• Lykilorð:
  • Börn
  • Líkamsárás
  • Tilraun

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 6. júní 2018 í máli nr. S-52/2017:

Ákæruvaldið

                                                (Jón Haukur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson lögmaður)


I.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 17. apríl sl., var höfðað með ákæru ríkisssaksóknara, útgefinni 17. október 2017, á hendur ákærða, X…, …, …, „fyrir stórfellt ofbeldi gegn nákomnum og tilraun til manndráps, með því að hafa að morgni miðviku­dags­­­ins 9. … 201., í … að …, Borgar­byggð, ógnað alvar­­­lega lífi og heilsu sambýliskonu sinnar og barnsmóður, A…, kennitala …, með því að beita hana grófu líkam­legu ofbeldi og reyna að svipta hana lífi, þar sem börnin B…, kennitala …, D…, kennitala …, E…, kennitala …, F…, kenni­­tala …, og G…, kenni­tala …, sem voru tengd þeim fjölskylduböndum, voru nálæg eða viðstödd, og með því ógnað alvar­lega velferð barnanna og sýnt þeim rudda­legt og særandi athæfi, sem nánar greinir:

 

a) Ákærði sló A… hnefahögg í andlitið, ýtti nokkrum sinnum við henni svo hún lenti á vegg, spark­aði í fót hennar svo hún féll niður, dró hana á úlnliðunum eftir gólf­inu og út úr húsinu þar sem hann skildi við hana.

b) Ákærði veittist að A…, eftir að hún hafði komist inn í húsið að nýju, og sló hana í líkamann svo hún féll niður.

c) Ákærði sló A… nokkur högg í andlitið, á meðan hún var liggjandi, og hélt hnefa­­­höggunum áfram er hún reyndi að bera hendur fyrir sig og verjast svo högg hans lentu á höndum hennar, öxlum og höfuðsvæði, auk þess sem ákærði sparkaði nokkrum sinnum í lærin á henni.

d) Ákærði lagði annan handlegginn yfir öxlina á A…, á meðan hún var standandi, og setti olnbogabótina að hálsi hennar og þrengdi að hálsinum með hand­leggnum, að viðstöddum drengnum B…. 

e) Ákærði tók um axlir A… og þvingaði hana niður á gólfið svo hún lá á bak­inu, settist klof­­­vega yfir hana og reyndi að svipta hana lífi með því að grípa með báðum hönd­unum um háls hennar og barka og herða fast að svo hún átti erfitt með andardrátt og sleppti hann eigi ­takinu fyrr en stúlkan F… var komin að þeim og A… þóttist vera látin.

f) Ákærði veittist að A…, á meðan hún var standandi, og ýtti henni út úr húsinu svo hún féll niður á pall og lokaði hana úti svo hún varð að leita inngöngu í húsið með því að fara inn um glugga, að viðstaddri stúlkunni D…, sem hún fékk til að hringja eftir aðstoð lögreglu á staðinn.

 

Háttsemi ákærða leiddi til þess að A… hlaut roða á hörundi á enni, hægra gagn­auga­­­svæði og beggja megin á framan­­verðum hálsi; klórför á enni hægra megin og á vinstri upphandlegg; óreglulegar skrámur á hörundi við vinstra augnlok, hægra munn­vik og vinstra megin á framan­verðum hálsi; hringlaga margúla á hægri upphandlegg og fram­hand­­legg, hægri úlnlið, hægra hné og hægri fótlegg; óreglulega stærri margúla á vinstri upp­­handlegg, hægra læri og fótlegg, vinstra læri og rétt fyrir neðan hægra neðra augn­lok; minni margúla á hægri upp­­handlegg; hringlaga margúla á hægri upphandlegg; óreglu­­lega mar­­­gúla á hægra hné, báðum herðablöðum og vinstra megin á kviðarholi; mar­­g­úla í kring­­um bæði augu; sprungna neðri vör; hörundsblæðingu framan á hálsi og rákir á hlið­­­um á hálsi; marga marbletti á fram­hand­­leggjum og á báðum fótleggjum, þar með talið á lær­­um og leggjum; mar og bólgu á neðri rifbeinum vinstra megin og lítilsháttar mar á mjó­­­­baki.

 

Telst þetta aðallega varða við 211. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., og 1. mgr., sbr. 2. mgr., 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 23/2016, en til vara við sömu ákvæði almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Ákærði krefst sýknu en til vara að honum verði ekki gerð refsing. Að öðrum kosti verði honum gerð svo væg refsing sem lög frekast leyfa og að sakarkostnaður, þar á meðal hæfileg málsvarnarlaun verjanda á rannsóknarstigi og fyrir dómi, verði felldur á ríkissjóð.

 

II.

Kl. 7.45 að morgni 9. … 201. hringdi brotaþolinn A…  í Neyðarlínuna úr … í … og óskaði eftir að lögreglan kæmi á staðinn. Kom í símtalinu fram að maður hennar, ákærði í málinu, hefði barið hana í „andlitið eins og ...“ Þá heyrist brotaþoli í símtalinu segja við ákærða: „Klikkaður ... drepa ... með barnið hjá þér.“

 

