• Lykilorð:
  • Húsaleiga
  • Tómlæti
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 30. október 2017 í máli nr. E-1/2017:

Helgi Gissurarson

(Ingi Tryggvason hrl.)

gegn

Landbúnaðarháskóla Íslands

(Atli Már Ingólfsson hdl.)

 

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 2. október sl., er höfðað af Helga Gissurarsyni, Sóltúni 23, Hvanneyri, 311 Borgarnesi, á hendur Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.

 

Stefnandi krefst þess að stefndi greiði honum skuld að fjárhæð 1.540.050 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 71.074 frá 01.02.2015 til 01.03.2015, af kr. 142.648 frá 01.03.2015 til 01.04.2015, af  kr. 214.700 frá 01.04.2015 til 01.05.2015, af kr. 287.487 frá 01.05.2015 til 01.06.2015, af kr. 360.376 frá 01.06.2015 til 01.07.2015, af kr. 433.470 frá 01.07.2015 til 01.08.2015, af kr. 506.752 frá 01.08.2015 til 01.09.2015, af kr. 580.153 frá 01.09.2015 til 01.10.2015, af kr. 653.947 frá 01.10.2015 til 01.11.2015, af kr. 727.450 frá 01.11.2015 til 01.12.2015, af kr. 800.953 frá 01.12.2015 til 01.01.2016, af kr. 874.252 frá 01.01.2016 til 01.02.2016,, af kr. 947.789 frá 01.02.2016 til 01.03.2016, af kr. 1.020.900 frá 01.03.2016 til 01.04.2016, af kr. 1.094.506 frá 01.04.2016 til 01.05.2016, af kr. 1.168.385 frá 01.05.2016 til 01.06.2016, af kr. 1.242.418 frá 01.06.2016 til 01.07.2016, af kr. 1.316.758 frá 01.07.2016 til 01.08.2016, af kr. 1.391.234 frá 01.08.2016 til 01.09.2016, af kr. 1.465.471 frá 01.09.2016 til 01.10.2016 og af kr. 1.540.050 frá 01.10.2016 til greiðsludags. Allt að frádreginni innborgun 01.10.2016 að fjárhæð 56.954 krónur, sem dragast skal frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

 

 

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfu stefnanda og krefst jafnframt málskostnaðar með hliðsjón af málskostnaðarreikningi.

 

II.

Stefnandi var ráðinn til starfa hjá stefnda 15. september 2008. Í ráðningarsamningi þeirra var starfsheiti stefnanda tilgreint sem starfsmaður bús og að vinnustaður hans væri Mið-Fossar. Með bréfi stefnda til stefnanda, dags. 31. október 2008, kemur fram að frá og með 1. desember sama ár verði breyting á vinnustað/ráðningarstað stefnanda og að hann verði eftir þann tíma á lögbýlinu að Hvanneyri, lögbýlinu Hesti, lögbýlinu Mávahlíð og lögbýlinu Mið-Fossum, sem séu starfsstöðvar hins blandaða búrekstrar hjá stefnda. Málsaðilar undirrituðu síðan samkomulag um vinnufyrirkomulag hinn 28. október 2009 og var þar m.a. tiltekið að í starfi stefnanda fælist að hann teldist verkefnisstjóri í hestamiðstöð stefnda.

 

Með húsaleigusamningi, dags. 1. nóvember 2013, tók stefnandi á leigu af stefnda efri hæð íbúðarhússins að Mið-Fossum, Borgarbyggð. Var samningurinn tímabundinn til 31. október 2016. Skyldi fjárhæð leigu nema 125.000 krónum á mánuði og skyldi sú fjárhæð taka breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þá kemur fram í 13. gr. samningsins að stefnandi skuli sjá um „almenna vörslu á jörðinni Miðfossum, vöktun og eftirlit og fær fyrir það 56,7% afslátt af téðri húsaleigu.“

 

