• Lykilorð:
  • Líkamsárás

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 21. febrúar 2019 í máli nr. S-80/2018:

Ákæruvaldið

(Jón Haukur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Ólafi I. Ásgeirssyni

(Ómar R. Valdimarsson hdl.)

Almari G. Alfreðssyni

(Magnús Davíð Norðdahl hdl.)

 

Mál þetta höfðaði lögreglustjórinn á Vesturlandi með ákæru 27. nóvember 2018 á hendur ákærða, Ólafi I. Ásgeirssyni, kt. …, Hlynskógum 3, Akranesi og ákærða, Almari G. Alfreðssyni, kt. …, Skógarflöt 6, Akranesi.

Málið var dómtekið 15. febrúar 2019.

Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærðu fyrir „líkamsárás aðfaranótt laugardagsins 4. ágúst 2018 í Herjólfsdal í Vestmanna­eyjum, með því að hafa veist að A…, kt. …,

a) Ólafur Ingi með því að hafa kýlt A… hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að hann féll í jörðina og hlaut roða og eymsli yfir vinstra kinnbeini,

b) Almar Geir með því að hafa sparkað í A… þar sem hann lá á jörðinni eftir hnefahögg Ólafs Inga, með þeim afleiðingum að A… hlaut bólgu framan á hægri sköflungi.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Í þinghaldi þann 15. febrúar sl., féll ákæruvaldið frá þeim þætti ákærunnar sem segir „með þeim afleiðingum að A… hlaut bólgu framan á hægri sköflungi“

Ákærði Ólafur I. Ásgeirsson hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið það brot sem honum er gefið að sök í ákæru og er játning hans studd sakargögnum. Einnig hefur ákærði Almar G. Alfreðsson játað afdráttarlaust að hafa framið það brot sem honum er gefið að sök og er játning hans í samræmi við gögn málsins. Eru því efni til að leggja dóm á málið án frekari sönnunarfærslu, sbr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Samkvæmt þessu verða ákærðu sakfelldir fyrir brotin, sem réttilega eru færð til refsilaga í ákæru.

Refsing ákærða Ólafs I. Ásgeirssonar, sem er með hreint sakavottorð þykir að broti hans virtu hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Refsing ákærða Almars G. Alfreðssonar, sem er með hreint sakavottorð, þykir með hliðsjón af broti hans hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Í málinu hefur ekki fallið til annar sakarkostnaður en þóknun skipaðra verjenda ákærðu og ferðakostnaður verjenda, eftir atvikum bæði á rannsóknarstigi og fyrir dómi. Samkvæmt 1. mgr. 236. gr. laga um meðferð sakamála verður ákærðu hvorum um sig gert að greiða þann kostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem greinir í dómsorði.

Guðfinnur Stefánsson, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Ólafur I. Ásgeirsson, sæti 30 daga fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði, Almar G. Alfreðsson, sæti 30 daga fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði, Ólafur I. Ásgeirsson, greiði þóknun verjanda síns, Ómars R. Valdimarssonar lögmanns 295.120 krónur, og ferðakostnað verjandans 16.500 krónur.

Ákærði Almar G. Alfreðsson, greiði þóknun verjanda síns, Magnúsar D. Norðdhal lögmanns 231.880 krónur, og ferðakostnað verjandans 16.500 krónur.

 

Guðfinnur Stefánsson