• Lykilorð:
  • Börn
  • Húsbrot
  • Líkamsárás
  • Miskabætur

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 21. nóvember 2017 í máli nr. S-71/2016:

Ákæruvaldið

(Jón Haukur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Sigurjóni Þ. Fjeldsted

(Snorri Snorrason hdl.)

 

                                                          I.

Mál þetta er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Vesturlandi, dags. 12. desember, 2016 á hendur Sigurjóni Þ. Fjeldsted, kt. …, …, …. Málið var dómtekið 27. október 2017.

 

Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða fyrir eftirtalin hegningarlagabrot og brot á barnaverndarlögum, að kvöldi fimmtudagsins 15. september 2016:

1.

Eignaspjöll með því að brjóta rúðu í útidyrahurð íbúðar á 2. hæð í húsinu við … á … og láta blóð úr sárum sínum leka um gólf og veggi, og á húsgögn og innbú í íbúðinni svo kosta þurfti miklu til við þrif.

Telst þetta varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegn­ingarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum.

2.

Húsbrot með því að ryðjast heimildarlaust inn í íbúðina sem vísað er til í ákærulið 1. Telst þetta varða við 231. gr. almennra hegn­ingarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum.

3.

Líkamsárás með því að hafa, er A…, kt. …, og B…, kt. …, húsráðendur í íbúðinni sem vísað er til í ákærulið 1, vísuðu honum út, ráðist á B…, fellt hann í gólfið og slegið hann í höfuð, andlit og háls með þeim afleiðingum að hann fékk skrámu við bæði augu, sár aftan við vinstra eyra og bólgnaði og marðist í andliti, á höfði og hálsi.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegn­ingarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum.

4.

Hótanir með því að hafa þrisvar sinnum í kjölfar atburðanna sem lýst er í ákæruliðum 1-3, sama kvöld, hótað að drepa B…, fyrst í viðurvist lögreglumanna og sambýliskonu sinnar í íbúð þeirra á 1. hæð hússins við … …, í annað sinn í viðurvist lögreglu­manns og sjúkraflutningamanna í sjúkrabifreið á leiðinni frá … á Sjúkra­húsið á Akranesi, og í þriðja sinn í viðurvist lögreglumanna og starfsmanna Heilbrigðis­stofnunar Vesturlands á Sjúkrahúsinu á Akranesi.

Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegn­ingarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum.

5.

Brot á barnaverndarlögum með því að hafa með framferði sínu í ákæruliðum 1-3 sýnt af sér ógnandi og vanvirðandi háttsemi gagn­vart börnunum D…, kt. …, og E…, kt. …, íbúum í íbúðinni sem vísað er til í ákærulið 1, og valdið þeim mikilli hræðslu og andlegu áfalli.

Telst þetta varða við 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkröfur:

Í málinu hefur Ómar Örn Bjarnþórsson, hdl. lagt fram skaðabótakröfur f.h. B…, kt. …, og A…, kt. …, persónu­lega og fyrir hönd ólögráða barna þeirra, D…, kt. …, og E…, kt. …, og gerir kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða hverju þeirra 1.500.000 kr. í miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. september 2016 þar til mánuður er liðinn frá birtingu krafnanna, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er gerð krafa um að ákærði verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar eða réttargæsluþóknunar, með virðisauka­skatti, til handa brotaþolum að skaðlausu eða skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins, m.t.t. 3. mgr. 176. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

 

Við upphaf aðalmeðferðar málsins var því lýst yfir af hálfu ákæruvaldsins að það félli frá ákæruliðum 1 og 4.

 

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Til vara krefst hann þess að honum verði ekki gerð refsing, en að öðrum kosti verði hún ákveðin svo væg sem lög frekast leyfa og þá bundin skilorði. Ákærði krefst þess og að bótakröfum verði vísað frá dómi, en að öðrum kosti verði hann sýknaður af þeim. Til þrautavara krefst hann verulegrar lækkunar á bótakröfum. Þá krefst ákærði hæfilegra málsvarnarlauna.