Með bréfi, dags. 24. september 2014, tilkynnti stefndi stefnanda að stefndi hefði ákveðið að leggja stöðu hans við skólann niður frá og með 1. janúar 2015. Var honum þar og tilkynnt að ráðningarsamningi hans við stofnunina væri sagt upp með þriggja mánaða uppsagnarfresti frá 1. október 2014 og að samningurinn félli því úr gildi 31. desember sama ár. Þá tilkynnti stefndi stefnanda um það með öðru bréfi samdægurs að fyrrgreindum húsaleigusamningi aðilanna um efri hæð hússins að Mið-Fossum væri sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara, frá og með 1. október s.á., og að stefnandi þyrfti því að skila íbúðinni 31. desember s.á. Segir og í bréfinu að uppsögnin sé á grundvelli þess að ráðningarsamningi stefnda hafi verið sagt upp frá sama tíma. Segir og að íbúðarhúsið að Mið-Fossum sé leigt þeim sem sé starfsmaður stefnda á þeim stað.

 

Með tölvupósti til stefnda 26. nóvember 2014 tilkynnti þáverandi lögmaður stefnanda að hann teldi leigusamninginn óuppsegjanlegan og að stefnandi hygðist því nýta sér húsnæðið þar til leigusamningurinn rynni út. Í svarpósti lögmanns stefnda sama dag var tilkynnt að stefndi myndi ekki gera kröfu um skil á húsnæðinu, eins og áður hafði verið krafist, eða halda fram kröfunni um riftun leigusamningsins. Jafnframt kemur fram í tölvupóstinum að stefnanda tilkynnist „að leigan mun hækka frá og með áramótum þegar ráðningarsambandi aðila lýkur formlega, í samræmi við ákvæði leigusamnings þar um.“

 

Í ársbyrjun 2015 hóf stefndi að innheimta umsamda leigufjárhæð án framangreinds afsláttar. Kemur fram í stefnu að stefnandi hafi eigi að síður ákveðið að greiða þá fjárhæð, aðallega til að stefna ekki húsnæðismálum sínum og dætra sinna í hættu, þótt hann hafi vitað að hann væri að greiða umfram skyldu. Með því hafi stefnandi ekki verið að viðurkenna að honum bæri að greiða umkrafða fjárhæð eða útiloka að hafa, þótt síðar yrði, uppi endurkröfu á stefnda vegna þessa.

 

Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dags. 8. september 2016, var þess krafist að stefndi endurgreiddi hluta þeirrar húsaleigu sem stefnandi hafði greitt til hans en kröfu þessari var hafnað með bréfi stefnda, dags. 21. sama mánaðar. Lögmaður stefnanda fylgdi framangreindri kröfu eftir með bréfi, dags. 8. nóvember 2016, þar sem skorað var á stefnda að greiða stefnanda tilgreinda fjárhæð, ásamt vöxtum og kostnaði, vegna „ofgreiddrar húsaleigu fyrir íbúðarhús að Mið-Fossum, Borgarbyggð frá janúar 2015 til september 2016 en skv. húsaleigusamningi átti Helgi að fá 56,7% afslátt af umsaminni leigu fyrir „almenna vörslu á jörðinni Mið-Fossum, vöktun og eftirlit.““ Lögmaður stefnda hafnaði þessari kröfu stefnanda með bréfi, dags. 9. nóvember 2016.

 

Við aðalmeðferð málsins voru skýrslur teknar af stefnanda, fyrrverandi rektor stefnda, Birni Þorsteinssyni, og af Sigvalda Lárusi Guðmundssyni.

