• Lykilorð:
  • Nauðungarsala
  • Ógilding
  • Veðsetning
  • Krafa um óg. nauð.sölu eftir lok hennar

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Vesturlands 24. mars 2017 í máli nr. Z-1/2016:

Emanúel Ragnarsson

(Lárus Sigurður Lárusson hdl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Ómar Karl Jóhannesson hdl.)

 

I.

Mál þetta barst dóminum 10. júní 2016 með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 8. sama mánaðar. Málið var þingfest 21. júní 2016 og tekið til úrskurðar 27. febrúar sl.

 

Sóknaraðili málsins er Emanúel Ragnarsson, Grundarbraut 6a, Ólafsvík. Varnaraðili er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

 

Sóknaraðili krefst þess að nauðungarsala á eign sóknaraðila að Ytri-Knarrartungu, 136320, Snæfellsbæ, fastanúmer 211-4135, sem fram fór hinn 3. júní 2016, kl. 12.50, verði ógilt. Einnig er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

 

Varnaraðili krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum sóknaraðila og að gildi nauðungarsölu, sem sýslumaðurinn á Vesturlandi hélt á eigninni Ytri-Knarrartungu, Snæfellsbæ, fastanr. 211-4135, hinn 3. júní 2016, verði viðurkennt af dóminum. Jafnframt krefst varnaraðili málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.

 

II.

Hinn 29. nóvember 2007 gaf sonur sóknaraðila, Magnús Guðni Emanúelsson, út veðskuldabréf til Sparisjóðsins í Keflavík vegna láns frá sparisjóðnum að fjárhæð 8.300.000 krónur. Var fasteign sóknaraðila, Ytri-Knarrartunga, fastanr. 211-4135, Snæfellsbæ, sett að veði með 1. veðrétti til tryggingar láninu. Því til staðfestu ritaði sóknaraðili á bakhlið skuldabréfsins undir svohljóðandi yfirlýsingu: „Ég undirritaður hef kynnt mér efni bréfs þessa og geri mér grein fyrir í hverju ábyrgð mín sem veðleyfisgjafa er fólgin og tel hana samrýmast greiðslugetu minni. Jafnframt hef ég kynnt mér upplýsingabækling um ábyrgðir og efni gildandi samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga.“

 

Í málinu liggur fyrir umsóknareyðublað, sem ber yfirskriftina „Greiðslumat vegna lántöku“, og er undirritað af lántakanum, Magnúsi Guðna. Á eyðublaðinu, sem merkt er Sparisjóðnum, hefur verið fyllt inn í dálkinn „Önnur föst útgjöld“ með ýmsum fjárhæðum vegna tilgreindra mánaðarlegra útgjaldaliða. Jafnframt er hakað í reit fyrir liðinn „Launaseðlar síðustu þriggja mánaða“ vegna gagna sem skila þarf svo að greiðslumat geti farið fram. Einnig liggur fyrir útprentun, dags. 28. nóvember 2007, af skjámynd úr tölvukerfi sparisjóðsins með yfirskriftinni „Fjárhagsyfirlit“, er sýnir tölulegar upplýsingar um fjárhagsstöðu lántaka og maka hans. Kemur þar m.a. fram að skuldir þeirra hafi verið lítillega umfram eignir og að 161.103 krónur vantaði upp á mánaðartekjur þeirra svo að þær dygðu fyrir útgjöldum. Þá liggur fyrir skjalið „Niðurstaða greiðslumats“, undirritað af lántaka 29. nóvember 2007. Á það er prentað svofelld yfirlýsing: „Niðurstaða greiðslumats bendir til þess að lántakandi geti efnt skuldbindingar sínar miðað við núverandi fjárhagsstöðu.“ Jafnframt hefur orðið „ekki“ verið handskrifað ofan í textann til að snúa við merkingu hans og eru upphafsstafir sóknaraðila ritaðir þar við. Þá kemur neðst á skjalinu fram yfirlýsing sóknaraðila um það að hann staðfesti með undirritun sinni að hann hafi fengið og kynnt sér bækling um sjálfskuldarábyrgðir og lánsveð.

 

Hinn 4. desember 2008 voru að beiðni lántaka gerðar breytingar á greiðsluskilmálum skuldabréfsins þar sem vanskilum lánsins var bætt við höfuðstól þess. Jafnframt var lántaka veittur greiðslufrestur á mánaðarlegum afborgunum af höfuðstól lánsins til 1. febrúar 2009, en lántaki skyldi aðeins greiða vexti næstu tvo gjalddaga. Ritaði sóknaraðili undir skilmálabreytinguna því til staðfestu að hann væri henni samþykkur. Á ný var gengið frá yfirlýsingu um skilmálabreytingu lánsins, að beiðni lántaka, hinn 9. júlí 2009, þar sem vanskilum lánsins var bætt inn í höfuðstól þess og veittur greiðslufrestur á afborgunum þess til 1. október s.á. Var breyting þessi einnig samþykkt af sóknaraðila með áritun hans á yfirlýsinguna.

 

Árið 2010 rann Sparisjóður í Keflavík inn í SpKef sparisjóð og ári síðar, eða árið 2011, yfirtók varnaraðili rekstur SpKef sparisjóðs og þá jafnframt umrætt skuldabréf.

 

Með bréfi varnaraðila til sóknaraðila, dags. 20. febrúar 2015, var sóknaraðila, sem eiganda hinnar veðsettu eignar, tilkynnt að lántaki hefði fengið samþykktan samning um greiðsluaðlögun einstaklinga skv. lögum nr. 101/2010 og þar sem umrætt lán félli undir samninginn yrði hann krafinn um eftirstöðvar skuldarinnar. Jafnframt var sóknaraðila veittur 14 daga frestur til að semja um skuldbindinguna en að öðrum kosti yrði krafan gjaldfelld og knúið á um greiðslu hennar með frekari innheimtuaðgerðum.

 

Með uppboðsbeiðni, dags. 30. október 2015, fór varnaraðili fram á það við sýslumanninn á Vesturlandi að hin veðsetta eign sóknaraðila yrði seld nauðungarsölu til lúkningar umræddri skuld við varnaraðila.

 

Sóknaraðili sendi úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki kvörtun vegna framangreindrar veðábyrgðar sinnar hinn 13. janúar 2016 og krafðist þess að henni yrði aflétt á grundvelli 1. og 2. mgr. 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 sökum þess að ekki hefði verið farið eftir reglum samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 7. nóvember 2001. Með úrskurði, uppkveðnum 8. apríl s.á., komst nefndin að þeirri niðurstöðu að hafna yrði framangreindri kröfu sóknaraðila.

 

Að kröfu varnaraðila var hin veðsetta eign seld við nauðungarsölu 3. júní 2016. Í gerðabók sýslumanns er bókað að sóknaraðili mótmæli nauðungarsölunni og hyggist skjóta ágreiningi um lögmæti hennar til héraðsdóms. Sýslumaður tók mótmæli sóknaraðila ekki til greina og fór salan því fram, eins og áður segir. Leitaði sóknaraðili þá með bréfi, dags. 8. júní 2016 og mótteknu 10. s.m., úrlausnar dómsins um gildi nauðungarsölunnar, með vísan til heimildar í XIV. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

 

III.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili kveðst byggja kröfu sína á því að samningur hans við forvera varnaraðila, Sparisjóðnum í Keflavík, um veðsetningu fasteignar hans sé ógildanlegur á grundvelli nánar tilgreindra ákvæða laga nr. 7/1936. Nauðungarsalan sem fram hafi farið á eign sóknaraðila á grundvelli samningsins sé því ólögmæt og beri að ógilda hana. Engar forsendur séu til að líta svo á að varnaraðili hafi í raun metið greiðslufærni aðalskuldara og maka hans áður en sóknaraðili veðsetti fasteign sína til tryggingar láninu. Sé á því byggt að sparisjóðurinn hafi með athöfnum sínum og athafnaleysi brotið gegn reglum samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, dags. 1. nóvember 2001. Verði ekki um það deilt í málinu að sparisjóðurinn, og nú varnaraðili, hafi verið bundinn af samkomulagi þessu vegna aðildar sinnar að Samtökum banka og fjármálafyrirtækja.

