• Lykilorð:
  • Hegningarauki
  • Miskabætur
  • Þjófnaður

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 29. mars 2019 í máli nr. S-23/2019:

Ákæruvaldið

(Emil Sigurðsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Renaldas Brazaitis

(Saga Ýrr Jónsdóttir hdl.)

 

Mál þetta höfðaði lögreglustjórinn á Vesturlandi með ákæru 5. febrúar 2019 á hendur ákærða, Renaldas Brazaitis, kt. ..., Meðalholti 5, Reykjavík. Málið var dómtekið 15. mars 2019.

   Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða fyrir þjófnað „með því að hafa mánudaginn 5. september 2016, í verslun Lyfju, Borgarbraut 58 í Borgarnesi stolið snyrtivörum samtals að söluverðmæti 38.146 kr.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar

Einkaréttarkrafa:

Í málinu gerir Sigurbjörn Gunnarsson, kt. ..., f.h. Lyfju hf., kt. ..., þá kröfu að ákærði verði dæmdur til að greiða kröfuhafa skaðabætur samtals að fjárhæð kr. 38.146, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað, eða hinn 5. september 2016, og þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvexti, sbr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

 

Við þingfestingu málsins var af hálfu ákæruvaldsins gerð sú breyting á ákæru að söluverðmæti hins stolna hafi verið 20.928 krónur.

Að því gættu hefur ákærði skýlaust játað að hafa framið það brot sem honum er gefið að sök í ákæru og er játning hans studd sakargögnum. Eru því efni til að leggja dóm á málið samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði frá árinu 2016 hlotið einn dóm og einu sinni gengist undir lögreglustjórasátt fyrir brot gegn almennum hegningarlögum. Ákærði hlaut dóm 1. nóvember 2017, fyrir þjófnað. Var refsing ákveðin 30 daga fangelsi skilorðsbundið í tvö ár.

Brot það sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir framdi hann áður en fyrrgreindur dómur gekk. Með hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga er það mat dómsins að ákærða verði ekki gerð frekari refsing vegna þess brots sem hér er til meðferðar, en honum var gerð með nefndum dómi.

Í samræmi við samþykki ákærða verður hann dæmdur til að greiða brotaþola skaðabætur eins og sú krafa er sett fram, en með þeim breytingum að andvirði hins stolna skuli miða við 20.928 krónur. Verða dráttarvextir reiknaðir frá 28. febrúar 2019, en þá var mánuður liðinn frá því ákærða var kynnt krafan, sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Þá verður ákærða gert að greiða brotaþola málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem greinir í dómsorði

Loks verður ákærða, með vísan til 235. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, gert að greiða þóknun verjanda síns, bæði á rannsóknastigi og fyrir dómi, sem þykir hæfilega ákveðin, að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem greinir í dómsorði. Annan sakarkostnað leiddi ekki af rannsókn og meðferð málsins.

Guðfinnur Stefánsson, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Ákærða, Renaldas Brazaitis, er ekki gerð refsing í málinu.

Ákærði greiði Lyfju hf., 20.928 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 5. september 2016 til 28. febrúar 2019, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 70.000 krónur í málskostnað. 

Ákærði greiði þóknun verjanda síns, Sögu Ýrr Jónsdóttur lögmanns, 252.960 krónur og ferðakostnað verjandans, 16.500 krónur.

 

Guðfinnur Stefánsson