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu fór lögregla á vettvang og hitti þar fyrir ákærða, sem hélt á dóttur sinni í fanginu, en brotaþoli var á þeim tíma á salerni …. B… og E…, synir ákærða, og D…, dóttir brotaþola, voru saman í einu herbergjanna en drengurinn G… lá sofandi í stofunni. Ákærði, greinilega undir áhrifum áfengis, var spurður hvað hefði gengið á og kom þá fram hjá honum að þetta væri eitthvert fyllerísrugl. Lögreglan ræddi og við brotaþola, sem einnig var undir áhrifum áfengis. Kvaðst hún þá hafa verið að spjalla við ákærða og horfa á sjónvarpið er hann hefði allt í einu reiðst, gengið í skrokk á henni og hent henni út. Hún hefði komist aftur inn í … með því að skríða inn um glugga. Lögreglan ræddi einnig við börnin sem voru í …. Kom fram hjá D… að fyrr um morguninn hefðu mamma hennar og ákærði verið að rífast mikið. Svo, milli klukkan 6 og 7, hefði ákærði komið með yngri systkini hennar inn í herbergið til hennar og sagt henni að passa þau. Ákærði hefði svo tekið yngri bróður hennar aftur fram og mamma hennar svo komið á eftir honum inn í herbergið og sótt systur hennar. Kvaðst hún þá hafa séð áverka á móður sinni og að blætt hefði úr nefi hennar. Bræðurnir B… og E…, synir ákærða, hefðu tekið undir þetta með D… og sagst hafa heyrt mikil læti og séð föður sinn taka brotaþola hálstaki. Rannsóknarlögreglumenn komu á vettvang og ræddu við ákærða, sem var mjög ósamvinnuþýður og sýndi af sér ógnandi hegðun. Einnig var haft samband við félagsþjónustu Borgarbyggðar, sem sendi félagsráðgjafa á staðinn. Farið var með ákærða á lögreglustöðina á Akranesi en brotaþoli var færð í áverkaskoðun á heilsugæslustöðinni í Borgarnesi.         

 

Samdægurs kl. 14.12 gaf brotaþoli skýrslu hjá lögreglu um málsatvik. Kom fram hjá henni að um nóttina hefðu hún og ákærði setið við drykkju og bæði verið orðin drukkin. Þau hefðu farið að rifja upp gömul mál og þá hefði ákærði orðið reiður vegna meints framhjáhalds hennar. Hefði ákærði kýlt hana með krepptum hnefa í andlitið og hún fengið blóðnasir. Kvaðst hún þá hafa orðið brjáluð, öskrað á ákærða og slegið eitthvað frá sér. Ákærði hefði þá orðið ofsareiður, hent henni út um allt og síðan sparkað í löppina á henni svo að hún féll við. Ákærði hefði svo tekið um báða úlnliðina á henni, dregið hana eftir gólfinu út um útidyrnar og læst þeim. Kvaðst brotaþoli hafa náð að hlaupa inn bakdyramegin og hefðu tvö yngstu börnin þá verið vöknuð. Kvað hún ákærða hafa slegið hana þannig að hún datt á gólfið í svefnherberginu þeirra. Hefði hann kýlt hana í andlitið með krepptum hnefa og síðan kropið yfir henni, en hún reynt að verjast ákærða með höndunum. Hefðu högg hans lent á höndum hennar, öxlum og höfuðsvæðinu. Taldi hún að höggin frá ákærða hefðu verið mörg og að hann hefði síðan sparkað tvisvar til þrisvar sinnum í lærin á henni meðan hún lá. Ákærði hefði síðan gengið í burtu eftir þetta og hún þá staðið upp, öskrað á hann og spurt hvað hann væri að gera. Ákærði hefði þá gengið beint að henni og verið óstjórnlega reiður. Hann hefði tekið í axlirnar á henni og hent henni niður aftur. Hún hefði legið á bakinu í svefnherberginu en ákærði verið klofvega yfir henni með báðar hendurnar á hálsinum á henni og verið að kyrkja hana. Hendur hennar hefðu verið frjálsar og hún barist um og reynt að losa sig á meðan ákærði var að kyrkja hana. Ákærði hefði hert fast að hálsinum á henni og hún hefði ekki getað gert sér grein fyrir hvort ákærði hefði verið einungis með hendurnar eða eitthvert band líka. Kvaðst hún hafa hugsað á þessu augnabliki að ákærði væri að fara að drepa hana og hefði hún óttast um líf sitt. Ákærði hefði ekki sleppt kyrkingartakinu og hann hefði heyrt að hún ætti erfitt með andardrátt. Þá hefði F… komið inn í herbergið. Ákærði hefði samt haldið áfram að reyna að kyrkja hana og hefði hún þá átt mjög erfitt með andardrátt. Kvaðst hún þá hafa hætt að berjast um og látið eins og hún væri dauð, en þá hefði ákærði hætt og hún þá náð andanum. F… hefði staðið hjá henni í smástund en ákærði þá farið með hana á brott og gefið henni og G… morgunmat. Ákærði hefði ekkert athugað hvort hún væri dauð eða ekki. Hún hefði svo staðið upp og farið fram. Hefði ákærði þá komið reiður að henni og hent henni út um útidyrnar svo að hún datt á pallinum. Kvaðst hún svo hafa farið að glugganum hjá D… og beðið hana um að hringja eftir hjálp. Eftir að búið var að hringja á lögregluna hefði ákærði gjörbreyst og látið hana í friði. Sagði brotaþoli að lífi sínu hefði verið ógnað á þeim tíma sem ákærði var að taka hana hálstaki.          

 

Í málinu liggja m.a. fyrir ljósmyndir af áverkum brotaþola, sem lögregla tók af áverkum brotaþola á vettvangi, og eins skjáskot úr yfirheyrslumyndavél er brotaþoli gaf skýrslu sína síðar sama dag.

