• Lykilorð:
  • Skaðabætur
  • Viðurkenningardómur

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 4. júlí 2018 í máli nr. E-127/2016:

                                                A

                                                (Jón Jónsson lögmaður)

gegn

B

(Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 6. júní sl., er höfðað af A….  á hendur B…, til heimilis að …, …, með stefnu birtri 19. september 2016.

 

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda, sem stefndi hafi valdið með aðgerðum og aðgerðaleysi við búrekstur stefnanda á jörðinni … í aðdraganda þess að dreifing afurða frá búi stefnanda var bönnuð með ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 21. júní 2013, aðgerðaleysi stefnda að vinna ekki að úrbótum með fullnægjandi hætti eftir þann tíma svo að unnt væri að selja mjólk frá stefnanda og ákvörðun stefnda um að selja bústofn stefnanda með kaupsamningi, dags. 25. júní 2014. Stefnandi krefst og málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu að mati dómsins.

 

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.

 

Stefndi krafðist þess aðallega í greinargerð sinni að kröfu stefnanda yrði vísað frá dómi, en með úrskurði dómsins uppkveðnum 28. júní 2017 var þeirri kröfu hafnað.

 

II.

Stefnandi máls þessa, A…., hefur rekið kúabú á jörðinni … í … frá árinu 2002, þegar félagið var stofnað. Stofnendur félagsins voru stefndi og þáverandi sambýliskona hans, D…, en þau áttu félagið að jöfnu. Þau slitu sambúð á árinu 2011 og flutti D… í kjölfarið frá …. Voru fjárslit á sameiginlegu búi þeirra tekin til opinberra skipta. Var stefndi þá framkvæmdastjóri félagsins og varamaður í stjórn þess. Verður og af gögnum ráðið að hann hafi séð um allan búrekstur félagsins að … frá þeim tíma þótt D… hafi einnig verið skráð í framkvæmdastjórn þess. D… var og frá 19. apríl 2011 skráður stjórnarmaður félagsins en stefndi skráður sem varamaður í stjórn. 

 

Hinn 30. nóvember 2012 tók Matvælastofnun ákvörðun um að afturkalla starfsleyfi stefnanda til matvælaframleiðslu vegna ítrekaðra brota félagsins á ákvæðum laga um matvæli og ákvæðum reglugerða settum samkvæmt þeim á tímabilinu 19. janúar til 15. nóvember það ár. Var sú ákvörðun staðfest með úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 3. júlí 2013. Stefnandi fékk þó starfsleyfi að nýju 11. janúar 2013.   

 

Tveir dýralæknar á vegum Matvælastofnunar fóru hinn 21. febrúar 2013 í eftirlit að … og mátu aðstæður svo að fóðrun og ástand gripa þar væri óásættanlegt. Eftirlit og umhirða gripanna væri ófullnægjandi og að þekkingu og/eða vilja skorti til að fóðra þá. Fór stofnunin í kjölfarið fram á ýmsar úrbætur og  krafðist þess jafnframt að sýslumaðurinn á Vesturlandi tæki tiltekna gripi af  búinu til aflífunar vegna slæms ástands þeirra. 

 

Í kjölfar eftirlits Matvælastofnunar hjá búinu hinn 21. júní 2013 tók stofnunin um það ákvörðun sama dag að banna alla afhendingu afurða og dýra frá …, meðal annars á þeim forsendum að öflun og meðferð dýralyfja hefði þar ekki verið í samræmi við lög og reglur og að verulegur misbrestur hefði orðið á merkingum dýra og skráningum.

 

Með ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 6. ágúst 2013, var framangreindu afhendingarbanni aflétt gegn sérstökum skilyrðum, m.a. um að sýnataka færi fram á mjólk áður en henni yrði blandað við mjólk frá öðrum framleiðendum, að sýni yrðu tekin úr sláturdýrum samkvæmt fyrirmælum Matvælastofnunar, að skráð yrði í hjarðbók samkvæmt ákvæðum reglugerða og að sjúkdóma- og lyfjaskráningar yrðu framkvæmdar samkvæmt ákvæðum reglugerða og að héraðsdýralækni yrðu send afrit af skráningum mánaðarlega.

