• Lykilorð:
  • Hótanir
  • Miskabætur

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 12. desember 2018 í máli nr. S-7/2018:

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)

gegn

X

(Ómar R. Valdimarsson lögmaður)

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 23. nóvember sl., er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dags. 9. febrúar 2018, á hendur ákærða, X…, …, …. Í ákæru segir að málið sé höfðað gegn ákærða „fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa föstudaginn 30. desember 2016 sent þrjú smáskilaboð á … í síma fyrrum eiginkonu sinnar, A…, en skilaboðin innihéldu líflátshótanir í garð B…, … …, vegna starfa hennar en B… hafði haft afskipti af fjölskyldu ákærða og A… og meðal annars veitt B… aðstoð er hún skildi við ákærða. Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu B…, kennitala …, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 500.000.- krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr. sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. desember 2016 til þess dags er liðinn verður mánuður frá því að krafa þessi er kynnt kærða en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. laganna, allt til greiðsludags.“

 

 Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara að hann verði dæmdur til þeirrar vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst ákærði þess að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af einkaréttarkröfu. Til þrautavara krefst hann þess að einkaréttarkrafan verði stórlega lækkuð. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna úr ríkissjóði með hliðsjón af vinnuskýrslu verjanda.

 

II.

Samkvæmt gögnum lögreglu kom B…, … hjá …, á lögreglustöðina á … 20. janúar 2017 til að kæra brot gegn opinberum starfsmanni. Kom fram hjá henni að líflátshótanir í hennar garð hefðu verið sendar úr síma ákærða til A…. Kvaðst brotaþoli hafa verið með mál ákærða, konu hans, A…, og barna þeirra til meðferðar hjá barnaverndinni á … um nokkurt skeið. Hefði A… leitað eftir aðstoð barnaverndar seinnipart árs 2014 því að ákærði beitti hana ofbeldi og væri ekki góður við börnin. Kvaðst brotaþoli hafa aðstoðað konuna við að fara í Kvennaathvarfið með börnin og hefði ákærði verið mjög ósáttur við það. Kvaðst brotaþoli hafa tekið ákærða í viðtal árið 2014 og beðið hann um að láta A… vera. Kemur fram að brotaþoli hafi hitt A… í byrjun janúar 2017 og hefði hún þá verið mjög hrædd vegna hótana ákærða. Brotaþoli kvaðst hafa fengið fréttir af því að einhverjar hótanir hefðu komið í hennar garð en ekki vitað að þær væru svo alvarlegar sem raun bæri vitni og innihéldu heimilisfang hennar.

 

Farið var yfir skilaboð frá ákærða, dags. 30. desember 2016, og kom þar meðal annars fram eftirfarandi: „Ef ég á annarra kosta völ áður en ég fyrirfer mér þá drep ég allar þessar hórur sem hjálpuðu þér við að skilja við mig. og sú fyrsta verður b… / B….“ Sagði brotaþoli að þarna ætti ákærði við sig. Svo seinna sama kvöld hefði hann sent eftirfarandi skilaboð: „Af hverju í fjandanum ertu ekki að svara? Á ég að ná í hana fyrst og svo þig_“. Loks hefði hann sent eftirfarandi skilaboð: „Af hverju ertu ekki að svara tussan þín? Á ég að fara í … og drepa hana?“ Kom fram hjá brotaþola að þarna væri ákærði að hóta því að fara heim til hennar og drepa hana því að hún ætti heima að …. Sagðist hún telja að ákærði gæti vel látið verða af þessum hótunum þar sem hann væri í ójafnvægi vegna drykkju og ætti við skapvandamál að stríða.       

     

 

 

 

III.

