• Lykilorð:
  • Fjallskil
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 4. júlí 2017 í máli nr. E-15/2016:

Borgarbyggð

(Ingi Tryggvason hrl.)

gegn

H.J. Sveinssyni ehf.

(Guðmundur Siemsen hdl.)

 

I.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 13. júní sl., er höfðað með stefnu birtri 19. janúar 2016. Stefnandi er Borgarbyggð, Borgarbraut 14, Borgarnesi, en stefndi er H.J. Sveinsson ehf., Stuðlaseli 27, Reykjavík.

 

Stefnandi krefst þess að hið stefnda einkahlutafélag verði dæmt til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 143.485 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 52.050 krónum frá 23. október 2012 til 16. október 2013, en af 95.425 krónum frá þeim degi til 27. nóvember 2014, en af 143.485 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu, að meðtöldum virðisaukaskatti, að mati dómsins.

 

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti, að mati dómsins.

 

II.

Fjallskilanefnd Borgarhrepps, Stafholtstungna og Norðurárdals, sem fer með fjallskilamál á Bjarnardal í umboði stefnanda, lagði fjallskilagjald á stefnda, sem eiganda jarðarinnar Sólheimatungu, vegna áranna 2012, 2013 og 2014. Kemur fram í stefnu að fjallskilanefndin hafi nýtt sér heimild í 42. gr. laga nr. 6/1986 um afréttarmálefni, fjallskil o.fl., sbr. og 3. mgr. 18. gr. fjallskilasamþykktar fyrir Mýrasýslu nr. 360/1992, til að leggja hluta fjallskila á landverð jarða, þ.e. fasteignamat lands, og hafi samkvæmt því verið lagt á stefnda fjallskilagjald að fjárhæð 52.050 krónur vegna ársins 2012, 43.375 krónur vegna ársins 2013 og 48.060 krónur vegna ársins 2014.

 

Jörðin Sólheimatunga er í svokallaðri Ystu-Tungu, sem liggur milli Norðurár og Gljúfurár. Átti jörðin og nýtti sér upprekstrarrétt á afréttinn á Bjarnardal, en stefndi heldur því fram að þeim rétti hafi verið sagt upp á árinu 1998. Þá hafi fjárbúskapur lagst af á jörðinni það ár með sölu á sauðfjárkvóta jarðarinnar, en fyrir liggur að stefndi keypti jörðina án bústofns 16. mars 2012.

 

Við aðalmeðferð málsins gaf vitnaskýrslu Sigurjón Jóhannsson, formaður fjallskilanefndar Borgarhrepps, Stafholtstungna og Norðurárdals.

 

III.

Stefnandi vísar til þess að mál þetta sé höfðað til greiðslu á fjallskilagjöldum sem hafi verið lögð á vegna jarðarinnar Sólheimatungu í eigu stefnda.  Gjöld þessi séu lögð á samkvæmt heimild í 42. gr. laga nr. 6/1986 um afréttarmálefni, fjallskil o.fl., sbr. og 3. mgr. 18. gr. fjallskilasamþykktar fyrir Mýrasýslu nr. 360/1992, sbr. nú 2. mgr. 11. gr. fjallskilasamþykktar fyrir sveitarfélögin Akraneskaupstað, Borgarbyggð, Hvalfjarðarsveit og Skorradalshrepp nr. 683/2015. Afrétturinn sem jörðin Sólheimatunga eigi upprekstrarrétt á sé á Bjarnardal og afréttarlandið sé að hluta í eigu Stafholtskirkju. Þar sé einnig svokallað fjalllendi Munaðarness og hugsanlega einnig land í eigu fleiri aðila, sem teljist hluti afréttarins.  Hugsanlegt sé að afrétturinn verði úrskurðaður þjóðlenda, en þá væntanlega í afréttareign eigenda jarðanna Stafholts og Munaðarness og hugsanlega fleiri aðila.

