• Lykilorð:
  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Samningur
  • Vanreifun
  • Skuldamál

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Vesturlands 31. október 2018 í máli nr. E-19/2018:

Takk hreinlæti ehf.

(Hannes Júlíus Hafstein lögmaður)

gegn

B og A ehf.

(Bragi Dór Hafþórsson lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 21. september sl. um frávísunarkröfu stefnda, er höfðað með stefnu birtri 27. febrúar sl. Stefnandi er Takk hreinlæti ehf., Blikastaðavegi 2-8, Reykjavík, en stefndi er B og A ehf., Sæbóli 24, Grundarfirði.

 

Stefnandi krefst þess að hið stefnda félag, B og A ehf., verði dæmt til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 3.600.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 15. október 2017 til greiðsludags.

 

Stefndi krefst þess að málinu verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af kröfu stefnanda. Jafnframt krefst hann þess að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað með hliðsjón af málskostnaðaryfirliti.

 

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og að stefnda verði gert að greiða honum málskostnað vegna þessa þáttar málsins.

 

Í stefnu kemur fram að krafa stefnanda sé byggð á greiðsluloforði stefnda vegna uppgjörs við stefnanda vegna leigu og vöruhúsaþjónustu. Séu vitni að því þegar forsvarsmaður stefnda, fyrir hönd félagsins, hafi lofað greiðslu. Eftistöðvar að fjárhæð 3.600.000 krónur hafi átt að greiðast hinn 15. október 2017, en stefndi hafi lofað að greiða kröfuna með útgáfu skuldabréfs. Hafi skuldabréfið verið útbúið af fyrirtækjaráðgjafa og afhent forsvarsmanni stefnda til útgáfu. Útgáfan hafi hins vegar ekki átt sér stað og því sé skuldin enn ógreidd.

 

 

Stefndi vísar til þess að það sé meginregla einkamálaréttarfars að sá sem krefjist réttinda sér til handa í dómsmáli verði að gera skýra grein fyrir þeim réttindum. Með stefnu geri stefnandi kröfu um greiðslu samkvæmt greiðsluloforði sem stefndi eigi að hafa gefið en engin nánari grein sé þar gerð fyrir grundvelli þeirrar kröfu. Stefnandi og stefndi hafi aldrei átt í viðskiptasambandi, hvorki um leigu né vöruhúsaþjónustu. Engin skýring sé gefin á því í stefnu hver hafi verið aðdragandi greiðsluloforðsins, á hvaða grundvelli það hafi verið gefið eða hvers vegna. Ekki sé fjallað um það hvaða leigu eða vöruhúsaþjónustu átt sé við í málinu og ekkert frekar sé fjallað um tildrög greiðsluloforðsins eða annað sem skipti máli. Þá tilgreini stefnandi ekki hver hafi orðið vitni að meintu greiðsluloforði, hvaða fyrirtækjaráðgjafi hafi útbúið skuldabréfið og þá hvers efnis það hafi átt að vera með tilliti til tímalengdar o.fl. Sé þá spurning hvort ekki hefði verið eðlilegra að kröfugerð stefnanda lyti að skyldu stefnda til að gefa út umrætt skuldabréf, hafi loforð um slíkt verið gefið. Ljóst sé að skýringar stefnanda á kröfu sinni, málsatvikum og málsástæðum séu algjörlega ófullnægjandi. Sé krafa hans með öllu vanreifuð og málatilbúnaður hans þannig úr garði gerður að hann sé í andstöðu við framangreinda meginreglu einkamálaréttarfars og fyrirmæli e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá hafi stefnandi ekki lagt fram þau sönnunargögn sem nauðsynleg séu til að grundvöllur málsins verði talinn nægjanlega skýr, sbr. m.a. g-lið 1. mgr. 80. gr. Bitni framangreindir annmarkar verulega á tækifærum stefnda til að taka til varna í málinu.

 

Stefnandi byggir á því að í stefnu málsins komi allt fram sem máli skipti vegna kröfugerðarinnar á hendur stefnda, þ. á m. hver sé kröfuhafi, hver sé skuldari, hver sé fjárhæð skuldarinnar og á hverju hún byggist. Hljóti sú lýsing að teljast nægileg svo skuldari geti tekið til efnislegra varna í málinu. Þá hafi gagnaöflun ekki verið lýst lokið í málinu svo enn sé hægt að bæta við þau gögn sem fram hafi verið lögð.

 

Niðurstaða

Stefnandi kveðst í stefnu byggja kröfu sína á greiðsluloforði stefnda vegna uppgjörs við stefnanda „vegna leigu og vöruhúsaþjónustu“ og að vitni hafi orðið að því þegar forsvarsmaður stefnda hafi, f.h. félagsins, lofað greiðslu. Ekkert kemur þar hins vegar nánar fram um það um hvaða leigu og vöruhúsaþjónustu hafi verið að ræða, hvaða fjárhæðir hafi verið um að tefla, hver það hafi verið sem gefið hafi umrætt loforð og hverjum það hafi verið gefið, aðdraganda þess að það var gert og hvenær það hafi þá gerst og við hvaða aðstæður. Ekki eru heldur nafngreindir þeir aðilar sem eiga að hafa orðið vitni að umræddu greiðsluloforði stefnda. Allt framangreint verður þó að telja að hafi verið brýnt að tiltaka í stefnu svo að stefnda væri fært að taka til efnisvarna í málinu, sérstaklega þegar til þess er litið að ekki eru lögð fram í málinu nein skjalleg sönnunargögn til stuðnings kröfunni. Með hliðsjón af framangreindu verður því á það fallist með stefnda að málatilbúnaður stefnanda sé svo óljós og vanreifaður að hann fullnægi ekki ákvæðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi það hvað koma skuli fram í stefnu, einkum með tilliti til e- og h-liða. Verður máli þessu því vísað frá dómi.

 

Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað.

 

Uppsaga úrskurðar þessa hefur dregist fram yfir frest skv. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, en bæði lögmenn og dómarar töldu óþarft að endurflytja málið af þeim sökum.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

 

Stefnandi, Takk hreinlæti ehf., greiði stefnda, B og A ehf., 400.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                                                Ásgeir Magnússon