Skýrslur ákærða og vitna fyrir dómi

Ákærði kvaðst kannast við að hafa sent þau skilaboð sem vitnað er til í ákæru, en tók fram að þau hefðu einungis átt að vera á milli hans og A…. Ákærði lýsti atvikum svo að hann hefði haft samband við A… umræddan dag í þeim tilgangi að þau myndu sættast og reyna að taka saman aftur. Hann hefði á þessum tíma ekki verið í góðu andlegu ástandi. Hann hefði verið langt niðri þennan dag og íhugað að fremja sjálfsvíg. Um hafi verið að ræða skilaboð um persónuleg málefni þeirra tveggja og því hefði hann talið að þau færu ekkert annað. Ákærði kvaðst kannst við að hann hefði átt við brotaþolann B… í þessum skilaboðum, en tók fram að honum hefði ekki verið nein alvara með þeim. Aldrei hefði verið ætlunin að brotaþoli fengi skilaboðin og hann hefði ekki verið með það í huga að framfylgja þeim hótunum sem þar komu fram. Spurður um hvað hann hefði átt við með skilaboðunum „á ég að fara í … og drepa hana“ kvaðst ákærði hafa skrifað þetta til að A… myndi svara honum. Þau hefðu verið búin að tala saman fyrr og hefði þá allt verið í góðu, en hún hefði svo allt í einu skipt um skoðun og hann hefði bara viljað klára þetta samtal sem þau áttu. Aldrei hefði staðið til að drepa brotaþola eða vekja hjá henni óhug og hann hefði ekki borið illan hug til hennar. Ákærði kvaðst hafa kannast við brotaþola, en hann hefði einu sinni farið í stutt viðtal til hennar. Honum hefði verið sagt að það væri brotaþola að kenna að til skilnaðarins kom, en sjálfur liti hann ekki svo á.

 

Brotaþoli kvaðst hafa fengið upplýsingar um það að A… hefði farið til lögreglunnar og lagt fram gögn úr síma sínum um hótanir frá ákærða, sem hafi m.a. beinst að brotaþola. Kæmi þar fram heimilisfang hennar og að ákærði ætlaði að fara heim til hennar og drepa hana. Kvaðst hún fyrst hafa orðið reið en jafnframt hefði henni fundist þetta óþægilegt. Sagðist hún starfa hjá … … og tók fram að fjölskylda ákærða hefði verið aðili að barnaverndarmáli hjá henni í nokkurn tíma. Kvaðst hún hafa fengið upplýsingar um að ákærði hefði misnotað áfengi og verið ofbeldisfullur inni á heimilinu. Hefði hún í kjölfarið aðstoðað A… við að fara í Kvennaathvarfið og jafnframt aðstoðað hana og börnin í skilnaðarferli þeirra hjóna. Kvað brotaþoli að henni hefði staðið ógn af ákærða vegna framangreindra upplýsinga um að hann hefði hótað að drepa hana og að hann vissi heimilisfang hennar. Hefði hún tekið hótunina alvarlega og m.a. ákveðið að fá sér öryggishnapp og ræða þessi mál við fjölskylduna. Þá hefði hún þurft að kenna syni sínum á neyðarhnappinn og útskýra fyrir honum hvað ætti að gera ef einhver myndi ryðjast inn á heimilið. Hún hefði þurft að vara nágranna og vinnufélaga við vegna þessa, auk þess sem lögreglan hefði ráðlagt henni að vera ekki ein á ferli. Til viðbótar um afleiðingar þessarar hótunar ákærða nefndi brotaþoli að henni þætti nú mjög óþægilegt að vera ein heima og að maðurinn hennar hefði til öryggis sofið með kúbein undir rúminu sínu. Kom loks fram hjá brotaþola að hún hefði tekið skilaboðunum sem hótun í sinn garð þar sem hún hefði verið nafngreind og heimilisfangið hennar hefði komið þar fram. Þá hefði eitt barna ákærða sagt henni í tvígang frá því í haust að ákærði vildi drepa hana.

 

Vitnið A…, fyrrverandi eiginkona ákærða, bar að umrætt sinn, hinn 30. desember 2016, hefði ákærði hringt oft í hana og hún ekki svarað. Ákærði hefði þá skrifað sms-skilaboð þar sem m.a. hefðu komið fram hótanir um að hann ætlaði að gera brotaþola eitthvað og koma svo í kjölfarið til hennar. Kvaðst hún hafa tekið þessi skilaboð alvarlega og ákveðið að fara með börnin á lögreglustöðina til að vernda þau og til að tilkynna um hótun ákærða. Sagði hún ákærða hafa verið reiðan út í brotaþola vegna þeirrar aðstoðar sem hún hefði veitt vitninu í tengslum við skilnað þeirra hjóna og kennt brotaþola um hvernig farið hefði milli þeirra. Aðspurð kvaðst hún vita að ákærði væri fær um að beita ofbeldi og að hún hefði litið svo á að ákærði gæti látið verða af hótunum sínum.

