• Lykilorð:
  • Kjarasamningur
  • Slysatrygging

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2017  í máli nr. E-1743/2016:

A

(Ingólfur Kristinn Magnússon hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(María Thejll hdl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 9. febrúar 2017, var höfðað 27. maí 2016 af hálfu A, [...], [...], á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík, til heimtu slysabóta.

Stefnandi gerir þá kröfu aðallega að stefndi greiði sér 2.040.042 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 30. september 2015 til greiðsludags, að frádreginni innborgun þann 30. september 2015 að fjárhæð 773.800 krónur.

Stefnandi gerir þá kröfu til vara að stefndi greiði sér 2.040.042 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 4. gr., laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 30. september 2015 til birtingar stefnu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags, að frádreginni innborgun þann 30. september 2015 að fjárhæð 773.800 krónur.

Stefnandi gerir þá kröfu til þrautavara stefndi greiði sér 2.047.122 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 frá því mánuður var liðinn frá birtingu stefnu og til greiðsludags, að frádreginni innborgun þann 30. september 2015 að fjárhæð 773.800 krónur.

Þá krefst stefnandi þess í öllum tilvikum að málskostnaður verði tildæmdur stefnanda að skaðlausu úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Að kvöldi 11. janúar 2014 var stefnandi á leið frá heimili sínu [...] [...] til vinnu sinnar á Landspítalanum í Reykjavík. Þar starfaði hún sem ljósmóðir og var á leið á næturvakt. Hún stöðvaði bifreið sína við verslunina Hagkaup í Garðabæ, en þegar hún gekk um bifreiðastæðið fyrir utan verslunina var ekið á hana. Verslunin Hagkaup er á hægri hönd þegar ekið er til norðurs eftir Hafnarfjarðarvegi fram hjá Vífilsstaðarvegi í Garðabæ og unnt er að beygja inn á bílastæði verslunarinnar af aðrein til austurs inn Goðatún. Stefnandi kveðst hafa stöðvað för sína við Hagkaup til þess að kaupa sér nesti fyrir næturvaktina þar sem mötuneyti á spítalanum sé ekki opið á nóttunni. Verslunin sé á eðlilegri leið til vinnu stefnanda, sem aki frá [...] til Reykjavíkur eftir [...].

Þeirri lýsingu stefnanda á málavöxtum að ágreiningslaust væri að hún hafi verið á leið til vinnu þegar slysið varð var mótmælt af stefnda í greinargerð hans sem rangri, órökstuddri og ósannaðri. Við málflutning við aðalmeðferð málsins gaf lögmaður stefnda þá yfirlýsingu að stefndi viðurkenni að stefnandi hafi verið á leið til vinnu. Næturvakt stefnanda á Landspítala hafi átt að hefjast klukkan 20.00 þennan dag.

Stefnandi fór til vinnu eftir slysið, en leitaði síðar um kvöldið á slysadeild. Þar kom í ljós að hún var brotin utanvert á sköflungshnúa í vinstra hné. Stefnandi þurfti að undirgangast aðgerð og vera í gipsi. Síðar var hún í sjúkraþjálfun og undir reglulegu eftirliti lækna. Stefnandi kveðst nú búa við lítið kuldaþol og skerta gönguhæfni. Hún fái verki við gang og einnig trufli verkir nætursvefn. Afleiðingar slyssins hafi háð henni bæði í vinnu og frítíma. Stefnandi gekkst undir örorkumat vegna afleiðinga slyssins hjá Stefáni Carlssyni lækni og Sigurði Arnalds, hrl. og voru henni metin 10 miskastig í matsgerð þeirra, dags. 31. ágúst 2015.