 

II.

Að kvöldi fimmtudagsins 15. september 2016 barst lögreglunni tilkynning um að maður væri að reyna að brjótast inn í íbúð á annarri hæð að … á …. Lögregla fór á vettvang og hitti fyrir A…, sem var í miklu uppnámi og var hún blóðug á höndum. Greindi hún frá því að ákærði hefði brotist inn í gegnum hurðina og að allt húsið væri í blóði. Ákærði hefði svo farið út úr íbúðinni og inn til sín í íbúðina á fyrstu hæðinni, þar sem hann byggi. Kemur fram í skýrslu lögreglu að sjá hafi mátt blóðslettur og kám í stigahúsinu og á hurðinni að íbúð ákærða á fyrstu hæð. Lögreglan hafi hitt ákærða fyrir í íbúð sinni, ásamt …. Hafi ákærði haft handklæði vafið utan um hægri framhandlegg, sem hafi verið blóðugur. Ákærði hafi verið æstur og sagt að hann þarna uppi hefði skorið sig. Lögreglan fór svo upp í íbúð á annarri hæð þar sem hún hitti fyrir A… og B…. Kemur fram í skýrslunni að gler í hurðinni að íbúðinni hafi verið brotið og glerbrot legið á gólfinu fyrir innan hurðina. Blóð hafi verið á hurðinni og mikið af blóðslettum á gólfi og veggjum inni í íbúðinni. Fram hafi komið hjá B… að ákærði hafi látið höggin dynja á sér. Loks kemur fram í skýrslu lögreglu að tvö börn brotaþola hafi verið heima þegar atvikið átti sér stað og orðið vitni að atburðum. 

 

Hinn 16. september 2016 mættu A… og B… á lögreglustöðina á Akranesi og gáfu skýrslu og kröfðust þess að ákærða yrði refsað lögum samkvæmt fyrir verknaðinn. B… fór samdægurs á slysadeild til aðhlynningar og liggur frammi í málinu læknisvottorð, dags. 19. september 2016, ásamt ljósmyndum, vegna þessa. Kemur þar meðal annars eftirfarandi fram: „Í augnkrók hægra auga er mar og skráma, eymsli við þreifingu. Einnig lítil skráma og mar lateralt við vinstra auga.“ Svo segir: „Aftan við vinstra eyra er grunnt sár, 1x1 cm, virðist hafa blætt úr, bólga í kring og eymsli. Aftan við hægra eyra er bólga, mar og roði.“ Loks segir svo: „Áverkar gætu samræmst því sem sjúklingur segir, að ráðist hafi verið á hann og hann hafi hlotið hnefahögg, bæði í andlitið og aftan frá eins og sjá má á áverkum bakvið eyru. Einnig áverkar á baki og hálsi sem samrýmast því að gripið hafi verið í hann á hálsi og að ýtt hafi verið harkalega í bakið á honum.“

 

Í málinu liggja fyrir skýrslur lögreglu um rannsóknir hennar á vettvangi, m.a. skýrsla og ljósmyndir vegna blóðferlarannsóknar og skýrsla um niðurstöðu DNA-rannsóknar á blóðsýnum úr íbúð brotaþola, teknum af hurð fram á stigagang, af eldhúsgólfi og af hurð á hjónaherbergi, en niðurstaða hennar var sú að öll sýnin hefðu sama DNA-snið og DNA-snið ákærða.

 

Í málinu liggur fyrir skýrsla Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 23. september 2016, þar sem fram kemur að alkóhólinnihald í blóðsýni sem tekið var úr ákærða eftir handtöku hans umrædda nótt hefði mælst 2,03‰. Þá liggur og fyrir læknisvottorð, dags. 24. september 2016, vegna skoðunar sem fram fór á ákærða á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi umrædda nótt. Kemur þar fram eftirfarandi álit: „Margir skurðir á hægri framhandlegg og hönd sem eru allir lengri en þeir eru dýpri og samrýmast því ekki stungum heldur frekar skurðum. Töluvert hefur blætt úr sárunum og læknismeðferð var nauðsynleg til að stöðva blæðingu áður en alvarlegar afleiðingar hlutust.“

                                                           

III.