 

Á því sé byggt í fyrsta lagi að varnaraðili hafi gerst brotlegur við ákv. 3. gr. samkomulagsins með því að sinna ekki þeirri ófrávíkjanlegu skyldu sinni að meta greiðslugetu greiðanda áður en sóknaraðili ritaði undir umrædda veðskuldbindingu. Hið svokallaða fjárhagsyfirlit, sem varnaraðili byggi á í því sambandi, hafi ekkert gildi, enda sé það óundirritað og unnið einhliða í tölvukerfi varnaraðila. Þá hafi þær fjárhagslegu upplýsingar sem þar komi fram augljóslega verið byggðar á allt að þriggja ára gömlum gögnum. Sé það mat sóknaraðila að vafi sé uppi um það hvort fjárhagsyfirlitið hafi í raun verið útbúið sérstaklega vegna umræddrar lánveitingar og/eða hvort skjalið tengist henni með einhverjum hætti.

 

Í öðru lagi sé á það bent að það sé andstætt góðri viðskiptavenju að bera umræddan veðsamning fyrir sig gagnvart sóknaraðila. Varnaraðili, og forveri hans, sé fyrirtæki sem beri að haga starfsháttum sínum í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði, sbr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Með því að vanrækja að gera umrætt greiðslumat hafi hann brotið gegn skyldum sínum samkvæmt tilgreindu lagaákvæði og sé samningurinn því ógildanlegur, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936.

 

Í þriðja lagi telji sóknaraðili að við mat á því hvort veðsamningurinn hafi verið ósanngjarn í skilningi tilvitnaðrar 36. gr. verði að líta til þeirrar yfirburðarstöðu sem sparisjóðurinn sem fjármálafyrirtæki hafi notið við samningsgerðina gagnvart sóknaraðila sem hafi enga sérstaka þekkingu á viðskiptum af þessu tagi.

 

Í fjórða lagi sé ljóst að veðsamningurinn sé ógildanlegur á grundvelli ólögfestra sjónarmiða og meginreglna samningaréttarins um brostnar forsendur, enda hafi ákvörðunarástæða sóknaraðila fyrir skuldbindingu sinni verið sú að greiðsluhæfi lántaka hefði verið metið af sérfræðingum sparisjóðsins áður en lánið væri veitt. Þá hafi vanræksla starfsmanna sparisjóðsins um gerð greiðslumats og röng upplýsingargjöf þar um sömu afleiðingar þar sem undirskrift sóknaraðila undir veðsamninginn hafi byggst á röngum forsendum, sbr. 38. gr. laga nr. 7/1936, og að óheiðarlegt sé af varnaraðila að bera samninginn fyrir sig, sbr. 33. gr. sömu laga.

 

Sóknaraðili byggir og á því að jafnvel þótt talið verði að greiðslumat hafi farið fram hafi það verið slíkum annmörkum háð, m.a. vegna vöntunar gagna, að það hafi á engan hátt gefið rétta mynd af fjárhag lántaka á umræddum tíma. Verði því ekki á því byggt. Sparisjóðnum hafi borið að láta fara fram óhlutdrægt og málefnalegt greiðslumat, stutt eðlilegum gögnum. Þá beri það ekki vott um vönduð vinnubrögð að í prentaðri yfirlýsingu í skjali sem hafi yfirskriftina „Niðurstaða greiðslumats“ sé tiltekið að lántaki geti efnt skuldbindingar sínar, en í handskrifuðum texta sé þeirri fullyrðingu snúið við. Sýni þetta óforsvaranleg vinnubrögð sem hafi bitnað með ósanngjörnum hætti á sóknaraðila.

 

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að umrætt greiðslumat hafi verið framkvæmt með þeim hætti sem samkomulagið geri ráð fyrir vísi sóknaraðili enn fremur til þess að ekkert liggi fyrir um að sóknaraðila hafi verið veittar upplýsingar um að honum stæði til boða að staðfesta skriflega að hann kysi að veita umrætt veð þrátt fyrir að fyrirliggjandi greiðslumat benti til þess að lántaki gæti ekki efnt skuldbindingar sínar. Varnaraðili hafi því brotið gegn 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins, sem hljóti að leiða til ógildingar nauðungarsölunnar.

 

Til viðbótar við framangreint liggi fyrir að ábyrgðir sóknaraðila hafi með fyrrgreindum skilmálabreytingum hækkað frá því að nema 8.300.000 krónum samkvæmt upphaflega skuldabréfinu og í 10.626.550 krónur samkvæmt skilmálabreytingunni hinn 9. júlí 2009. Sparisjóðnum hafi fortakslaust verið skylt að greiðslumeta lántakann áður en gengið yrði frá þessum skilmálabreytingum. Vanræksla á þessu eigi og að leiða til þess að umrædd nauðungarsala verði ógilt. 

 

IV.

Varnaraðili hafnar þeirri fullyrðingu sóknaraðila að greiðslumat hafi ekki farið fram, enda hafi sóknaraðili sjálfur lagt fram gögn er sýni að Sparisjóðurinn í Keflavík hafi framkvæmt greiðslumat á lántaka vegna umræddrar lánveitingar. Hafi niðurstaða þess mats verið sú að greiðslugeta lántaka væri neikvæð um ríflega 105.000 krónur á mánuði. Með undirritun sinni á skjalið „Niðurstaða greiðslumats“ hafi sóknaraðili staðfest vilja sinn til að veita veð til tryggingar greiðslu lánsins þrátt fyrir að hafa verið upplýstur um að niðurstaða greiðslumats benti til þess að lántaki gæti ekki efnt skuldbindingar sínar. Fyrir liggi að orðið „ekki“ hafi vegna mistaka vantað í prentaðan texta yfirlýsingarinnar þegar kom að undirritun hans, en úr því hafi verið bætt með því að handrita það inn á textann og sóknaraðili síðan sett stafi sína við þá breytingu. Hafi hann með því staðfest að breytingin væri gerð með hans vitund og að hann hefði verið upplýstur um neikvæða niðurstöðu greiðslumatsins.

 

Varnaraðili vísar og til þess að ljóst sé af fyrirliggjandi gögnum að sparisjóðurinn hafi við frágang veðsetningarinnar uppfyllt allar þær skyldur sem 4. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 7. nóvember 2001 kveði á um. Þannig hafi sparisjóðurinn framkvæmt greiðslumat á lántakanum og upplýst sóknaraðila um neikvæða niðurstöðu þess. Þá hafi sóknaraðili og staðfest með undirritun sinni á skuldabréfið sjálft og á skjalið „Niðurstaða greiðslumats“ að hann hefði fengið og kynnt sér upplýsingabækling um skuldaábyrgðir og veðsetningar og að til stæði að ráðstafa meiru en helmingi lánsfjárhæðarinnar til greiðslu á eldri skuldum lántakans hjá sparisjóðnum. Sóknaraðili hafi á engan hátt sýnt fram á að umrætt greiðslumat hafi byggst á óforsvaranlegum gögnum, enda blasi við að eðlilegast sé að horfa til mánaðarlegra ráðstöfunartekna lántaka, s.s. mánaðarlegrar greiðslubyrði lána og annarra fastra útgjalda, í þessu sambandi. Af þessu leiði og að varnaraðili mótmæli einnig þeim málsástæðum sóknaraðila er lúti að því að umrædd veðsetning, og þar með nauðungarsalan, sé ógildanleg á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 eða 19. gr. laga nr. 161/2002. Þá telji varnaraðili og að meint brot sparisjóðsins á umræddu samkomulagi leiði ekki sjálfkrafa til ógildingar veðsetningar sóknaraðila. Við mat á því hvort til ógildingar eigi að koma verði að horfa heildstætt á öll málsatvik. Verði þannig að horfa til þess að skýr vilji sóknaraðila hafi staðið til þess að veita lántaka veðábyrgð og að engin ástæða sé til að ætla að sóknaraðili hefði ekki veðsett eignina þótt gerð greiðslumats hefði verið hagað á annan veg. Það geti því hvorki talist ósanngjarnt né andstætt góðri viðskiptavenju að byggja á skuldbindingu sóknaraðila.

 

Varnaraðili mótmæli því jafnframt, með vísan til fyrri umfjöllunar, að skilyrði 33. gr. og 38. gr. laga nr. 7/1936 séu á nokkurn máta uppfyllt.

 

Varnaraðili mótmælir því loks að borið hafi að framkvæma nýtt greiðslumat áður en umræddum lánum hafi í tvígang verið skilmálabreytt. Skilmálabreytingarnar hafi verið gerðar vegna vanskila lántaka á láninu og í þeim tilgangi að koma skuldinni aftur í afborgunarferli. Auk þess sem skuldara hafi verið veittur gjaldfrestur á afborgunum til nokkurra mánaða. Það liggi því í hlutarins eðli að skilmálabreytingarnar hafi ekki aukið við skuldir eða skuldbindingar lántaka með nokkrum hætti og þar af leiðandi ekki aukið við skuldbindingar sóknaraðila. Þá sé í þessu sambandi á það bent að sóknaraðili hafi skrifað undir báðar skilmálabreytingarnar án athugasemda eða mótmæla.