 

Stefnandi byggir á því að það hafi verið sveitarfélagið Stafholtstungnahreppur sem hafi samið um afréttarnotin á fjalllendi Stafholtskirkju en ekki einstakar jarðir í Ystu-Tungu, sem upprekstrarrétt eigi á Bjarnardal. Enda séu það ekki eigendur einstakra jarða sem ákveði það hvernig afréttarnotum þeirra sé háttað heldur séu afréttarmál í höndum sveitarfélaga og þau ákveði m.a. hvaða jarðir hafi afréttarnot og hvar. Hafi þetta  fyrirkomulag  fjallskilamála í landinu þróast á löngum tíma og í raun verið með sama hætti um áratugaskeið, jafnvel aldir. Einstakar jarðir geti ekki sagt sig frá afréttarnotum nema þá hugsanlega með samþykki viðkomandi sveitarfélags.  Stefnandi hafi aldrei samþykkt að jörðinni Sólheimatungu fylgi ekki afréttarnot. Þeim rétti fylgi einnig skyldur sem jarðareigendur þurfi að sinna, svo sem til að greiða löglega álögð fjallskilagjöld, sem lögð séu á til að standa undir rekstri fjallskiladeildarinnar. Sé í þessu sambandi á það bent að jafnvel þótt litið yrði svo á að eigendur Sólheimatungu hefðu getað sagt sig frá afnotarétti af afréttarlandi Stafholtskirkju á Bjarnardal sé afrétturinn ekki aðeins það land heldur sé hluti afréttarins háður beinum eignarétti fleiri aðila eða sé þjóðlenda í afréttareign þeirra. Þannig geti afstaða eiganda Stafholts ein og sér ekki skorið úr um það hvort jörðin Sólheimatungu eigi afréttarnot/upprekstrarrétt.

 

Stefnandi vísar til þess að það hafi ekki verið á valdsviði Prestssetrasjóðs, nú Kirkjumálasjóðs, sem eiganda jarðarinnar Stafholts, að ákveða hvaða jarðir ættu upprekstrarrétt á afréttinn á Bjarnardal. Því hafi bréf sjóðsins frá 16. mars 1998, þar sem fram komi að sjóðurinn hafi fallist ,,á uppsögn dánarbús Jónasar Tómassonar, Sólheimatungu, á afnotarétti af afrétti í Bjarnardal“, enga þýðingu í máli þessu. Eigandi jarðarinnar Stafholts hafi ekkert um það að segja hverjir eigi upprekstrarrétt á afréttinn á Bjarnardal né fari hann með stjórnun afréttarmála þar að öðru leyti, þótt afrétturinn sé að hluta til í eigu Stafholts. Það séu sveitarfélög sem fari með fjallskilamál og þ. á m. ákveði þau hvaða jarðir eigi upprekstrarrétt og hvar.

 

Þá liggi fyrir að dánarbú Jónasar Tómassonar hafi ekki verið þinglýstur eigandi að jörðinni Sólheimatungu 26. nóvember 1997 þegar Björn Stefánsson eigi að hafa ritað Prestssetrasjóði bréf varðandi afréttarnot jarðarinnar og ekki heldur í mars 1998, þegar sjóðurinn hafi ritað Birni bréf þar sem fallist hafi verið ,,á uppsögn dánarbús Jónasar Tómassonar, Sólheimatungu, á afnotarétti af afrétti í Bjarnardal“. Þá hafi Jónas Tómasson, og síðar dánarbú hans, frá því í nóvember 1990 til 29. október 1997, aðeins verið þinglýstur eigandi að 50% eignarhlut í jörðinni Sólheimatungu. Hefði dánarbúið getað gert ráðstafanir varðandi afréttarnot jarðarinnar hefði það aldrei gilt nema um eignarhlut dánarbúsins, þar sem ekkert liggi fyrir um það að hinn eigandi jarðarinnar hafi heimilað dánarbúinu að fara með málefni hennar fyrir sína hönd. Þannig sé þessi meinta uppsögn á afréttarnotum jarðarinnar Sólheimatungu markleysa og þýðingarlaus með öllu.

Sú fullyrðing stefnda að jörðin Sólheimatunga eigi ekki afréttarnot standist því ekki og stefnda, sem eiganda jarðarinnar, beri að greiða álögð fjallskilagjöld, enda séu þau lögð á lögum og reglum samkvæmt.