Skýrslur fyrir dómi

Fyrir dómi lýsti ákærði atvikum þannig að hann hefði umrætt sinn verið orðinn langþreyttur á þeim leiðindum sem voru á milli hans og og fólksins á efri hæðinni út af einhverju, sem hefði í raun ekkert verið, og hefði hann verið að ræða það við F…, sem hann bjó með, hvort hann ætti ekki að reyna að ná við þau sáttum. Hann hefði verið „í glasi“ og ekki í vondu skapi. Hann hefði svo lagt af stað upp stigann með góðum huga. Hins vegar kvaðst ákærði ekki geta tjáð sig frekar um málið vegna óminnis og ruglings í höfðinu.

 

Vitnið A… kvaðst hafa farið með syni sínum út að ganga með hundinn. Þegar hún hefði verið komin að dyrunum að íbúð ákærða hefði hann staðið þar ölvaður, gengið upp að henni og spurt hvort þau þyrftu að halda áfram að vera með þessa óvinsemd sem hefði verið milli þeirra. Kvaðst hún hafa haldið ró sinni og sagt við ákærða að það væri ekki í sínum höndum þar sem það væri ekki hún sem hefði stofnað til þessara leiðinda. Þá hefði ákærði spurt hvort hún vildi að hann bæðist afsökunar og síðan sagt fyrirgefðu. Hann hefði svo spurt hvort allt væri í lagi og hún þá sagt að betra væri að ræða þessi mál þegar fólk væri edrú. Ákærði hefði þá orðið brjálaður, spurt hvort hún ætlaði að haga sér svona og að þá fyrirgæfi hann henni aldrei. Hún hefði þá gengið af stað og ákærði farið inn til sín. B…, eiginmaður hennar, sem hefði á sama tíma verið að gera við bíl á bílastæðinu við húsið á móti, hefði komið til hennar og spurt hvort allt væri í lagi. Kvaðst hún hafa svarað því til að ákærði væri bara fullur. Svo hefði hún, ásamt syni sínum, farið inn með hundinn. Hún hefði lokað hurðinni, tekið ólina af hundinum og þá heyrt að ákærði væri að berja í rúðuna á hurð íbúðarinnar. Hún hefði staðið á ganginum í íbúðinni, horft á hurðina og heyrt börnin byrja að öskra. Rúðan hefði svo brotnað undan höggum ákærða og hann labbað inn í íbúðina. Hefði hún séð að ákærða var farið að blæða er hann var að brjóta rúðuna, en hann hefði ekki verið með blóð á hendinni þegar hún hitti hann fyrir utan. Ákærði hefði gengið fram hjá henni og inn í stofuna, þar sem krakkarnir voru á bak við sófa. Kvaðst hún fyrst bara hafa horft á og ekki þorað að kalla á B…, mann sinn, þar sem hún vildi sjá hvort ákærði væri að fara að börnunum. Þegar ákærði hefði snúið við og gengið inn í svefnherbergisganginn hefði hún snúið sér við, hlaupið að eldhúsglugganum og öskrað á B…. Hann hefði komið mjög fljótt, gengið upp að ákærða og spurt hann hvað í andskotanum hann væri að gera þarna. Við það hefði ákærði snúið sér við og þeir dottið. Hefði ákærði endað ofan á B… og hefði hún séð ákærða slá hann a.m.k. þrisvar í andlit og höfuð. Hún hefði þá hlaupið fram á gang og kallað á nágranna þeirra, sem hefði ekki heyrt neitt. Hún hefði svo hlaupið aftur inn til að róa börnin og kallað til B…, sem þá hefði verið að reyna að halda ákærða niðri, að hún væri að fara að hringja í lögregluna. Kvaðst hún svo hafa hringt í lögregluna. Þeir hefðu svo risið upp og B… gengið í burtu frá ákærða og sagt honum að drulla sér út. Ákærði hefði svo farið út og nokkru síðar hefði hálfbróðir B… komið inn og séð allt blóðið. Hefði B… sagt honum að taka börnin og fara með þau til mömmu hennar. Aðspurð um hvernig börnunum hafi gengið að vinna úr þessum atburðum sagði vitnið að þau hefðu fengið hjálp frá skólasálfræðingi en ljóst væri að þau hefðu breyst. Þau væru hrædd við fólk sem drykki og við eldri menn, þori ekki að vera ein heima á kvöldin og sonurinn væri nýfarinn að geta sofið einn í herbergi sínu.

