• Lykilorð:
  • Áfengislagabrot
  • Ávana- og fíkniefni
  • Hylming
  • Nytjastuldur
  • Fangelsi
  • Umferðarlagabrot
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

 

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 10. janúar 2014 í máli nr. S-966/2013:

 

Ákæruvaldið

(Kjartan Ólafsson ftr.)

gegn

Hrannari Markússyni

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð þann 13. desember 2013, er höfðað með ákæru, dagsettri 7. nóvember 2013, á hendur Hrannari Markússyni, kt. 000000-0000, [...], fyrir eftirtalin brot:

 

I.

fyrir eftirtalin umferðarlagabrot:

1. Með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 1. júlí 2013 ekið bifreiðinni PK-767 ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (kókaín í blóði mældist 230 ng/ml) eftir Smiðjuvegi í Kópavogi, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn. (007-2013-34211)

2. Með því að hafa laugardaginn 6. júlí 2013 ekið bifreiðinni SO-849 ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (kókaín í blóði mældist 100 ng/ml, amfetamín 30 ng/ml og MDMA 60 ng/ml) við Stekkjarbakka í Reykjavík, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn. (007-2013-35237)

3. Með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 2. ágúst 2013 ekið bifreiðinni NO-571 ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (kókaín í blóði mældist 265 ng/ml) við þjónustustöð N1 á Vesturlandsvegi í Reykjavík, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn. (007-2013-39873)

            Telst þetta varða við 1., sbr. 2., mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

II.

            Fyrir eftirtalda þjófnaði:

            1. Með því að hafa föstudaginn 18. janúar 2013 brotist inn í íbúð 4b í fjölbýlishúsi að [...] í Reykjavík og stolið þaðan Canon EOS stafrænni ljósmyndavél. (007-2013-3096)

            2. Með því að hafa fimmtudaginn 18. apríl 2013 brotist inn í einbýlishús að [...] í Kópavogi, með því að spenna upp útidyrahurð að kjallara hússins, og stolið þaðan Ipad 2 spjaldtölvu og Ipod touch. (007-2013-19556)

            3. Með því að hafa miðvikudaginn 24. apríl 2013 brotist inn í íbúðarhúsnæði að [...] í Kópavogi, með því að fara inn um ólæsta útidyrahurð, og stolið þaðan Lenovo fartölvu og Apple Macbook Pro fartölvu. (007-2013-20617)

            4. Með því að hafa miðvikudaginn 19. júní 2013 brotist inn í íbúðarhúsnæði að [...] í Garðabæ, með því að spenna upp glugga í húsnæðinu, og stolið þaðan HP fartölvu, Mac Book air fartölvu, Ipad spjaldtölvu, Canon myndavél, armbandsúri af gerðinni Reymond Weil, Ray-ban sólgleraugum og íþróttatösku. (007-2013-32058)

            5. Með því að hafa mánudaginn 22. júlí 2013, brotist inn í raðhús að [...], með því spenna upp hurð á bakhlið hússins, og stolið þaðan Ipad spjaldtölvu, tóbaksdollu úr gulli og 200.000 kr. í reiðufé. (007-2013-37823)

            6 Með því að hafa fimmtudaginn 25. júlí 2013, í íbúðarhúsnæði að [...] í Reykjavík, stolið peningakassa sem innihélt 6000 evrur í gjaldeyri og 500.000 kr. í reiðufé. (007-2013-40569)

            7. Með því að hafa þriðjudaginn 5. ágúst 2013, á [...] við [...] í Hafnarfirði, brotist inn í kæliskáp í kjallara hússins og stolið þaðan áfengi að verðmæti 20.000 kr. og síðan brotist inn í fimm hótelherbergi á 3. og 4. hæð, með því að spenna upp hurðir, og stolið þaðan bakpoka, tveimur bókum, sólgleraugum, Sony stafrænni ljósmyndavél, Iphone 4 farsíma, armbandsúri, Panasonic stafrænni ljósmyndavél, Samsung farsíma, 400 norskum krónum og lyklum. (007-2013-40461)

            8. Með því að hafa miðvikudaginn 7. ágúst 2013 brotist inn í einbýlishús að [...] í Garðabæ, með því að fara inn um glugga í bílskúr hússins, og stolið þaðan Iphone 4 farsíma og Ipad spjaldtölvu. (007-2013-40793)

            Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

III.

            Fyrir eftirtalda þjófnaði, en til vara hylmingu:

            1. Með því að hafa þriðjudaginn 21. maí 2013 brotist inn í húsnæði [...] að [...] í Reykjavík, með því að spenna upp hurð að húsnæðinu, og stolið þaðan Toshiba fartölvu, en tölvan var í vörslum ákærða síðar þennan sama dag. (007-2013-25876)

            2. Með því að hafa laugardaginn 25. maí 2013 brotist inn í húsnæði [...] að [...] í Reykjavík, með því að spenna upp hurð að húsnæðinu, og stolið þaðan borðtölvu og skjávarpa af gerðinni Dell, en munirnir voru í vörslum ákærða sama dag, og lagði lögregla hald á skjávarpann við leit á heimili hans að [...] í Kópavogi þann 10. júlí 2013. (007-2013-27080)

            3. Með því að hafa mánudaginn 27. maí 2013 brotist inn í íbúðarhúsnæði að [...] í Reykjavík, með því að spenna upp svalahurð, og stolið þaðan PSP leikjatölvu, Canon ljósmyndavél, Gopro stafrænni myndbandsupptökuvél, stokkabelti af upphlut, tveimur silfurnælum, ermahnöppum, gullhring og armbandsúri af gerðinni Fossil, en armbandsúrið var í vörslum ákærða sama dag. Lögregla lagði hald á PSP leikjatölvuna við leit í húsnæði að [...] í Reykjavík. Þá lagði lögregla hald á stokkabeltið og nælurnar tvær í versluninni Fríðu Frænku, en ákærði hafði áður selt versluninni munina með því að láta verslunina leggja fjárhæðina inn á reikning A.  (007-2013-27254)

