• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Miskabætur
  • Skaðabætur

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 5. desember 2018 í máli nr. S-3/2018:

Ákæruvaldið

(Jón Haukur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Arnar Þór Stefánsson lögmaður)

 

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 7. nóvember sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Vesturlandi, dags. 25. janúar 2018, á hendur X…, …, …, „fyrir eftirtalin brot:

1

Fyrir líkamsárás aðfaranótt sunnudagsins 15. október 2017, í herbergi nr. 24 í gistihúsinu að Hraunsnefi í Borgarbyggð, með því að hafa veist að þáverandi sambýliskonu sinni A…, kt. …, hrint henni svo hún féll aftur á bak í rúm, sest ofan á hana með hnén á bringu hennar, tekið hana hálstaki, kýlt hana í andlit og gripið með fingri í munnhol hennar. Afleiðingar atlögunnar voru að A… hlaut sár á efri vör og nefi, eymsli yfir rifjum, bólgu, mar og eymsli yfir báðum kinnbeinum og á gagnauga­svæði vinstra megin, eymsli utanvert á hálsi, sár, mar og eymsli í munnholi á slímhúð innan á hægri kinn, á slímhúðarhafti í miðlínu milli efri varar og góms og í slímhúð við vinstri gómboga, og varð fyrir mikilli geðshræringu.

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.

2

Fyrir líkamsárás aðfaranótt sunnudagsins 15. október 2017, á gangi framan við herbergi nr. 23 og 24 í gistihúsinu að Hraunsnefi í Borgarbyggð, með því að hafa skallað B…, kt. …, í andlitið, með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði og marðist og bólgnaði í andliti og við nef. 

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.  

3

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkröfur:

Í málinu hefur Unnsteinn Örn Elvarsson hdl. lagt fram bótakröfu f.h. A…, kt. …, og krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða A… 90.128 kr. í skaðabætur skv. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og 5.000.000 kr. í miska­bætur skv. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verð­tryggingu nr. 38/2001 frá 15. október 2017 og þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er gerð krafa um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns skv. 2. gr. skaðabótalaga og þjáningabætur skv. 3. gr. skaðabótalaga. Auk þess er gerð krafa um lög­mannskostnað með virðisauka­skatti.

Í málinu hefur Halldór Hrannar Halldórsson hdl. lagt fram bótakröfu f.h. B…, kt. …, og krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða B… 900.000 kr. í miskabætur skv. a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. október 2017 og þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um lögmannskostnað með virðisaukaskatti.“

 

Fyrir liggur í málinu að ákærði hefur náð samkomulagi við brotaþolann B… samkvæmt ákærulið 2 um greiðslu bóta og hefur brotaþolinn fallið frá bótakröfunni.

 

Ákærði krefst sýknu af ákærulið 1, en vægustu refsingar vegna ákæruliðar 2 og að refsing verði þá skilorðsbundin að öllu leyti. Þá krefst ákærði þess að bótakröfu vegna ákæruliðar 1 verði vísað frá dómi, en að öðrum kosti verði hún lækkuð verulega. Loks krefst hann þess að málsvarnarlaun verjanda verði felld á ríkissjóð.

 

 

II.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu barst lögreglu tilkynning kl. 03.28, aðfaranótt sunnudagsins 15. október 2017, um mann sem gengi berserksgang á Hótel Hraunsnefi. Fór lögregla á vettvang og hitti þar fyrir brotaþola, A…, sem sagði að ákærði hefði ráðist á sig inni á herbergi þeirra. Kom fram hjá henni að þau ákærði hefðu verið að skemmta sér um kvöldið ásamt samstarfsmönnum hennar og mökum. Þegar þau komu upp á herbergið hefði ákærði reiðst henni vegna kjólsins sem hún hefði klæðst og að hún hefði dansað við samstarfsmenn sína. Hefði hann kastað henni í rúmið og ráðist á hana. Kemur fram í skýrslunni að sjáanlegir áverkar hafi verið í andliti brotaþola. Einnig var á staðnum B… sem sagði lögreglu að ákærði hefði skallað sig í andlitið og að nefið á sér væri brotið. Þá segir að lögreglan hafi boðið brotaþolum aðstoð læknis, en þau hafi afþakkað og ætlað að leita til læknis síðar. Lögreglu hafi svo verið bent á hvar ákærði héldi sig og í kjölfarið handtekið hann og farið með hann á lögreglustöðina á Akranesi. 