 

Brotaþoli fór samdægurs á heilsugæsluna í Borgarnesi til skoðunar og liggur frammi í málinu læknisvottorð, dags. 10. … 201., ásamt ljósmyndum, vegna þessa. Kemur þar meðal annars eftirfarandi fram: „A… kom í skoðun á HVE Borgarnesi 9….201., að beiðni lögreglu. Hafði hringt eftir aðstoð í morgun. Sagði að hún hefði verið stödd ásamt maka og 5 börnum í … í … með börnin sín 5 er atvikið átti sér stað. Segir maka hafa gripið sig, kýlt sig og kastað henni í veggi. Reynt að kyrkja hana [með] einhverju bandi eða streng sem hann hefði sett um háls hennar og hert að. Hélt hún myndi deyja, þóttist vera meðvitundarlaus og sleppti hann þá takinu. Segir þetta ekki í fyrsta sinn sem hann leggi hendur á sig en hún hafi aldrei áður óttast það að deyja eins og nú. Kom á stöð með yngsta barnið sitt í fylgd félagsþjónustu.

Skoðun: Er nokkuð brugðið, sér mikið á andliti, glóðarauga bilat, mikil bólga á hægra gagnauga ca 3X10 cm eymsli við þreifingu, sprungin neðri vör. Eymsli við þreifingu á vi kjálka. Er með húðblæðingar framan á hálsi, rákir til hliðanna, eymsli við þreifingu á barka. Mikið mar og töluverð bólga á báðum upphandleggjum, margir marblettir á framhandleggjum, báðum ganglimum bæði lærum og fótleggjum. Mar og bólga yfir neðstu rifjum vi megin, rispur og lítið mar neðst á baki.“

 

Í skýrslutöku hjá lögreglu að kveldi umrædds dags kvaðst ákærði minnast þess að brotaþoli hefði ráðist einu sinni á hann og slegið hann í kinnbeinið. Hann kvaðst hins vegar ekki kannast við lýsingu brotaþola á því sem gerst hefði þá um nóttina. Neitaði hann því að hafa sjálfur á einhvern hátt ráðist á brotaþola, slegið hana eða tekið hana háls- eða kverkataki. Eitthvert handapat hefði verið á milli þeirra en að öðru leyti myndi hann ekki eftir atvikum. 

 

Í málinu liggur fyrir álit Niko Kunz réttarmeinafræðings, dags. 27. júní 2017, varðandi þá áverka sem greindust á brotaþola í greint sinn. Í samantektarkafla álitsins segir svo:

„A…, fædd …, sýndi merki um marga höggáverka á mörgum hlutum líkamans sem gefa sterklega til kynna aðkomu annars aðila. Mynstur áverka í heild sinni samsvarar lýsingu þolanda. Flestir áverkanna urðu með höggum sem flest voru hófleg og mögulega ofsafengin á sumum hlutum. Þolandi hafði áverka sem eru sambærilegir við kyrkingu með höndum með hóflegri ákefð. Engir áverkar fundust sem rökstutt gætu lífshættulega kyrkingu. Vegna flókins eðlis kyrkingar með höndum, verður áköf kyrking með höndum eins og í þessu tilviki að teljast að minnsta kosti lífshættuleg. Engir áverkanna ollu raunverulegri lífshættu. Þeir munu væntanlega gróa án þess að skilja eftir sig sýnileg ör.“

 

Brotaþoli mætti aftur til skýrslutöku á lögreglustöðina á Akranesi 4. september 2017. Kvaðst hún þá vilja gefa aðra skýrslu í málinu þar sem ekki hefði allt verið rétt sem hún sagði í fyrri skýrslutökunni. Kvaðst hún hafa bætt í eyður og sagt ákærða hafa gert hluti sem hann gerði ekki. Hún hefði talið sig þurfa að ýkja þessa lýsingu til að réttlæta að hafa kallað lögregluna á staðinn. Hún hefði ekki verið í sínu besta ástandi þegar hún gaf fyrri skýrsluna. Hún hefði verið í uppnámi og þreytt. Hið rétta í málinu væri það að hún og ákærði hefðu byrjað að rífast umrædda nótt vegna meints framhjáhalds hennar. Ákærði hefði reynt að rífa af henni símann og þá hefðu slagsmál byrjað. Síminn hefði slegist utan í andlitið á henni, hún þá fengið blóðnasir og þau byrjað að slást. Ákærði hefði hent henni út og læst útidyrahurðinni. Hún hefði síðan komist aftur inn um bakdyr og þau þar haldið áfram að öskra á hvort annað og í rauninni að slást. Hún hefði hringt eftir lögreglu og síðan farið inn um gluggann hjá dóttur sinni og beðið hana einnig um að hringja á lögregluna. Ákærði hefði hent henni tvisvar sinnum út en ákærði væri mikið sterkari en hún. Hún kannaðist hins vegar ekki við að hann hefði veitt henni hnefahögg og reynt að kyrkja hana. Hann hefði haldið henni niðri á öxlunum og verið að öskra á hana þegar dóttir hennar hefði vaknað. Ákærði hefði í eitt skiptið rifið í hálsmenið á henni og taldi hún að það hefði verið ástæðan fyrir því að hún hefði fundið til eymsla í hálsinum. Brotaþoli tók loks fram að hún óskaði ekki eftir að kæra ákærða vegna þessa. 

                                                           

III.

Við aðalmeðferð málsins lýsti ákærði atvikum á þann veg að hann og brotaþoli hefðu setið í stofunni við drykkju. Þau hefðu orðið verulega drukkin og farið að rífast um farsíma sem brotaþoli hefði verið með. Hefði hann ætlað að rífa símann af henni en hún ekki viljað láta hann af hendi. Við þetta hefði síminn eða höndin á honum skollið í andlitið á henni og hún fengið við það blóðnasir. Hún hefði þá rokið í hann öskrandi og brjáluð og hann þá einnig reiðst, tekið um upphandlegginn á henni og ætlað að henda henni út. Hefði hann dregið hana á upphandleggjunum að hurðinni og endað svo með því að ýta henni út um dyrnar og læsa. Hún hefði hins vegar komist inn í … um aðrar dyr og þau lent þar á ný í einhverjum handalögmálum. Þau hefðu þá heyrt grát í herbergi sem yngri krakkarnir voru í og brotaþoli því farið þangað. Ákærði kvaðst hins vegar hafa ætlað að koma brotaþola þaðan út, en þau við það dottið. Hann hefði reiðst mjög, tekið um upphandleggina og axlirnar á henni, þrýst henni á gólfið og haldið henni þar. Hann hefði og öskrað á hana, og sagt henni að hætta þessu, og hún öskrað á móti. Þá hefði stelpan þeirra verið komin til þeirra og litli strákurinn einnig verið vaknaður. Kvaðst ákærði hafa tekið strákinn upp og farið með stelpuna fram og ætlað að gefa henni að borða. Brotaþoli hefði þá komið þangað inn og ætlað að rífa drenginn þaðan út aftur. Þá hefði hann tekið brotaþola aftur og hent henni út. Spurður hvers vegna brotaþoli hefði verið með glóðaraugu og bólgin á gagnaugum kvaðst ákærði ekki vita hvort það hefði gerst þegar hann rak símann eða höndina í hana, en það hefði verið töluvert högg. Svo gæti verið að hann hefði slegið í hana eitthvað í handapatinu þegar hún kom aftur inn. Aðspurður kvaðst ákærði ekki vita nákvæmlega hvað hann hefði átt við þegar hann í símtali sínu við Neyðarlínuna hefði sagt eins konar heimilisofbeldi hafa verið í gangi. Hann hefði vissulega verið búinn að veita brotaþola áverka og það væri ekkert annað en ofbeldi af hans hálfu. Spurður nánar út í þá háttsemi sem lýst er í einstökum liðum ákærunnar og þá fyrst ákærulið a) kvaðst ákærði ekki hafa slegið brotaþola hnefahöggi heldur hefði hann verið með símann í hendinni og annaðhvort hefði höndin á honum eða síminn þá lent í brotaþola. Hugsanlegt væri að brotaþoli hefði lent utan í vegg þegar hann dró hana út. Hann sagðist þó ekki hafa sparkað í fót brotaþola svo að hún félli niður. Spurður út í ákærulið b) kannaðist ákærði við að hafa slegið eitthvað í brotaþola en þó ekki þannig að hún félli við það niður. Þau hefðu verið að slá í hvort annað. Ákærði hafnaði því hins vegar alfarið að hafa viðhaft þá háttsemi sem lýst er í ákærulið c). Um þá háttsemi sem lýst er í d-lið ákærunnar sagði ákærði að hann hefði tekið utan um axlir og háls brotaþola með handleggnum og dregið hana afturábak. Svo hefðu þau tekist á þegar hann hefði verið að reyna að koma henni út fyrir dyrnar. Kvaðst ákærði ekki telja að hann hefði þrengt mikið að hálsi hennar en gæti þó ekki útilokað að hafa tekið eitthvað um hann. Hann útilokaði ekki heldur að drengurinn B… hefði séð þetta þar sem þetta hefði verið við herbergið hans. Um þá háttsemi sem lýst er í ákærulið e) sagði ákærði að þau hefðu verið að takast á inni í herbergi. Hefði hann við það dottið á einhverja kommóðu og við það ýtt brotaþola í gólfið. Hann kannaðist þó ekki við að hafa sest klofvega yfir hana. Jafnframt hafnaði hann því að hafa reynt að svipta brotaþola lífi með því að taka með báðum höndum um háls hennar og barka og herða fast að þannig að hún ætti erfitt með andardrátt. Kom fram hjá honum að eina skiptið sem hann hefði komið við háls brotaþola hefði verið þegar hann dró hana út úr …. Loks kvaðst ákærði játa þá háttsemi sem lýst er í f-lið ákærunnar. Ákærði kvaðst aðspurður hafa hætt að drekka eftir þessa atburði.                    

 

