• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Ítrekun
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 8. október 2018 í máli nr. S-44/2018:

Ákæruvaldið

(Bryndís Ósk Jónsdóttir fulltrúi)

gegn

Friðriki Smára Mánasyni

 

I

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið miðvikudaginn 3. október sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Vestfjörðum þann 17.september sl., á hendur Friðriki Smára Mánasyni, kennitala [...], [...], [...], fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa föstudaginn 27. júlí 2018, ekið bifreiðinni [...], um Reykhóla, nánar tiltekið Reykjabraut, Karlseyrarveg og Hellisbraut, ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóðsýni mældist 14 ng/ml af tetrahýdrókannabínól), og sviptur ökurétti, allt þar til lögregla stöðvaði akstur hans við Hellisbraut 11.

Telst þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100 gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. síðari breytingar.

Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til sviptingar ökurétti skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

II

Ákærði mætti ekki við þingfestingu málsins þrátt fyrir lögmæta birtingu ákæru þann 21. september sl., ásamt fyrirkalli þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að ákærða fjarstöddum. Málið var því tekið til dóms samkvæmt 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða.

Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði, frá því í lok október 2017, í tvígang áður sætt refsingu fyrir brot gegn þeim sömu ákvæðum og nú er sakfellt fyrir. Að því virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga. Með vísan til dómvenju þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Með vísan til 101. og 102. gr., þó einkum 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum, er ævilöng svipting ökuréttinda ákærða frá 7. desember 2017 ítrekuð.

Með vísan til 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem samkvæmt yfirliti lögreglu nemur samtals 111.171 krónu.

Bergþóra Ingólfsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Friðrik Smári Mánason, sæti fangelsi í 60 daga.

Ítrekuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða.

Ákærði greiði 111.171 krónu í sakarkostnað.

                                                           

Bergþóra Ingólfsdóttir