 

Í málinu liggur fyrir vottorð frá Heilbrigðisstofunun Vesturlands, þar sem fram kemur að brotaþolinn A… hafi leitað þangað umrædda nótt. Við skoðun hafi hún verið í miklu áfalli, skolfið og sýnt merki hræðslu. Hafi hún verið með ½ cm langt sár á efri vör, storknað blóð í vinstra eyra, eymsli yfir báðum kinnbeinum og eymsli í brjóstkassanum framanverðum. Þá liggur og fyrir vottorð frá háls-, nef- og eyrnadeild Landspítalans, dags. 6. nóvember 2017, þar sem fram kemur að brotaþolinn hafi komið þangað 16. október og síðan 24. nóvember sama ár, og sáust þá sár á efri vör, innan á hægri kinn og í munnslímhúð. Einnig voru eymsli og bólga yfir vinstra gagnauga og niður á kinnboga. Loks liggur fyrir vottorð frá Kjartani Pálmasyni, guðfræðingi og áfalla- og fíknisérfræðingi, dags. 18. október 2018, þar sem fram kemur að brotaþoli hafi sótt til hans ráðgjöf og þau hist í alls 14 skipti allt frá 21. september 2017.

 

III.

Skýrslur fyrir dómi vegna ákæruliðar 1

Ákærði kvaðst hafa verið orðinn tölvuvert drukkinn umrætt kvöld þegar hann og brotaþoli fóru upp á herbergið sitt. Er þangað kom hefðu þau byrjað að rífast. Einhver afbrýðisemi hefði átt þar sinn hlut að máli, en þau hefðu þá verið að stíga fyrstu sporin til að hefja sambúð á ný. Sagði hann að brotaþoli hefði haft mjög hátt þrátt fyrir að hann hefði margbeðið hana um að hafa lægra. Hún hefði verið orðin ofsareið og hefði þetta rifrildi þeirra endað með því að hún hefði slegið hann föstu hnefahöggi, sem hefði lent undir kjálkanum á honum, og sagt um leið eitthvað í þá veru hvað hann væri djöfull leiðinlegur. Hann kveðst þá hafa svarað fyrir sig með því að slá hana með flötum lófa í andlitið og síðan fleygja henni í rúmið. Þar hefðu orðið áflog þeirra í milli. Kvaðst hann kannast við að hafa gripið fast um munn hennar, vegna þeirra hljóða sem hún hefði gefið frá sér. Spurður hvort hann hefði gripið með fingri í munnhol hennar kvað ákærði það hafa gerst þegar hann greip fyrir munninn á henni, enda hefðu þetta verið mikil átök. Þá kvaðst hann ekki þvertaka fyrir það að hafa sett hnéð ofan á bringu brotaþola, það gæti alveg verið og hann minnti það hálfpartinn. Hins vegar neiti hann því alfarið að hafa tekið hana hálstaki.

 

Er ákærði var spurður út í þá áverka sem greindust á brotaþola í kjölfar umrædds atviks svaraði hann því til að vel gæti passað að hann hefði verið valdur að sári á efri vör og nefi brotaþola. Sama mætti segja um bólgu, mar og eymsli yfir báðum kinnbeinum hennar, þar sem hann hefði haldið um munninn á henni, og bólgu og mar yfir gagnauga, sem gæti passað við það þegar hann sló hana. Þá gæti hann ekki þvertekið fyrir það að hafa verið valdur að eymslum sem greindust yfir rifjum brotaþola með því að setja hnéð á bringu hennar. Hins vegar hefði hún áður verið búin að kvarta yfir eymslum á þessu svæði og hefði fljótlega í kjölfar atviksins greinst með krabbamein, sem gæti hafa spilað þarna inn í. Varðandi áverka og eymsli utanvert á hálsi sagði ákærði það eingöngu hafa hlotist af því er hann hélt um munn hennar. Varðandi sár, mar og eymsli í munnholi á slímhúð innan á hægri kinn og á slímhúðarhafti í miðlínu milli efri varar og góms og í slímhúð við vinstri gómboga sagði ákærði að það hefði hlotist af þessum átökum, en verið gæti að hann hefði rekið fingur upp í hana.

 

Brotaþolinn A… lýsti atvikum þannig að umrætt sinn hefði hún fengið far með samstarfsfólki sínu á staðinn en ákærði hefði komið seinna og verið búinn að drekka á leiðinni. Þau hefðu farið í mat fljótlega eftir að ákærði kom og kvöldið hefði verið yndislegt. Hún hefði svo séð að ákærði væri orðinn mjög drukkinn, en þau hefðu rætt um það fyrir fram að hann yrði það ekki. Hún hefði svo farið til hans og spurt hann hvort þau ættu ekki að fara upp á herbergi til að fara að sofa og það síðan orðið úr. Á þeim tíma hefði allt verið í lagi og þau ekki verið farin að rífast. Hún hefði svo verið að tannbursta sig og gera sig tilbúna í háttinn er ákærði hefði farið að tala um að þau væru að fara of seint að sofa. Hún hefði hins vegar svarað honum því til að klukkan væri bara rétt um miðnætti. Þá hefði ákærði spurt hvort hún ætlaði aftur að skemmta sér þegar hann væri sofnaður. Hún hefði neitað því og sagst ætla að fara að sofa og vakna hress í morgunmatinn. Ákærði hefði þá ítrekað það aftur hvort hún ætlaði aftur að skemmta sér en hún á ný neitað því. Ákærði hefði þá hent henni í rúmið og farið að segja ljóta hluti. Hann hefði sett hnéð á bringuna á henni og kýlt hana tvisvar eða þrisvar í andlitið. Sagði hún rangan þann framburð ákærða að hún hefði fyrst veitt honum kjaftshögg og hann svo svarað. Mögulega hefði hún klórað ákærða þegar hún hefði verið að reyna að verja sig, en ekki veitt honum högg í andlit. Hún hefði reynt að öskra eftir hjálp og beðið hann um að hætta en þá hefði hann sett aðra höndina upp í hana og aftur í kokið. Hann hefði síðan tekið um hálsinn á henni, þrýst henni þannig niður í koddann og öskrað: „Ég ætla að drepa þig helvítis tussan þín.“ Kvaðst hún ekki átta sig á hvað þetta hefði staðið yfir lengi, kannski í tuttugu mínútur. Hann hefði haldið áfram en hún á móti reynt að ýta honum af sér. Kvaðst hún hafa verið sannfærð um að hann myndi ganga frá henni þarna, en líklega hefði það hjálpað til hvað hann hefði verið drukkinn og hún því getað sparkað honum af sér. Hún hefði reynt að komast inn á baðherbergið í því skyni að loka sig þar inni og reyna að hringja eftir hjálp. Ákærði hefði hins vegar náð henni áður og tekið hana aftur fram til að halda barsmíðunum áfram. Hún hefði þó náð að slíta sig aftur lausa og komast út úr herberginu, þar sem hún hefði hitt D…, sem hefði vaknað við lætin. Þær hefðu svo lokað sig inni í herbergi hennar en ákærði þá komið á eftir henni og reynt að komast inn. Hefði hann öskrað frammi að hann ætlaði að drepa hana og krafist þess að fá að koma inn. Ákærði hefði svo farið og þau svo ekkert heyrt í honum í tvo tíma. Þá hefði hann komið á ný öskrandi og krafist þess að honum yrði hleypt inn svo að hann gæti klárað verkið. Hefði hann í framhaldi reynt að brjóta upp gluggann í herberginu. Kvaðst hún þá hafa farið inn á baðherbergið og læst sig þar inni, ef ákærða skyldi takast að komast inn.

 

Vitnið B… lýsti atvikum þannig að umrætt kvöld hefði hann verið sofnaður er kærasta hans, D…, hefði vaknað við læti úr næsta herbergi. Hefði hún ætlað út úr herberginu en brotaþoli þá komið til þeirra algerlega niðurbrotin og blóðug. Hefði hún greint frá því að ákærði hefði tryllst þegar þau komu inn í herbergið sitt um kvöldið, hrint henni í rúmið og gengið í skrokk á henni. Sagði vitnið brotaþola hafa verið hjá þeim um tíma, en vitnið kvaðst svo hafa farið yfir í herbergi ákærða og lýst yfir vanþóknun sinni á því sem gerst hefði. Ákærði hefði reynt að gefa skýringar og sagt að þau vissu ekki hvernig brotaþoli væri. Sjálft kvaðst vitnið hafa minnt ákærða á að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem hann legði hendur á konu. Eftir það hefði vitnið farið aftur inn á sitt herbergi. Líklega um tveimur tímum síðar hefði ákærði komið að glugganum á herbergi þeirra og viljað ræða málin. Kvaðst vitnið hafa rætt við hann í gegnum gluggann og ákærði þá spurt hvort hann ætti að berja vitnið þá þegar eða daginn eftir. Hefði ákærði svo reynt að brjóta sér leið inn á herbergið með því að rífa upp gluggann, en ekki komist inn. Á þessum tíma hefði verið búið að hringja á lögreglu, enda ljóst að ákærði væri stjórnlaus og sturlaður af bræði. Ákærði hefði svo í kjölfarið ætlað að aka á brott, en vitnið og annar maður reynt að koma í veg fyrir það. Það hefði síðan endað með því að ákærði skallaði vitnið. Ákærði hefði þá verið snúinn niður og farið með hann inn á herbergið. Brotaþoli hefði verið algjörlega niðurbrotin og miður sín eftir atburðina, auk þess sem föt hennar og andlit hefðu verið blóðug.