 

Með ákvörðun Matvælastofnunar 7. mars 2014 var starfsleyfi … afturkallað. Var í rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun vísað til þess að stofnuninni hefði ítrekað verið neitað um aðgang til eftirlits á …, síðast hinn 5. febrúar 2014, og að stofnunin teldi það alvarlegt tilvik í skilningi 30. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli.

 

Með kaupsamningi, dags. 25. júní 2014, voru allir nautgripir sem þá voru í eigu …, samtals 52 gripir, seldir og var söluverð þeirra tiltekið samtals 16.315.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

 

Á hluthafafundi í … hinn 25. apríl 2016 var tekin fyrir tillaga D… um að félagið hefði uppi skaðabótakröfu á hendur stefnda. Féll tillagan á jöfnum atkvæðum þar sem helmingur atkvæða reyndist samþykkur henni en helmingur á móti. Í kjölfarið höfðaði framangreind D… mál þetta í nafni … á hendur stefnda sem framkvæmdastjóra félagsins, með vísan til heimildar í 2. mgr. 109. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994.

 

Við aðalmeðferð málsins gaf stefndi aðilaskýrslu. Jafnframt gáfu skýrslu vitnin E…, F…, G… og H….

III.

Stefnandi kveður mál þetta vera höfðað samkvæmt heimild í 2. mgr. 109. gr. laga um einkahlutafélög. D… sé eigandi að helmingi hlutafjár í … og hafi því heimild samkvæmt lagaákvæðinu til höfðunar málsins í nafni félagsins á hendur stefnda sem framkvæmdastjóra þess vegna skaðabótaábyrgðar hans. Stefndi hafi séð um allan daglegan búrekstur … á jörðinni … frá árinu 2011 og hafi stefndi verið skráður í framkvæmdastjórn félagsins 2013 og 2014, auk þess að vera þar hluthafi og prókúruhafi.

 

Hlutverk stefnda sem framkvæmdastjóra ráðist meðal annars af 2. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög. Þannig komi fram í 1. ml. að framkvæmdastjóri annist daglegan rekstur félagsins og skuli í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og þeim fyrirmælum sem félagsstjórn hafi gefið. Hlutverk stefnda um ábyrgð á daglegum rekstri að … hafi samkvæmt því verið skýrt, þ.m.t. hvers kyns umsjón bústofns og skráninga. Sýnt sé að stefndi hafi litið þannig á sjálfur, m.a. í samskiptum við Matvælastofnun, sbr. 50. gr. sömu laga, en þar sé kveðið á um að framkvæmdastjóri geti ávallt komið fram fyrir hönd félagsins í málum sem séu innan verksviðs hans skv. ákvæðum 44. gr.

 

Með tilliti til tilgangsákvæðis í samþykktum … langvarandi reksturs kúabús og þess að megintekjur félagsins hafi verið af sölu mjólkur og ríkisstuðningi vegna mjólkurframleiðslu hafi stefnda borið að vinna að og tryggja að stefnandi gæti afhent mjólk og fengið tekjur af þeirri starfsemi. Þetta lýsi að áliti stefnanda meginskyldu stefnda við búrekstur að … á árunum 2013 og 2014.

 

Í ljósi starfsemi… og stöðu stefnda ráðist starfsskyldur stefnda á árinu 2013 jafnframt af ákvæðum laga nr. 103/2002 um búfjárhald, sbr. reglugerðir settar á grundvelli laganna um nautgripahald og mjólkurframleiðslu. Stefndi hafi verið umráðamaður búfjár á …, sbr. 8. tl. 3. gr. laganna. Sérstaklega sé vísað til reglugerðar nr. 438/2002 um aðbúnað nautgripa og eftirlit með framleiðslu mjólkur og annarra afurða þeirra. Þá sé vísað til annarra laga sem um starfsemina gildi, s.s. laga nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og laga nr. 93/1995 um matvæli, en frá árinu 2014 hafi um þetta gilt lög nr. 38/2013 um búfjárhald og lög nr. 55/2013 um velferð dýra.