 

Vitnið B… kvaðst hafa verið að gera við bílinn sinn fyrir utan húsið þegar hann hefði heyrt hurð skellast og einhver orðaskipti á bak við sig. Hann hefði þá litið við og séð konu sína á gangi með hundinn. Kvaðst hann hafa spurt hana hvað þetta hefði verið og hún þá sagst hafa verið að ræða við ákærða og að hann væri bara eitthvað fullur. Hann hefði þá haldið áfram að vinna í bílnum. Stuttu seinna hefði hann svo heyrt skaðræðisóp koma úr íbúð sinni, eins og einhver hefði stórslasast, og hlaupið þangað upp. Þegar hann hefði komið inn á ganginn í íbúðinni hefði hann séð í bakið á ákærða, þar sem hann hefði verið að horfa inn í hjónaherbergið. Kvaðst vitnið þá hafa hlaupið að ákærða, gripið í öxlina á honum og spurt hvern fjandann hann væri að gera þarna. Hefði ákærði þá ráðist að honum, ýtt honum afturábak og slegið hann í andlitið með hægri hendi. Ákærði hefði einnig slegið hann í hnakkann og svo aftur í hina kinnina. Ákærði hefði svo dottið á hann með þeim afleiðingum að hann hefði dottið aftur fyrir sig. Kvaðst vitnið hafa reynt að halda ákærða svo að hann myndi ekki slá sig en ákærði þá sagt að hann hefði ekkert í sig. Vitnið kvaðst þá hafa sleppt annarri hendinni á ákærða og ætlað að snúa sér við en þá hefðu dunið á honum höggin frá ákærða. Hann hefði þá snúið sér aftur við og gripið í höndina á ákærða, en hún hefði verið sleip og öll útötuð blóði. Vitnið hefði svo náð að koma fætinum undir sig og henda ákærða aftur fyrir sig. Vitnið kvaðst svo hafa náð að standa upp og sagt ákærða að því búnu að drulla sér út úr íbúðinni. Ákærði hefði eftir þetta hlaupið út með miklum látum. Vitnið lýsti því að börnin hefðu verið hágrátandi að þessu loknu, eftir að hafa horft á þessar aðfarir. Sjálfur hefði hann verið alblóðugur í framan og börnin því haldið að hann væri stórslasaður. Kom fram hjá honum að dóttir hans hefði pissað á sig vegna þessa og þurft að skipta um buxur eftir að hún var komin heim til ömmu sinnar. Börnin hefðu verið að hitta sálfræðing og eigi ennþá erfitt. Þau séu hrædd við eldri menn og drukkið fólk, hrædd við að vera ein heima og strákurinn sé nýfarinn að sofa í eigin herbergi.