 

Stefndi byggir á því að fjallskilagjöld séu ekki aðeins lögð á til að mæta kostnaði við smölun á afréttum heldur komi þar til ýmiss annar kostnaður, svo sem viðhald á afréttargirðingum og réttum.  Jafnvel þótt þeir sem rétt eigi til upprekstrar á ákveðinn afrétt færu ekki með neinn búpening þangað þyrfti allt að einu að smala afréttinn. Þá þurfi afrétturinn í flestum tilvikum að vera girtur og fjallskiladeild þurfi að sjá til þess að til sé rétt sem t.d. jarðareigendur geti farið með búpening í, sem komi t.d. fyrir við hreinsun heimalanda á haustin, og sé ekki í eigu viðkomandi jarðareiganda. Þannig þurfi jarðareigandi sem engan búpening eigi að hafa aðgang að rétt til að geta komið af sér búpeningi sem hann finni í heimalandi sínu, en jarðareigendum sé skylt að hreinsa sitt land að hausti, sbr. VI. kafla laga nr. 6/1986 um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. og einnig 16. gr. fjallskilasamþykktar nr. 683/2015, fyrir sveitarfélögin Akraneskaupstað, Borgarbyggð, Hvalfjarðarsveit og Skorradalshrepp. Fjallskiladeild þurfi að hafa til reiðu rétt, sbr. 49. gr. tilvitnaðra laga og einnig 19. gr. fjallskilasamþykktarinnar. Af þessum ástæðum m.a. sé heimilt að leggja hluta fjallskilakostnaðar á landverð jarða til að standa straum af útgjöldum vegna girðinga, skilarétta og fjallhúsa, sbr. 2. mgr. 11. gr. fjallskilasamþykktar nr. 683/2015 og áður 3. mgr. 18. gr. fjallskilasamþykktar fyrir Mýrasýslu nr. 360/1992. Heimilt sé en ekki skylt að leggja hluta fjallskilagjalda á landverð jarða, sbr. tilvitnað lagaákvæði og tilvitnuð ákvæði fjallskilasamþykkta. Það sé því háð ákvörðun fjallskilanefndar á hverjum tíma hvort hluti fjallskilagjalda skuli lagður á landverð jarða eða ekki. Þó svo að þessi heimild hafi ekki alltaf verið notuð segi það ekkert til um það hvort hún sé til staðar eða ekki.

 

IV.

Stefndi kveðst byggja á því að stefndi sé ekki fjallskilaskyldur aðili í skilningi laganna eða 1. mgr. 18. gr. fjallskilasamþykktar fyrir Mýrarsýslu nr. 360/1992, en þar segi að fjallskilaskyldur sé hver sá sem eigi sauðfé, hvort sem það sé rekið í afrétt eða eigi. Fyrir liggi að stefndi stundi ekki fjárbúskap á jörðinni Sólheimatungu. Af því leiði að fjallskilakostnaður verði ekki lagður á stefnda á grundvelli fyrri málsliðar 42. gr. laga nr. 6/1986.

 

Af stefnu málsins megi ráða að stefnandi vilji byggja fjárkröfur sínar á hendur stefnda á valkvæðri heimild í síðari málslið 42. gr. laga nr. 6/1986, sem heimili að samhliða meginreglunni um niðurjöfnun fjallskilakostnaðar eftir búfjáreign skv. 1. málslið sömu lagagreinar verði hluti fjallskilakostnaðar lagður á beitiland jarða, þ.e. á landverð að frádregnu verði ræktaðs lands og hlunninda. Sú heimild feli í sér frávik frá fyrrnefndri meginreglu laganna, um að eigendur fjallskilaskylds búpenings skuli öðrum fremur bera kostnað af fjallskilum, og verði kostnaðinum aldrei að öllu leyti jafnað niður á landverð jarða. Þá sé jafnframt ljóst að skýra verði heimildina í síðari málslið 42. gr. laganna þannig að gjaldtökunni verði aðeins beitt gagnvart eigendum þeirra jarða sem noti, eða eiga kost á að nota, það land sem fjallskilin taki til.

 

Sá alvarlegi ágalli sé jafnframt á hinni umdeildu álagningu að á innheimtuviðvörunum stefnanda, sem sé það eina sem liggi frammi í málinu til stuðnings kröfugerð hans, komi ekkert fram um grundvöll álagningarinnar, heildarfjallskilakostnað fjallskiladeildarinnar, skiptingu kostnaðarins á milli heimildarákvæða fyrri og síðari málsliðar 42. gr. laga nr. 6/1986 eða útreikninga til grundvallar álagningu hluta kostnaðarins á landverð jarða innan fjallskiladeildarinnar. Með öllu sé því óljóst hvaða kostnaður liggi til grundvallar álagningu fjallskilagjalda stefnanda. Enn fremur sé með öllu óljóst hvers vegna stefnda hafi ekki verið gefinn kostur á að inna fjallskil af hendi með vinnu til samræmis meginreglu 2. mgr. 43. gr. laga nr. 6/1986. Stefndi telji því að álagning fjallskilagjalda á jörðina Sólheimatungu eigi sér ekki fullnægjandi stoð í lögum.

 

Stefndi bendi á að með „fjallskilum“ í skilningi laganna og almennrar málvenju sé nánar til tekið átt við smölun og leitir, eða skyldu bænda til að leggja til menn til þeirra verka. Af því leiði að ákvæði laganna um álagningu fjallskilagjalds heimili aðeins töku gjalds til að standa straum af raunkostnaði við fjallskil, þ.e. leitir og smölun. Af grundvallarreglum um þjónustugjöld leiði jafnframt að gjaldtaka stefnanda megi ekki vera umfram þann kostnað hverju sinni. Í stefnu málsins segi berum orðum að stefnandi leggi á fjallskilagjald til að mæta ýmsum öðrum kostnaði en falli til við smölun og leitir. Nánar til tekið telji stefnandi sér heimilt að leggja fjallskilagjald á til að mæta ýmsum öðrum kostnaði, s.s. kostnaði við girðingar og réttir. Telji stefndi að þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda, enda hafi stefnandi nú upplýst að útreikningur hans á fjallskilagjaldinu grundvallist á kostnaðarliðum sem gjaldtökunni sé að lögum ekki ætlað að standa undir.

 

Í því samhengi árétti stefndi að heimild stefnanda til álagningar gjaldsins samkvæmt síðari málslið 42. gr. laga nr. 6/1986, þ.e. til jöfnunar á hluta fjallskilakostnaðar á landverð jarða, fjalli eingöngu um kostnað við fjallskil „í afréttum og öðrum sumarbeitihögum“. Kostnaði við smölun á heimalandi jarða verði því ekki jafnað á landverð jarða, en um smölun heimalands og kostnað af henni fari eftir 39. og 41. gr. laganna. Hið sama eigi við um kostnað af girðingum, sem stefnandi virðist ranglega telja að fjármagna megi með fjallskilasjóði og geti þar með orðið grundvöllur álagningar fjallskilagjalds á stefnda, en um kostnað af girðingum á afrétti og skiptingu hans fari eftir fyrirmælum 6. gr. girðingarlaga nr. 135/2001. Verði stefnda því ekki gert að greiða fjallskilagjald til að standa straum af kostnaði við girðingar, eins og stefnandi haldi fram. Með sama hætti verði fjallskilagjald samkvæmt síðari málslið 42. gr. laga nr. 6/1986 ekki lagt á til þess að kosta byggingu eða viðhald rétta, enda verði þeim kostnaði aðeins jafnað á fjallskilaskylda aðila, þ.e. eigendur fjallskilaskylds búpenings skv. 51. gr. laganna. Sú tilhögun stefnanda að leggja fjallskilagjöld á stefnda til að standa straum af öðrum kostnaði en beinlínis leiði af fjallskilum samræmist í engu grundvallarsjónarmiðum og meginreglum um þjónustugjöld. Eins sé málatilbúnaður og kröfugerð stefnanda í málinu háð þeim alvarlega annmarka að engin fullnægjandi grein hafi verið gerð fyrir einstökum kostnaðarliðum sem af fjallskilum stafi og engir sundurliðaðir útreikningar hafi legið frammi í málinu um jöfnun kostnaðarins eftir fyrirmælum 42. gr. laga nr. 6/1986. Hvort tveggja telji stefndi að leiða ætti til sýknu hans af öllum kröfum stefnanda í málinu.

 

Þá telji stefndi enn fremur að útfærsla á gjaldtökuheimild stefnanda í fjallskilasamþykkt fyrir Mýrasýslu nr. 360/1992, sem legið hafi til grundvallar álagningu hins umdeilda fjallskilagjalds, fullnægi ekki þeim kröfum sem gera verði til gjaldtökuheimilda stjórnvalda að lögum. Í fjallskilasamþykktinni komi ekkert fram um það hvernig gjaldið skuli ákvarðað, þannig að tryggt sé að gjaldtakan sé ekki umfram raunkostnað við fjallskil, að hver aðili geti kannað hvort álagning gjaldsins sé í samræmi við heimildina og að jafnræðis sé gætt með greiðendum þess.

 

Stefndi byggi og á því að fjallskilagjald samkvæmt síðari málslið 42. gr. laga nr. 6/1986 verði aðeins lagt á eigendur jarða sem noti eða eigi kost á að nota það land sem fjallskilin taki til. Síðari málsliður ákvæðisins heimili aðeins að jafna niður vinnu og kostnaði sem falli til við smölun og leitir afrétta og annarra sumarbeitarhaga. Nánar tiltekið feli ákvæðið í sér heimild til töku þjónustugjalds í skilningi laga og þjónustan sem veitt sé felist í notkun þeirra beitilanda sem falli undir fjallskilin og smölun þeirra.

 

Stefndi vísi til afdráttarlauss orðalags 7. gr. laga nr. 6/1986, um að upprekstrarréttur á afrétt hrepps eða annars upprekstrarfélags sé bundinn við búfjáreigendur eina. Raunar hafi eigendur jarðarinnar Sólheimatungu aldrei notið slíks réttar heldur upprekstrarréttar á fjalllendi í einkaeigu Stafholtskirkju samkvæmt 8. gr. laganna, enda hafi jörðin ekki átt kost á öðru upprekstrarlandi. Í öllu falli þá hafi hugsanlegur upprekstrarréttur jarðarinnar samkvæmt 7. gr. laganna liðið undir lok þegar fjárbúskap hafi verið hætt á jörðinni árið 1998 og jarðeigendur því ekki lengur búfjáreigendur í skilningi laganna. Þá liggi fyrir að afnotum hafi verið sagt upp árið 1997, eins og staðfest hafi verið af eiganda afréttarins, og því sé einsýnt að afnotarétturinn sé ekki lengur fyrir hendi.

 

Þess misskilnings gæti í stefnu að sveitarfélög ákveði hvaða jarðir hafi afréttarnot og hvar. Sú fullyrðing eigi ekki við rök að styðjast, en hið rétta sé að sveitarstjórn beri, sem stjórn fjallskilaumdæmis, að semja skrá um alla afrétti og lýsa merkjum þeirra og taka fram hvaða jarðir eigi upprekstur á hvern afrétt og hverjir séu afréttareigendur, sé um afrétt í einkaeign að ræða, sbr. 6. gr. laga nr. 6/1986. Þeirri skrá verði ekki breytt nema að tillögu sveitarstjórnar og með samþykki jarðeigenda. Skráin gildi sem heimild fyrir upprekstrarrétti hverrar jarðar í fjallskilaumdæmi, en eftir því sem næst verði komist njóti engra slíkra heimilda við um upprekstrarrétt jarðarinnar Sólheimatungu að fornu eða nýju.

 

Að gefnu tilefni mótmæli stefndi sérstaklega fullyrðingum stefnanda um að  eigendur Sólheimatungu hafi ekki verið í samningssambandi við kirkjuna heldur hreppinn um afréttarnotin. Ráða megi af staðfestingu Prestsetrasjóðs á uppsögn á afréttarnotum Sólheimatungu að bæði eigendur Sólheimatungu og Stafholtskirkju hafi litið svo á að upprekstrarréttur Sólheimatungu færi eftir samningum þeirra í milli, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 6/1986. Stefnandi hafi aftur hvorki sýnt fram á samningssamband sitt við Stafholtskirkju né samningssamband hreppsins við Sólheimatungu um afréttarnotin.

 

Til samræmis við framangreint hafi stefnandi hætt innheimtu fjallskilagjalds af eigendum Sólheimtatungu árið 1999, eftir að notum af afrétti í einkaeigu Stafholtskirkju hefði verið sagt upp og fjárbúskap hætt á jörðinni.

 

Stefndi veki athygli á því að í málinu liggi ekki fyrir nokkrar upplýsingar um að eigendur Sólheimatungu hafi frá árinu 1998 átt þess kost að nota til búfjárbeitar nein lönd þar sem kostnaður við sameiginleg fjallskil falli til. Fullyrðingar stefnanda um að jörðin Sólheimatunga eigi upprekstrarrétt á afréttarland á Bjarnardal í eigu annarra en Stafholtskirkju séu ekki studdar neinum gögnum og stangist beinlínis á við það sem fram komi í gerðarbók Stjórnarráðs Íslands, dags. 8. janúar 1914. Þar segi m.a. að fjalllendi Stafholtskirkju á Bjarnardal hafi verið „[...] notað til upprekstrar fyrir nokkra menn í hreppnum sem annars hafa ekkert upprekstrarland“. Þáverandi eigendur jarðarinnar Sólheimatungu hafi verið meðal þeirra sem nýtt hafi fjalllendi Stafholtskirkju til upprekstrar, enda hafi jörðin ekki haft annað upprekstrarland. Þegar afnotum jarðarinnar að fjalllendinu hafi lokið með staðfestingu á uppsögn þeirra árið 1998 hafi jörðin ekki lengur átt upprekstrarrétt og þar með ekki átt kost á að nýta sér lönd þar sem sameiginlegur kostnaður vegna fjallskila falli til. Af þeim sökum verði þjónustugjald vegna fjallskilakostnaðar ekki lagt á eigendur jarðarinnar Sólheimatungu.

 

Telji dómurinn á annað borð að stefnandi hafi að lögum heimild til álagningar fjallskilagjalds á stefnda sé bent á að af orðalagi 2. og 3. mgr. 43. gr. laga nr. 6/1986 leiði að fjallskil skuli að meginreglu innt af hendi í vinnu, enda sé það aðeins þeim kostnaði fjallskilasjóðs, sem ekki verði inntur af hendi með skylduvinnu og óvissar tekjur sjóðsins hrökkva ekki fyrir, sem sé heimilt að jafna niður eftir fyrirmælum 42. gr. laganna. Þar af leiðandi verði fjárkröfum stefnanda ekki komið fram gagnvart stefnda nema því aðeins að honum hafi áður verið gefinn kostur á að inna fjallskil af hendi með vinnu með fjallskilaboði samkvæmt fjallskilasamþykkt. Stefnandi hafi ekki gefið stefnda kost á að inna fjallskil af hendi í vinnu og eigi sú vanræksla því að leiða til sýknu stefnda.

 

V.

Niðurstaða

Í málinu krefst stefnandi, sveitarfélagið Borgarbyggð, þess að stefnda, sem eiganda jarðarinnar Sólheimatungu í Borgarbyggð, verði gert að greiða fjallskilagjald vegna jarðarinnar fyrir árin 2012-2014, sem lagt hafi verið á hann samkvæmt heimild í 42. gr. laga nr. 6/1986 um afréttarmálefni, fjallskil o.fl., sbr. og 3. mgr. 18. gr. fjallskilasamþykktar fyrir Mýrasýslu nr. 360/1992, sbr. nr. 11. gr. fjallskilasamþykktar fyrir sveitarfélögin Akraneskaupstað, Borgarbyggð, Hvalfjarðarsveit og Skorradalshrepp nr. 683/2015.

 

Samkvæmt I. kafla laga nr. 6/1986 telst hvert sveitarfélag vera fjallskilaumdæmi, sem skiptist í fjallskiladeildir, en umdæmið getur þó náð til fleiri sveitarfélaga, ef það þykir hentugra, m.a. vegna skipulags leita. Fer sveitarstjórn þá almennt með stjórn fjallskilaumdæmis og annast sem slík þá yfirstjórn allra afréttar- og fjallskilmála samkvæmt lögunum í viðkomandi umdæmi og setur því m.a. fjallskilasamþykkt. Eins og áður er fram komið fer fjallskilanefnd Borgarhrepps, Stafholtstungna og Norðurárdals með fjallskil afréttarins á Bjarnardal, í umboði og á ábyrgð stefnanda,

 

Samkvæmt ákv. 1. málsliðar 42. gr. laga nr. 6/1986 skal fjallskilum í afréttum og öðrum sumarbeitarhögum jafnað niður á fjallskilaskylda aðila í hlutfalli við tölu fjallskilaskylds búpenings. Í 2. málslið greinarinnar er þó heimilað að leggja hluta fjallskilakostnaðar á landverð jarða að frádregnu verði ræktaðs lands og hlunninda, enda séu um það ákvæði í fjallskilasamþykkt. Í áður tilvitnaðri fjallskilasamþykkt fyrir Mýrasýslu nr. 360/1992 kemur fram í 1. mgr. 18. gr. að fjallskilaskyldur aðili sé hver sá sem eigi sauðfé, hvort sem það sé rekið í afrétt eða eigi og í 3. mgr. er hreppsnefnd heimilað, hafi afréttarskyldum búpeningi fækkað mjög, að jafna allt að helmingi fjallskilakostnaðar niður á landverð bújarða, eins þó í eyði séu, að frádregnu verði ræktaðs lands og hlunninda eftir gildandi fasteignamati. Óumdeilt er að stefndi stundar ekki fjárbúskap á jörðinni Sólheimatungu og telst því ekki fjallskilaskyldur aðili. Af því leiðir að fjallskilakostnaður verður ekki lagður á hann á grundvelli fyrri málsliðar fyrrgreindrar 42. gr. Eftir stendur þá að leysa úr því, sem kröfugerð stefnanda virðist byggjast á, hvort álagning umræddra gjalda hafi eigi að síður verið stefnanda heimil á grundvelli ákvæðis síðari málsliðar 42. gr.

 

 

Með hliðsjón af því orðalagi 1. málsliðar 42. gr. að fjallskilum í afréttum og öðrum sumarbeitarhögum skuli jafnað niður á fjallskylda aðila verður að líta svo á að lagagreinin heimili aðeins að jafna niður vinnu og kostnaði, sem falli til vegna fjallskila í afréttum og öðrum sumarbeitarhögum sem eigendum er ekki gert skylt að smala á grundvelli þess að um heimaland sé að ræða. Ákvæði greinarinnar, þar á meðal 2. málsliðar, heimila því ekki að inni í slíka niðurjöfnun sé tekinn kostnaður vegna annarra þátta, svo sem vegna viðhalds á afréttargirðingum og réttum. Af þessu leiðir og að heildargjaldtaka má ekki vera umfram þann kostnað sem fallið hefur til við þau fjallskil sem gjaldtakan á að mæta. Enda þótt stefnandi hafi ekki gert skýrlega grein fyrir því við rekstur máls þessa hér fyrir dómi hver sá kostnaður var sem umræddri gjaldtöku var ætlað að mæta verður þó ráðið af stefnu að þar hafi meðal annars verið um að ræða viðhaldskostnað vegna girðinga og rétta. Var þetta og staðfest með framburði formanns fjallskilanefndar Borgarhrepps, Stafholtstungna og Norðurárdals við aðalmeðferð málsins, þar sem hann greindi frá því að gjald þetta hefði ekki verið lagt á til greiðslu á smölunarkostnaði heldur til að mæta kostnaði vegna viðhalds á mannvirkjum ýmiss konar, s.s. girðingum, réttum og leitarmannakofum. Að virtu framangreindu verður að fallast á það með stefnda að hin umdeilda álagning fjallskilagjalds á stefnda eigi sér ekki fullnægjandi lagastoð í 42. gr. laga nr. 6/1986. Verður því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

 

Stefnandi greiði stefnda 900.000 krónur í málskostnað.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Stefndi, H.J. Sveinsson ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Borgarbyggðar.

 

Stefnandi greiði stefnda 900.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                                                Ásgeir Magnússon