            4. Með því að hafa sunnudaginn 30. júní 2013 brotist inn í einbýlishús að [...] í Reykjavík, með því að fara inn um ólæsta hurð á bakhlið hússins, og stolið þaðan Ipad spjaldtölvu, armbandsúri af gerðinni Dyrberg Kern, armbandsúri af gerðinni Shwartz, 1.300 evrum í gjaldeyri, 50.000 kr. í reiðufé, satínklæddum skartgripakassa og söfnunarmynt að samtals áætluðu verðmæti 660.000 kr., en skartgripakassinn, söfnunarmyntin og bæði armbandsúrin fundust á heimili ákærða að [...] í Kópavogi þann 10. júlí 2013 er lögregla framkvæmdi leit í húsnæðinu. (007-2013-34203)

            5. Með því að hafa miðvikudaginn 4. júlí 2013 brotist inn í íbúðarhúsnæði að [...] í Reykjavík, með því að fara inn um ólæsta útidyrahurð, og stolið þaðan veski, 2 stk. gullhringum, ilmvatni, húslyklum, kveikjuláslyklum að Toyota bifreið og greiðslukorti, að samtals áætluðu verðmæti 360.000 kr., en þýfið fannst í bifreið ákærða SO-849 aðfaranótt 6. júlí 2013 þegar lögregla hafði afskipti af honum við Stekkjarbakka í Reykjavík, sbr. ákærulið I.2. (007-2013-34939)

            6. Með því að hafa föstudaginn 5. júlí 2013 brotist inn í einbýlishús að [...] á Álftanesi, með því að spenna upp glugga á bakhlið hússins, og stolið þaðan bifhjólinu BA-230 af gerðinni Suzuki Bandit 1200, bifhjólahjálmi, bifhjólajakka, bifhjólaskóm, Pentax digital myndavél, Canon myndavélalinsu, Canon myndavélaflassi, 2. stk. hnífum, gullbelti af íslenskum þjóðbúningi, gullhring með 5 demöntum, gullhálsmeni, hring úr gulli og hvítagulli, bakpoka, barnahálsmeni, skyndihjálpartösku, 2 stk. Ipad spjaldtölvum ásamt hleðslusnúrum að samtals áætluðu verðmæti 1.570.000 kr., en Canon myndavélin, Canon flassið, bakpokinn og kveikjuláslyklar að bifhjólinu [...] fundust í bifreið ákærða SO-849 aðfaranótt 6. júlí 2013 þegar lögregla hafði afskipti af honum við Stekkjarbakka í Reykjavík, sbr. ákærulið I.1. Þá afhenti ákærði B bifhjólið [...] ásamt fatnaði á heimili hans að [...] í Hafnarfirði og saman seldu þeir gullbeltið að þjóðbúningnum til verslunarinnar Fríðu Frænku fyrir 250.000 kr. Loks seldi ákærði báðar Ipad spjaldtölvurnar til C og D. (007-2013-35064)

            7. Með því að hafa fimmtudaginn 25. júlí 2013 stolið Iphone 5 farsíma og Canon stafrænni myndavél úr bifreið á bifreiðastæði við Bláa lónið, en lögregla lagði hald á myndavélina við leit á dvalarstað ákærða að [...] í Vogum þann 9. ágúst sl. (007-2013-39221 og 007-2013-41207)

            Telst þetta varða við 244. gr., en til vara við 1. mgr. 254. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

IV.

            Fyrir eftirtalin hylmingarbrot:

            1. Með því að hafa í desember árið 2012 afhent E riffil af gerðinni Sako 75 Hunter Deluxe, sem stolið hafði verið þann 9. október 2012 í innbroti að [...] í Reykjavík, vitandi að um þýfi var að ræða og þannig haldið því ólöglega fyrir eiganda þess. (007-2012-58514)

            2. Með því að hafa miðvikudaginn 13. febrúar 2013 haft í vörslum sínum riffil af gerðinni Remington 799, riffil af gerðinni Howa Axiom 1500 og haglabyssu af gerðinni Weatherby, vitandi að um þýfi var að ræða og þannig haldið því ólöglega fyrir eiganda þess, en skotvopnunum hafði verið stolið sama dag úr íbúðarhúsnæði að [...] í Reykjavík. (007-2013-7465)

            3. Með því að hafa miðvikudaginn 3. apríl 2013 í vörslum sínum stafræna JVC myndbandsupptökuvél og farsíma af gerðinni Motorola, vitandi að um þýfi var að ræða og þannig haldið þeim ólöglega fyrir eiganda þeirra, en tækjunum hafði verið stolið sama dag af hótelherbergi [...] Hótel að [...] í Reykjavík. (007-2013-16718)

            4. Með því að hafa í vörslum sínum kveikjuláslykla af gerðinni Mercedes Benz og armbandsúr af gerðinni Tissot, vitandi að um þýfi var að ræða og þannig haldið því ólöglega fyrir eiganda þess, en mununum hafði verið stolið úr íbúðarhúsnæði að [...] í Reykjavík þann 14. maí 2013. Lögregla lagði hald á kveikjuláslyklana við leit í bifreið ákærða þann 6. júlí 2013, sbr. ákærulið I.2., en ákærði hafði áður afhent F armbandsúrið, en lögregla lagði hald á það við leit í húsnæði hans að [...] í Reykjavík þann 16. ágúst sl. (007-2013-24878)

            5. Með því að hafa í vörslum sínum tvö armbandsúr, vitandi að um þýfi var að ræða og þannig haldið þeim ólöglega fyrir eiganda þeirra, en úrunum hafði verið stolið í innbroti í íbúðarhúsnæði að [...] í Garðabæ þann 13. apríl 2013, en þýfið fannst á heimili ákærða að [...] í Kópavogi þann 10. júlí 2013 er lögregla framkvæmdi leit í húsnæðinu. (007-2013-18381)

            6. Með því að hafa í vörslum sínum 2 stk. perlufesti og 2. stk. armbönd, vitandi að um þýfi var að ræða og þannig haldið því ólöglega fyrir eiganda þess, en mununum hafði verið stolið í innbroti þann 15. júní 2013 í íbúðarhúsnæði að [...] í Reykjavík. Lögregla lagði hald á þýfið við leit á heimili ákærða að [...] í Kópavogi þann 10. júlí 2013. (007-2013-31327)

            7. Með því að hafa í júlí 2013 haft í vörslum sínum Iphone 4 farsíma og afhent hann G gegn greiðslu, vitandi að um þýfi var að ræða og þannig haldið því ólöglega fyrir eiganda þess, en farsímanum hafði verið stolið af hótelherbergi á Hótel [...] við [...] í Reykjavík þann 24. júlí sl. (007-2013-38087)

            8. Með því að hafa föstudaginn 9. ágúst 2013, á dvalarstað að [...] í Vogum, í vörslum sínum fartölvu af gerðinni Dell, vitandi að um þýfi var að ræða og þannig haldið því ólöglega fyrir eiganda þess, en tölvunni var stolið úr bifreið við [...] í Kópavogi þann 22. janúar 2013 (007-2013-3564 og 007-2013-41207)

            9. Með því að hafa föstudaginn 9. ágúst, á dvalarstað að [...] í Vogum, í vörslum sínum Iphone 4 farsíma, vitandi að um þýfi var að ræða og þannig haldið því ólöglega fyrir eiganda þess, en símanum hafði verið stolið af [...] í miðbæ Reykjavíkur þann 8. maí 2013. (007-2013-56211 og 007-2013-41207)

            10. Með því að hafa föstudaginn 9. ágúst 2013, á dvalarstað að [...] í Vogum, í vörslum sínum Macbook fartölvu og Iphone 3 farsíma, vitandi að um þýfi var að ræða og þannig haldið því ólöglega fyrir eiganda þess, en mununum hafði verið stolið úr hótelherbergi á Hótel [...] við [...] í Reykjavík þann 28. júlí sl. (007-2013-38929 og 007-2013-41207)

            11. Með því að hafa föstudaginn 9. ágúst 2013, á dvalarstað að [...] í Vogum, í vörslum sínum 14 stk. Play station 3 tölvuleiki, vitandi að um þýfi var að ræða og þannig haldið því ólöglega fyrir eiganda þess, en mununum hafði verið stolið í innbroti í íbúðarhúsnæði að [...] í Kópavogi á tímabilinu 23. – 27. júlí sl. (007-2013-38931 og 007-2013-41207)

            Telst þetta varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

V.

            1. Fyrir þjófnað og nytjastuld, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 6. júní 2013 brotist inn í húsnæði H ehf. að [...] í Reykjavík og stolið þaðan uppgjörstöskum sem innihéldu 2.401.656 kr. í reiðufé, 1.905 evrur í gjaldeyri, og kveikjuláslyklum að bifreiðinni [...] sem hann ók í kjölfarið af vettvangi. (007-2013-29375)

            2. Fyrir þjófnað og nytjastuld, með því að hafa þriðjudaginn 30. júlí 2013 brotist inn á hótelherbergi á Hótel [...] við [...] í Reykjavík og stolið þaðan bakpoka, Canon stafrænni myndavél, myndbandsupptökuvél og kveikjuláslyklum að bifreiðinni [...], en síðar sama kvöld ók hann svo bifreiðinni af vettvangi og notaði í heimildarleysi í kjölfarið, en bifreiðin fannst í grennd við dvalarstað ákærða að [...] í Vogum þann 9. ágúst sl. (007-2013-39413 og 007-2013-41207)

            Telst þetta varða við 244. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

VI.

Fyrir áfengislagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 10. júlí 2013, á heimili sínu að [...] í Kópavogi, í vörslum sínum 6,57 lítra af landa með 32% áfengisstyrkleika, en áfengið fannst við leit lögreglu í húsnæðinu. (007-2013-35064)

Telst þetta varða við a-lið 2. mgr. 4. gr., sbr. 1. mgr. 27. gr., áfengislaga nr. 75/1998.

 

 

VII.

            Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa föstudaginn 9. ágúst 2013, á dvalarstað að [...] í Vogum, í vörslum sínum 3,1 g af amfetamíni, en lögregla lagði hald á efnin við leit í húsnæðinu. (007-2013-41207)

            Telst þetta varða við 1., sbr. 4. mgr. 2. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. og 6. gr., laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, sbr. 1. gr. laga nr. 60/1980 og 1. gr. laga nr. 13/1985, sbr. og reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 490/2001 og reglugerð nr. 848/2002.

 

            Einkaréttarkröfur:

            1. Vegna ákæruliðar V.1, gerir Bjarnfreður Ólafsson hdl., f.h. H ehf., kröfu um að ákærði greiði skaðabætur annars vegar að fjárhæð 2.401.656 kr. og hins vegar að fjárhæð 1.905 evrur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. júní þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

 

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006. Jafnframt að ákærði sæti upptöku á 6,57 lítrum af landa samkvæmt heimild í 1. mgr. 28. gr. áfengislaga nr. 75/1998 og 3,1 g af amfetamíni samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni.

 

            Við þingfestingu málsins þann 21. nóvember sl. játaði ákærði sök í öllum ákæruliðum I. kafla, VI. kafla og VII. kafla.       Ákærði játaði sök í II. kafla ákæru, töluliðum 6 og 8, en neitaði sök að öðru leyti. Ákærði játaði sök, hylmingu í III. kafla ákæru, töluliðum 3, 4, 5 og 6, og hylmingu á skjávarpa í tölulið 2 og myndavél í tölulið 7 en neitaði sök að öðru leyti. Ákærði játaði sök í IV. kafla ákæru, nema í töluliðum 1, 2, 8 og 9 þar sem hann neitaði sök. Ákærði játaði nytjastuld í V. kafla ákæru, tölulið 2, en neitaði sök að öðru leyti.    

 

            Við upphaf aðalmeðferðar breytti ákærði afstöðu sinni til tveggja ákæruliða sem hann hafði játað hylmingu á við þingfestingu málsins. Þannig breytti hann afstöðu sinni til III. kafla 4. töluliðar ákæru í neitun. Þá breytti hann afstöðu sinni til III. kafla  3 töluliðar í neitun um að hafa stolið GoPro stafrænni upptökuvél.

            Við upphaf aðalmeðferðar féll ákæruvaldið frá ákæru í IV.kafla, tölulið 1. Ákæruvaldið upplýsti að aðalmeðferð færi fram um þjófnaðarhluta í þeim ákæruliðum III. kafla þar sem játning ákærða lá fyrir um hylmingu.

           

            Verjandi krefst vægustu refsingar fyrir þau brot sem ákærði hefur játað að vera sekur um og að sama gildi um önnur brot verði ekki fallist á sýknukröfu í þeim. Þá gerir hann kröfu um að refsing ákærða verði skilorðsbundin að hluta og að bótakröfu á hendur ákærða verði vísað frá dómi eða sýknað vegna hennar. Þá krefst hann þess að gæsluvarðhald er ákærði hefur sætt komi til frádráttar refsingunni að fullri dagatölu. Auk þess er krafist málsvarnarlauna.

 

I

Í greinargerð lögreglu kemur fram að upphaf málsins megi rekja til þess að upptaka úr öryggismyndavél af ákærða á Hótel [...] hafi verið afhent lögreglu eftir að brotist hafi verið þar inn í fimm herbergi hótelsins auk aðstöðu starfsmanna á hótelinu. Við rannsókn þess máls hafi upphafist mikil innbrotahrina í Garðabæ og hafi grunur vaknað að um ákærði ætti þar hlut að máli þar sem hann hafði þá nokkrum vikum áður setið í gæsluvarðhaldi vegna gruns um innbrot og þjófnaði og upplýsingar lágu fyrir þess efnis að hann væri í mikilli neyslu á þeim tíma. Ákærði var handtekinn að [...] í Vogum á Vatnsleysuströnd þar sem hann var gestkomandi. Leit var gerð í húsnæðinu og þar fundust nokkrir af þeim munum sem greinir í ákæruliðum þessa máls og voru þeir haldlagðir sem þýfi. Einnig fundust munir við aðrar leitir, m.a. í bifreiðinni SO-489 og í húsleit að [...] í Kópavogi þar sem ákærði var búsettur.

Í framburðarskýrslum hjá lögreglu neitaði ákærði sök um langflesta ákæruliði þessa máls. Mun ákærði hafa greint frá því að hafa keypt mikið af þeim munum sem fundust við leit hjá honum af tveimur nafngreindum útlendingum en hann mun hafa hitt þá í fjölmörg skipti við fjölbýlishús í Breiðholti. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar hafi hann þó ekki getað veitt frekari upplýsingar um hvernig hægt væri að finna viðkomandi aðila. Í gögnum málsins kemur fram að þessir menn hafi ekki fundist og engin gögn séu um tilvist þeirra sem styðji framburð ákærða.

Fyrir dómi upplýsti ákærði að hann hafi verið í mikilli neyslu á þessu tímabili, sem hafi tekið af honum völdin. Hann hafi þurft að fjármagna neysluna með einhverjum hætti og því keypt og selt mikið af þýfi auk þess sem hann hefði keypt og selt fíkniefni. Þýfið hafi hann aðallega keypt af fjórum til fimm strákum. Kaupin hafi farið þannig fram að hann hafi fengið skilaboð í síma þessa efnis. Einnig hafi hann notað mikið samskiptaforritin Skype og Viper. Ákærði taldi að rannsókn símagagna málsins hafi ekki verið nægilega góð því að hún hafi ekki sýnt þessi Skype- og Viper- skilaboð. Þannig taldi ákærði það rangt þegar fullyrt hafi verið í lögregluskýrslum að engir hafi haft samband við hann á tilteknum dögum tengdum innbrotum. Þessi samskiptaforrit í símanum hafi einfaldlega ekki verið skoðuð. Ákærði upplýsti þó að hann hafi ekki upplýst lögreglu um þessi samskiptaforrit. Einnig taldi ákærði að skýrslur hans fyrir lögreglu hafi verið nákvæmar og miðað við þær upplýsingar sem hann hafi gefið um þá tvo útlendinga, sem hann hefði verið í samskiptum við, hefði lögreglan átt að hafa uppi á þeim. Hann upplýsti jafnframt að hann hafi hins vegar ekki getað gefið meiri upplýsingar til að vernda sjálfan sig og fjölskyldu sína vegna ótta við hefndaraðgerðir. Fram kom hjá ákærða að oft hefði hann keypt hluti vitandi að um þýfi væri að ræða. Hlutirnir hefðu verið „sjóðandi heitir“ og honum hefði oft verið ráðið frá því að kaupa hlutina en hann hefði oft slegið til og gjarnan verið búinn að selja hlutina áður en hann keypti þá, allavega hafi hann reynt að losa sig við hlutina fljótlega.

Ákærði vildi taka fram að framangreind háttsemi hafi ekki verið hans lífsstíll fram til þessa og að hann hafi ekki komist í kast við lögin áður. Ákærði rakti þetta ástand til ársins 2008, þá hafi orðið fjárhagsvandræði í fyrirtæki foreldra hans sem hafi leitt hann í þunglyndi og hann hafi þá byrjað fíkniefnanotkun. Ákærði sagði að sem betur fer hafi þessi fíkniefnanotkun ekki staðið lengi og að hann hafi verið stöðvaður í afbrotum sínum. Ákærði lýsti því yfir að hann sjái mikið eftir þessum brotum sínum og skömmin sé gríðarlega mikil. Ákærði upplýsti að fjölskylda hans væri búin að gefa honum tækifæri til að bæta fyrir þetta. Samband hans við foreldra og systur hans hafi aldrei verið eins gott og núna og honum hafi sjaldan liðið jafnvel og nú þótt hann sé í fangelsi, enda laus við fíkniefnadjöfulinn. Einnig kom fram að hann væri nú í mjög góðu sambandi við barnsmóður sína og son sinn sem er fjögurra ára. Þá sé hann búinn að vera í meðferð á Litla-Hrauni í þrjá mánuði og það gangi mjög vel.