 

Vitnið D… kvaðst hafa vaknað upp við mikil læti frá herberginu við hliðina. Hún hefði ekki strax gert sér grein fyrir hvað væri að gerast, en svo heyrt mikið bank í vegginn milli herbergjanna, rokið á fætur og mætt brotaþola í dyrunum illa útlítandi. Blætt hefði úr eyra hennar, nefi og munni og hún verið í sjokki. Hefði hún talað um að ákærði hefði gengið í skrokk á sér, kýlt sig og lagst með hnén ofan á bringuna á sér. Hún hefði náð að sparka ákærða af sér og svo komið yfir til þeirra. Vitnið sagði ákærða hafa í framhaldi reynt að brjótast inn í herbergið þeirra með því að brjóta upp gluggann. Hefði hann kallað að þeim ókvæðisorð og sagst ætla að drepa brotaþola. Á þeim tíma hefði brotaþoli læst sig inni á baðherberginu. Maður hennar og aðrir hefðu svo átt samskipti við ákærða fyrir utan, sem hefði endað með því að maðurinn hennar hefði komið inn blóðugur eftir ákærða.

 

Vitnin E… og F… kváðust hafa hitt brotaþola inni í herberginu hjá D… umrædda nótt. Lýstu þau ástandi hennar á svipaðan veg, að hún hefði verið blóðug, með áverka í andliti og virst í miklu áfalli. Þá hefði ákærði verið að reyna að komast inn í herbergi D… og B… með því að brjóta upp gluggann á herberginu.

 

Þórir Bergmundsson læknir staðfesti vottorð sem hann ritaði vegna skoðunar á áverkum brotaþola. Kvaðst hann hafa ritað það eftir upplýsingum í sjúkraskrá, en hann hefði ekki skoðað hana sjálfur.

 

Arnar Guðmundsson læknir kvaðst hafa skoðað ákærða 17. október 2017 vegna áverka sem ákærði hefði sagst hafa hlotið í átökum við brotaþola. Hefði ákærði lýst atvikum á þann veg að brotaþoli hefði veitt honum kjaftshögg á hökuna og í kjölfarið hefðu orðið átök þeirra í milli. Annar maður hefði blandað sér í málið og í framhaldi komið til átaka þeirra í milli. Hefði ákærði lýst því að hann hefði átt erfitt með að loka munninum fyrst á eftir og átt erfitt með að tyggja en það væri á batavegi. Ákærði hefði verið aumur við þreifingu yfir kjálkalið hægra megin og með mar undir vinstra auga. Gætu þessir áverkar samrýmst því að hann hefði fengið högg á hökuna.

 

Sigurður Júlíusson, háls-, nef- og eyrnalæknir, staðfesti og skýrði nánar læknisvottorð sem hann gaf vegna skoðunar á brotaþola. Sagði hann brotaþola hafa lýst atvikum svo að hún hefði orðið fyrir árás af hendi kærasta síns tveimur dögum áður. Kvað vitnið lýsingu brotaþola á atburðum vera í samræmi við þau einkenni og áverka sem lýst er í vottorðinu. Aðspurður kvað hann ytri áverka ekki þurfa að vera til staðar þótt hálstaki hefði verið beitt. Brotaþoli hefði lýst eymslum í hálsi og hæsi, sem gætu verið merki um að hún hefði verið tekin hálstaki.

 

Kjartan Pálmason, guðfræðingur og áfalla- og fíknisérfræðingur, staðfesti og skýrði vottorð sitt vegna brotaþola. Spurður um þá streitu og áfall sem lýst er í vottorðinu sagði hann að erfitt hefði verið að greina á milli þess hvort streita hennar væri tilkomin vegna umrædds atburðar eða þess að hún greindist með krabbamein.

 

Helgi Pétur Ottesen og Þorsteinn Þórarinsson lögreglumenn lýstu aðkomu sinni að vettvangi og samtölum sínum við þá sem þar hittust fyrir.

 

IV.

Niðurstaða

Ákæruliður 1

Brotaþoli hefur á mjög trúverðugan hátt lýst því, bæði í skýrslu sinni hjá lögreglu og fyrir dómi, hvernig ákærði hafi veist að henni í greint sinn, hrint henni svo að hún féll aftur á bak í rúmið í herberginu, sest ofan á hana með hnén á bringu hennar, tekið hana hálstaki, kýlt hana í andlit og sett hönd sína upp í hana og aftur í kokið.

 

Ákærði kannaðist við það í skýrslu sinni fyrir dómi að hafa slegið brotaþola í andlitið, fleygt henni aftur á bak í rúm í herberginu, sest ofan á hana með hnén á bringu hennar og gripið með fingri í munnhol hennar, en hélt því hins vegar fram að hann hefði aðeins slegið hana með flötum lófa og að það hafi verið gert til að bregðast við hnefahöggi sem hún hefði áður veitt honum. Hann neitaði því hins vegar að hafa tekið brotaþola hálstaki.

 

Þá liggur fyrir framburður D…, B…, E… og F… um ástand brotaþola og frásögn hennar af atburðum í greint sinn og einnig um ofsafengið ástand ákærða og tilraunir hans til að brjótast inn í herbergi þeirra B… og D… og hótanir hans í garð brotaþola.

 

Með hliðsjón af framangreindu, og þegar einnig er horft til vottorða og framburðar lækna um þá áverka sem greindust á brotaþola strax í kjölfar þessara atburða, telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir, með þeim afleiðingum sem þar koma fram. Undanskilið er þó að ekki þykir næg sönnun liggja fyrir um að ákærði hafi tekið brotaþola hálstaki í greint sinn og verður hann því sýknaður af þeirri háttsemi. Á hinn bóginn er ekkert komið fram í málinu sem rennir stoðum undir þann framburð ákærða að brotaþoli hafi átt upptökin að átökum þeirra með því að slá hann hnefahöggi á andlitið. Verður ekki talið að áverkar sem greindust á andliti ákærða breyti nokkru þar um, auk þess sem óljóst er hvort hann hlaut þá í þeirri atburðarás sem lýst er í ákærulið 1 eða 2. Verður fallist á það með ákæruvaldinu að atlaga ákærða að brotaþola hafi verið það alvarleg og samband þeirra þess eðlis að brot þetta varði við 1. mgr. 218. gr. b í almennum hegningarlögum.

 

 

Ákæruliður 2

Ákærði hefur fyrir dómi játað sök samkvæmt þessum ákærulið og er játning hans að öllu leyti studd sakargögnum. Samkvæmt þessu verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi sem þar er lýst og telst réttilega varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Ákvörðun refsingar o.fl.

Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur ákærði ekki áður verið fundinn sekur um refsiverðan verknað. Hann hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir tvær líkamsárásir og beindist önnur þeirra með alvarlegum hætti að konu sem hann hafði verið í sambúð með. Hins vegar verður og litið til þess að hann hefur játað brot sitt samkvæmt ákærulið 1 og greitt brotaþola þess brots umsamdar bætur. Að þessu virtu, og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Þykir mega fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

 

Ákærði er bótaskyldur gagnvart brotaþolanum A…. Með hliðsjón af framlögðum reikningum verður að öllu leyti tekin til greina krafa hennar um skaðabætur að fjárhæð 90.128 krónur vegna sjúkrakostnaðar, lyfjakostnaðar og kostnaðar vegna sálfræðiþjónustu. Krafa brotaþola um þjáningarbætur og bætur vegna tímabundins atvinnutjóns er ekki studd neinum gögnum og verður henni því vísað frá dómi. Ákærða verður gert að greiða brotaþolanum miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Þykja miskabætur hennar hæfilega ákveðnar 900.000 krónur, auk vaxta og dráttarvaxta, eins og nánar greinir í dómsorði, en dráttarvextir dæmast frá 7. janúar 2018, er mánuður var liðinn frá því að ákærða var fyrst kynnt krafan.

 

Ákærði verður dæmdur til að greiða 900.000 króna þóknun skipaðs verjanda síns, Arnars Þórs Stefánssonar lögmanns, og 700.000 króna þóknun og 22.272 króna ferðakostnað Unnsteins Arnar Elvarssonar lögmanns, skipaðs réttargæslumanns brotaþolans A…. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærði, X…, sæti fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í tvö ár frá uppkvaðningu dómsins að telja og falli hún niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Ákærði greiði A… 990.128 krónur með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. október 2017 til 7. janúar 2018, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

 

Ákærði greiði 900.000 króna þóknun skipaðs verjanda síns, Arnars Þórs Stefánssonar lögmanns, og 700.000 króna þóknun og 22.272 króna ferðakostnað skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Unnsteins Arnar Elvarssonar lögmanns.

 

                                                                                    Ásgeir Magnússon