Brotaþolinn A… lýsti atvikum á svipaðan veg og hún gerði í síðari skýrslu sinni hjá lögreglu. Þau hefðu orðið drukkin, farið að rífast, hann hefði ætlað að rífa af henni símann og hún þá fengið eitthvað í andlitið, alla vega símann, fengið blóðnasir, orðið brjáluð yfir því, gargað á ákærða og tekið í hann. Hann hefði þá tekið í hendurnar á henni, dregið hana á úlnliðunum út úr … og fleygt henni út. Hún hefði komist inn bakdyramegin, þar sem átök þeirra hefðu haldið áfram. Hún hefði slegið til hans og hann til hennar en þetta væri allt í móðu. Hún hefði svo heyrt að strákurinn væri vaknaður þar sem hann svaf í svefnherbergi þeirra, farið inn til hans og ákærði á eftir henni. Þar inni hefðu þau áfram tekist á, hún hefði dottið í gólfið og ákærði haldið henni niðri á öxlunum. F… hefði svo komið þarna að og hefði ákærði þá staðið upp, tekið strákinn grátandi upp úr rúminu og leitt F… fram. Brotaþoli kvaðst ekki hafa staðið strax upp, en þá hringt í Neyðarlínuna. Nánar spurð kvaðst hún fyrst hafa hringt í vinkonu sína, sem hefði ráðlagt henni að hringja strax í Neyðarlínuna. Þau ákærði hefðu síðan á ný lent í einhverjum átökum, sem hefðu endað með því að ákærði ýtti henni á ný út um sömu dyrnar og fyrr, en hún svo í kjölfarið komist aftur inn í húsið inn um glugga í herbergi dóttur hennar. Er brotaþoli var sérstaklega spurð út í þá háttsemi ákærða sem lýst er í ákærulið a) kvaðst hún ekki kannast við að ákærði hefði slegið hana hnefahögg í andlitið eða sparkað í fót hennar svo að hún félli niður. Hún hefði orðið fyrir höggi er þau voru að rífast um síma hennar, en hún vissi ekki hvernig á því hefði staðið. Hins vegar gæti verið rétt að ákærði hafi ýtt henni svo að hún lenti á vegg og rétt væri að hann hefði dregið hana á úlnliðunum eftir gólfinu út úr húsinu. Um ákærulið b) kvaðst hún ekki geta svarað öðru til en að þau hefðu verið að slást. Þá kannaðist hún ekki við að lýsing í ákærulið c) væri rétt. Ákærði hefði setið ofan á henni og þau verið að slást en hann hefði hvorki slegið hana hnefahögg né sparkað í hana. Brotaþoli neitaði því í fyrstu að ákærði hefði þrengt með handleggnum að hálsi hennar, svo sem lýst er í ákærulið d), en er henni  var bent á að B… hefði lýst þessu og hún spurð hvort hún útilokaði að þetta hefði gerst á þennan hátt svaraði hún að líklega væri þessi lýsing ákærunnar rétt. Brotaþoli sagði rétta þá lýsingu í ákærulið e) að ákærði hefði tekið um axlir hennar og þvingað hana niður á gólfið, svo að hún lá á bak­inu, og sest klof­­­vega yfir hana. Þau hefðu þá verið að slá hvort til annars. Hins vegar væri ekki réttur sá hluti lýsingarinnar að ákærði hefði reynt að svipta hana lífi með því að grípa með báðum hönd­um um háls hennar og barka og herða fast að. Ákærði hefði ekki komið við hálsinn á henni í þessum átökum þeirra heldur haldið um axlir hennar. Þá hefði hún ekki þóst vera látin heldur hefði hún legið þarna kyrr á meðan ákærði fór með krakkana. Spurð hvort hún hefði upplifað atburðarásina svo að hún hefði verið í hættu stödd svaraði hún því neitandi, en nánar spurð kvaðst hún örugglega hafa verið í hættu en ekki í lífshættu. Aðspurð kvaðst hún ekki minnast þess að hafa lýst atvikum svo fyrir lækni og starfsmanni barnaverndarnefndar sem komu á staðinn að hún hefði verið í lífshættu. Hún hefði ekki verið beint í ástandi til að tala við neinn. Hún hefði verið ósofin, ekki búin að borða og verið bálreið við ákærða. Hefði hún því sagt bara eitthvað og haldið sig við það. Spurð um ástæður fyrir mari á hálsi og eymslum yfir barka, sem lýst er í áverkavottorði, svaraði hún því til að það gæti hafa hlotist af átökunum við ákærða, þegar hann henti henni út í annað skiptið. Þá mætti hugsanlega rekja áverkana til þess að hún hefði verið með leðurhálsmen um hálsinn, sem hefði slitnað í átökunum. Hún kvaðst ekki geta skýrt hvernig hún hefði fengið glóðarauga báðum megin og bólgu yfir gagnaugum, en það hljóti einnig að hafa gerst í átökunum. Brotaþoli sagði rétta þá lýsingu sem fram kemur í ákærulið f) að ákærði hefði veist að henni og ýtt henni út úr húsinu svo að hún féll niður á pall.

 

Freyja Þöll Smáradóttir, félagsráðgjafi hjá félagsþjónustu Borgarbyggðar, kvaðst hafa fengið símhringingu frá lögreglunni umrædda nótt, um að tilkynnt hefði verið um heimilisofbeldi í … í … og að fimm börn væru á staðnum. Hefði hún farið á staðinn með öðrum starfsmanni. Eftir samtöl þeirra við börnin hefði verið ákveðið að taka lögregluskýrslu, að henni viðstaddri, af elstu fjórum börnunum í …, sem hefðu verið viðstödd. Að því loknu hefði hún ekið með brotaþola á heilsugæsluna í Borgarnesi, því næst á sjúkrahúsið á Akranesi og loks í skýrslutöku hjá lögreglunni á Akranesi. Kvað hún brotaþola hafa talað um það á leiðinni að þetta væri ekki í fyrsta skiptið sem ákærði hefði lagt á hana hendur. Fram hefði komið hjá henni að ákærði hefði hent henni út og að hún hefði svo beðið elstu dóttur sína um að hringja í Neyðarlínuna því að hún hefði haldið að ákærði væri að drepa sig. Hefði brotaþoli sagt ástæðuna fyrir því að hún óttaðist um líf sitt þá að ákærði hefði tekið um hálsinn á henni. Hún kvaðst hins vegar ekki muna hvort brotaþoli hefði lýst áverkum á hálsi.