 

Stefnandi byggi á því að skaðabótaábyrgð stefnda á aðgerðum og/eða aðgerðaleysi, sem dómkrafa vísi til, hvíli á 1. mgr. 108. gr. laga um einkahlutafélög. Samkvæmt 1. ml. ákvæðisins sé stefndi sem framkvæmdastjóri og vegna annarrar stöðu sinnar hjá stefnanda skyldur til að bæta félaginu það tjón er hann hafi valdið því í störfum sínum, hvort sem er af ásetningi eða gáleysi. Byggist lagaákvæðið á því að ólögmæti þurfi ekki að vera til staðar heldur sé gáleysi við að rækja störf nægilegt til bótaskyldu, enda hafi tjón hlotist af. Með störfum, sbr. orðalag ákvæðisins, geti bæði verið vísað til gáleysislegs aðgerðaleysis sem og aðgerða. Sakarmatið fari fram á grundvelli þeirra starfsskyldna sem hvílt hafi á stefnda í ljósi allra atvika.

 

Stefnandi vísi og til almennu sakarreglunnar, en þar sé ólögmæti m.a. skilyrði bótaábyrgðar, auk gáleysis. Ólögmæti í aðgerðum og aðgerðaleysi stefnda felist í því að hafa ekki innt af hendi skyldur sem stöðu hans hafi fylgt, m.a. samkvæmt ákvæðum sérlaga sem gilt hafi um starfsemi stefnanda.

 

Stefnandi vísar til þess að á árinu 2013 hafi afhending mjólkur frá félaginu stöðvast og á árinu 2014 hafi bústofn þess verið seldur. Hafi afleiðingar þessa verið þær að stefnandi hafi hætt að fá tekjur af sölu mjólkur og ríkisstuðning tengdan mjólkurframleiðslu. Með sölu bústofnsins hafi tekjugefandi rekstur stefnanda í raun verið lagður af. Sé á því byggt að stefndi beri skaðabótaábyrgð á áhrifum þessa í heild. Hins vegar megi greina skaðabótaskyldan verknað í þrjá þætti sem hafi beina þýðingu við afmörkun á ábyrgð stefnda á tjóni stefnanda.

 

Í fyrsta lagi sé um að ræða aðgerðir og aðgerðaleysi stefnda fram til 21. júní 2013. Samkvæmt ákvörðum Matvælastofnunar 21. júní 2013 hafi dreifing allra afurða, þ.m.t. mjólkur, frá stefnanda verið bönnuð til bráðabirgða frá þeim degi að telja og skyldi það gilda þar til annað væri ákveðið af stofnuninni. Hafi helstu forsendur fyrir ákvörðun Matvælastofnunar verið þessar: Á búi stefnanda hafi verið keypt sýklalyfið Mamyzyn vet, sem einungis hafi verið heimilt að nota hafi dýralæknir greint sjúkdóm og ávísað lyfinu til notkunar, sbr. 8. gr. laga nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. Engin greining dýralæknis hafi farið fram á búi stefnanda og hafi notkun lyfjanna án samráðs við dýralækni því verið ólögmæt, sbr. 7. og 8. gr. tilvitnaðra laga og reglugerð nr. 539/2000. Á búinu hafi legið fyrir skráning á notkun lyfja og rekjanleiki til einstakra dýra, sem fengið hefðu lyfjagjöf sem hafi verið í andstöðu við 13. gr. a í lögum nr. 93/1995, sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 916/2012 og I. viðauka reglugerðar nr. 103/2000. Við eftirlit Matvælastofnunar hinn 21. júní 2013 hefðu fundist fimm glös af lyfinu Mamyzin vet og hafi ekki legið fyrir augljósar skýringar á notkun þess. Vegna möguleika á notkun lyfja hafi matvæli frá búi stefnanda getað talist heilsuspillandi, sbr. 2. mgr. 8. gr. a í lögum nr. 93/1995. Vitnað hafi verið til þess í ákvörðun Matvælastofnunar að umrædd brot hafi verið ítrekuð og alvarleg. Við eftirlit hafi ítrekað komið fram að skráningu í hjarðbók væri ábótavant og að skýringar á ráðstöfun lyfja væru ótrúverðugar.

