• Lykilorð:
  • Skaðabætur
  • Verksamningur
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 11. janúar 2019 í máli nr. E-75/2017:

Egg arkitektar ehf.

(Sigurgeir Valsson lögmaður)

gegn

Gistihúsinu Langaholti ehf.

(Jón Auðunn Jónsson lögmaður)

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 21. nóvember sl., er höfðað af Egg arkitektum ehf., Tjarnargötu 10, Reykjavík, á hendur Gistihúsinu Langaholti, Ytri-Görðum, Snæfellsbæ, með stefnu birtri 19. júní 2017.

 

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 2.231.854 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 474.362 krónum frá 25. mars 2016 til 20. apríl sama ár, af 1.714.362 krónum frá þeim degi til 15. október s.á., en af 2.231.854 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda með hliðsjón af málskostnaðarreikningi.

 

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af dómkröfu stefnanda en til vara að krafan verði lækkuð verulega. Stefndi krefst og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins með hliðsjón af málskostnaðaryfirliti.

 

Stefndi höfðaði gagnsök í málinu með gagnstefnu birtri 3. október 2017 og lagði stefndi fram greinargerð í gagnsökinni í þinghaldi hinn 7. nóvember 2017. Dómari boðaði til málflutnings um það hvort vísa bæri gagnsökinni frá dómi þar sem liðinn væri frestur skv. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til höfðunar gagnsakar. Daginn áður en málflutningur skyldi fara fram, eða hinn 8. mars 2018, tilkynnti lögmaður stefnda að stefndi félli frá gagnsök í málinu. Var sú afstaða stefnda og staðfest við upphaf aðalmeðferðar málsins hinn 21. nóvember sl.

 

II.

Stefnandi, sem verksali, og stefndi, sem verkkaupi, gerðu með sér samning, dags. 29. október 2015, vegna hönnunar á viðbyggingu gistihúss að Ytri-Görðum í Snæfellsbæ. Kemur fram í 1. tl. samningsins að hönnunarkostnaður vegna hönnunar viðbyggingarinnar sé 5.270.588 krónur, án virðisaukaskatts, og jafnframt er þar sundurliðað hvernig sú þóknun skiptist eftir starfsframlagi. Þar kemur og fram að þóknun vegna breytinga á samþykktum tillöguuppdrætti eða aðaluppdrætti, sem gerðar kunni að verða að ósk verkkaupa meðan á verki standi, skuli reiknast sem tímagjald að fjárhæð 12.900 krónur, án virðisaukaskatts. Þá kemur fram í 2. og 3. tl. samningsins að sérstakt tímagjald að fjárhæð 12.900 krónur skuli greiða fyrir þjónustu stefnanda við samræmingu teikninga vegna steyptra eininga, vegna hönnunar innanhúss og vegna vals á litum utanhúss, innréttingum, gólfefnum o.fl. Loks er tiltekið í samningnum hvaða liðir teljist ekki til heildarhönnunarkostnaðar, svo sem breyting skráningartöflu og tímar og ferðir vegna funda vegna eftirlits á byggingarstað þegar framkvæmdir séu hafnar.

 

Fyrir liggur að stefndi hefur greitt hluta af framangreindum umsömdum heildarhönnunarkostnaði verksins, en að ógreiddar eru 1.240.000 krónur skv. reikningi stefnanda, dags. 10. apríl 2016, og 517.492 krónur skv. reikningi, dags. 1. október sama ár, eða alls 1.714.362 krónur. Þá hefur stefnandi og lagt fram reikning á hendur stefnda, samtals að fjárhæð 474.362 krónur, vegna aukaverka sem hann kveðst hafa unnið í tengslum við framangreint verk í samræmi við samninginn. Samtals nemur höfuðstóll framangreindra þriggja reikninga því 2.231.854 krónum, sem er stefnufjárhæð málsins.

 

Stefnandi sendi stefnda kröfubréf, dags. 29. september 2016, og krafðist greiðslu á umræddum reikningum. Stefndi hafnaði greiðslu skuldarinnar með bréfi, dags. 31. október sama ár, þar sem fram kom að hann hefði orðið fyrir aukakostnaði vegna nánar tilgreindra atriða við verkið sem hann teldi stefnanda bera ábyrgð á. Tjón stefnda næmi hærri fjárhæð en sem næmi eftirstöðvum krafna stefnanda og krafðist stefndi því skuldajöfnunar að því leyti.

 

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur framkvæmastjóri stefnanda, Elín Guðrún Gunnlaugsdóttir arkitekt, og framkvæmdastjóri stefnda, Þorkell S. Símonarson.

 

III.

Stefnandi kveðst reisa kröfur sínar á framangreindum samningi aðila, dags. 29. október 2015. Beri stefnda, með vísan til reglunnar um skuldbindingargildi samninga, meginreglna kröfu- og samningaréttar, að efna samninginn samkvæmt orðanna hljóðan og greiða kröfu stefnanda. Kveðst stefnandi mótmæla öllum ásökunum og fullyrðingum um að stefndi hafi orðið fyrir tjóni sem stefnandi beri ábyrgð á. Stefnandi hafi framkvæmt verk sitt af þeirri kostgæfni sem með sanngirni hafi mátt krefjast af honum og sé á því byggt að verk hans standist þær kröfur sem gerðar séu til mannvirkja í lögum og reglugerðum, sbr. m.a. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Þá hafi stefndi sýnt af sér tómlæti með því að tilkynna ekki án ónauðsynlegra tafa um meint tjón sitt, sbr. gr. 7.1.6 í ÍST 35, og beri stefndi hallann af slíku. Auk þess hafi stefndi ekki gripið til þeirra úrræða sem honum hafi staðið til boða hafi hann talið galla vera á verki stefnanda. Hafi stefndi ekki sýnt fram á að hann eigi einhverjar gagnkröfur á hendur stefnanda og ekki sannað að hann hafi orðið fyrir tjóni sem stefnandi beri ábyrgð á.

 

IV.

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því að stefnandi hafi í verulegum atriðum vanefnt sinn hluta hönnunarsamnings aðilanna, auk þess sem krafa stefnanda vegna aukaverka eigi ekki við nein rök að styðjast. Hins vegar sé ekki gerður ágreiningur um fjárhæð eftirstöðva greiðslna til stefnanda vegna hönnunarsamningsins, sbr. reikninga dags. 1. apríl og 10. október 2016, en skuld stefnda vegna þessa sé lægri en nemi þeirri gagnkröfu sem stefndi eigi á hendur stefnanda.

 

Stefndi kveðst hafna kröfu stefnanda að fjárhæð 474.362 krónur vegna aukaverka og aksturs þar sem einungis sé þar um að ræða vinnu stefnanda við lagfæringar á gölluðum verkum stefnanda eftir ábendingar frá stefnda eða öðrum á hans vegum. Hefðu verk stefnanda verið unnin með þeim faglega hætti sem ætlast hafi mátt til af honum hefði aldrei komið til þessara aukaverka.

 

Stefndi mótmæli því að hann hafi sýnt af sér tómlæti með því að neyta þeirra úrræða sem til boða hafi staðið vegna galla á vinnu stefnanda. Þannig hafi bæði stefndi og aðrir sem að verkinu komu, s.s. byggingarstjóri, margsinnis komið að máli við stefnanda vegna mistaka forsvarsmanns hans við verkið og vegna atriða sem hann hafi kosið að framkvæma án samráðs við stefnda. Hafi þau atriði verið tíunduð í bréfi til stefnanda, dags. 31. október 2016. Hafi stefnanda verið gefið tækifæri til að lagfæra umrædd mistök, væri þess kostur. Nauðsynlegt hafi hins vegar verið að tryggja framgang verksins og þegar lagfæringar stefnanda hafi verið engar eða ófullnægandi hafi stefnda ekki verið annar kostur tækur en að fá aðra til verksins með tilheyrandi kostnaðarauka.

