• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Óvígð sambúð

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 8. maí 2017 í máli nr. S-15/2017:

Ákæruvaldið

(Jón Haukur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

 

Mál þetta höfðaði lögreglustjórinn á Vesturlandi með ákæru, dags. 28. mars 2017, á hendur ákærða, X..., kt. ..., ..., Borgarnesi. Málið var dómtekið 5. maí 2017.

Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða „fyrir líkamsárás með því að hafa að kvöldi þriðjudagsins 28. febrúar 2017 í húsinu nr. ... við ... í Borgarnesi í Borgarbyggð, slegið sambýliskonu sína, A..., kt. ..., hnefahöggum í brjóstkassa og kvið með þeim afleiðingum að hún hlaut eymsli yfir brjóskassa og mar hægra megin neðarlega á kvið.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið það brot sem honum er gefið að sök í ákæru og er játning hans studd sakargögnum. Er því efni til að leggja dóm á málið samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir brotið, sem réttilega er fært til refsiákvæða í ákæru.

Það þykir horfa refsingu ákærða til þyngingar, sbr. 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, að brot hans beindist að sambýliskonu hans, á heimili þeirra. Ákærði sem er með hreint sakavottorð á sér þær málsbætur einar að hann hefur játað sök.

Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Engan sakarkostnað leiddi af rannsókn og rekstri málsins.

Guðfinnur Stefánsson, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X..., sæti 30 daga fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

 

 

                                                                                    Guðfinnur Stefánsson