 

Í öðru lagi sé um að ræða aðgerðaleysi stefnda með því að vinna ekki að fullnægjandi úrbótum í kjölfar ákvörðunar Matvælastofnunar 21. júní 2013. Á því sé byggt að stefnda hafi verið þetta skylt svo að unnt væri að hefja afhendingu mjólkur á nýjan leik. Ekki sé dregið í efa að stefndi hafi að ákveðnu marki unnið að þessu en ljóst sé að það hafi ekki verið gert á fullnægjandi hátt. Réttarstaða búrekstrar að … hafi breyst með ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 6. ágúst 2013, þar sem stofnunin hafi heimilað afhendingu afurða og dýra frá … með skilyrðum, sem hafi m.a. falið í sér að gerð yrði úttekt á tilteknum þáttum og sýni tekin úr mjólk áður en henni yrði blandað saman við mjólk frá öðrum bæjum. Af hálfu Auðhumlu svf., sem verið hafi kaupandi mjólkur frá búinu, hafi komið fram sú afstaða að ekki yrði keypt mjólk af stefnanda á meðan starfsleyfi hans væri skilyrt. Hafi stefnda af þessum sökum borið að vinna að því að fá óskilyrt starfsleyfi til handa stefnanda með því að vinna eftir skilyrðum Matvælastofnunar. Þetta hafi hann vanrækt og því brotið gegn starfsskyldum sínum. Skýrasti þáttur þessa aðgerðaleysis sé að stefndi hafi ekki farið fram á að Matvælastofnun tæki sýni úr mjólk frá stefnanda, eins og fram komi í bréfi stofnunarinnar, dags. 27. september 2013. Þá liggi ekki fyrir að stefndi hafi á nokkurn hátt unnið að því að uppfylla skilyrði stofnunarinnar eftir þann tíma. Aðgerðir stefnda hafi hins vegar einkennst af því að vefengja gildi ákvarðana Matvælastofnunar í stað þess að eiga við hana samstarf til að lágmarka og stöðva tjón stefnanda. Sé á því byggt að framangreint aðgerðaleysi stefnda, sem leitt hafi til þess að ekki hafi reynst unnt að selja mjólk frá stefnanda, leiði til skaðabótaábyrgðar hans. Hann hafi brotið gegn starfsskyldum sínum, annaðhvort af gáleysi eða jafnvel ásetningi, og séu því uppfyllt skilyrði 108. gr. laga um einkahlutafélög fyrir bótaskyldu hans.

 

Í þriðja lagi sé á því byggt að stefndi hafi valdið stefnanda tjóni með sölu á bústofni félagsins samkvæmt kaupsamningi, dags. 25. júní 2014. Hafi sú ákvörðun verið tekin í kjölfar þess að stefndi hafi ekki unnið að fullnægjandi úrbótum sem leitt gætu til þess að unnt væri að selja mjólk frá stefnanda. Hafi ákvörðunin falið í sér tekjur til stefnanda af sölu gripa en hins vegar hafi aðalstarfsemi félagsins þá verið lögð niður. Með því hafi orðið tekjutap vegna sölu mjólkur og greiðslna fyrir greiðslumark mjólkur sem stefnandi hafi framleitt. Sé á því byggt að stefnda hafi verið óheimilt að selja bústofn félagsins í ljósi stöðu hans sem framkvæmdastjóra, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög.

 

IV.

Stefndi mótmælir því að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 108. gr. laga um einkahlutafélög til að leggja skaðabótaábyrgð á stefnda.

 

Hafnað sé þeirri staðhæfingu stefnanda að stefndi hafi valdið félaginu tjóni með meintum aðgerðum eða aðgerðaleysi fram að ákvörðun Matvælastofnunar 21. júní 2013. Hafi þar verið um að ræða kaup á lyfjum án læknisskoðunar, en í raun hafi það byggst á úreltri og bagalegri framkvæmd sem tíðkast hefði allan rekstrartíma …, með vitund og samþykki allra hlutaðeigandi. Varðandi meint aðgerðaleysi stefnda eftir framangreindan dag, við að uppfylla skilyrði Matvælastofnunar svo að afhending mjólkur gæti hafist á nýjan leik, bendir stefndi á að hann hafi þá staðið einn síns liðs í ströngu gagnvart Matvælastofnun í tilraun til að lágmarka skaða félagsins. Sé það hans mat að með ákvörðun stofnunarinnar hafi verið brotið gróflega gegn félaginu, enda hefðu lyfin ekki verið notuð þegar úttekt stofnunarinnar fór fram.

 

Stefndi kveðst hafna þeim málatilbúnaði stefnanda að hann hafi valdið félaginu tjóni með því að selja bústofn þess. Stefnda hafi verið nauðugur sá einn kostur að selja nautgripina vegna yfirvofandi vörslusviptingar Matvælastofnunar. Á það sé bent að skv. 2. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög geti framkvæmdastjóri gert óvenjulegar eða mikilsháttar ráðstafanir sem falli ekki undir daglegan rekstur sé ekki unnt að bíða ákvarðana félagsstjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi félagsins. Þar sem félagsstjórnin hafi neitað að hafa afskipti af rekstrinum hafi stefndi ekki séð neinn annan kost í stöðunni en að selja bústofninn, enda hagur félagsins að fá þó gott verð fyrir hann. Hefði stefndi ekkert aðhafst hefði skaði félagsins einfaldlega orðið meiri.

 

Á því sé byggt að D…, sem eini stjórnarmaður …, er jafnframt gegndi stöðu framkvæmastjóra með stefnda, hafi vanrækt skyldur sínar skv. 1. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög til að annast að skipulag félagsins og starfsemi væri í réttu og góðu horfi. Fyrir liggi að stefnda sem framkvæmdastjóra stefnanda hafi í raun skort allar leiðbeiningar og yfirstjórn af hálfu þessa eina stjórnarmanns félagsins, er hafi kosið að aðhafast ekkert eftir að tekið hafi að halla undan fæti í rekstri þess. Megi í þessu sambandi nefna að allt frá því að D… hafi tekið við sem stjórnarformaður félagsins í apríl 2011 hafi einungis einn hluthafafundur verið haldinn í félaginu, það er fundurinn í apríl 2015 þar sem hún hefði lagt til að mál þetta yrði höfðað.

 

Loks sé á því byggt að meint tjón stefnanda sé með öllu ósannað. Engin gögn liggi fyrir er upplýsi um rekstrarafkomu félagsins undanfarin ár. Enda þótt mál þetta sé rekið sem viðurkenningarmál geti ekki verið um það að ræða að slakað verði á sönnunarbyrði stefnanda um umfang tjóns. Sé dómaframkvæmd Hæstaréttar skýr hvað þetta varði og ríkar kröfur gerðar um að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af öflun viðurkenningardóms.

V.

Eins og áður er fram komið tók Matvælastofnun um það ákvörðun 21. júní 2013, með vísan til 30. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, að stöðva frá og með þeim degi dreifingu afurða frá búi stefnanda að … til bráðabigða. Kemur fram í ákvörðuninni að í eftirliti stofnunarinnar hjá búinu hafi ítrekað komið fram að merkingar dýra og skráningar í hjarðbók hafi ekki verið í því horfi sem kveðið sé á um í 13. gr. reglugerðar um merkingar búfjár nr. 916/2012. Þá hafi og verið misbrestur á því að gerð hefði verið grein fyrir notkun lyfja á búinu. Þannig hefði búið keypt sýklalyfið Mamyzyn vet, sem einungis hafi verið heimilt að nota hafi dýralæknir greint sjúkdóm og ávísað lyfinu til notkunar, sbr. 8. gr. laga nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. Engin greining dýralæknis hafi farið fram á búi stefnanda en notkun lyfjanna án samráðs við dýralækni sé ólögmæt, sbr. 7. og 8. gr. tilvitnaðra laga og reglugerð nr. 539/2000. Í ljósi þess að ekki hefði verið gerð grein fyrir lyfjamálum á búinu og að afurðir frá búinu gætu verið lyfjamengaðar eða að umráðamaður búfjár hefði lyfin enn undir höndum væru afurðir búsins ekki örugg matvæli.