 

Telpan D… lýsti því í dómsskýrslu sinni að hún hefði setið í sófanum með bróður sínum þegar þau hafi heyrt einhvern þramma upp tröppurnar og kvaðst hún strax hafa vitað að það væri ákærði. Bróðir hennar hefði orðið svo hræddur að hann hefði falið sig á bak við sófann, en hún hefði farið til móður sinnar og þær saman fylgst með hurðinni og haldið að ákærði myndi banka. Hann hefði hins vegar brotið rúðu í hurðinni með nokkrum höggum, opnað dyrnar og gengið inn. Hún kvaðst hafa orðið hrædd meðan á þessu stóð og einnig falið sig á bak við sófann hjá bróður sínum. Ákærði hefði svo gengið fram hjá sófanum og þau systkinin þá haldið að hann myndi ráðast á sig og því orðið mjög hrædd. Blóð hefði lekið úr hendi hans og slest út um allt, því að hann hefði skorið sig við að brjóta rúðuna í hurðinni. Þau hefðu svo farið út á svalir íbúðarinnar þegar ákærði fór inn á svefnherbergisganginn. Hún kvaðst svo hafa séð þegar pabbi hennar kom inn í íbúðina og sagði ákærða að fara út, og þá hefði maðurinn komið „og einhvern veginn ræðst á hann eða eitthvað, ég veit ekki alveg.“ Þeir hafi síðan endað í gólfinu í átökum. Pabbi hennar hefði svo náð að komast frá manninum og hefði maðurinn þá farið aftur út.

 

Drengurinn E… lýsti því í dómsskýrslu sinni að hann hefði verið að horfa á sjónvarpið þegar hann og systir hans hefðu heyrt einhvern þramma mjög harkalega upp stigann að íbúðinni. Systir hans hefði strax sagt að þetta væri maðurinn af því að hann trampaði svo fast. Systir hans hefði þá farið fram til mömmu sinnar til að fylgjast með dyrunum. Hann sagðist svo hafa heyrt manninn brjóta glerið og opna hurðina. Hafi hönd mannsins þá verið blóðug og blóð spýst út um allt. Mamma hans hefði svo öskrað á pabba hans eftir hjálp og það sama hefðu þau systkinin gert. Þau systkinin hefðu orðið mjög hrædd og falið sig á bak við sófa og síðan farið út á svalir. Pabbi hans hefði svo komið og slagsmál orðið milli þeirra. Þetta hefði svo endað með því að maðurinn fór aftur út.

 

Vitnið F…, fyrrverandi sambýliskona ákærða, bar fyrir dómi að umrætt sinn hefði ákærði ákveðið að fara upp á efri hæðina til að friðmælast. Þar sem hann hefði verið undir áhrifum áfengis hefði hún ekki talið rétt hjá honum að gera það og beðið hann um að bíða með það þar til daginn eftir. En ákærði hefði samt farið. Hún hefði svo stuttu síðar heyrt einhver læti og konuna svo æpa: „Getur ekki einhver hjálpað okkur.“ Hún kvaðst þó ekki hafa getað komið til aðstoðar vegna síns líkamlega sjúkdóms. Lýsti hún því að opið hefði verið úr íbúð hennar og fram á sameiginlegan stigagang. Á svipuðum tíma hefði henni heyrst sem verið væri að stimpast og að einhver læti væru í gangi. Þegar hana hefði svo verið farið að lengja eftir því að ákærði kæmi niður hefði hún ákveðið að fara upp og athuga hvað um væri að vera.  Hefði ákærði þá legið rænulaus á gólfinu fyrir framan íbúðina á efri hæðinni, allur í blóði, og hefði blóðið spýst út úr handleggnum á honum, eins og að farin væri í sundur slagæð. Kvaðst hún hafa farið að stumra yfir honum en ákærði hefði þá rankað við sér og hlaupið niður. Sagði hún að blóð hefði verið úti um allt. Á gólfinu hefði verið blóðpollur og rúðan í hurðinni verið brotin. Dyrnar hefðu verið lokaðar inn í íbúðina og glerbrot hefðu legið á stigaganginum þar fyrir framan. Aðspurð kvað hún að B… og A… hefðu komið niður til sín í kjölfar þessa, en hún hefði verið að aðstoða ákærða er þau hefðu bankað. Lýsti hún því að B… hefði þá verið alblóðugur á annarri hendinni. Hefðu þau ætlað inn í íbúðina en hún hefði skellt á þau. Hefði þetta verið áður en lögreglan kom á vettvang.      