 

III.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að aðilar hafi gert með sér húsaleigusamning þar sem samið hafi verið um tiltekna húsaleigufjárhæð á mánuði, en jafnframt hafi þeir samið um það, sbr. 13. gr. samningsins, að stefnandi fengi 56,7% afslátt af leigunni gegn því að stefnandi sæi um „almenna vörslu á jörðinni Miðfossum, vöktun og eftirlit.“ Sú ákvörðun stefnda að fella afsláttinn niður og krefja stefnanda um leigufjárhæðina án afsláttarins hafi verið honum óheimil, enda hafi engin tengsl verið á milli ráðningarsamnings aðilanna og húsaleigusamningsins. Um hafi verið að ræða tvo sjálfstæða samninga og hafi ákvörðun stefnda um að segja upp ráðningarsamningi aðilanna því engin áhrif haft á þann afslátt sem samið hafi verið um í húsaleigusamningnum, enda hafi stefnandi áfram sinnt vörslu, vöktun og eftirliti að Mið-Fossum í samræmi við þann samning.

 

Stefnandi hafi ofgreitt stefnda húsaleigu sem hann eigi rétt á að stefndi endurgreiði honum í samræmi við almennar reglur þar um. Um lagarök vegna þess sé vísað til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, almennra reglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og til almennra reglna um endurgreiðslu ofgreidds fjár.

 

IV.

Stefndi byggir í fyrsta lagi á því að ákvæði í 13. gr. húsaleigusamnings aðila tengist með órjúfanlegum hætti starfi stefnanda í þágu stefnda. Umrædd vinna hafi í raun verið hluti af starfi stefnanda fyrir stefnda, eins og það starf hafi verið skilgreint. Þegar endir hafi verið bundinn á starf stefnanda sem verkefnastjóra við hestamiðstöð stefnda og það starf lagt niður hafi allar forsendur fyrir vinnu stefnanda í þágu stefnda verið brostnar. Upphaflega hafi leigusamningi stefnanda verið sagt upp samhliða því að starf hans hjá stefnda hafi verið lagt niður með bréfi, dags. 24. september 2014, enda hafi stefndi litið svo á að umrætt leiguhúsnæði væri leigt þeim sem væri starfsmaður skólans á Mið-Fossum á hverjum tíma. Vegna mótmæla stefnanda hafi það verið mat stefnda að hann gæti ekki án atbeina dómstóla fylgt eftir umræddri uppsögn, þrátt fyrir að leigusamningurinn og ráðningarsamningurinn hafi fylgst að. Hafi stefnandi verið látinn njóta vafans, sem haft hefði töluverð óþægindi í för með sér fyrir stefnda. Ljóst sé hins vegar að umsaminn afsláttur af leigufjárhæð hafi alfarið verið háður vinnuframlagi stefnanda og að heimilt hafi verið að fella hann niður eftir að starf stefnanda hafi verið lagt niður og ljóst orðið að ekki væri ætlast til þess að hann sinnti umræddum verkefnum á Mið-Fossum, almennri vörslu á jörðinni, vöktun og eftirliti. Um þetta hafi stefnanda verið tilkynnt.

 

Í öðru lagi sé byggt á því að sýkna beri stefnda með vísan til tómlætis stefnanda og sjónarmiða um fullnaðarkvittanir, en stefnandi hafi greitt alla reikninga vegna húsaleigu án athugasemda. Þrátt fyrir að stefndi hafi látið stefnanda njóta vafans vegna réttmætis á uppsögn leigusamnings hafi lögmanni stefnanda verið tilkynnt með bréfi, dags. 26. nóvember 2014, að stefnandi gæti ekki lengur notið afsláttar af húsaleigu í samræmi við ákvæði leigusamningsins um vinnuframlag. Erindi þessu hafi í engu verið mótmælt og húsaleiga verið greidd af stefnanda athugasemdalaust allt til 5. september 2016. Þá fyrst hafi stefnandi haft uppi mótmæli við fjárhæð leigunnar, eða fyrst eftir 22 mánuði. Byggt sé á því að stefnandi hafi þar með glatað rétti sínum til að mótmæla umræddri leigufjárhæð, enda hafi lögmaður hans móttekið tilkynningu stefnda um breytta fjárhæð leigu og vísað til ákvæðis í leigusamningi þar um. Stefndi eigi ekki að þurfa að sæta endurkröfu stefnanda þegar svona hátti til, hafi endurkrafa á annað borð á einhverjum tíma átt rétt á sér.