 

 

II

Verða nú raktar forsendur hvers ákæruliðar, upplýsingar úr lögregluskýrslum, framburður ákærða og vitna fyrir dómi og niðurstöður.

 

Ákæruliður II. 1. Innbrot og þjófnaður, [...] í Reykjavík. Í skýrslum lögreglu kemur fram að tvær myndir í síma ákærða hafi sýnt húsnæðið að [...] í Reykjavík og að tjónþoli hafi staðfest að myndirnar sýni íbúð hans. Þessar myndir munu hafa verið teknar tveimur dögum fyrir innbrotið eða 16. janúar 2013. Ein mynd mun líka hafa verið í símanum af ljósmyndavél sömu gerðar og stolið var í íbúðinni og mun hafa verið tekin 2. febrúar 2013. Myndin var tekin inni í Peugeot-bifreið samskonar þeirri sem ákærði átti á þeim tíma sem brotið var framið. Þá hafi einnig fundist mynd í farsíma ákærða með upplýsingum um samskonar vél og var stolið.

Ákærði sagði fyrir dómi að hann hafi ekki skýringu á myndunum en sagðist hafa verið að hitta stelpu sem átti heima í þessu húsi. Hann sagðist ekki vita að þarna hefði átt sér stað þjófnaður tveimur dögum síðar. Hann hafi hins vegar verið mikið í kringum stráka sem voru að brjótast inn og hugsanlega hafi þessar myndir átt einhvern þátt í því að þarna var brotist inn. Hann sagðist ekki hafa átt þessa myndavél, hafi bara skoðað hana og sennilega verið að skoða hvað svona myndavél kostar. Hann hafi ekki haft upplýsingar um að þessi myndavél hafi komið úr þessu innbroti. Starfsemi hans hafi mikið gengið út á það að honum hafi verið boðnar vörur og sýndar vörur fljótlega eftir innbrot, hann hafi þá farið á netið og athugað verð á samskonar hlutum og hvað hann gæti mögulega selt þá á. Myndirnar þurfi þannig ekki endilega að sýna mynd af þýfi heldur myndir eða upplýsingar um samskonar hluti. Hann neitaði því að hafa brotist inn í [...] í Reykjavík.

 

            Niðurstaða:        

Ákærði neitaði sök í þessum lið ákæru. Við mat á niðurstöðu lítur dómurinn til þeirra sönnunargagna sem liggja fyrir í málinu um að ákærði hafi farið inn í [...] í Reykjavík og stolið þar Canon EOS stafrænni myndavél. Umrædd myndavél hefur ekki fundist. Myndir úr síma ákærða sýna ekki ótvírætt þá ljósmyndavél sem var stolið í þessu innbroti, heldur ljósmyndavél sömu gerðar eða upplýsingar um samskonar vél. Í þessum ákærulið voru ekki lagðar fram neinar rannsóknir á síma ákærða eins og í mörgum öðrum ákæruliðum þessa máls sem hlýtur að valda efa. Gegn neitun ákærða þykir ekki vera komin fram nægileg sönnun um sekt ákærða og verður hann því sýknaður af þessum ákærulið.

 

Ákæruliður II. 2. Innbrot og þjófnaður, [...] í Kópavogi. Í lögregluskýrslu kemur fram að mynd í farsíma ákærða hafi sýnt skjámynd af Ipad skjátölvu. Myndin hafi verið tekin af vefsvæði söluaðila þann 18. apríl 2013 eða sama dag og innbrotið var framið og hafi sýnt upplýsingar um samskonar tölvu og var stolið í þessu innbroti. Niðurstaða rannsóknar á staðsetningu síma ákærða hafi einnig sýnt að hann hafi verið mjög stutt frá vettvangi á brotatíma.

Ákærði upplýsti fyrir dómi að honum hafi oft verið boðið að kaupa samskonar muni og var stolið í þessu innbroti. Hann sagði að hér ættu við sömu forsendur og að framan greini, þ.e. að hann hafi ekki verið með þessa hluti undir höndum heldur hafi hann bara verið að skoða hvort hann myndi kaupa þá. Ákærði var inntur eftir því hvort hann gæti gefið upplýsingar um af hverju hann hafi komið fram á símasendum stutt frá brotavettvangi og brotatíma. Ákærði upplýsti að hann hafi komið fram á sendi á [...] í Kópavogi, þar sem hann hafi átt heima á þessum tíma, og hins vegar við Smáralind sem sé nokkuð langt frá brotastað. Hann muni ekki hvað hann hafi verið að gera á þessum tíma í grennd við Smáralind, en hann hafi ekki verið í [...] í Kópavogi og að hann hafi ekki brotist þar inn.

 

Niðurstaða:

Ákærði neitaði sök í þessum lið ákæru. Við mat á niðurstöðu lítur dómurinn til þeirra sönnunargagna sem liggja fyrir í málinu um að ákærði hafi farið inn í húsnæðið að [...] í Kópavogi og stolið þar Ipad spjaldtölvu og Ipod touch. Umræddir munir hafa ekki fundist og myndir úr síma ákærða sýna ekki ótvírætt sömu muni og var stolið, heldur muni sömu gerðar eða upplýsingar um samskonar muni. Rannsóknargögn um staðsetningu á síma ákærða sýna að hann var á ferðinni vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið á því tímabili sem innbrotið mun hafi verið framið og þó að fram komi að ákærði hafi einnig verið í Kópavogi á því tímabili verða þau ekki talin sanna að ákærði hafi verið í [...] í Kópavogi en ákærði bjó í [...] í Kópavogi á þessum tíma. Gegn neitun ákærða þykir ekki vera komin fram nægileg sönnun um sekt ákærða og verður hann því sýknaður af þessum ákærulið.

 

Ákæruliður II. 3. Innbrot og þjófnaður, [...] í Kópavogi. Í lögregluskýrslu kemur fram að mynd af Lenovo fartölvu hafi fundist í síma ákærða og þar hafi mátt sjá upplýsingar um nákvæmlega eins tölvu og var stolið í þessu innbroti. Myndin hafi verið tekin sama dag og innbrotið átti sér stað. Þá hafi einnig fundist mynd af Apple fartölvu í síma ákærða, tekin 45 mínútum eftir fyrsta hugsanlega möguleika til þess að brjótast þar inn og á skjánum hafi mátt sjá upplýsingar um tölvuna. Þá staðfesti símagögn einnig að ákærði hafi verið við vettvang brotsins þegar brotist var þar inn.

Ákærði sagði fyrir dómi að sömu skýringar ættu hér við og að framan greini um að honum hafi verið boðin Lenovo tölvan til kaups samdægurs en hann hafi hins vegar ekki keypt hana þar sem hún hafi verið ódýr. Ákærði var inntur eftir því hvort hann gæti gefið upplýsingar um af hverju hann hafi komið fram á símasendum stutt frá brotavettvangi og brotatíma. Ákærði svaraði því til að það væri svipuð fjarlægð frá brotastað og að dvalarstað hans í [...] og hann minnti að hann hafi hitt strák sem ætlaði að bjóða honum þetta til sölu við skóla þar nærri. Upplýsingar þeirra á milli hafi verið sendar á Skype í tölvu. Hann hafi síðan tekið mynd af tölvunni en ekki tekið við henni. Hann neitaði því að hafa brotist inn í [...] í Kópavogi.

 

Niðurstaða:

Ákærði neitaði sök í þessum lið ákæru. Við mat á niðurstöðu lítur dómurinn til þeirra sönnunargagna sem liggja fyrir í málinu um að ákærði hafi farið inn í húsnæðið að [...] í Kópavogi og stolið þar Lenovo og Apple fartölvum.  Umræddir munir hafa ekki fundist og myndir úr síma ákærða sýna ekki ótvírætt sömu muni heldur muni sömu gerðar eða upplýsingar um samskonar muni. Rannsóknargögn um staðsetningu á síma ákærða sýna að hann var á ferðinni víða um höfuðborgarsvæðið á því tímabili sem innbrotið mun hafi verið framið og m.a. kemur ákærði inn á senda við Hamraborg, Digranes og Sléttuveg og er því mjög stutt frá brotavettvangi. Hins vegar er það mat dómsins að þær upplýsingar einar og sér nægi ekki til sakfellingar. Gegn neitun ákærða þykir ekki vera komin fram nægileg sönnun um sekt ákærða og verður hann því sýknaður af þessum ákærulið.

 

Ákæruliður II. 4. Innbrot og þjófnaður, [...] í Garðabæ. Í lögregluskýrslu kemur fram að við rannsókn á síma ákærða hafi mátt sjá mynd sem tekin hafi verið tæpum tveimur mánuðum fyrir innbrotið. Myndin mun sýna bakdyr, svalahurð og glugga þar sem mun hafa verið farið inn í íbúðina. Staðfest hafi verið að um sömu íbúð sé að ræða og innbrotið var framið í. Við húsleit heima hjá ákærða að [...] í Kópavogi lagði lögreglan hald á bakpoka og bakpokinn mun vera þýfi úr þessu máli. Þá hafi mátt sjá í síma ákærða símtöl við tvo aðila sama dag og innbrotið var framið þar sem hann hafi verið að bjóða þessum aðilum muni til sölu og að þeir munir hafi verið nákvæmlega eins munir og stolið var í þessu innbroti.

Ákærði upplýsti fyrir dómi að þetta mál væri frábrugðið öðrum málum. Hann hafi ekki tekið þessa mynd í neinum hugleiðingum um innbrot heldur hafi konan hans verið þarna í partýi og hann hafi grunað að eitthvað væri í gangi á milli hennar og húsráðanda. Hann hafi verið reiður og bitur á þessu tímabili í garð húsráðanda. Hann hafi talað við marga um það að hann þyldi ekki húsráðandann og margir hafi vitað hug ákærða til hans. Þetta kunni að vera skýring á innbrotinu þannig að einhver hafi verið að gera honum „greiða“ til að skemma fyrir þessum einstaklingi. Hann hafi hins vegar ekki vitað að þetta hafi verið gert fyrr en hann fékk nokkra hluti úr þessu innbroti. Hann upplýsti að hann hafi fengið Ipad skjátölvu úr þessu innbroti gefins sem sárabætur og að honum hefði verið boðið til kaups Reymond Weil úr en það hafi síðan verið búið að selja það auk þess sem búið hafi verið að selja fartölvuna. Ákærði var inntur eftir því hvort hann gæti gefið upplýsingar um af hverju hann hafi komið fram á símasendum stutt frá brotavettvangi og brotatíma. Ákærði svaraði því til að fram kæmi að hann hafi verið í grennd við Smáralindina en hann hafi ekki tekið þátt í innbrotinu sjálfu. Spurður um tilvist töskunnar sem fannst við leit í [...] í Kópavogi upplýsti ákærði að Ipadinn hafi verið í þessari tösku.

Vitnið I bar fyrir dómi að hafa skilað einhverju dóti til lögreglu sem hann hafði keypt af ákærða. Ákærði man eftir því að ákærði sýndi honum Raymond Weil armbandsúr.

 

            Niðurstaða:

Ákærði játaði fyrir dómi að hafa móttekið Ipad skjátölvu úr þessu innbroti vitandi að um þýfi var að ræða. Við húsleit heima hjá ákærða að [...] í Kópavogi lagði lögreglan einnig hald á bakpoka sem var þýfi úr þessu máli. Skýring ákærða um að honum hafi verið gefinn Ipad skjátölva sem eins konar sárabætur og að tölvan hafi verið afhent í bakpokanum þykir ósennileg. Þá þykir skýring ákærða á myndum sem fundust í farsíma hans og teknar voru áður en innbrotið átti sér stað, af bakdyrum, svalahurð og glugga, þar sem farið var inn í íbúðina einnig ósennileg. Hefur ákærði ekki fyrir lögreglu eða fyrir dóminum getað gert grein fyrir því svo trúverðugt sé hvernig honum hafi áskotnast umræddir hlutir eða hvers vegna umræddar myndir voru í síma hans. Að mati dómsins er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi brotist inn að [...] í Garðabæ og stolið þaðan þeim munum sem greinir í ákæru og verður hann því sakfelldur fyrir þennan ákærulið.

 

Ákæruliður II. 5. Innbrot og þjófnaður, [...] í Reykjavík. Í skýrslum lögreglu kemur fram að við rannsókn á farsíma ákærða hafi mátt sjá skilaboð sem hann sendi eftir miðnætti þann sama dag og innbrotið var framið, þar sem upplýsingar var að finna um nákvæmlega eins spjaldtölvu og stolið var í þessu innbroti. Fram kemur einnig að tjónþoli hafi séð grunsamlegar mannaferðir við húsnæði sitt nálægt brotastað og hafi séð þar aðila á bifreiðinni SO-849. Við skoðun á mynd af ákærða hafi tjónþoli talið að um sama mann væri að ræða. Ákærði bar fyrir lögreglu að hugsanlega hafi hann verið þarna á ferðinni. Þá hafi komið fram við rannsókn á staðsetningu farsíma ákærða, er brotið var framið, að hann hafi verið þar mjög nærri.

Ákærði lýsti því fyrir dómi að hann hann hafi átt margar spjaldtölvur á þessum tíma og að hann vissi ekki hvort þau skilaboð sem hér um ræðir hafi átt við þessa spjaldtölvu eða einhverja aðra. Hann kannaðist ekki við að hafa átt tóbaksdollu úr gulli og sagðist gjarnan vilja sjá svoleiðis. Ákærði var inntur eftir því hvort hann gæti gefið upplýsingar um af hverju hann hafi komið fram á símasendum stutt frá brotavettvangi og brotatíma. Ákærði svaraði því til að samkvæmt gögnum kæmi fram að hann hafi verið á Sæbrautinni. Gatan sé ein stærsta gata Reykjavíkur og að hann hafi oft keyrt þar um í erindum sínum. Einnig kom fram hjá honum að hann hafi verið mikið á ferðinni á þessum tíma, nánast alls staðar og því sé erfitt fyrir hann að útskýra einn og einn punkt á stofngötum Reykjavíkur. Ákærði neitaði því að hafa brotist inn í [...] í Reykjavík.

 

            Niðurstaða:

Ákærði neitaði sök í þessum lið ákæru. Við mat á niðurstöðu lítur dómurinn til þeirra sönnunargagna sem liggja fyrir í málinu um að ákærði hafi farið inn í húsnæðið að [...] í Reykjavík og stolið þar Ipad fartölvu, tóbaksdollu úr gulli og 200.000 krónum í reiðufé. Umræddir munir hafa ekki fundist og skilaboð úr síma ákærða gefa ekki ótvírætt upplýsingar um sömu muni og stolið var, heldur muni sömu gerðar eða upplýsingar um samskonar muni. Rannsóknargögn um staðsetningu á síma ákærða sýna að hann var á ferðinni víða um höfuðborgarsvæðið á því tímabili sem innbrotið mun hafi verið framið og m.a. kemur ákærði inn á sendi við Holtagarða og er því mjög stutt frá brotavettvangi. Vitni, sem mun hafa séð bifreiðina SO-849 nálægt brotastað og mun hafa við skoðun á mynd af ákærða talið að um sama mann væri að ræða var ekki boðaður fyrir dóminn. Það er mat dómsins að þær upplýsingar sem liggja fyrir nægi ekki til sakfellingar. Gegn neitun ákærða þykir ekki vera komin fram nægileg sönnun um sekt ákærða og verður hann því sýknaður af þessum ákærulið.

 

Ákæruliður II. 7. Innbrot og þjófnaður, Hótel [...]. Upphaf málsins má rekja til þess að upptaka úr öryggismyndavél var afhent lögreglu. Myndskeið upptöku mun sýna þegar ákærði gengur inn á hótelið en þangað mun hann hafa komið á bifreiðinni SO-849. Ákærði mun hafa farið inn á skrifstofu eða aðstöðu starfsmanna þar sem lyklum var stolið, en síðan gengið um ganga hótelsins. Ákærði bar fyrir lögreglu að hann hafi verið þarna í þeim tilgangi að selja erlendum ferðamanni kókaín, sem lögreglu mun hafa þótt ósennilegt enda mun vera hans á hótelinu hafa staðið í um það bil 50 mínútur. Þá mun þýfi úr innbrotum á hótelinu hafa komið fram við leit í bifreiðinni SO-849 auk þess sem lyklar, sem var stolið þarna munu hafa fundist við leit hjá F en ákærði mun hafa verið í símasambandi við hann bæði fyrir og eftir innbrotið.

            Fyrir dómi kannaðist ákærði við að hafa verið á brotavettvangi þennan dag. Hann sagðist hafa verið þar í þeim erindagjörðum að selja manni efni í gegnum tvo aðra stráka. Hann upplýsti að hafa hitt strákana á „English“ fyrr um daginn en þessir sömu aðilar munu hafa selt honum þýfi í tvö til þrjú skipti. Ákærði upplýsti að hafa farið niður í matsal og þar hafi hann hitt strákana aftur og þennan mann sem hann hafi selt kókaín. Hann hafi verið þarna í 40 til 50 mínútur. Ákærði upplýsti einnig að hann hafi verið í gallabuxum og stuttermabol eins og fram komi á upptökum og hafi því ekki getað verið með nein verkfæri á sér en hann hefði örugglega þurft kúbein til þess að fara þarna inn. Hann upplýsti að honum hafi verið borgað með áfengi sem hann vissi að var frá hótelinu og einnig hafi þessir tveir strákar boðið honum peningaskápa frá Hótel [...] sem hann hafi ekki haft áhuga á. Hann hafi síðan farið út bakdyramegin og þeir þá rétt honum bakpoka með áfenginu og að það hafi verið sami bakpoki og fannst í bifreiðinni SO-849. Ákærði viðurkenndi að hafa tekið lykla á hótelinu. Hann gat ekki útskýrt hvers vegna en sagði að þeir hafi ekki nýst honum á neinn hátt meðal annars vegna þess að það hefði þurft kort að hótelherbergjum. Jafnframt sagðist hann hafa verið undir miklum áhrifum fíkniefna og hafi því ekki vitað hver tilgangur hans var með því að taka lyklana. Hann lýsti því yfir að hann hafi ekki stolið þeim munum sem getið er um í ákæru nema fyrrnefndum lyklum.

            Vitnið J, hótelstjóri á Hótel [...], bar fyrir dómi að ekki hafi komið fram á upptökum aðrar „óvenjulegar“ mannaferðir á hótelinu á þeim tíma sem innbrotin hafi átt sér stað nema af ákærða þessa máls. Vitnið bar að upptökur sýni 1. hæð, móttöku og nálægð við lyftu. Upptökur hafi ekki verið á 3. og 4. hæð. Af upptökum hafi mátt sjá ákærða ganga um á 1. hæð og einnig að ákærði hafi brugðið sér inn á skrifstofu, rennt að sér með rennihurð og getað kynnt sér aðstæður. Eftir það hefði ákærði farið niður í kjallara og taldi hann víst að ákærði hefði þar brotið lás af kæliskáp, opnað hurð og síðan hafi hann farið bak við húsið þar sem hann hafi komist inn um aðra opna hurð. Vitnið upplýsti að ekki hafi verið upptökuvél á þeim hluta hússins.

 

Niðurstaða:

Í málinu liggur fyrir sönnun með myndbandsupptöku á því að ákærði var á Hótel [...] á þeim tíma sem innbrot munu hafa átt sér stað og ákærði hefur viðurkennt að hafa verið á vettvangi þennan dag. Þá liggur fyrir játning ákærða á því að hafa stolið lyklum á hótelinu. Einnig kom fram þýfi úr innbrotum á hótelinu við leit í bifreiðinni SO-849 sem ákærði hafði umráð yfir. Ekki hafa komið fram nein gögn því til staðfestingar að aðrar óvenjulegar mannaferðir hafi verið á hótelinu á sama tíma og ákærði, og ákærði hefur ekki gefið neinar upplýsingar um þá aðila sem hann nefndi sem gætu leitt til upplýsinga um meintan þátt þeirra í innbrotunum. Hefur ákærði ekki fyrir lögreglu eða fyrir dóminum getað gert grein fyrir því svo trúverðugt sé hvernig honum hafi áskotnast umræddir hlutir. Að mati dómsins er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi brotist inn í kæliskáp og fimm hótelherbergi á 3. og 4. hæð á Hótel [...] og stolið þaðan þeim munum sem greinir í ákæru og verður hann því sakfelldur fyrir þennan ákærulið.

 

Ákæruliður III. 1. Innbrot og þjófnaður/hylming, [...],[...] Reykjavík. Fram kemur í  lögregluskýrslu að við rannsókn á farsíma ákærða hafi mátt sjá ljósmynd af Toshiba fartölvu. Myndin mun hafa verið tekin 11 klst. áður en innbrotið var tilkynnt. Sama tegundarheiti mun hafi verið á tölvunni á myndinni og afriti af reikningi við kaup á tölvunni. Þá hafi við rannsókn á staðsetningu farsíma ákærða er brotið var framið, komið fram að hann hafi verið þar mjög nærri.

            Ákærði sagði fyrir dómi að hann hefði verið staddur á „Catalínu“ í Hamraborginni þegar ungur íslenskur strákur hafi boðið honum að kaupa þessa tölvu. Hann hafi tekið mynd af henni í þeim tilgangi að athuga hvað svona tölva kostar, en hann hafi ekki keypt hana. Ákærði var inntur eftir því hvort hann gæti gefið upplýsingar um af hverju hann hafi komið fram á símasendum stutt frá brotavettvangi og brotatíma. Ákærði gat ekki útskýrt hvers vegna hann hafi komið fram í þessum símaupplýsingum en skýringin kunni að hafa verið sú að þar sé pókerklúbbur sem hann hafi stundað mikið á Grensásveginum og annar pókerklúbbur hjá Broadway. Ákærði kvaðst aldrei hafa fengið þessa tölvu í hendur og neitaði því að hafa brotist inn í [...] og stolið þaðan Toshiba fartölvu.

             

            Niðurstaða:

            Ákærði neitaði sök í þessum lið ákæru. Við mat á niðurstöðu lítur dómurinn til þeirra sönnunargagna sem liggja fyrir í málinu um að ákærði hafi farið inn í húsnæði [...] að [...] í Reykjavík og stolið þar Toshiba fartölvu. Umrædd fartölva hefur ekki fundist og mynd sem var tekin á síma ákærða sýnir ekki svo sannað sé þá tölvu sem var stolið heldur tölvu sömu gerðar eða upplýsingar um samskonar tölvu. Rannsóknargögn um staðsetningu á síma ákærða sýna að hann var á ferðinni víða um höfuðborgarsvæðið á því tímabili sem innbrotið mun hafa verið framið og m.a. kemur ákærði inn á senda við Mörkina og í Skeifunni og er því mjög stutt frá brotavettvangi. Það er mat dómsins að framkomnar upplýsingar nægi ekki einar og sér til sakfellingar. Gegn neitun ákærða þykir ekki vera komin fram nægileg sönnun um sekt ákærða og verður hann því sýknaður af þessum ákærulið, bæði af þjófnaði og hylmingu.

 

Ákæruliður III. 2. Innbrot og þjófnaður/hylming, [...],[...] í Reykjavík. Fram kemur í lögregluskýrslum að við rannsókn á farsíma ákærða hafi mátt sjá mynd sem hafi verið tekin tveimur dögum áður en innbrotið var tilkynnt. