• Lykilorð:
  • Aðild
  • Ógilding
  • Tryggingarbréf
  • Ógildingarmál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 21. september 2017 í máli nr. E-8/2017:

Landsbankinn hf.

(Arndís Sveinbjörnsdóttir hdl.)

gegn

Arnarfelli sf. og

Skagaveri ehf.

(Gunnar Egill Egilsson hdl.)

 

I.

Mál þetta, sem Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík, höfðar sem ógildingarmál skv. 120. og 121. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 á hendur handhafa tryggingarbréfs, var þingfest 17. janúar 2017 og dómtekið 4. september sama ár. Til varna í málinu tóku Arnarfell sf. og Skagaver ehf., og verður þeirra hér eftir getið sem stefndu í málinu.

 

Stefnandi gerir þær kröfur að ógilt verði með dómi „tryggingarbréf að fjárhæð kr. 120.000,-, útgefið þann 17. ágúst 2007 af Byggingarhúsinu ehf., kt. 680801-2310, Miðbæ 3, Akranesi, til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum Byggingarhússins ehf. við Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259. Með tryggingarbréfinu var sett að veði á 2. veðrétti og uppfærslurétti á eftir Verslunarlánasjóðnum, upphaflegur höfuðstóll 15.000.000,-, sem var aflétt, fasteignin Miðbær 3, Akranesi, fastanr. 210-0543. Eigandi skv. kaupsamningi er Arnarfell sf., kt. 461083-0489 og eigandi skv. lóðarleigusamningi er Skagaver ehf., kt. 580269-6059, en fyrirsvarsmenn þessara eigenda hafa undirritað tryggingarbréfið. Tryggingarbréfið er tryggt með vísitölu neysluverðs, m.v. grunnvísitöluna 272,4 stig. Tryggingarbréfið er númer 412-A-002523/2007 í þinglýsingarbók.“ Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins.

 

Endanlegar dómkröfur stefndu eru þær að synjað verði um ógildingardóm vegna fyrrgreinds skjals og að stefnanda verði gert að greiða þeim málskostnað að skaðlausu að mati dómsins.

II.

Hinn 17. ágúst 2007 gaf Byggingarhúsið ehf., til heimilis að Miðbæ 3, Akranesi, út tryggingarbréf til Landsbanka Íslands hf. til tryggingar greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum félagsins við bankann, „nú eða síðar, hvort sem þær eru samkvæmt víxlum, lánssamningum, skuldabréfum, yfirdrætti á tékkareikningi, hvers konar ábyrgðum og ábyrgðarskuldbindingum (þar með töldum ábyrgðum, er bankinn hefir tekist eða kann að takast á hendur mín/okkar vegna) eða í hvaða formi sem er, á hvaða tíma sem er og í hvaða gjaldmiðli sem er“, allt að fjárhæð 120.000.000 króna, auk dráttarvaxta og kostnaðar. Var framangreind fjárhæð bundin vísitölu neysluverðs til verðtryggingar, miðað við grunnvísitöluna 272,4. Til tryggingar greiðslu var bankanum sett að veði fasteignin Miðbær 3, Akranesi, verslunarhús, með fastanr. 210-0543. Var veðsetningin samþykkt af Arnarfelli sf., sem eiganda eignarinnar samkvæmt kaupsamningi, og af Skagaveri ehf., sem þinglýstum lóðarhafa.

 

Hinn 28. október 2016 var gefin út réttarstefna, sem birt var í Lögbirtingablaði, þar sem stefnandi krefst ógildingar á framangreindu tryggingarbréfi, sem hann hafi haft í sinni vörslu en sé nú glatað. Við þingfestingu málsins tóku Arnarfell sf. og Skagaver ehf. til varna í málinu, eins og áður er rakið.

 

III.

Stefnandi byggir dómkröfu sína á því að hann hafi haft umrætt tryggingarbréf í vörslu sinni en að það sé nú glatað og hafi ekki fundist þrátt fyrir mikla eftirgrennslan. Sé honum því nauðsynlegt að fá bréfið ógilt með dómi svo að hann geti neytt þess réttar sem hann hafi samkvæmt því.

 

Stefnandi vísar til þess, varðandi aðild hans að málinu, að Fjármálaeftirlitið hafi tekið um það ákvörðun hinn 9. október 2008, með heimild í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259, til Nýja Landsbanka Íslands hf., sem nú heiti Landsbankinn hf. og sé stefnandi máls þessa.

 

Stefnandi kveðst höfða málið með heimild í 120. og 121. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 3. mgr. 91. gr. sömu laga.

IV.

Stefndu styðja dómkröfu sína við það að stefnandi sé ekki réttmætur eigandi tryggingarbréfsins, líkt og haldið sé fram í stefnu, heldur LBI hf., kt. 540291-2259, áður Landsbanki Íslands hf. Við fall þess banka hafi hluti starfsemi hans verið færður inn í nýtt félag, Landsbankann hf., sem sé stefnandi þessa máls, í samræmi við það sem ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins hefðu kveðið á um. Það sem ekki hefði verið fært yfir til stefnanda hafi setið eftir í gamla bankanum. Í 2. tl. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008 komi fram að stefnandi taki við „öllum tryggingarréttindum, þ.m.t. öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem tengjast kröfu bankans“. Í 7. tl. sömu ákvörðunar hafi komið fram að stefnandi tæki yfir réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum.

 

Hinn 12. október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið breytt fyrri ákvörðun sinni með þeim hætti að stefnandi tæki ekki yfir réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum. Hafi samningar Byggingarhússins ehf. við stefnanda fallið þar undir, en tryggingarbréf  það sem mál þetta snúist um sé til tryggingar greiðslu afleiðutengdra skulda að mestu leyti. Fjármálaeftirlitið hafi með nýrri ákvörðun 19. október sama ár útfært framangreinda ákvörðun sína nánar og komi þar fram í 2. tl. að við 2. tl. ákvörðunarinnar frá 9. október 2008 skuli bætast nýr málsliður: „Nýi Landsbanki Íslands hf. skal þó standa Landsbanka Íslands hf. skil á sérgreindum tryggingum viðskiptamanna eftir því sem við á vegna kröfuréttinda og afleiðusamninga sem ekki flytjast yfir til Nýja Landsbanka Íslands hf. við þessa ákvörðun eða samkvæmt síðara samkomulagi.“ Af fyrrgreindu sé ljóst að kröfur er tengist afleiðum og tryggingar sem af þeim séu sprottnar hafi ekki verið færðar yfir til stefnanda. Í þessu sambandi bendi stefndu á að orðalag ákvörðunarinnar frá 19. október um að stefnandi skuli standa Landsbanka Íslands hf. skil á sérgreindum tryggingum viðskiptamanna feli það í sér að stefnandi geti ekki „farið fyrir þeim tryggingaréttindum sem ekki fluttust til hans heldur tilheyri þau gamla bankanum, Landsbanka Íslands hf. Þar á meðal séu tryggingaréttindi er varði afleiðuviðskipti.“

 

Stefnandi hafi ekki með skýrum hætti sannað að framsal tryggingarréttindanna hafi átt sér stað, sérstaklega í ljósi þess að afleiðusamningar hafi legið til grundvallar þeirri skuld sem tryggingarbréfið hafi verið gefið út vegna. Þar skipti engu þótt þess sé getið í veðbandayfirliti að stefnandi hafi tekið við óbeinum eignarréttindum Nýja Landsbanka Íslands hf. skv. ákvörðun 9. október 2008, enda liggi ekkert fyrir um að slíkt hafi verið skráð á tryggingarbréfið sjálft, auk þess sem þeirri ákvörðun hafi verið breytt á fyrrgreindan hátt. Stefndu eigi ekki að þurfa að þola að nýr kröfuhafi gangi á veðréttindin án þess að verða upplýstir um framsalið.

 

Framangreindur skilningur stefnda á ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins eigi sér skýra stoð í fullyrðingum stefnanda og forvera hans fyrir dómi. Þannig hafi stefnandi í fyrsta lagi byggt á því í gjaldþrotaskiptabeiðni á búi Byggingarhússins ehf. fyrir héraðsdómi að krafa vegna yfirdráttar á myntveltureikningi væri ekki tryggð með tryggingarréttindum. Þannig hafi þar verið fullyrt að krafan væri ekki nægilega tryggð, sbr. 1. tl. 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, og þar með í raun fullyrt að engin trygging væri til grundvallar skuldum Byggingarhússins ehf. gagnvart sér. Þá verði ráðið af tilgreindum dómum Hæstaréttar, í málum gamla bankans, LBI hf., gegn Byggingarhúsinu ehf. vegna afleiðuviðskipta, að tryggingarbréfið standi til tryggingar skuldum þess banka en ekki stefnanda máls þessa. Skjóti skökku við að bæði stefnandi og forveri hans hafi áður komist að þeirri niðurstöðu að LBI hf. væri veðhafi tryggingarbréfsins og að nú sé rekið mál til ógildingar bréfinu svo að stefnandi geti nýtt sér réttindi þess gegn stefndu, eftir að aðalskuldarinn, Byggingarhúsið ehf., hafi verið lýstur gjaldþrota á grundvelli þess að engin trygging stæði til ábyrgðar kröfum hans.

 

Sé framangreint virt heildstætt, og með vísan til viðauka við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 19. október 2008, verði því að ætla að á meðan stefnandi hafi ekki sannað framsal tryggingarréttindanna til sín beri að synja um ógildingu tryggingarbréfsins.

 

V.

Stefndu krefjast þess að synjað verði um ógildingardóm vegna umrædds tryggingarbréfs á þeim forsendum að stefnandi, Landsbankinn hf., sé ekki réttmætur eigandi þess, líkt og haldið sé fram í stefnu, heldur Landsbanki Íslands hf., sem nú heiti LBI hf.

 

Eins og áður er fram komið tók Fjármálaeftirlitið um það ákvörðun hinn 9. október 2008, með heimild í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. til stefnanda, sem þá hét Nýi Landsbanki Íslands hf. Jafnframt var tilgreint að Nýi Landsbanki Íslands hf. skyldi taka við öllum tryggingarréttindum Landsbanka Íslands hf., þ.m.t. öllum veðréttindum. Fjármálaeftirlitið breytti þessari ákvörðun sinni hinn 12. sama mánaðar með þeim hætti að stefnandi tæki ekki yfir réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum. Með nýrri ákvörðun stofnunarinnar 19. sama mánaðar var framangreind ákvörðun skýrð nánar og tekið fram í 2. tl. hennar að við 2. tl. ákvörðunarinnar frá 9. október 2008 skyldi bætast nýr málsliður svohljóðandi: „Nýi Landsbanki Íslands hf. skal þó standa Landsbanka Íslands hf. skil á sérgreindum tryggingum viðskiptamanna eftir því sem við á vegna kröfuréttinda og afleiðusamninga sem ekki flytjast yfir til Nýja Landsbanka Íslands hf. við þessa ákvörðun eða samkvæmt síðara samkomulagi.“ Vísa stefndu til þess að umrætt tryggingarbréf hafi verið gefið út í tengslum við afleiðuviðskipti Byggingarhússins ehf. við Landbanka Íslands hf. og því ekki átt að flytjast til stefnanda á grundvelli framangreindrar ákvörðunar hinn 19. október 2008.

 

Af framangreindum ákvörðun Fjármálaeftirlitsins verður ráðið að öll tryggingarréttindi Landsbanka Íslands hf. hafi færst yfir til stefnanda nema „sérgreindar“ tryggingar viðskiptamanna vegna afleiðusamninga og kröfuréttinda sem ekki færðust yfir til stefnanda. Var yfirlýsingu Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008  um yfirfærslu réttindanna þinglýst á hina veðsettu fasteign vegna umrædds tryggingarbréfs. Í máli þessu, sem stefndi höfðar með heimild í 120. og 121. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, lúta dómkröfur hans eingöngu að ógildingu tryggingarbréfs þessa, sem gefið var út til tryggingar greiðslu á „öllum skuldbindingum og fjárskuldbindingum“ Byggingarhússins ehf. við Landsbanka Íslands hf., nú LBI hf. Mál þetta snýst hins vegar ekki um þær skuldbindingar Byggingarhússins ehf. sem að baki því kunna að liggja. Að þessu virtu, og þar sem ekki verður fallist á með stefndu að málatilbúnaður stefnanda og LBI hf. í öðrum málum vegna skulda Byggingarhússins ehf. breyti neinu hér um, verður að telja að stefndu hafi á engan hátt hnekkt þeirri staðhæfingu stefnanda að umrætt veðtryggingarbréf hafi færst frá Landsbanka Íslands hf. yfir til stefnanda á grundvelli framangreindra ákvarðana Fjármálaeftirlitsins og að stefnandi sé þar með réttur umráðamaður þess bréfs sem hann krefst ógildingar á. Samkvæmt því, og þar sem fullnægt er öðrum skilyrðum 120. og 121. gr. laga nr. 91/1991 fyrir ógildingu tilgreinds tryggingarbréfs, verður fallist á kröfu stefnanda um ógildingu þess.

 

Að fenginni þessari niðurstöðu verða stefndu dæmdir til að greiða stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ógilt er tryggingarbréf að fjárhæð 120.000.000 króna, útgefið 17. ágúst 2007 til tryggingar greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum Byggingarhússins ehf. við Landsbanka Íslands hf. og með veði í fasteigninni Miðbæ 3, Akranesi, fastanr. 210-0543.

 

Stefndu, Arnarfell sf. og Skagaver ehf., greiði stefnanda, Landsbankanum hf., 500.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                                    Ásgeir Magnússon