• Lykilorð:
  • Fjárdráttur
  • Svipting ökuréttar
  • Ölvunarakstur

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 6. október 2017 í máli nr. S-44/2017:

Ákæruvaldið

(Jón Haukur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Önnu S. Jóhannesdóttur

 

Mál þetta höfðaði lögreglustjórinn á Vesturlandi, með ákæru 21. ágúst 2017 á hendur ákærðu, Önnu S. Jóhannesdóttur, kt. ..., Holtsflöt 4, Akranesi. Málið var dómtekið 29. september 2017.

Í ákæruskjali er ákærðu gefið að sök fjárdráttur með því að hafa á tímabilinu frá 12. til 26. júní 2017, dregið sér og nýtt í eigin þágu, samtals 180.344 kr. af bankareikningi A..., kt. ..., nr. ..., með því að millifæra fjármuni inn á sinn eigin bankareikning í alls 9 skipti, sem hér greinir:

1.             Hinn 12. júní 2017 millifært 5.000 kr. af bankareikningi ... inn á eigin bankareikning.

2.             Hinn 12. júní 2017 millifært 5.000 kr. af bankareikningi ... inn á eigin bankareikning.

3.             Hinn 14. júní 2017 millifært 20.000 kr. af bankareikningi ... inn á eigin bankareikning.

4.             Hinn 19. júní 2017 millifært 5.000 kr. af bankareikningi ... inn á eigin bankareikning.

5.             Hinn 19. júní 2017 millifært 5.000 kr. af bankareikningi ... inn á eigin bankareikning.

6.             Hinn 21. júní 2017 millifært 15.000 kr. af bankareikningi ... inn á eigin bankareikning.

7.             Hinn 26. júní 2017 millifært 2.000 kr. af bankareikningi ... inn á eigin bankareikning.

8.             Hinn 26. júní 2017 millifært 80.000 kr. af bankareikningi ... inn á eigin bankareikning.

9.             Hinn 26. júní 2017 millifært 43.344 kr. af bankareikningi ... inn á eigin bankareikning

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Málið er einnig höfðað með ákæru 31. ágúst 2017 sem lögreglustjórinn á Vesturlandi gaf út á hendur ákærðu. Var mál vegna þeirrar ákæru sameinað þessu máli. Í ákæruskjali er ákærðu gefið að sök „umferðarlagabrot með því að hafa miðvikudaginn 24. maí 2017 ekið bifreiðinni YO081, óhæf til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa áfengis (0,84‰ greindist í blóðsýni), á Þjóðbraut á Akranesi.

Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar, til greiðslu alls sakar­kostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga með síðari breytingum.

Fyrirköll á hendur ákærðu voru birt henni 19. september 2017. Við þingfestingu málsins 29. sama mánaðar sótti ákærða ekki þing og voru málin þá dómtekin að kröfu ákæruvaldsins samkvæmt 1. mgr. 161. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Með vísan til þeirrar lagagreinar þykir mega jafna útivist ákærðu til játningar hennar, enda fer sú niðurstaða ekki í bága við sakargögn. Ákærða verður því sakfelld fyrir brotin, samkvæmt báðum ákærum, sem réttilega eru heimfærð til laga í ákæruskjölum.

Samkvæmt sakavottorði ákærðu hefur hún ekki fyrr gerst sek um refsiverða háttsemi. Að því virtu þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga, en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Einnig verður ákærðu gert að greiða 90.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 8 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Þá þykir rétt, svo sem krafist er í ákæru og með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, að svipta ákærðu ökurétti í 6 mánuði frá birtingu dómsins að telja.

Loks verður ákærða með vísan til. 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála dæmd til að greiða sakarkostnað samkvæmt yfirliti lögreglu, svo sem greinir í dómsorði.

Guðfinnur Stefánsson, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Ákærða, Anna S. Jóhannesdóttir, sæti 30 daga fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærða greiði 90.000 krónur í sekt til ríkisjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella fangelsi í 8 daga.

Ákærða er svipt ökurétti í 6 mánuði frá birtingu dómsins að telja.

Ákærða greiði 36.498 krónur í sakarkostnað.

 

Guðfinnur Stefánsson