Þáverandi lögmaður stefnanda krafði stefnda um slysabætur. Stefndi kveður málavexti horfa þannig við honum að embætti ríkislögmanns hafi borist tilkynning 12. febrúar 2014 um að stefnandi hefði orðið fyrir slysi í Garðabæ þann 11. janúar 2014. Í tilkynningunni sé tekið fram að þegar slysið hafi orðið hafi stefnandi verið starfsmaður hjá Landspítala og sé því sólarhringstryggð vegna slyss samkvæmt kjarasamningi. Fram komi að þegar mat á varanlegum afleiðingum slyssins liggi fyrir verði það sent ásamt bótakröfu. Matsgerð hafi verið send embætti ríkislögmanns 7. september 2015 og gerð krafa um að bætur úr samningsbundinni slysatryggingu í samræmi við matið yrðu greiddar inn á bankareikning Fulltingis slf. Í samræmi við tilkynningu og kröfugerð stefnanda hafi henni verið greiddar bætur 30. september 2015 á grundvelli reglna nr. 31/1990, um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna samkvæmt kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir utan starfs. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við uppgjörið til stefnanda fyrr en með stefnu í þessu máli.

Ágreiningsefni málsins snýst um það að stefnandi telur nú að hún hefði átt að fá bætur vegna slyss í starfi þar sem hún hafi verið á beinni og eðlilegri leið til vinnu. Stefnandi kveður stefnda túlka reglurnar svo að stefnandi hafi gert rof á beinni leið til og frá vinnu, þannig að slysið ætti undir reglur nr. 31/1990, en ekki reglur nr. 30/1990, sem gildi um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna samkvæmt kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi. Stefndi kannast ekki við slíka túlkun af sinni hálfu, en kveðst taka til varna í málinu þar sem slysatryggingabætur hafi þegar verið gerðar upp í samræmi við kröfur stefnanda.

Við aðalmeðferð málsins kom stefnandi fyrir dóm og lýsti atvikum.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggi á því að hún hafi verið ríkisstarfsmaður á slysdegi og tryggð samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglna nr. 30/1990, um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna samkvæmt kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi. Hún hafi verið á eðlilegri leið milli vinnustaðar síns og heimilis samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglnanna. Hún hafi orðið fyrir varanlegri örorku í skilningi 10. gr. reglnanna. Samkvæmt ákvæðinu sé um hreint læknisfræðilegt mat að ræða (miskamat) og hafi stefnanda verið metin 10 miskastig vegna slyssins. Stefnandi byggi á því að hún eigi rétt til bóta samkvæmt 10. og 11. gr. reglnanna.

Stefndi hafi gert upp bætur til stefnanda og samþykkt bæði bótaskyldu og greiðsluskyldu út frá framangreindum forsendum, að öðru leyti en því sem lúti að túlkun á því hvort slys teljist á eðlilegri leið milli vinnustaðar og heimilis. Þannig telji stefndi að um rof hafi verið að ræða á eðlilegri leið þar sem stefnandi hafi komið við í búð og nestað sig fyrir næturvakt.

Ágreiningur snúist því um túlkun á 1. ml. 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 30/1990 en þar segi:

Trygging skv. reglum þessum tekur til slysa sem sá sem tryggður er, sbr. 3. gr., verður fyrir í starfi sínu eða á eðlilegri leið frá heimili til vinnustaðar síns og frá vinnustað til heimilis.

Stefnandi telji það hluta af eðlilegri leið milli heimilis og vinnu að koma við og kaupa nesti fyrir næturvakt þegar mötuneyti vinnustaðar sé lokað. Játa verði tryggðum ákveðið svigrúm í skilningi ákvæðisins til að velja sér leið og komast til vinnu. Það rúmist innan eðlilegrar ferðar milli heimilis og vinnustaðar að kaupa nesti fyrir næturvakt. Það teljist ekki slíkt rof á eðlilegri leið að hinn tryggði teljist þá falla utan gildissviðs reglna nr. 30/1990 og falli eingöngu undir gildissvið reglna nr. 31/1990.

