• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Svipting ökuréttar
  • Vörslur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 10. júlí í máli nr. S-24/2018:

Ákæruvaldið

(Bryndís Ósk Jónsdóttir fulltrúi)

gegn

Leroy Ciprianne Jantjies

 

I

Mál þetta sem dómtekið var 4. júlí sl. er höfðað af lögreglustjóranum á Vestfjörðum með ákæru útgefinni 31. maí sl. á hendur Leroy Ciprianne Jantjies, Barónsstíg 55, Reykjavík fyrir eftirtalin brot;

 

„I.

(mál nr. 314-2017-5586)

fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa að kvöldi laugardagsins 9. desember 2017, ekið bifreiðinni […], um Miðtún, austur Hafnarbraut, norður Víkurbraut og Skólabraut á Hólmavík, ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóðsýni mældist 2,8 ng/ml af tetrahýdrókannabínól), og sviptur ökurétti, allt þar til lögregla stöðvaði akstur hans við Grunnskólann á Hólmavík.

 

II.

(mál nr. 314-2017-5586)

fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa í kjölfar atvika samkvæmt I. ákærulið, á lögreglustöðunni […], neitað að láta lögreglu í té þvagsýni og þannig neitað að veita lögreglu atbeina sinn við rannsókn á ætluðu broti hans fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. 

 

III.

(mál nr. 314-2018-135)

fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa staðið að ræktun allt að 29 kannabisplantna, í sölu- og hagnaðarskyni, á heimili sínu að […], um nokkurt skeið og fram til 10. janúar 2018, er lögregla fann 18 þeirra (alls 14.386,25 grömm) við húsleit, en 11 þeirra hafði ákærði áður skorið niður og er afrakstur þeirra sem hér segir: 965,22 grömm af maríhúana, 2.305,94 grömm af kannabisstönglum og 1.104,97 grömm af kannabislaufum.

 

IV.

(mál nr. 007-2018-13368)

fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa að kvöldi laugardagsins 3. mars 2018, ekið bifreiðinni […], suður Sólheima í Reykjavík, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði mældist 0,68‰) og ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóðsýni mældist 10 ng/ml af tetraýdrókannabínól, auk þess sem tetrahýdrókannabínólsýra mældist í þvagsýni), auk þess að vera sviptur ökurétti, allt þar til lögregla stöðvaði aksturinn á bifreiðastæði við Sólheima.“

 

Samkvæmt ákæru teljast ákæruliðir I. og IV. varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. síðari breytingar, auk þess sem ákæruliður IV. varðar jafnframt við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. síðari breytingar.

Ákæruliður II. er talinn varða við 3., sbr. 2. mgr. 47. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, ásamt síðari breytingum.

Þá er ákæruliður III. talinn varða við 2. gr., sbr. 4. a, 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 1. og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. rgl. nr. 789/2010 og 513/2012.         

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til sviptingar ökuréttinda skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum, og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá er krafist upptöku á fíkniefnum samkvæmt III. ákærulið, 18 stykkjum af kannabisplöntum (alls 14.386,25 grömmum), 965,22 grömmum af maríhúana, 2.305,94 grömmum af kannabisstönglum og 1.104,97 grömmum af kannabislaufum, sem hald var lagt á, sbr. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni, sbr. síðari breytingar, svo og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Ennfremur er krafist upptöku á eftirfarandi búnaði sem lögregla lagði hald á samkvæmt III. ákærulið, með vísan til 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni, sbr. síðari breytingar, svo og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001: 41 blómapotti (í stærð 30cm x 30cm), 28 blómapotti (í stærð 15cm x 15cm), 1 ræktunartjaldi (í stærð 3m x 3m) ásamt súlum og álbarka, 1 ræktunartjaldi (í stærð 1,5m x 1,5m), 2 óuppsettum ræktunartjöldum, 10 ljósaskermum, 10 rafmagnsmögnurum, 4 barkaviftum og einni standandi viftu, 3 pokum af gróðurmold (25 kg hver), auk plantaðrar gróðurmoldar, 3 loftsýjum, hitamæli, rakatæki og eldhúsvigt.

