að [...] þegar þessi atvik urðu, heldur gestkomandi af tilfallandi ástæðu. Í ljósi þess er sú staðreynd að ákærði hittist einmitt þar fyrir umrætt kvöld, eftir ábendingu vitnanna A og B, til þess fallin að renna stoðum undir framburð þeirra um hvar sala fíkniefnanna hafi átt sér stað. Ólíklegt verði að telja að þau hafi mátt vita hvar ákærði var þetta kvöld nema samskipti við hann hafi átt sér stað þar að lútandi. Gögn málsins bera einnig með sér að ákærði og vitnið A voru í símasambandi kl. 17:00 og aftur kl. 20:00 umrætt kvöld, líkt og vitnið heldur fram. Þá ber og til þess að líta að þrátt fyrir að ekki hafi fundist fíkniefni á vettvangi varð þjálfaður fíkniefnahundur var við lykt af bakpoka sem vitnið B kvað ákærða hafa sótt efnin í. Skýringar ákærða á því hvers vegna fingraför hans fundust á 9 af þeim 10 dósum sem efnin fundust í eru að mati dómsins ekki trúverðugar og í andstöðu við framburð vitnisins D um það hvernig meðferð þeirra var háttað. Telur dómurinn framburð ákærða um atvik ótrúverðugan.

            Á hinn bóginn ber vitnunum A og B saman um atvik og fær sá framburður stoð í framburði vitnisins C, sem eins og áður gat kannaðist við að par hefði komið á heimili sitt að finna ákærða umrætt kvöld. Þá liggur fyrir í gögnum málsins að vitnin A og B voru stöðvuð á leið sinni frá [...] til [...] kl. 22:19, undir áhrifum fíkniefna sem þau höfðu neytt á leiðinni. Hefur vitnið B viðurkennt að hafa útbúið þeim jónu á leiðinni úr einni af þeim dósum sem haldlagaðar voru, og fundust fingraför hennar á einni af þeim við rannsókn lögreglu.

Verjandi ákærða hefur lagt áherslu á það í vörn sinni að ekki hafi verið óskað eftir rannsókn hjá Rannsóknastofu Háskóla Íslands í eiturefnafræðum á efnunum sem fundust. Að mati dómsins breytir það í sjálfu sér engu, fyrir liggi rannsókn sem staðfesti efnainnihald dósanna, þótt styrkleiki þeirra liggi ekki fyrir. 

Að öllu framansögðu virtu telur dómurinn sýnt, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt heimfærð til refsiákvæða.

 

V

Við ákvörðun refsingar er til þess litið að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Þykir hæfileg refsing ákærða vera fangelsi í tvo mánuði en að virtum sakaferli ákærða skal fullnustu refsingarinnar frestað og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.

Með vísan til sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður honum gert að greiða allan sakarkostnað málsins. Ákærði dæmist því til að greiða kostnað og þóknun vitnanna C og A, sbr. b-lið 1. mgr. 233. gr. laga um meðferð sakamála, sem samtals nemur 70.943 krónum. Ákærði greiði einnig þóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin svo sem í dómsorði greinir, auk útlagðs kostnaðar lögmannsins, 55.885 krónur.

Dóm þennan kveður upp Bergþóra Ingólfsdóttir héraðsdómari. Fyrir uppsögu dómsins var gætt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Alex Maron Einarsson, sæti fangelsi í tvo mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.

Ákærði greiði 970.028 krónur í sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns, 843.200 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, og útlagðan kostnað lögmannsins, 55.885 krónur.

 

                                    Bergþóra Ingólfsdóttir