 

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki beri hönnuður ábyrgð á því gagnvart eiganda mannvirkis að hönnun þess sé faglega unnin og að það standist þær kröfur sem til þess séu gerðar samkvæmt lögum og reglugerðum, enda hafi verið fylgt að fullu uppdráttum hönnuðar, verklýsingu, skriflegum fyrirmælum og viðurkenndum starfsvenjum. Þá beri hönnuði einnig skylda til að taka tillit til þeirrar notkunar sem verði á því mannvirki sem hannað sé, þ.e. í hvaða tilgangi það sé reist. Kröfur stefnanda séu til komnar vegna sérfræðivinnu og liggi fyrir að gera megi ríkari kröfur til vandaðra vinnubragða sérfræðinga en ófaglærðra, auk þess sem um vinnu þeirra gildi strangara sakarmat.

 

V.

Niðurstaða

Eins og áður er rakið byggir stefndi á því í greinargerð sinni að honum sé óskylt að greiða umrædda reikninga stefnanda, annars vegar á þeirri forsendu að stefnandi hafi valdið honum tjóni með störfum sínum í hans þágu, en hins vegar eigi reikningur stefnanda vegna aukaverka ekki við nein rök að styðjast, þar sem einungis hafi verið um að ræða vinnu stefnanda vegna lagfæringa á gölluðum verki stefnanda sjálfs eftir ábendingu stefnda. Í greinargerðinni er því þó í engu lýst nánar hvaða galla um hafi verið að ræða eða með hvaða hætti stefnandi hafi valdið stefnda tjóni með störfum sínum í hans þágu, hvert umfang þess tjóns hafi þá verið og á hvaða grundvelli stofnast hafi til bótaábyrgðar stefnanda að þessu leyti. Í málflutningi sínum við aðalmeðferð málsins tilgreindi lögmaður stefnda nánar á hvaða málsástæðum gagnkröfur stefnda á hendur stefnanda byggðust, sem hann krefðist að kæmu til skuldajafnaðar við kröfur stefnanda, en þeim hafði verið nánar lýst í gagnstefnu. Gegn mótmælum stefnanda við munnlegan flutning málsins, og þar sem stefndi féll frá gagnsök sinni í málinu, teljast málsástæður þessar of seint fram komnar og verður því ekki til þeirra litið við úrlausn málsins.

 

Ekki sýnist um það deilt að bæði þjónusta stefnanda samkvæmt hönnunarsamningi aðila og þjónusta hans, ásamt tilheyrandi akstri, samkvæmt reikningi vegna aukaverka í þágu stefnda voru í raun innt af hendi. Með því að stefndi hefur hvorki með matsgerð dómkvadds matsmanns né með öðrum hætti sýnt fram á að hann eigi bótakröfur á hendur stefnanda á framangreindum grundvelli, sem skuldajafna beri til lækkunar eða niðurfellingar á kröfu stefnanda, og þar sem krafa stefnanda hefur ekki sætt tölulegum andmælum, verður dómkrafa hans á hendur stefnda að fullu tekin til greina, eins og hún er fram sett.

 

Stefndi greiði stefnanda 1.200.000 krónur í málskostnað.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan og hefur við uppkvaðningu hans verið gætt að ákv. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Dómsorð:

Stefndi, Gistihúsið Langaholti ehf., greiði stefnanda, Egg arkitektum ehf., 2.231.854 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 474.362 krónum frá 25. mars 2016 til 20. apríl sama ár, af 1.714.362 krónum frá þeim degi til 15. október s.á., en af 2.231.854 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

 

Stefndi greiði stefnanda 1.200.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                                                Ásgeir Magnússon