• Lykilorð:
  • Sjálfskuldarábyrgð
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 31. október 2018 í máli nr. E-108/2017:

Arion banki hf.

(Guðmundur Ómar Hafsteinsson lögmaður)

gegn

                                         A1 ehf. og

                                                (Enginn)

                                         Agnari Svavarssyni

                                         (Pétur Kristinsson lögmaður)

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 3. október sl., er höfðað af Arion banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík, á hendur A1 ehf., Skúlagötu 22, Stykkishólmi, og Agnari Svavarssyni, til heimilis að sama stað, með birtingu stefnu 16. október 2017.

 

Stefnandi krefst þess að stefndi A1 ehf. verði dæmdur til að greiða honum skuld að fjárhæð 2.990.900 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. desember 2016 til greiðsludags. Jafnframt eru endanlegar dómkröfur stefnanda á hendur stefnda Agnari Svavarssyni þær að hann verði dæmur til að greiða þar af in solidum með stefnda A1 ehf. skuld að fjárhæð 2.500.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 2.500.000 krónum frá 30. desember 2016 til greiðsludags, allt að frádregnum 2.698.925 krónum, sem greiddar voru 27. júlí 2018.

 

Stefnandi krefst og málskostnaðar samkvæmt málskostnaðaryfirliti.

 

Af hálfu stefnda A1 ehf. var ekki tekið til varna í málinu.

 

Stefndi Agnar Svavarsson krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.    

 

 

II.

Stefndi A1 ehf. var með veltureikning nr. 0309-26-001999 í útibúi stefnanda og er hin umstefnda skuld til komin vegna heimildar sem stefnandi veitti félaginu til að yfirdraga nefndan reikning upp að tiltekinni fjárhæð og stofna þannig til skuldar við stefnanda. Síðasta yfirdráttarheimild sem stefnandi samþykkti féll niður hinn 7. nóvember 2016, án þess að til framlengingar kæmi. Þar sem hið stefnda félag greiddi ekki kröfuna á þeim degi var reikningnum lokað í kjölfarið, eða hinn 30. desember sama ár. Nam þá uppsöfnuð skuld veltureikningsins 2.990.900 krónum.

 

Stefndi Agnar Svavarsson skrifaði undir yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð 7. febrúar 2012 þar sem hann ábyrgðist persónulega að tryggja efndir á skuldbindingum reikningseiganda gagnvart stefnanda. Nam hámarksfjárhæð sjálfskuldarábyrgðarinnar 2.500.000 krónum, auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar.

 

III.

Stefnandi byggir kröfu sína á því að stefndu beri samkvæmt almennum reglum kröfuréttarins og meginreglu samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða skylda til að efna samninga og greiða kröfuna. Stefndi Agnar Svavarsson hafi ritað undir yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttarheimildar á framangreindum reikningi. Með yfirlýsingunni hafi hann persónulega ábyrgst að tryggja efndir á skuldbindingum reikningseiganda allt að fjárhæð 2.500.000 krónur, ásamt vöxtum og kostnaði. Skuldin hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og því sé nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar. Kröfu sinni til stuðnings vísi stefnandi til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

 

IV.

Stefndi Agnar byggir aðallega á því að þar sem greiðslumat hafi ekki farið fram áður en hann gaf út umrædda ábyrgðaryfirlýsingu sé hún ógild skv. lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Í 2. mgr. 2. gr. þessara laga segi: „Með ábyrgðarmanni er átt við einstakling sem gengst persónulega í ábyrgð eða veðsetur tilgreinda eign sína til tryggingar efndum lántaka enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans.“ Í greinargerð með ákvæðinu segi að við mat á því hvort skilyrðinu um eigin atvinnurekstur sé fullnægt verði einkum að líta til þess hvort ábyrgðarmaður hafi þegið sanngjarnt endurgjald fyrir að gangast í ábyrgð. Orð greinarinnar verði ekki skilin öðruvísi en að við mat á því hvort um atvinnurekstur sé að ræða sé ekki nóg að líta til eignarhalds heldur verði einnig að líta til þess hvort ábyrgðarmaður hafi þegið sanngjarnt endurgjald fyrir að gangast í ábyrgðina. Vissulega sé stefndi eini eigandi félagsins A1 ehf., er hann hafi gengið í ábyrgð fyrir, en hann hafi ekki þegið neitt endurgjald fyrir það.