 

II

 

Ákærði mætti ekki við þingfestingu málsins, þrátt fyrir lögmæta birtingu ákæru þann 12. júní sl., ásamt fyrirkalli þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að ákærða fjarstöddum, þá hafði ákærði ekki boðað forföll. Málið var því tekið til dóms samkvæmt 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Með vísan til framanritaðs og rannsóknargagna málsins telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Hefur ákærði með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.  

Ákærði er fæddur […]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dags. 25. maí 2018, var ákærði með dómi Héraðsdómi Reykjaness 26. maí 2016, dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára. Með brotum sínum nú hefur ákærði rofið skilorð þess dóms og ber að dæma upp framangreinda refsingu og ákveða refsingu í einu lagi, sbr. 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hliðsjón af framangreindu, sakarefni þessa máls og að virtri 77. gr. laga nr.19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Með vísan til lagaákvæði í ákæru eru gerð upptæk til ríkissjóðs 18 kannabisplöntur (alls 14.386,25 grömm), 965,22 grömm af maríhúana, 2.305,94 grömm af kannabisstönglum og 1.104,97 grömm af kannabislaufum, sem lagt var hald á við rannsókn málsins. Ennfremur er gerður upptækur búnaður til ræktunar sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins; 41 blómapottur (í stærð 30cm x 30cm), 28 blómapottar (í stærð 15cm x 15cm), 1 ræktunartjald (í stærð 3m x 3m) ásamt súlum og álbarka, 1 ræktunartjald (í stærð 1,5m x 1,5m), 2 óuppsett ræktunartjöld, 10 ljósaskermar, 10 rafmagnsmagnarar, 4 barkaviftur og ein standandi vifta, 3 pokar af gróðurmold (25 kg hver), auk plantaðrar gróðurmoldar, 3 loftsýjur, hitamælir, rakatæki og eldhúsvigt.

Ákærði hefur nú í annað sinn ítrekað gerst brotlegur gegn 1. mgr. 48. gr. ufl. og 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. s.l., auk þess sem ákærði neitaði að veita atbeina sinn við rannsókn máls eins og skylt er skv. 3. mgr. 47. gr. ufl. Ber því að svipta ákærða ökuréttindum ævilangt sbr. 3. mgr. 101 gr. ufl. nr. 50/1987.

Ákærði greiði 305.953 krónur í sakarkostnað.

Bergþóra Ingólfsdóttir héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

 

          Ákærði Leroy Ciprianne Jantjies sæti fangelsi í sex mánuði. Þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 18 kannabisplöntur (alls 14.386,25 grömm), 965,22 grömm af maríhúana, 2.305,94 grömm af kannabisstönglum og 1.104,97 grömm af kannabislaufum, sem lagt var hald á við rannsókn málsins. Ennfremur er gerður upptækur búnaður til ræktunar sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins; 41 blómapottur (í stærð 30cm x 30cm), 28 blómapottar (í stærð 15cm x 15cm), 1 ræktunartjald (í stærð 3m x 3m) ásamt súlum og álbarka, 1 ræktunartjald (í stærð 1,5m x 1,5m), 2 óuppsett ræktunartjöld, 10 ljósaskermar, 10 rafmagnsmagnarar, 4 barkaviftur og ein standandi vifta, 3 pokar af gróðurmold (25 kg hver), auk plantaðrar gróðurmoldar, 3 loftsýjur, hitamælir, rakatæki og eldhúsvigt.

Ákærði Leroy Ciprianne Jantjies er sviptur ökurétti ævilangt.

Ákærði greiði 305.953 krónur í sakarkostnað.

 

                                                                        Bergþóra Ingólfsdóttir