Varðandi fjárhæðir sé vísað til fjárhæða í kjarasamningi Ljósmæðrafélags Íslands við stefnda sem í gildi hafi verið á slysdegi. Nánar tiltekið gr. 7.1.3 um fjárhæðir og gr. 7.1.4 um hækkun fjárhæða bóta verðtryggt með vísitölu neysluverðs frá apríl 2007. Þannig uppreiknist aðal- og varakrafa, 10% X 12.683.000 krónur X 432,2 / 268,7 = 2.040.042 krónur. Greidd hafi verið innborgun þann 30. september 2015 að fjárhæð 773.800 krónur. Þrautavarakrafa skýri sig með sama hætti nema þar sé miðað við vísitölu í apríl 2016 við uppreikning bóta, 10% X 12.683.000 krónur X 433,7 / 268,7 = 2.047.122 krónur.

Stefnandi geri kröfu um dráttarvexti á stefnufjárhæðina frá uppgjörsdegi, en þá hafi stefndi þegar gert sér grein fyrir greiðsludegi og tilvist kröfunnar og ákveðið gjalddaga hennar samkvæmt lögum nr.  38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Verði ekki fallist á aðalkröfu sé gerð krafa um vexti af skaðabótakröfu samkvæmt 8. gr. laganna og dráttarvexti frá birtingu stefnu, sbr. 9. gr. þeirra, með vísan til þess að dómurinn geti ákveðið þann dag sem upphafstíma dráttarvaxta. Stefnandi telji þó aðalkröfu um vexti réttari þar sem um samningsbundna greiðslu sé að ræða samkvæmt kjarasamningi, en ekki skaðabótakröfu. Eðlilegt sé að miða við birtinguna því þá hafi stefndi sannanlega verið krafinn um mismuninn. Til þrautavara sé gerð krafa um dráttarvexti frá því mánuður sé liðinn frá birtingu stefnu.

Vísað sé til reglna nr. 30/1990, einkum 1. mgr. 4. gr., 10. og 11. gr. og ákvæða kjarasamnings Ljósmæðrafélags Íslands við ríkissjóð sem gilt hafi á slysdegi, einkum til ákvæða 7.1.1, 7.1.3 og 7.1.4. Um varnarþing vísist til ákvæða V. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 33. gr. Stefnandi geri kröfu um málskostnað að skaðlausu og byggi krafan á XXI. kafla laga 91/1991, sérstaklega 130. gr. Taka verði mið af skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málskostnaði, sbr. lög nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt vegna þjónustu sinnar. Stefnandi máls þessa sé ekki virðisaukaskattsskyld og sé því nauðsyn að taka tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar. Krafa um vexti og dráttarvexti sé reist á II., III. og IV. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.

Málsástæður og lagarök stefnda

Öllum málatilbúnaði stefnanda sé mótmælt sem röngum. Sérstaklega sé mótmælt sem röngum og órökstuddum fullyrðingum stefnanda um að stefndi túlki reglur nr. 30/1990 og 31/1990 svo að stefnandi hafi gert rof á beinni leið til og frá vinnu svo slysið ætti undir reglur nr. 31/1990 en ekki reglur 30/1990.

Í tilkynningu sem stefnda hafi borist frá lögmanni stefnanda 12. febrúar 2014 sé það eitt tekið fram að á slysdegi hafi stefnandi verið starfsmaður Landspítala og því sólarhringstryggð samkvæmt kjarasamningi. Litið hafi verið á tilkynninguna og eftirfarandi bótakröfu sem frítímaslys í skilningi reglna nr. 31/1990, enda þess í engu getið að stefnandi hafi verið á leið í vinnu þegar slysið varð.

Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi fengið greiddar slysabætur á grundvelli reglna nr. 31/1990 í samræmi við kröfugerð sína. Í bréfi ríkislögmanns til lögmanns stefnanda frá 30. september 2015 hafi verið tilkynnt um að greiddar hafi verið slysatryggingabætur til stefnanda sem væri fullnaðargreiðsla slysatryggingabóta samkvæmt kjarasamningi Ljósmæðrafélags Íslands og reglum nr. 31/1990.

Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. reglna nr. 31/1990 teljist bótafjárhæð samþykkt hafi bótaþegi ekki gert athugasemdir við hana innan mánaðar frá því að honum var skýrt frá henni. Stefnandi hafi engum mótmælum hreyft við uppgjörið, né bótagrundvöllinn innan þess tímafrests. Þegar stefnan hafi verið birt stefnda 27. maí 2016 hafi frestur 2. mgr. 12. gr. reglnanna verið löngu liðinn. Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Stefndi vísi til áðurgreindra stjórnvaldsfyrirmæla varðandi sýknukröfur. Einnig sé vísað til réttarreglna varðandi tómlæti. Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

Niðurstaða

Stefnandi telur sig vegna umrædds slyss eiga rétt á bótum á grundvelli reglna nr. 30/1990, um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna samkvæmt kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi. Stefndi heldur því fram að móttaka bóta, án athugasemda innan tilskilins frests, á grundvelli reglna nr. 31/1990, um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna samkvæmt kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir utan starfs, standi því í vegi að stefnandi geti nú krafið stefnda um bætur á grundvelli reglna nr. 30/1990 vegna slyssins. Bætur samkvæmt reglum nr. 30/1990 um slys í starfi eru hærri en bætur á grundvelli reglna nr. 31/1990 um slys utan starfs, svo sem dómkröfur stefnanda bera með sér.

Samkvæmt gögnum málsins tilkynnti starfsmaður þáverandi lögmanns stefnanda ríkislögmanni, með tölvupósti 12. febrúar 2014, um að stefnandi hefði lent í slysi í Garðabæ. Hún væri sólarhringstryggð vegna slyss samkvæmt kjarasamningi. Óskað var skráningar á erindinu og upplýst að þegar mat á varanlegum afleiðingum slyssins lægi fyrir yrði afrit þess sent stefnda ásamt bótakröfu. Með tölvupósti frá öðrum starfsmanni lögmannsins 7. september 2015 var ríkislögmanni send matsgerð ásamt öðrum gögnum. Þess var farið á leit að bætur úr samningsbundinni slysatryggingu yrðu greiddar í samræmi við matið á bankareikning lögmannsstofunnar.

Með bréfi ríkislögmanns til lögmannsins, 30. september 2015, var tilkynnt um að lagðar hefðu verið 773.800 krónur inn á bankareikning lögmannsstofunnar. Um væri að ræða fullnaðargreiðslu slysatryggingabóta samkvæmt kjarasamningi LMFÍ og reglum nr. 31/1990 til stefnanda vegna slyss hennar 11. janúar 2014 sem af hafi hlotist 10% varanleg læknisfræðileg örorka.

Í erindum lögmannsstofu þáverandi lögmanns stefnanda til stefnda kemur hvorki fram að stefnandi hafi verið á leið til vinnu þegar hún slasaðist né er þar vísað til tiltekinna reglna sem krafan sé byggð á. Fram kom í skýrslu stefnanda fyrir dóminum að hún hefði ekki getið þess sérstaklega við skýrslugjöf hjá lögreglu að hún hefði verið á leið til vinnu þegar slysið varð vegna þess að hún hefði ekki áttað sig á því að það skipti máli. Hún hefði ekki skýringar á því hvers vegna þessara aðstæðna var ekki getið í umboði sem hún undirritaði og veitti þáverandi lögmanni sínum, en teldi sig þó hafa skýrt lögmanninum frá þeim. Hún hafi sjálf ekki talið þetta „relevant“ á þessum tíma.

Stefnandi kvaðst hafa fengið þær upplýsingar frá þáverandi lögmanni sínum eftir uppgjörið að bæturnar væru samkvæmt kjarasamningi. Eiginmaður stefnanda hefði síðar lesið dómsniðurstöðu í öðru svipuðu máli sem núverandi lögmaður hefði unnið. Hér vísaði stefnandi til héraðsdóms í máli nr. E-2235/2015 frá 24. febrúar 2016, sem lögmenn beggja aðila lögðu fram til hliðsjónar við málflutning, en niðurstaða dómsins var nýlega staðfest með dómi Hæstaréttar í máli réttarins nr. 388/2016.

Eins og krafa þáverandi lögmanns stefnanda var sett fram og að virtum þeim gögnum sem virðast hafa verið send stefnda kröfunni til stuðnings verður fallist á það með stefnda að ekki hafi legið fyrir við uppgjör bóta að stefnandi hafi verið á leið til vinnu þegar slysið varð. Andmæli stefnda við því sem haldið er fram í stefnu, um að stefndi hafi beitt þeirri túlkun á reglunum við uppgjörið að stefnandi hafi gert rof á beinni leið til vinnu til þess að fella mætti slysið undir reglur nr. 31/1990, teljast því réttmæt. Nú er komið í ljós að stefnandi var á leið til vinnu þegar slysið varð. Það átti stefndi reyndar hægt með að staðreyna og hefur hann nú gert það.

Stefndi styður sýknukröfu sína því að samkvæmt 2. mgr. 12. gr. reglna nr. 31/1990 teljist bótafjárhæð samþykkt hafi bótaþegi ekki gert athugasemdir við hana innan eins mánaðar frá því að bótaþega var skýrt frá henni. Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi engum mótmælum hreyft við uppgjörið eða bótagrundvöllinn innan þess tímafrests. Ákvæðið gildir um uppgjör bóta á grundvelli reglna nr. 31/1990 og samkvæmt því gildir þegjandi samþykki með bindandi hætti um þá bótafjárhæð sem tjónþola er skýrt frá að hafi verið ákveðin við slíkt uppgjör. Dómurinn telur ótækt að túlka ákvæðið svo að með því að gera ekki athugasemdir við þá bótafjárhæð innan eins mánaðar fyrirgeri tjónþoli jafnframt hugsanlegum rýmri bótarétti sínum á öðrum grundvelli.

Að þessu virtu verður ekki fallist á það með stefnda að stefnandi hafi með móttöku bóta með fyrrgreindum hætti fyrirgert rétti sínum til að krefjast bóta á grundvelli reglna nr. 30/1990, sem veitt geta henni rýmri bótarétt, að teknu tilliti til frádráttar á þeim bótum sem stefndi hefur þegar greitt henni. Tilvísun stefnda til tómlætisreglna er órökstudd og er því hafnað að stefnandi hafi fyrir tómlæti glatað rétti til að gera kröfu um bætur vegna slyssins á grundvelli reglna nr. 30/1990.

Kemur þá til skoðunar það álitaefni hvort uppfyllt séu skilyrði reglna nr. 30/1990, um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna samkvæmt kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi, til að stefnandi eigi rétt á bótum samkvæmt þeim vegna slyssins. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglnanna taka þær til slysa sem sá sem tryggður er, sbr. 3. gr. þeirra, verður fyrir í starfi sínu eða á eðlilegri leið frá heimili til vinnustaðar síns og frá vinnustað til heimilis. Sama gildir í matar- og kaffitíma á matstað og um ferðir milli vinnustaðar og matstaðar í matar- og kaffihléum.

Samkvæmt lögregluskýrslu, dags. 13. janúar 2014, varð slysið 11. janúar s.á., klukkan 19.45. Í skýrslunni er greint frá framburði stefnanda á slysadeild síðar sama kvöld og frá framburði ökumanns bifreiðarinnar sem hún varð fyrir, sem rætt var við daginn eftir. Í skýrslunni er haft eftir stefnanda að hún hafi lagt bifreið sinni á bifreiðastæðið við Hagkaup sem liggi alveg upp við Hafnarfjarðarveginn. Hún hafi verið að ganga að inngangi verslunarinnar þegar bifreið hafi verið ekið á hana við lítið hringtorg á bifreiðastæðinu. Ökumaður bifreiðarinnar sem ók á stefnanda sagði lögreglu að hún hefði verið á bifreiðastæðinu við Hagkaup um kvöldið og klukkan hafi verið um átta. Hún hafi þá ekið á konu við litla hringtorgið. Telst upplýst að slysið hafi orðið með þessum hætti.

