• Lykilorð:
  • Galli
  • Verksamningur
  • Skuldamál

 

 

 

    

 

 

 

 

D Ó M U R

4. júlí 2018

 

 

 

Mál nr.            E-122/2016:

 

Stefnandi:       Stálsmiðjan-Framtak ehf.

                        (Pétur Már Jónsson lögmaður)

 

Stefndi:           Reykjavík sailors ehf.

                        (Björn Þorri Viktorsson lögmaður)

 

 

 

 

Dómari:           Ásgeir Magnússon dómstjóri

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 4. júlí 2018 í máli nr. E-122/2016:

Stálsmiðjan-Framtak ehf.

(Pétur Már Jónsson lögmaður)

gegn

Reykjavík sailors ehf.

(Björn Þorri Viktorsson lögmaður)

 

 

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 18. ágúst 2016 og þingfest 20. september sama ár.

 

Stefnandi er Stálsmiðjan-Framtak ehf., Vesturhrauni 1, Garðabæ, en stefndi er Reykjavík sailors ehf., Kalmannsvöllum 3, Akranesi.

 

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skuld að fjárhæð 1.446.063 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 110.483 krónum frá 12. til 22. maí 2016, en af 1.446.063 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt mati dómsins.

 

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins.

 

Stefndi höfðaði gagnsök í málinu með framlagningu gagnstefnu í þinghaldi hinn 17. janúar 2017, en gagnsökinni var vísað frá dómi með úrskurði uppkveðnum 7. febrúar 2018.

 

Útivist varð af hálfu stefnda er aðalmeðferð skyldi fara fram hinn 20. júní sl. og eftir að stefnandi hafði skilað skriflegri sókn í málinu skv. heimild í 3. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var það dómtekið hinn 25. júní sl.

 

Stefnandi kveðst reka upptökumannvirki og viðgerðaraðstöðu fyrir skip og annast hvers konar málmiðnaðarstarfsemi, málmsmíði, vélsmíði, vélaviðgerðir, rennismíði og skipasmíðar. Byggir hann kröfu sína á því að hann hafi innt af hendi vinnu fyrir stefnda, auk þess að hafa lagt til efni, verkfæri o.fl., við að skipta um olíuverk í vél mb. Gullfoss. Vegna þessara viðskipta hafi verið gefnir út tveir reikningar. Sá fyrri hafi verið gefinn út 12. maí 2016 að fjárhæð 110.483 krónur, en sá síðari útgefinn 22. maí 2016 að fjárhæð 1.335.580 krónur. Nemi samtala þeirra stefnufjárhæð málsins.

 

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi tekið að sér að gera við gír í skipinu mb. Gullfossi og skipta um olíuverk í því. Hann hafi hins vegar ekki sinnt þeirri viðgerð  með fullnægjandi hætti eða á þann hátt sem stefndi hafi mátt gera réttmæta kröfu til. Þannig sé augljóst að starfsmenn á vegum stefnanda hafi átt við plánetugír skipsins þegar þeir unnu að viðgerðinni og hafi vanræksla og vangá þeirra leitt til bilunar gírsins í kjölfarið og síðan til algerrar eyðileggingar hans. Hafi þessi vanræksla stefnanda valdið stefnda umtalsverðu tjóni. Stefnandi sé sérfræðingur á því sviði sem viðgerðin hafi tekið til og beri hann ábyrgð samkvæmt því á grundvelli sakarreglu skaðabótaréttarins.

 

Stefnandi mótmælir því í skriflegri sókn sinni að starfsmenn hans hafi átt við plánetugír skipsins í tengslum við umrædda viðgerð. Um sé að ræða endurgerðan varahlut sem stefndi hafi sjálfur annast kaup á. Hljóti seljandi hlutarins að bera fulla ábyrgð á göllum sem á honum hafi verið.

 

Niðurstaða

Krafa stefnanda byggir á því að stefnda beri að greiða fjárhæð þeirra tveggja reikninga sem um ræði. Reikningarnir hafi verið gefnir út vegna vinnu sem stefnandi hafi innt af hendi fyrir stefnda, auk þess sem stefnandi hafi lagt til efni, verkfæri o.fl., við að skipta um olíuverk í vél mb. Gullfoss. Stefndi hefur ekki mótmælt forsendum fyrir reikningsgerðinni sem slíkri heldur byggir varnir sínar á því að stefnandi hafi ekki sinnt umræddri viðgerð með fullnægjandi hætti, auk þess að hafa við framkvæmd hennar valdið stefnda umtalsverðu tjóni.

 

Stefnandi hefur alfarið mótmælt því að viðgerð hans hafi leitt til bilunar og síðan eyðileggingar umrædds plánetugírs. Með því að staðhæfingar stefnda í þá veru eru ekki studdar neinum faglegum gögnum, s.s. matsgerð dómkvadds matsmanns, teljast þær með öllu ósannaðar.

 

Að þessu virtu og gögnum málsins að öðru leyti verður fallist á dómkröfur stefnanda og stefndi dæmdur til að greiða honum skuld að fjárhæð 1.446.063 krónur ásamt dráttarvöxtum, eins og nánar greinir í dómsorði.

 

Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 krónur í málskostnað.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Stefndi, Reykjavík sailors ehf., greiði stefnanda, Stálsmiðjunni-Framtaki ehf., 1.446.063 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr.  laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 100.483 krónum frá 15. til 22. maí 2016, en af 1.446.063 krónum frá 22. maí 2016 til greiðsludags.

 

Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                                                Ásgeir Magnússon