 

Vitnið D…, dóttir ákærða, lýsti því að móðir hennar hefði umrætt sinn sent sér skjámynd af skilaboðunum frá föður hennar og að hún hefði því orðið mjög hrædd. Kvaðst vitnið muna að skilaboðin hafi verið á þann veg að ákærði ætlaði að finna brotaþola og í skilaboðunum hefði verið heimilisfang brotaþola. Þar hefði og komið fram að pabbi hennar ætlaði að vera vondur við mömmu hennar og brotaþola. Kvað hún að sér hefði liðið illa því að móðir hennar hafi verið grátandi og hrædd. Kvaðst hún hafa sagt móður sinni að láta brotaþola vita. Kom fram hjá vitninu að brotaþoli hefði hjálpað þeim mikið, m.a. við að fara í Kvennaathvarfið, og hefði ákærði verið mjög reiður við brotaþola vegna þess.

 

 

 

   IV.

Niðurstaða

Eins og áður er fram komið kannast ákærði við að hafa sent þau skilaboð sem tilgreind eru í ákæru. Hins vegar byggir hann málsvörn sína á því að umræddar skeytasendingar hafi ekki brotið gegn ákv. 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga, svo sem ákæra í málinu byggist á. Ekki hafi verið um að ræða hótanir í skilningi ákvæðisins, sem beinst hafi að brotaþola og tengst hafi skyldustörfum hennar sem starfsmanns ….

 

Með vitnisburði brotaþolans B… og framburði móttakanda skilaboðanna, A…, og vitnisburði dóttur hennar, D…, og öðrum gögnum málsins telur dómurinn nægilega fram komið, til viðbótar við framburð ákærða sjálfs, að umrædd skilaboð hafi falið í sér líflátshótanir gagnvart brotaþola sem … … og að brotaþoli, þegar hún fékk um þau vitneskju, hafi haft fulla ástæðu til að taka þær hótanir alvarlega vegna afskipta hennar af málefnum fjölskyldunnar og frásagna fyrrgreindra mæðgna af hegðun ákærða og ummælum hans í hennar garð. Verður ákærði því sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga, enda verður í því sambandi ekki talið neinu skipta, eins og hér háttar til, þótt skilaboðin hafi ekki verið send beint á brotaþola sjálfan.

 

Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur ákærði áður verið dæmdur fyrir ofbeldisbrot, en honum var gert, með dómi uppkveðnum 7. janúar 2014, að sæta 45 daga fangelsisvist, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Liggur fyrir að ákærði stóðst skilorð þess dóms. Hefur dómur þessi ekki ítrekunaráhrif á brot ákærða nú, sbr. 61. gr. almennra hegningarlaga. Að framangreindu virtu verður ákærða gert að sæta refsingu, sem þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga. Þykir eftir atvikum mega binda refsinguna skilorði, eins og nánar segir í dómsorði.

 

Í málinu krefst brotaþoli, B…, þess að ákærði greiði henni samtals 500.000 krónur í miskabætur, auk tilgreindra vaxta. Með broti sínu felldi ákærði á sig skyldu gagnvart brotaþola til greiðslu miskabóta skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja þær bætur hæfilega ákveðnar 400.000 krónur, auk vaxta, eins og nánar greinir í dómsorði, en dráttarvextir dæmast frá 1. febrúar 2017, er mánuður var liðinn frá því að ákærða var fyrst kynnt krafan. Loks verður ákærða gert að greiða brotaþola málskostnað eins og greinir í dómsorði. 

 

Ákærði greiði málsvarnarþóknun og ferðakostnað skipaðs verjanda síns, auk þóknunar tilnefnds verjanda síns á rannsóknarstigi, svo sem nánar greinir í dómsorði. Hefur við þá ákvörðun verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærði, X…, sæti fangelsi í 60 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð skv. 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Ákærði greiði B… 400.000 krónur með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 30. desember 2016 til 1. febrúar 2017, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt greiði ákærði B… 400.000 krónur í málskostnað.

 

Ákærði greiði 800.000 króna málsvarnarlaun og 34.000 króna ferðakostnað skipaðs verjanda síns, Ómars R. Valdimarssonar lögmanns. Einnig greiði ákærði þóknun Inga Tryggvasonar lögmanns, 75.789 krónur, vegna verjandastarfa á rannsóknarstigi.

 

                                                                        Ásgeir Magnússon