 

Vitnið Sebastian Kunz, réttarmeinafræðingur á Landspítala-háskólasjúkrahúsi, staðfesti og skýrði nánar álitsgerð sem hann vann vegna áverka sem greindust á brotaþola umrædda nótt. Kom fram hjá honum að hann hefði unnið álitsgerðina út frá myndum af brotaþola, hennar framburði hjá lögreglu og lögregluskýrslu. Kvaðst hann ekki hafa skoðað brotaþola sjálfur en með vísan til mynda og lýsinga á áverkum sem hann hefði haft gögn um væri álitsgerðin áreiðanleg. Fram kom hjá vitninu að þegar metið sé hvort áverkar séu tilkomnir vegna kyrkingar geti skipt máli að skoðað sé í augu, munnhol og aftan við eyru, en á þessum svæðum eigi sér stað punktblæðingar sem veiti mikilvægar viðbótarupplýsingar við mat á ákefð kyrkingartaks. Hann hefði hins vegar ekki getað aflað þeirra upplýsinga við vinnslu álitsgerðarinnar. Aðspurður kvað hann ákefð við kyrkingartak vera skipt í litla, meðal og ofsafengna. Í þessu tilviki hafi líklegast verið beitt meðalákefð við takið og gerandi ekki beitt öllum sínum krafti heldur krafti sem valdið hefði áverkum á yfirborði. Ekki hefðu orðið bráðir lífshættulegir áverkar á brotaþola umrætt sinn. Kyrkingartak gæti í sjálfu sér haft lífshættulegar afleiðingar vegna hugsanlegra viðbragða líkamans vegna þrýstings á ákveðinn stað á hálsinum, en það hefði þó ekki verið raunin í þetta sinn. Gerandi geti illa vitað hversu miklu afli hann sé að beita vegna annars vegar varnarviðbragða brotaþola og hins vegar mýktar og eftirgefanleika hálsins. Aðspurður hvort áverkar brotaþola hefðu getað komið til vegna núnings hálsmens við hálsinn kvað hann það ekki geta verið þar sem áverkarnir séu ekki þess eðlis. Áverkar brotaþola samræmist því að þrýstingi hafi verið beitt og förin á hálsinum bendi til að fingur hafi getað valdið áverkunum. Kvað hann tak með meðalákefð í langan tíma geta valdið sama skaða og tak með ofsafenginni ákefð í stuttan tíma. Slíkt kyrkingartak gæti hugsanlega verið lífshættulegt þó svo að brotaþoli hefði ekki hlotið lífshættulega áverka umrætt sinn.

 

Vitnið Linda Kristjánsdóttir, yfirlæknir á heilsugæslunni í Borgarnesi, staðfesti og skýrði áverkavottorð sem hún gaf vegna málsins. Kom fram hjá henni að í vottorðinu sé skráð niður bein frásögn brotaþola af því sem gerst hefði umrædda nótt. Hefði brotaþoli við komuna verið mjög skelkuð, brotin og í miklu áfalli. Spurð um áverkavottorðið, þar sem segir að brotaþoli hafi verið með húðblæðingar framan á hálsi, rákir til hliðanna og eymsli við þreifingu á barka, og hvort þessir áverkar gætu hafa orsakast af því að hálsmen hefði nuggast fast við hálsinn, sagðist hún telja það verulega ólíklegt. Teldi hún þessa skýringu og ótrúlega eftir að hafa séð það ástand sem brotaþoli hefði verið í og heyrt hana lýsa því sem gerst hefði, meðal annars því að hún hefði óttast um líf sitt við þessi tök. Kvað hún brotaþola hafa lýst því að ákærði hefði haldið um hálsinn á henni með einhverju. Vitnið sagði brotaþola hafa verið það auma í hálsinum við skoðun að nauðsynlegt hefði reynst að fá mynd af hálsinum til að útiloka brot. Til að hljóta slíka áverka þyrfti mikið átak, meira en sem næmi því að einhver styddi fingri á eða ræki sig í hálsinn. Vitnið sagði brotaþola meðal annars hafa lýst því að ákærði hefði sett eitthvað um hálsinn á henni og reynt að herða að. Hefði hún þá orðið svo hrædd um að hún myndi deyja að hún hefði þóst vera látin, gert sig slaka, til þess að hann myndi sleppa takinu. Hefði brotaþoli sagt að þetta væri ekki í fyrsta skiptið sem ákærði hefði lagt hendur á hana en að þetta væri í fyrsta skiptið sem hún hefði óttast um líf sitt. Þarna hefði hún orðið virkilega hrædd.

 

Sveinn Rúnar Sigurðsson, læknir á Heilbrigðisstofnun Vesturlands, staðfesti áverkavottorð vegna skoðunar á ákærða frá 10. … 201..

 

Vitnið H…, vinkona brotaþola, kannaðist við að brotaþoli hefði hringt í hana snemma morguns umrætt sinn. Hún hefði verið grátandi og í uppnámi og sagt að ákærði hefði læst sig úti og vissi ekki hvernig hún ætti að komast inn eða hvað hún ætti að gera. Hefði brotaþoli talað um að þau hefðu verið að rífast, hann svo læst hana úti og hún ekki vitað hvað hún ætti að gera. Aðspurð kvað hún brotaþola ekki hafa lýst því að hún hefði orðið fyrir einhverjum áverkum.

 

Lögreglumennirnir Ármann Rúnar Vilhjálmsson og Margrét Helga Guðmundsdóttir komu á vettvang um áttaleytið um morguninn. Kom fram hjá Ármanni Rúnari að ákærði hefði tekið á móti þeim með barn í fanginu og verið greinilega drukkinn en alveg rólegur. Svo hefðu þau farið inn og rætt við brotaþola, sem hefði sagt þeim að þau ákærði hefðu farið að rífast um nóttina og ákærði svo gengið í skrokk á henni. Þá hefði hún sagt að ákærði hefði reynt að kyrkja hana og að hún hefði þá þóst hafa liðið út af til að hann myndi hætta. Brotaþoli hefði verið mjög hrædd og eldri stelpan, sem hefði verið mjög meðvituð um það sem gerst hefði, hefði verið mjög skelkuð. Hann kvaðst hafa séð áverka á brotaþola, roða, víðs vegar um líkamann, og þegar hún hefði komið til skýrslutöku sex til sjö tímum seinna hefði hann séð að hún var mjög marin. Margrét Helga sagði D…, dóttur brotaþola, sem augljóslega hafi verið í sjokki, hafa sagt frá því að ákærði hefði verið að lemja mömmu hennar. Hún hefði sagst hafa hjálpað mömmu sinni að skríða inn um gluggann og einnig að hún hefði síðan séð brotaþola liggjandi á gólfinu. Hefði brotaþoli ekki svarað þegar hún hefði reynt að kalla á hana.