 

Í öðru lagi sé á því byggt að ábyrgð stefnda Agnars sé fallin úr gildi. Í þeim texta sem hann hafi ritað undir standi skýrt og greinilega, með dökku letri sem innrammað sé sérstaklega til áhersluauka, að gildistími ábyrgðarinnar sé fjögur ár frá útgáfudegi hennar. Hún hafi verið gefin út 7. febrúar 2012 og hafi gildistíma hennar því lokið 6. febrúar 2016. Engu breyti í þessu sambandi sá texti sem standi á bakhlið skjalsins, og stefndi hafi ekki skrifað undir, að ábyrgðin vari uns skuldin sé að fullu greidd og að sjálfskuldarábyrgðin nái til þeirra skulda sem fyrir hendi séu við lok gildistímans. Orðin „gildistími sjálfskuldarábyrgðarinnar“ og „sjálfskuldarábyrgðin varir“ merki í raun það sama, þannig að um sé að ræða tvö ákvæði í skjalinu sem stangist á og séu ósamrýmanleg. Stefndi hafi ritað sérstaklega undir hið fyrra en ekki hið síðara. Skjalið hafi verið samið af stefnanda, sem sé banki, en stefndi sé einstaklingur og halli því á hann í sambandi aðila. Stefnandi hafi ráðið ferðinni. Hann hafi samið einhliða öll skjöl og skilmála, en þeir séu óskýrir og misvísandi. Þá hafi stefndi ekki verið látinn undirrita sérstaklega skilmálana á bakhliðinni og ekki hafi verið látið fara fram greiðslumat. Beri af þessum sökum að túlka óskýrleika skjalsins stefnda í hag.

 

Stefndi telji því að hann hafi ekki tekið ábyrgð á yfirdrættinum lengur en í fjögur ár og þar sem sá tími hafi verið liðinn verði hann ekki krafinn um greiðslu skuldarinnar. Verði ekki á þetta fallist telji stefndi, með vísan til allra málavaxta, að ósanngjarnt sé af hálfu stefnanda að bera fyrir sig að yfirlýsingin eigi að gilda lengur en í fjögur ár frá útgáfudegi hennar. Beri af þeim sökum að víkja henni til hliðar með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

 

Í þriðja lagi sé á því byggt að stefndi hafi á gildistíma ábyrgðarinnar greitt úr eigin vasa 4.180.401 krónu inn á reikninginn og hafi hann því þegar greitt þá fjárhæð, og gott betur, sem hann kunni að hafa borið ábyrgð á.

 

 

V.

Niðurstaða     

Í máli þessu krefur stefnandi stefnda A1 ehf. um yfirdráttarskuld samkvæmt veltureikningi, ásamt dráttarvöxtum frá 30. desember 2016, er reikningnum var lokað. Nam skuldin þá 2.990.900 krónum. Ekki er sótt þing í málinu af hálfu A1 ehf., en félaginu var þó réttilega stefnt. Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 verður málið gagnvart félaginu því dæmt eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda að því leyti sem það er samrýmanlegt framkomnum gögnum. Þar sem framlögð gögn eru í samræmi við kröfur stefnanda á hendur stefnda A1 ehf. ber að taka kröfur stefnanda til greina að öllu leyti hvað félagið varðar.

 

Ágreiningur máls þessa lýtur að gildi ábyrgðaryfirlýsingar stefnda Agnars Svavarssonar. Heldur hann því fram að sjálfskuldarábyrgð hans sé ógild frá upphafi þar sem stefnandi hafi við stofnun hennar ekki farið að ákvæðum laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, eins og honum hafi borið að gera þar sem ekkert greiðslumat hafi farið fram á lántakandanum, A1 ehf. Í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009 segir að með ábyrgðarmanni samkvæmt ákvæðum laganna sé átt við einstakling sem gangist persónulega í ábyrgð eða veðsetji tilgreinda eign sína til tryggingar efndum lántaka, enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans. Í greinargerð með tilvitnaðri 2. gr. frumvarps til laga nr. 32/2009 kemur fram að við skýringu á ákvæðinu komi til skoðunar atriði sem varði áhrif ábyrgðarmannsins innan viðkomandi félags og undir merkjum hvaða félagsforms það sé rekið. Sé lántaki til að mynda einkahlutafélag í eigu ábyrgðarmanns séu líkur á því að hann hafi undirgengist ábyrgð í þágu eigin atvinnurekstrar í skilningi ákvæðisins. Óumdeilt er að stefndi Agnar Svavarsson var einkaeigandi og forsvarsmaður einkahlutafélagsins A1, eiganda umrædds veltureiknings. Í aðilaskýrslu hans fyrir dómi kannaðist hann við að yfirdrátturinn á reikningnum hefði verið nýttur í þágu fyrirtækisins og að félagið hefði verið stofnað utan um persónulegan atvinnurekstur hans. Af þessum sökum verður að líta svo á að sjálfskuldarábyrgð stefnda Agnars vegna umrædds yfirdráttarláns A1 ehf. hafi verið veitt í þágu atvinnurekstrar hans sjálfs í skilningi tilvitnaðs ákvæðis 2. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009. Var stefnanda því rétt að líta svo á að áðurgreind undanþága ætti við, þannig að ekki væri skylt að fylgja fyrirmælum laganna gagnvart stefnda Agnari. Ekki var því nauðsynlegt að meta greiðslugetu stefnda A1 ehf. og upplýsa stefnda Agnar um greiðslugetu félagsins, auk þess sem af sjálfu leiðir að honum sem stjórnanda og eina eiganda þess hlaut að vera fullkunnugt um fjárhagsstöðu þess. Skiptir engu í því sambandi sú mótbára stefnda að hann hafi sjálfur ekki þegið neitt endurgjald fyrir. Verður stefndi því ekki sýknaður á þeim grundvelli að stefnandi hafi ekki farið að ákvæðum laganna að þessu leyti.

 

Í skilmálum á framhlið umræddrar ábyrgðaryfirlýsingar kemur fram að sé engin lokadagsetning tilgreind varðandi gildistíma yfirlýsingarinnar, eins og hér háttar til, sé gildistími hennar fjögur ár frá útgáfudegi hennar. Í 5. gr. skilmálanna, á bakhlið yfirlýsingarinnar, segir hins vegar að ábyrgðin nái til þeirra skulda sem fyrir hendi voru við lok gildistímans. Hún gildi vegna yfirdráttar á tékkareikningi sem þegar hafi verið veittur eða sem síðar kunni að verða veittur á gildistíma ábyrgðaryfirlýsingarinnar. Að virtum þessum ákvæðum yfirlýsingarinnar verður ekki fallist á það með stefnda að í þessum ákvæðum felist misræmi sem skýra beri honum í hag og þá á þann veg að ábyrgðin falli algjörlega niður að liðnum hinum tilgreindu fjórum árum frá útgáfu hennar. Þvert á móti telur dómurinn að þau séu í fullu samræmi hvort við annað og að skýra beri þau á þann veg að ábyrgð stefnda Agnars nái til þeirra skulda sem stofnað hafi verið til og voru fyrir hendi við lok gildistíma ábyrgðaryfirlýsingarinnar vegna yfirdráttarheimilda sem veittar voru á gildistíma hennar. Hins vegar felst í gildistímaákvæðinu að stefnanda var ekki unnt að auka við ábyrgðarskuldbindinguna að gildistímanum liðnum. Að þessu virtu, og þar sem ljóst er af gögnum að í engu var aukið við höfuðstól skuldarinnar eftir að framangreindum gildistíma hennar lauk, verður talið að ábyrgð stefnda Agnars hafi enn haft fullt skuldbindingargildi gagnvart honum þegar veltureikningnum var lokað og skuldin gjaldfelld hinn 30. desember 2016. Með vísan til þessa, og þar sem stefndi hefur á engan hátt sýnt fram á að slíkar aðstæður hafi verið uppi við undirritun yfirlýsingarinnar að ógildingarástæður 36. gr. laga nr. 7/1936 geti komið til álita, er málsástæðum þar að lútandi hafnað.

 

Með hliðsjón af framangreindu, og þar sem ekki verður talið að neinu breyti um ábyrgð stefnda samkvæmt yfirlýsingunni þótt hann hafi greitt án fyrirvara inn á skuldina hærri fjárhæð en nemi stefnukröfunni, verður fallist á dómkröfur stefnanda í málinu. Eftir þeirri niðurstöðu verða stefndu dæmdir til að greiða stefnanda óskipt 350.000 krónur í málskostnað.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Stefndi A1 ehf. greiði stefnanda, Arion banka hf., 2.990.900 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu  frá 30. desember 2016 til greiðsludags. Stefndi Agnar Svavarsson greiði þar af in solidum með stefnda A1 ehf. 2.500.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 30. desember 2016 til greiðsludags, allt að frádregnum 2.698.925 krónum, sem greiddar voru 27. júlí 2018.

 

Stefndu greiði stefnanda óskipt 350.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                                                Ásgeir Magnússon