 

Vitnið Sigurveig Sigurðardóttir sálfræðingur staðfesti og skýrði nánar skýrslu sína, dags. 8. nóvember 2016, þar sem fram kemur að hún hefði haft börnin E… og D… til meðferðar vegna umrædds atburðar. Kom m.a. fram hjá henni að börnin hefðu eftir þessa atburði misst öryggi sitt og fundist þeim sífellt ógnað.

 

Vitnið Margrét R. Jakobsdóttir lyfjafræðingur staðfesti og skýrði nánar skýrslu Rannsóknastofu lyfja- og eiturefnafræði, dags. 23. september 2016, um  alkóhólinnihald í blóðsýni ákærða.

 

Vitnið Linda Ósk Árnadóttir læknir staðfesti og skýrði nánar vottorð sitt vegna brotaþola B… og vottorð sitt vegna ákærða. Nánar aðspurð um vottorð ákærða, þar sem tilgreint er að skurðsár séu í flipum og sárin séu lengri en þau séu djúp, sagðist hún telja það ólíklegt að sár ákærða væru stungusár og valdið með hníf.

 

Vitnið Benedikt Kristjánsson læknir kvaðst kannast við samskiptaseðil vegna ákærða frá 21. september 2016 og að hafa skoðað hann í greint sinn. Kvað hann ákærða hafa aðallega talað um höfuðáverka og verki frá andliti. Í kjölfarið hefði verið pöntuð myndataka og ákærði þá reynst tvíbrotinn í andliti.   

 

Vitnið Birna Jónsdóttir röntgenlæknir staðfesti og skýrði niðurstöðu tölvusneiðmyndatöku af andlitsbeinum ákærða, dags. 21. september 2016. Staðfesti hún að kinnbein hefði verið brotið og að blæðing hefði verið í einu af loftfylltu holrýmunum í andlitinu. Einnig hefði augnbotn verið brotinn.

 

Lögreglumenn þeir sem komu á vettvang greint sinn og þeir sem önnuðust rannsókn á vettvangi í kjölfarið komu fyrir dóminn og lýstu aðkomu sinni að málinu og staðfestu skýrslur sínar.

 

IV.

Niðurstaða

Eins og áður er fram komið lýsti fulltrúi ákæruvaldsins því yfir við upphaf aðalmeðferðar málsins að ákæruvaldið félli frá ákæruliðum 1 og 3 í ákæru. Eftir standa þá ákæruliðir 2, 4 og 5, um að ákærði hafi með háttsemi sinni í greint sinn gerst sekur um húsbrot með því að ráðast heimildarlaust inn í umrædda íbúð brotaþolanna, líkamsárás á B… með því að ráðast á hann í íbúðinni og m.a. slá hann í höfuð og andlit, og loks að hafa sýnt af sér ógnandi og vanvirðandi háttsemi gagnvart tveimur börnum húsráðenda og valda þeim mikilli hræðslu og andlegu áfalli.

 

Ákærði neitar sök en kvaðst fyrir dómi ekki geta sökum óminnis lýst atvikum eftir að hann lagði af stað upp stigann, upp á efri hæð hússins, í því skyni að leita sátta við húsráðendur þar. Framburður ákærða hjá lögreglu um það sem gerðist var hins vegar á þann veg að hann hefði aldrei stigið fæti inn í íbúð brotaþolanna á efri hæðinni heldur bankað þar á hurð, B… komið þar til dyra og skellt hurðinni á hann, hún lent í höfði hans, sem aftur hefði leitt til þess að hann hefði rekið höndina í gegnum rúðuna á hurðinni.

