• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Skaðabætur

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 26. október 2018 í máli nr. S-67/2018:

Ákæruvaldið

(Emil Sigurðsson saksóknarfulltrúi)

gegn

Össuri M. Örlygssyni

(Ingi Freyr Ágústsson hdl.)

 

Mál þetta höfðaði lögreglustjórinn á Vesturlandi með ákæru, dags. 16. október 2018, á hendur ákærða, Össuri M. Örlygssyni, kt. …, Akurgerði 19, Akranesi. Málið var dómtekið 18. október 2018.

Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða fyrir „líkamsárás aðfaranótt laugardagsins 28. júlí 2018, á bifreiðastæði við Stillholt 16-18 á Akranesi, með því að hafa veist að X…, kt. …, og slegið hann í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut djúpan 4 cm langan skurð á enni.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Í málinu hefur Unnsteinn Örn Elvarsson, hdl. lagt fram bótakröfu f.h. X…, kt. …, og krafist að ákærði verði dæmdur til þess að greiða honum 1.000.000 kr. í miskabætur skv. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verð­tryggingu nr. 38/2001, sbr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá 28. júlí 2018 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um lögmannskostnað með virðisaukaskatti.

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið það brot sem honum er gefið að sök í ákæru og er játning hans studd sakargögnum. Eru því efni til að leggja dóm á málið samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir brotið, sem er réttilega fært til refsilaga í ákæru.

Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði ekki mál á sakaskrá sem hefur áhrif á ákvörðun viðurlaga. Við ákvörðun refsingar ákærða er þess að gæta að það horfir honum til málsbóta að hann hefur greiðlega gengist við brotinu. Að öllu því virtu sem hér hefur verið rakið þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Í málinu krefst brotaþoli, X…, þess að ákærði greiði honum  samtals 1.000.000 krónur í miskabætur, auk tilgreindra vaxta. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ákærði hefur viðurkennt bótaskyldu en lagt fjárhæð kröfunnar í mat dómsins. Í samræmi við þetta verður krafan tekin til greina með þeirri breytingu að miskabætur verða ákveðnar hæfilegar 200.000 krónur. Einnig verður fallist á vaxtakröfu brotaþola þannig að vextir reiknist frá 28. júlí 2018 og dráttarvextir frá 8. nóvember 2018, en þá var mánuður liðinn frá því krafan var kynnt ákærða, sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Þá verður ákærða gert að greiða brotaþola málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem greinir í dómsorði.

Loks verður ákærða með vísan til 235. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, gert að greiða þóknun verjanda síns sem þykir hæfilega ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem greinir í dómsorði. Jafnframt verður ákærðu gert að greiða ferðakostnað verjandans. Annan sakarkostnað leiddi ekki af rannsókn og meðferð málsins.

Guðfinnur Stefánsson, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Össur M. Örlygsson, sæti 30 daga fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði greiði X… 200.000 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 28. júlí 2018 til 8. nóvember 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt greiði ákærði brotaþola 220.000 krónur í málskostnað.

Ákærða greiði þóknun verjanda síns, Inga Freys Ágústssonar lögmanns, 235.600 krónur, og ferðakostnað verjandans 45.704 krónur.

                                                                                   

Guðfinnur Stefánsson