 

V.

Niðurstaða

Ágreiningslaust er í málinu að Sparisjóðurinn í Keflavík var bundinn af reglum samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001. Í 3. gr. samkomulagsins er kveðið á um það að þegar veð sé sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu beri fjármálafyrirtæki að meta greiðslugetu greiðanda og skuli við það mat taka tillit til neyslu og annarra fastra útgjalda áður en ráðstöfunarfé til greiðslu skuldbindinga sé reiknað út. Þá er í 4. gr. mælt fyrir um skyldu fjármálafyrirtækis til að veita þeim sem gengst í ábyrgð fyrir annan mann eða heimilar veðsetningu til tryggingar skuldum hans tilteknar upplýsingar áður en undirritun fer fram.

 

Sóknaraðili byggir kröfu sína um ógildingu á nauðungarsölu fasteignar hans Ytri-Knarrartungu aðallega á því að veðsetning eignarinnar hafi verið ógild þar sem sparisjóðurinn hafi vanrækt að meta greiðslugetu sóknaraðila í samræmi við reglur framangreinds samkomulags. Að öðrum kosti telur hann að til sömu niðurstöðu eigi að leiða að greiðslumatið hafi verið miklum annmörkum háð og ekki gefið rétta mynd af tekjum lántaka, auk þess sem sparisjóðurinn hafi ekki kynnt sóknaraðila niðurstöðu matsins í samræmi við 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins. Eins og áður segir liggur fyrir í málinu skjal sparisjóðsins, sem hefur yfirskriftina „Niðurstaða greiðslumats“, og er dagsett 29. nóvember 2007. Á það er prentað svofelld yfirlýsing: „Niðurstaða greiðslumats bendir til þess að lántakandi geti efnt skuldbindingar sínar miðað við núverandi fjárhagsstöðu.“ Jafnframt hefur orðið „ekki“ verið handskrifað ofan í textann til að snúa við merkingu hans og eru upphafsstafir sóknaraðila ritaðir þar við. Þá kemur fram neðst á skjalinu yfirlýsing sóknaraðila um það að hann staðfesti með undirritun sinni að hann hafi fengið og kynnt sér bækling um sjálfskuldarábyrgðir og lánsveð. Af hálfu sóknaraðila hefur því ekki verið haldið fram að framangreind handritun hans á orðinu „ekki“ stafi ekki frá honum sjálfum. Að þessu gættu verður hér að leggja til grundvallar að sóknaraðili hafi með undirritun sinni undir skjalið staðfest samþykki sitt fyrir umræddri veðsetningu fasteignar sinnar, þrátt fyrir að hann hefði verið um það upplýstur að niðurstaða greiðslumats sparisjóðsins benti til þess að lántakinn gæti ekki, miðað við þáverandi fjárhagsstöðu, efnt skuldbindingar sínar.

 

Miðað við framangreinda niðurstöðu verður heldur ekki talið að sóknaraðili geti nú borið fyrir sig að ætlaðir gallar á greiðslumatinu eigi skv. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, eða öðrum lagareglum sem hann byggir kröfu sína á, að leiða til þess að litið verði svo á að framangreind veðsetning hans hafi verið ógild. Verður heldur ekki talið að neinu breyti í þessu sambandi þótt sóknaraðili hafi í tvígang á árunum 2008 og 2009 samþykkt skilmálabreytingu á greiðsluskilmálum skuldabréfsins, enda jókst heildarfjárhæð skuldarinnar ekki í neinu við þær breytingar.

 

Með því að veðskuldbindingu sóknaraðila verður ekki vikið til hliðar eða hún ógilt ber að hafna kröfu hans um ógildingu á nauðungarsölu fasteignar hans, Ytri-Knarrartungu, sem fram fór hinn 3. júní 2016.

 

Sóknaraðili greiði varnaraðila 500.000 krónur í málskostnað.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

 

Úrskurðarorð:

 

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Emanúels Ragnarssonar, um ógildingu nauðungarsölu á eigninni Ytri-Knarrartungu, 136320, Snæfellsbæ, fastanr. 211-4135, sem fram fór hinn 3. júní 2016.

 

Sóknaraðili greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 500.000 krónur í málskostnað.

                                                                                    Ásgeir Magnússon