 

Allt frá því að starf stefnanda hafi verið lagt niður hafi stefndi greitt öðrum starfsmönnum fyrir þau verk sem tilgreind séu í 13. gr. leigusamnings stefnda, þ.e. almenna vörslu á jörðinni Mið-Fossum, vöktun og eftirlit. Um þetta sé stefnanda kunnugt og sé því alfarið mótmælt sem ósönnuðu og röngu að stefnandi hafi sinnt þessum verkum. Stefnanda hafi verið það ljóst frá því að starf hans var lagt niður að ekki væri lengur ætlast til vinnuframlags hans í þágu stefnda. Þannig komi eftirfarandi fram í uppsagnarbréfinu til hans frá 24. september 2014: „Til þess að draga úr launakostnaði stofnunarinnar hefur verið gerð sú skipulagsbreyting að tveimur störfum er slegið saman í eitt, og reiðkennari skólans verður jafnframt umsjónarmaður hesthúss og jarðar, og þar með staðarhaldari á Mið-Fossum.“ Síðar segi: „Landbúnaðarháskóli Íslands mun ekki krefja þig um vinnuframlag á uppsagnarfresti.“ Ljóst megi vera af framangreindu að öllum störfum stefnanda hafi þar með lokið fyrir stefnda. Samkvæmt framangreindu hafi stefnanda mátt vera ljóst að ákvæði leigusamnings um leigu að fjárhæð 125.000 krónur yrði þar með virkt.

 

Fari svo ólíklega að komist verði að þeirri niðurstöðu að stefndi sé bundinn við afsláttarákvæði leigusamnings aðila sé byggt á því að heimilt sé, með vísan til 11. gr. húsaleigulaga 36/1994, að víkja ákvæði 13. gr. húsaleigusamningsins til hliðar, enda sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að beita því miðað við atvik og málavexti ofangreinds máls.

 

V.

Fyrir liggur að stefndi tilkynnti stefnanda um það í tölvupósti til þáverandi lögmanns stefnanda 26. nóvember 2014 að fjárhæð leigugreiðslu myndi hækka næstu áramót á eftir þegar ráðningarsambandi aðilanna lyki formlega, í samræmi við ákvæði leigusamningsins þar um. Þá verður og ráðið af stefnu og öðrum málatilbúnaði stefnanda að þegar honum hafi, frá ársbyrjun 2015, borist greiðsluseðlar fyrir leigufjárhæðinni án umdeilds 56,7% afsláttar hafi hann eigi að síður ákveðið að greiða þá, þrátt fyrir að hafa vitað að hann væri þá að greiða umfram skyldu. Hafi hann aðallega gert það til að stefna ekki húsnæðismálum sínum og dætra sinna í hættu. Er óumdeilt að stefnandi hafi í kjölfarið greitt leigufjárhæðina athugasemdalaust, án afsláttarins, þar til lögmaður hans krafði stefnda í september 2016 um endurgreiðslu vegna ofgreiddrar leigu allt frá janúar 2015. Að þessu virtu verður fallist á það með stefnda að stefnandi hafi sýnt af sér slíkt tómlæti með því að inna umræddar húsaleigugreiðslur að fullu af hendi, án athugasemda, allt þar til í september 2016 að hann hafi þar með fyrirgert rétti sínum til að endurkrefja stefnda um ætlaða ofgreiðslu þeirra. Ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

 

Að fenginni þessari niðurstöðu verður stefnanda gert að greiða stefnda 900.000 krónur í málskostnað.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Stefndi, Landbúnaðarháskóli Íslands, er sýkn af kröfum stefnanda, Helga Gissurarsonar.

 

Stefnandi greiði stefnda 900.000 krónur í málskostnað.

                                               

                                                                                                Ásgeir Magnússon