Þá er einnig upplýst að stefnandi átti að byrja á næturvakt klukkan 20.00 þetta kvöld. Lögmaður stefnda staðfesti við málflutning að sá framburður stefnanda væri réttur og í samræmi við vaktaskipan á Landspítala. Því var þó mótmælt sem ósönnuðu að erindi stefnanda í verslunina hafi verið að kaupa nesti til að hafa með sér á tólf tíma næturvaktina. Dómurinn telur þá skýringu stefnanda á erindi hennar í matvöruverslun rétt áður en næturvaktin skyldi hefjast, að hún hefði þurft að kaupa sér nesti þar sem mötuneyti á vinnustaðnum er lokað á nóttunni, vera trúverðuga.

Samkvæmt lýsingum stefnanda á eðlilegri ferðaleið sinni frá heimili til vinnustaðar og samkvæmt afstöðumynd sem greinir frávik frá akstri á þeirri leið er ljóst að verslunin stendur við þá stofnbraut sem stefnandi ók um. Eins og hér háttar til verður það talinn eðlilegur þáttur í ferðalagi stefnanda til vinnu á þessum tíma að nesta sig á leiðinni. Gat hún varla á þessari leið vikið skemur frá akstursleið sinni þeirra erinda. Verður því, einnig með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 388/2016, talið að stefnandi hafi verið á eðlilegri leið frá heimili sínu til vinnustaðar síns í skilningi 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 30/1990 þegar hún lenti í slysinu. Á hún því bótarétt á grundvelli þeirra reglna.

Í aðalkröfu stefnanda er krafist greiðslu á uppreiknuðum höfuðstól bótafjárhæðar samkvæmt reglum nr. 30/1990 miðað við vísitölu í ágúst 2015, ásamt dráttarvöxtum frá 30. september 2015, þegar bætur voru greiddar á grundvelli reglna nr. 31/1990, til greiðsludags. Í varakröfu er krafist greiðslu á sama höfuðstól og í aðalkröfu. Þess er krafist að fjárhæðin beri almenna vexti, sbr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 30. september 2015 til stefnubirtingardags, en dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags. Í þrautavarakröfu stefnanda er krafist greiðslu á höfuðstól bótafjárhæðar samkvæmt reglum nr. 30/1990, en uppreiknuðum miðað við vísitölu í apríl 2016. Krafist er dráttarvaxta á þá fjárhæð í samræmi við meginreglu 9. gr. laga nr. 38/2001 frá því að mánuður var liðinn frá birtingu stefnu til greiðsludags. Í öllum tilvikum kemur til frádráttar kröfum stefnanda greiðsla stefnda 30. september 2015, 773.800 krónur. Hvorki útreikningur í kröfugerð stefnanda á uppreiknuðum höfuðstól bótafjárhæða né fjárhæð frádráttarliðar hefur sætt tölulegum andmælum stefnda.

Fallist er á það með stefnda að krafa, með þeim nauðsynlegu upplýsingum til að reglur nr. 30/1990 kæmu til álita, að stefnandi hafi verið á eðlilegri leið til vinnu þegar slysið varð, var ekki kynnt stefnda fyrr en með birtingu stefnu í máli þessu. Að þessu virtu verður aðalkröfu og varakröfu stefnanda hafnað, en fallist á þrautavarakröfu hennar.

Í ljósi niðurstöðu málsins og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðinn er 450.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, A, 2.047.122 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. júní 2016 til greiðsludags, að frádreginni innborgun 30. september 2015, 773.800 krónum.

Stefndi greiði stefnanda 450.000 krónur í málskostnað.

Kristrún Kristinsdóttir