• Lykilorð:
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 9. febrúar 2018 í máli nr. E-34/2017:

BB & synir ehf.

(Ingólfur Kristinn Magnússon hdl.)

gegn

Hólminum ehf.

(Ingi Tryggvason hrl.)

 

 

Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi hinn 24. janúar sl., er upphaflega höfðað með stefnu birtri 9. febrúar 2017, en málið var þingfest 7. mars sama ár. Stefnandi er BB og synir ehf., Reitarvegi 16, Stykkishólmi, en stefndi er Hólmurinn ehf., Sundabakka 16, Stykkishólmi.

 

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:

„Dómkröfur: að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 179.588,00 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af kr. 179.588.00 frá 31.08.2016 til greiðsludags.“ Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.

 

Stefndi krefst þess að verða alfarið sýknaður af kröfu stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins.

 

Í stefnu segir að krafa stefnanda sé byggð á reikningi, útgefnum 31. ágúst 2016, að fjárhæð 179.588 krónur. Kemur og fram að stefnandi sé fyrirtæki sem sinni flutningum og alls kyns jarðvinnu. Sé hin umstefnda skuld tilkomin vegna vinnu í bílastæði samkvæmt framlögðum reikningi. Krafan sé byggð á almennum reglum samninga- og kröfuréttar um ábyrgð manna á skuldbindingum sínum. Jafnframt vísi stefandi til laga um lausafjárkaup nr. 50/2000.

 

Stefndi heldur því fram að ranglega komi fram í hinum umstefnda reikningi að hann sé „vegna umb. vinnu í bílastæði.“ Þá sé og ranglega tilgreint í stefnu að dómkrafan sé „vegna vinnu í bílastæði skv. framlögðum reikningi.“ Heldur stefndi því fram að kröfu stefnanda megi rekja til þess að Rarik hafi sent stefnanda reikning vegna viðgerðar á rafstreng sem starfsmaður stefnanda hafi slitið þegar hann vann við gröft o.fl. í lóð stefnda að Lágholti 15, Stykkishólmi.

 

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi beri alfarið ábyrgð á tjóni vegna hins slitna jarðstrengs og þar með þeim kostnaði sem stefnandi hafi þurft að greiða eiganda strengsins, Rarik, vegna þessa. Ljóst sé að verktökum sem vinni á svæðum þar sem kunni að vera jarðstrengir beri að tilkynna Rarik um framkvæmdir áður en þær hefjist, sem síðan eigi að svara slíkum tilkynningum. Eigi verktakar að kynna sér hvort jarðstrengir séu á framkvæmdasvæði og þá í kjölfarið að staðsetja þá og merkja fyrir þeim. Að sjálfsögðu sé það þá og á ábyrgð verktakans sé strengur slitinn, með tilheyrandi tjóni fyrir eiganda hans. Geti stefnandi, sem verktaki í umræddu verki, því ekki endurkrafið stefnda sem verkkaupa um framangreindan kostnað, enda hafi stefnandi greitt reikninginn athugasemdalaust. Samkvæmt framangreindu sé stefndi því ekki aðili máls þessa, sem leiða eigi til sýknu hans af kröfu stefnanda.

 

Stefndi tekur og fram að stefnandi byggi kröfu sína á „almennum reglum samninga- og kröfuréttar um ábyrgð manna á skuldbindingum sínum.“ Ljóst sé að þessi fullyrðing hans standist ekki, enda hafi stefndi ekki tekið á sig neina þá skuldbindingu sem leitt geti til þess að hann eigi að greiða umrædda kröfu.

 

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur Pétur Ágústson, forsvarsmaður stefnda, og Hafþór Rúnar Benediktsson, verkstjóri hjá stefnanda.

 

Niðurstaða

Eins og áður er fram komið er hinni umkröfðu skuld stefnda lýst svo í stefnu að hún sé tilkomin vegna vinnu stefnanda í bílastæði samkvæmt framlögðum reikningi og er sömu lýsingu að finna í reikningnum sjálfum á ástæðum kröfunnar. Stefndi mótmælti því hins vegar í greinargerð sinni að umrædd krafa væri tilkomin vegna  vinnu stefnanda í sína þágu við bílastæði. Í raun væri um að ræða endurkröfu stefnanda á reikningi vegna tjóns sem starfsmaður stefnanda hefði valdið er hann var við lóðarvinnu í þágu stefnda og stefnandi hefði greitt eiganda strengsins, Rarik. Staðfesti lögmaður stefnanda það við aðalmeðferð málsins að þessi staðhæfing stefnda væri rétt og að krafan væri í raun endurkrafa á framangreindu tjóni sem stefnandi hefði greitt og að reikningurinn sem hún væri reist á væri því ekki réttur að því leyti. Með því að stefnandi hefur þannig viðurkennt að umræddur reikningur sem krafa hans byggist á eigi ekki við rök að styðjast, og þar af leiðandi lýsing á honum og kröfunni sjálfri í stefnu ekki heldur, ber að fallast á kröfu stefnda um að hann verði sýknaður af kröfu stefnanda.

 

Stefnandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Stefndi, Hólmurinn ehf., er sýkn af kröfu stefnanda, BB og sona ehf.

 

Stefnandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                                                Ásgeir Magnússon