 

Af framangreindu verður ótvírætt ráðið að ákvörðun Matvælastofnunar um stöðvun á dreifingu afurða frá … hinn 21. júní 2013, sem ekki hefur verið hnekkt, var tekin á þeim forsendum að brotið hefði verið ítrekað gegn ákvæðum tiltekinna laga og reglugerða við búreksturinn. Verður að fallast á það með stefnanda að stefndi sem skráður framkvæmdastjóri stefnanda, og sem óumdeilt sýnist að annaðist allan daglegan rekstur búsins, hafi verið ábyrgur fyrir því að framangreind atriði í rekstri þess væru í löglegu horfi. Með því að svo var ekki er hann skaðabótaábyrgur gagnvart stefnanda á því tjóni sem af því hlaust á grundvelli 1. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.

 

Á sama hátt verður að telja að stefndi hafi vanrækt starfsskyldur sínar með því að vinna ekki að því að fá óskilyrt starfsleyfi fyrir stefnanda með því að uppfylla með fullnægjandi hætti þau skilyrði Matvælastofnunar sem fram komu í ákvörðun stofnunarinnar hinn 6. ágúst 2013. Þannig kemur fram í bréfi Matvælastofnunar, dags. 27. september 2013, að ekki hafi verið óskað eftir því við stofnunina að tekin yrðu sýni af mjólk frá búinu og framleiðandi þar af leiðandi ekki reynt að afhenda neina mjólk þrátt fyrir að heimild hafi verið veitt til slíks hinn 6. ágúst 2013. Verður að telja að stefndi beri bótaábyrgð á framangreindri vanrækslu og því tjóni sem af henni hlaust, en starfsleyfi stefnanda var í kjölfarið afturkallað með ákvörðun Matvælastofnunar hinn 7. mars 2014.

 

Loks er á það fallist með stefnanda að sú ráðstöfun stefnda að selja allan bústofn í eigu stefnanda samkvæmt kaupsamningi, dags. 25. júní 2014, geti ekki fallið undir dagslegan rekstur félagsins heldur verði að teljast óvenjuleg og mikils háttar ráðstöfun í skilningi 2. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög. Var salan honum því óheimil án undangengins samþykkis stjórnar félagsins enda hefur stefndi ekki sýnt fram á að uppi hafi verið slík aðstaða að ekki hafi verið unnt að bíða eftir samþykki stjórnarinnar áður en salan fór fram. Verður stefndi því talinn bera skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda sem af þessu hlaust.

 

Samkvæmt framangreindu telst stefndi því skaðabótaskyldur vegna þess tjóns sem                     stefnandi hefur orðið fyrir vegna framangreindra athafna og athafnaleysis stefnda. Breytir í því samhengi engu sú málsástæða stefnda að D…, sem stjórnarmaður félagsins, kunni með einhverjum hætti að bera einnig ábyrgð á tjóni stefnanda vegna aðgerðaleysis hennar við stjórn félagsins í því skyni að koma í veg fyrir meint tjón þess.

Að fenginni framangreindri niðurstöðu verður stefnda gert að greiða stefnanda 1.100.000 krónur í málskostnað.

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

 

Dómsorð:

Viðurkennt er að stefndi, B…, beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda, …, sem stefndi hefur valdið með aðgerðum og aðgerðaleysi við búrekstur stefnanda á jörðinni … í aðdraganda þess að dreifing afurða frá búi stefnanda var bönnuð með ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 21. júní 2013, aðgerðaleysi stefnda að vinna ekki að úrbótum með fullnægjandi hætti eftir þann tíma svo að unnt væri að selja mjólk frá stefnanda og ákvörðun stefnda um að selja bústofn stefnanda með kaupsamningi, dags. 25. júní 2014.

 

Stefndi greiði stefnanda 1.100.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                                                Ásgeir Magnússon