 

Vitnið A… bar á þann veg, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, að hún hefði heyrt og séð að ákærði væri að berja í rúðuna á hurðinni að íbúð hennar uns rúðan hefði brotnað og ákærði gengið inn, blóðugur á annarri hendi. Hann hefði síðan gengið inn í íbúðina og inn svefnherbergisganginn, en hún þá náð að kalla á eiginmann sinn, B…, til hjálpar. Þegar B… hefði komið inn hefði hann spurt ákærða „hvern andskotann hann væri að gera þarna,“ ákærði þá snúið sér við og þeir dottið. Hefði ákærði endað ofan á B… og hefði hún séð ákærða slá hann a.m.k. þrisvar sinnum í andlit og höfuð. Þá bar vitnið B… á þann veg, bæði fyrir lögreglu og fyrir dómi, að þegar hann hefði komið að ákærða inni í íbúðinni hefði hann gripið í öxl hans og spurt hvern fjandann hann væri að gera þarna. Hefði ákærði þá ráðist að honum, ýtt honum afturábak og slegið hann í andlitið með hægri hendi. Ákærði hefði einnig slegið hann í hnakkann og síðan aftur í hina kinnina. Ákærði hefði svo dottið á hann með þeim afleiðingum að hann hefði einnig dottið. Í kjölfarið hefði ákærði látið höggin dynja á höfði hans. Loks báru börn þeirra hjóna, D… og E…, um það hvernig ákærði braut rúðu í hurð íbúðarinnar, opnaði dyrnar og fór inn, óboðinn. Með hliðsjón af framangreindum framburði vitna verður engin stoð fundin fyrir þeim málsástæðum ákærða að gerðir hans hafi á einhvern hátt helgast af einhvers konar neyðarrétti eða neyðarvörn. Þvert á móti telst sannað, með framangreindum framburði vitna, læknisvottorðum og vætti lækna um áverka sem greindust á ákærða og brotaþolanum B… í kjölfar umræddra atburða og niðurstöðum DNA-rannsóknar, um að blóð úr ákærða sem greindist á stigagangshurðinni, eldhúsgólfi og á hurð í hjónaherbergi hafi verið úr ákærða, að ákærði hafi gerst sekur um þau brot sem greinir í ákærulið 2 og 4 og með þeim afleiðingum sem þar greinir. Undanskilið er þó að ekki telst komin fram sönnun um að ákærði hafi slegið brotaþolann í hálsinn, eins og greinir í ákærulið 4. Teljast brot ákærða samkvæmt framangreindum ákæruliðum réttilega færð til refsiákvæða.

 

Ákærði er einnig sakaður um í 5. ákærulið að hafa brotið gegn 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Fyrir liggur að börnin tvö voru í íbúðinni umrætt sinn og með framburði þeirra sjálfra og foreldra þeirra er nægilega fram komið að þau urðu vitni að því þegar ákærði braut rúðuna, ruddist inn í íbúðina, blóðugur á hendi, og réðst í kjölfarið á föður þeirra. Þá verður ráðið af framburði foreldranna og framburði sálfræðings, sem hefur haft þau til meðferðar, að börnin hafi eftir þessa atburði misst öryggi sitt, átt erfitt með að sofna á kvöldin og fundist þeim sífellt ógnað. Að þessu virtu verður ákærði sakfelldur fyrir framangreinda háttsemi sína og telst brot hans réttilega heimfært til 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

 

Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann allt frá árinu 1990 hlotið fimm dóma fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögreglulögum og tvisvar gengist undir lögreglustjórasátt vegna brota gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Síðast var ákærða, með dómi hinn 20. maí 2016, gert að sæta 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir líkamsárás skv. 217. gr. almennra hegningarlaga, auk brota á umferðarlögum og lögreglulögum. Með þeim brotum sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir rauf hann skilorð fyrrgreinds dóms. Með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga ber að taka upp refsingu samkvæmt þeim dómi og dæma með í þessu máli þannig að ákærða verður gerð refsing í einu lagi, að teknu tilliti til 77. gr. laganna. Við ákvörðun refsingar er að öðru leyti til þess horft að ákærði hefur áður verið sakfelldur fyrir ofbeldisbrot. Verður refsing hans því ákveðin með hliðsjón af 1. mgr. 218. gr. c í almennum hegningarlögum. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi og kemur ekki til álita í ljósi sakaferils að skilorðsbinda refsinguna.

 

Í málinu krefjast brotaþolarnir B… og A…, persónu­lega og fyrir hönd ólögráða barna sinna, þess að ákærði verði dæmdur til að greiða hverju þeirra 1.500.000 krónur í miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, auk tilgreindra vaxta. Ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir líkamsárás, húsbrot og brot gegn barnaverndarlögum. Ber ákærði skaðabótaábyrgð á því tjóni brotaþola sem rekja má til hinnar refsiverðu háttsemi, sem er til þess fallin að valda brotaþolum miska. Samkvæmt því, og að öðru leyti með vísan til framangreinda gagna um að brotin hafi fengið mjög á börnin tvö, verður ákærði dæmdur til að greiða börnunum hvoru fyrir sig 200.000 krónur í miskabætur. Þá verður ákærða gert að greiða brotaþolunum B… 150.000 krónur og A… 100.000 krónur í miskabætur. Dæmdar bætur bera vexti eins og tilgreint er í dómsorði. Miskabótakröfur voru birtar ákærða 3. nóvember 2016.

 

Af hálfu brotaþola er krafist málskostnaðar að skaðlausu vegna lögmannsaðstoðar við framsetningu bótakrafna eða réttargæsluþóknunar. Lögmaður sá er unnið hefur að því að halda fram bótakröfum brotaþola var tilnefndur réttargæslumaður barnanna á rannsóknarstigi og síðan skipaður réttargæslumaður þeirra við meðferð málsins fyrir dómi. Samkvæmt því verður ákærða gert að greiða þóknun hans og ferðakostnað vegna réttargæslunnar, eins og greinir í dómsorði. Ákærða verður og gert að greiða brotaþolunum B… og A… hvoru fyrir sig málskostnað við að halda kröfu sinni fram hér fyrir dómi, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008, eins og nánar greinir í dómsorði.

 

Með vísan til niðurstöðu dómsins, og þess að ákæruvaldið féll frá ákæruliðum 1 og 4 við upphaf aðalmeðferðar, þykir rétt, sbr. og ákvæði 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði greiði ⅔ hluta af þóknun og ferðakostnaði skipaðs verjanda síns, en að hluti þess kostnaðar greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.

 

Ákærði greiði útlagðan sakarkostnað samkvæmt yfirliti lögreglustjóra að fjárhæð 188.292 krónur.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærði, Sigurjón Þórisson Fjeldsted, sæti fangelsi í þrjá mánuði.

 

Ákærði greiði B… 150.000 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. september 2016 til 3. desember 2016, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

 

Ákærði greiði A… 100.000 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. september 2016 til 3. desember 2016, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

 

Ákærði greiði D… 200.000 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. september 2016 til 3. desember 2016, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

 

Ákærði greiði E… 200.000 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. september 2016 til 3. desember 2016, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

 

Ákærði greiði ⅔  hluta af 1.100.000 króna málsvarnarlaunum og 46.020 króna ferðakostnaði skipaðs verjanda síns, Snorra Snorrasonar hdl., á rannsóknarstigi og fyrir dómi, sem að öðru leyti greiðist úr ríkissjóði.

 

Ákærði greiði annan sakarkostnað, samtals að fjárhæð 701.692 krónur, þar með talda 496.000 króna þóknun og 17.400 króna ferðakostnað Ómars A. Bjarnþórssonar hdl., skipaðs réttargæslumanns barnanna D… og E…, á rannsóknarstigi og fyrir dómi. 

 

Ákærði greiði brotaþolunum B… og A… óskipt 180.000 krónur í málskostnað vegna bótakröfu.

 

                                                                                                Ásgeir Magnússon