 

Rannsóknarlögreglumennirnir Þórir Björgvinsson og Helgi Pétur Ottesen, sem önnuðust rannsókn á vettvangi, lýstu aðkomu sinni að málinu og staðfestu skýrslur sínar. Kom meðal annars fram hjá þeim að á vettvangi hefði greinilega mátt sjá að mikið hefði gengið þar á. Bæði brotaþoli og ákærði hefðu verið undir áhrifum áfengis og ákærði verið töluvert æstur. Þeir hefðu ætlað að taka myndir af honum en hann þá reynt ítrekað að slá myndavélina úr höndunum á þeim. Kom fram hjá þeim báðum að brotaþoli hefði á staðnum talað um að ákærði hefði reynt að slá hana og kyrkja.

 

Vitnin Guðmundur Tómasson rannsóknarlögreglumaður og Björgvin Sigurðsson, sérfræðingur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, lýstu aðkomu sinni að málinu og staðfestu skýrslur sínar.

 

Dómsskýrslur skv. 2. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 voru teknar 26. júní 2017 af D…, dóttur brotaþola, og 6. júlí sama ár af B…, syni ákærða. Kvaðst D… þá ekki muna mikið eftir því sem gerðist umrædda nótt. Hún hefði vaknað við það að brotaþoli og ákærði hefðu verið að rífast og öskra á hvort annað. Hún hefði heyrt ákærða segja að hann ætlaði að loka brotaþola úti, sem hann hefði síðan gert. Brotaþoli hefði svo komið inn um gluggann hjá henni og sagt henni að hringja í lögregluna, þá yrði þetta bráðum búið. Sagði stúlkan að brotaþoli hefði ætlað að fara á sjúkrahús til að kann hvort hún væri mikið meidd en sjálf kvaðst stúlkan ekki muna hvort svo hefði verið. Hún héldi að það hefði verið eitthvað lítið. Nánar spurð kvaðst stúlkan hafa séð á henni nokkra marbletti í kringum hálsinn. Um orsakir þess hefði hins vegar ekkert verið rætt milli þeirra mæðgna og hún kvaðst ekki minnast þess að hafa sjálf séð eitthvað sem skýrt gæti hvernig á þeim stóð. B… kvaðst hafa vaknað við einhver læti og að brotaþoli og ákærði voru að slást. Kvaðst hann hafa verið inni í herbergi með E…, en D… og F… hefðu verið í herberginu við hliðina. Hann hefði heyrt ákærða öskra á brotaþola, meðal annars að hún hefði verið að halda framhjá honum. Hann hefði svo heyrt að eitthvað væri að skellast til og að ákærði hefði hent brotaþola út úr húsinu. Hann kvaðst svo hafa heyrt að hún hefði komist aftur inn um gluggann hjá F… og D… og hringt þar á lögregluna. Ákærði hefði þá komið inn í herbergið til hans og beðið hann um að líta eftir G…. Í framhaldi af því hefði brotaþoli komið og ætlað að taka G… til sín en ákærði þá komið þar einnig að, tekið hana hálstaki og dregið hana út úr herberginu. Svo hefði ákærði bara hætt þegar hann hefði vitað að lögreglan væri að koma og brotaþoli þá náð í G…. Aðspurður sagðist hann hafa séð að brotaþoli hefði eftir þetta verið öll marin í andlitinu og með blóðnasir.

 

IV.

Niðurstaða

Ákæra er reist á skýrslu brotaþola sem hún gaf hjá lögreglu nokkrum klukkustundum eftir að umræddir atburðir urðu og liggur sú skýrsla fyrir í hljóð- og myndupptöku. Brotaþoli hvarf hins vegar frá þessum framburði sínum í skýrslu sem hún gaf hjá lögreglu tæpum tíu mánuðum síðar, eins og fyrr greinir, og síðan einnig við aðalmeðferð málsins fyrir dómi. Við mat á breyttum framburði hennar þykir verða að líta til þess að hún er í sambúð með ákærða og á með honum barn.

 

Ákærði neitar sök. Er skýrsla var tekin af honum samdægurs hjá lögreglu neitaði hann því alfarið að hafa á einhvern hátt ráðist á brotaþola, slegið hana eða tekið hana háls- eða kverkataki. Hann kvaðst hins vegar lítið muna eftir atvikum en tilgreindi að þau hefðu rifist og að brotaþoli hefði ráðist einu sinni á hann og slegið hann í kinnbeinið. Við aðalmeðferð málsins breyttist framburður ákærða nokkuð, eins og nánar er rakið í kafla III hér að framan. Kannaðist hann þá við að hafa slegið hana eitthvað og að hafa tekið um axlir og háls hennar með handleggnum og dregið hana þannig afturábak. Gæti hann þá og hafa þrengt eitthvað að hálsi hennar.

 

Ljóst er af fyrirliggjandi gögnum, þar á meðal framburði lögreglumanna og starfsmanns barnaverndar sem komu á vettvang strax í kjölfarið, að alvarleg átök höfðu átt sér stað milli ákærða og brotaþola þá um nóttina. Brotaþoli var með allnokkra sýnilega áverka, sem hún sagði ákærða hafa veitt sér með höggum og tökum á hálsi, og fram kom hjá börnunum D… og B… að þau hefðu heyrt dynki og foreldra sína æpa á hvort annað. Þá skýrði B… frá því að hann hefði séð föður sinn taka brotaþola hálstaki og draga hana þannig út úr herberginu.

 

Í málinu liggja fyrir ljósmyndir af áverkum brotaþola, sem teknar voru annars vegar við rannsókn á vettvangi og við skýrslutöku lögreglu stuttu síðar þann dag og hins vegar við læknisskoðun á heilsugæslustöð. Þá liggur, eins og fyrr segir, fyrir vottorð læknis vegna áverka brotaþola þar sem lýst er mikilli bólgu á gagnauga, sprunginni neðri vör, eymslum á vinstri kjálka, húðblæðingu framan á hálsi, eymslum við barka, miklu mari og töluverðri bólgu á báðum upphandleggjum, mörgum marblettum á framhandleggjum, báðum lærum og fótleggjum, mari og bólgu yfir neðstu rifjum vinstra megin og mari neðst á baki. Kom fram hjá lækninum við aðalmeðferð málsins að brotaþoli hefði verið mjög skelkuð, brotin og í miklu áfalli þegar hún kom til skoðunar og að áverkinn á hálsinum hefði verið þess eðlis að nauðsynlegt hefði reynst að fá af honum röntgenmynd til að útiloka brot. Til að hljóta slíka áverka þyrfti mikið átak, meira en sem næmi því að einhver styddi fingri á eða ræki sig í hálsinn.

 

Loks liggur fyrir framangreint álit og framburður réttarmeinafræðingsins Sebastian Kunz um eðli, umfang og ástæður þeirra áverka sem greindust á brotaþola. Kemur þar m.a. fram að brotaþoli hafi sýnt merki um marga höggáverka á mörgum stöðum líkamans sem gefi sterklega til kynna aðkomu annars aðila og að mynstur áverka í heild sinni samsvari upphaflegri frásögn brotaþola af atburðum. Brotaþoli hafi haft áverka sem sambærilegir væru við kyrkingu með höndum með hóflegri ákefð, en engir áverkar hafi fundist sem rökstutt gætu lífshættulega kyrkingu og engin merki væru um rænuleysi. Bar sérfræðingurinn fyrir dómi að slíkt kyrkingartak gæti hugsanlega verið lífshættulegt þó svo að brotaþoli hefði ekki hlotið lífshættulega áverka umrætt sinn.

 

Að því virtu sem að framan er rakið þykir breyttur framburður brotaþola ekki samrýmast gögnum málsins. Hins vegar telur dómurinn sannað, með upphaflegum framburði brotaþola, framburði ákærða og vitna fyrir dómi og öðrum gögnum málsins sem rakin hafa verið, að ákærði hafi veist að brotaþola með þeim hætti sem lýst er í ákæru og með þeim afleiðingum sem þar greinir. Undanskilinn er þó sá hluti ákæruliðar e) er lýtur að því að ákærði hafi reynt að svipta brotaþoli lífi með því að grípa um háls hennar og barka, enda þykir, gegn neitun ákærða og með hliðsjón af áliti og framburði réttarmeinafræðingsins, varhugavert að telja sannaðan ásetning ákærða til slíks brots eða að honum hafi átt að vera ljóst að sú gæti orðið afleiðing árásarinnar. Ber því að sýkna ákærða af tilraun til manndráps.

 

Ákærða er einnig gefið að sök að hafa með háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr., 218. gr. b almennra hegningarlaga. Í 1. mgr. 218. gr. b segir m.a. að hver sem á alvarlegan hátt ógnar lífi, heilsu eða velferð núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambandsaðila skuli sæta fangelsi allt að 6 árum. Það er mat dómsins að ákærði hafi með því að veitast að brotaþola eins og hann gerði, meðal annars með því að taka hana kyrkingartaki, á alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu og velferð hennar á þann hátt sem lýst er í ofangreindri lagagrein. Verður ákærði því sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. b í almennum hegningarlögum, en brot hans þykir hins vegar ekki þess eðlis að það verði fellt undir 2. mgr. 218. gr. b. Þegar haft er í huga að allt ofbeldi þar sem börn eru viðstödd telst jafnframt ofbeldi gagnvart börnum telst brot ákærða einnig brot gegn 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

 

Ákærði er samkvæmt þessu sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. b í almennum hegningarlögum og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga, en sýknaður af brotum gegn 211. gr., sbr. 20. gr., og 2. mgr. 218. gr. b í sömu lögum.

 

Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur ákærði ekki áður sætt refsingu sem áhrif hefur á ákvörðun refsingar í máli þessu. Að þessu virtu, og einnig með hliðsjón af ákv. 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.

 

Ákærði greiði 500.408 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins. Þá greiði ákærði 2/3 hluta af 1.250.000 króna þóknun og 51.600 króna ferðakostnaði skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi og fyrir dómi, á móti 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði. Loks greiði ákærði 2/3 hluta af 500.000 króna þóknun og 129.920 króna ferðakostnaði skipaðs réttargæslumanns brotaþola á rannsóknarstigi á móti 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.

 

Uppkvaðning dóms í máli þessu hefur dregist fram yfir lögbundinn frest, en dómari og sakflytjendur töldu ekki þörf á endurflutningi.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærði, X…, sæti fangelsi í 12 mánuði.

 

Ákærði greiði 2/3 hluta af 1.250.000 króna þóknun og 51.600 króna ferðakostnaði skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar lögmanns, á móti 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði. Jafnframt greiði ákærði 2/3 hluta af 500.000 króna þóknun og 129.920 króna ferðakostnaði réttargæslumanns brotaþola, Daníels Reynissonar lögmanns, á móti 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði. Loks greiði ákærði 500.408 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins.

                                   

                                                                                                Ásgeir Magnússon