• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Hegningarauki
  • Ölvunarakstur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 26. mars 2019 í máli nr. S-25/2019:

 Ákæruvaldið

(Jón Haukur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Norbert Lapka

 

Mál þetta höfðaði lögreglustjórinn á Vesturlandi með ákæru 12. febrúar 2019 á hendur ákærða, Norbert Lapka, kt. ..., Suðurgötu 115, Akranesi. Málið var dómtekið 15. mars 2019.

Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða fyrir eftirtalin umferðarlagabrot:

1.

Með því að hafa laugardaginn 27. október 2018 ekið bifreiðinni OO011 án ökuréttinda á Skútuvogi í Reykjavík.

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

2.

Með því að hafa mánudaginn 24. desember 2018 ekið bifreiðinni OO011 án ökuréttinda og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa áfengis (0,93‰ greindist í blóð­sýni) á Vesturlandsvegi á móts við Viðarhöfða í Reykjavík.

Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

3.

Með því að hafa miðvikudaginn 9. janúar 2019 ekið bifreiðinni OO011 án ökuréttinda og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa áfengis (1,39‰ greindist í blóð­sýni) á Akrafjallsvegi á móts við Innri-Hólm í Hvalfjarðarsveit.

Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga með síðari breytingum.

 

Með ákæru, dags. 28. febrúar 2019, var sakamál, sem fékk númerið S-33/2019 hjá dóminum, höfðað af lögreglustjóranum á Vesturlandi á hendur ákærða og var það mál sameinað þessu máli í þinghaldi 15. mars 2019. Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða fyrir eftirtalin umferðarlagabrot:

 

1. Með því að hafa miðvikudaginn 30. janúar 2019 ekið bifreiðinni OO011 án ökuréttinda og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa áfengis (0,62‰ greindist í blóð­sýni), á Akrafjallsvegi á Móa í Hvalfjarðarsveit.

Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

 

2. Með því að hafa fimmtudaginn 31. janúar 2019 ekið bifreiðinni OO011 án ökuréttinda og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa áfengis (0,55‰ greindist í blóð­sýni), á Akrafjallsvegi við Másstaðarland í Hvalfjarðarsveit.

Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga með síðari breytingum.

 

Fyrirköll á hendur ákærða voru birt honum 11. mars 2019. Við þingfestingu málsins 15. sama mánaðar sótti ákærði ekki þing og var málið þá dómtekið að kröfu ákæruvaldsins samkvæmt 1. mgr. 161. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Með vísan til þeirrar lagagreinar þykir mega jafna útivist ákærða til játningar hans, enda fer sú niðurstaða ekki í bága við sakargögn. Brot ákærða teljast því sönnuð og eru réttilega heimfærð til laga í ákæruskjölum.

Ákærði er með dómi þessum meðal annars sakfelldur fyrir akstur undir  áhrifum áfengis í fjögur skipti. Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði frá árinu 2014 hlotið þrjá dóma og gengist undir fimm lögreglustjórasáttir fyrir brot gegn umferðarlögum. Með dómi 20. febrúar  2019 var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi auk þess sem ákærði var sviptur ökurétti ævilangt, fyrir brot gegn umferðarlögum. Þau brot sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir voru framin fyrir uppkvaðningu ofangreinds dóms frá 20. febrúar sl., og ber því að gera ákærða hegningarauka vegna þeirra brota, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga.  öllu virtu þykir refsing ákærða, sem tiltekin er eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga, hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga.

Ákærði hefur verið sviptur ökurétti ævilangt frá 20. febrúar 2019. Með vísan til 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga ber að árétta þá sviptingu.

Loks verður ákærði með vísan til. 235. gr. laga um meðferð sakamála dæmdur til að greiða sakarkostnað samkvæmt yfirliti lögreglu, svo sem greinir í dómsorði.

   Guðfinnur Stefánsson, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

                                                   D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Norbert Lapka, sæti fangelsi í 60 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

Ákærði greiði 139.107 krónur í sakarkostnað.

                                                                                   

 

                                                                                    Guðfinnur Stefánsson