Nefnd um dómarastörf er sjálfstæð nefnd sem starfar á grundvelli IV. kafla dómstólalaga nr. 15/1998. Nefndinni er ætlað að styrkja stöðu dómstólanna sem sjálfstæðra og óháðra stofnana, jafnt inn á við sem út á við. Í þeim tilgangi sinnir nefndin tvíþættu hlutverki.

Annars vegar fjallar nefndin um agamál dómara og tekur við kvörtunum vegna dómstarfa þeirra. Falli kvörtun ekki undir valdsvið nefndarinnar er henni þegar vísað frá. Þegar kvörtun er talin tæk til meðferðar er málið kannað nánar og erindinu lokið með rökstuddu áliti. Telji nefndin kvörtun gefa tilefni til getur hún fundið að störfum hlutaðeigandi dómara eða veitt honum áminningu.

Hins vegar hefur nefndin eftirlit með aukastörfum dómara og eignarhlut þeirra í félögum og atvinnufyrirtækum í samræmi við reglur nr. 463/2000. Þegar við á getur nefndin, með rökstuddri ákvörðun, meinað dómara að gegna aukastarfi eða eiga hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki.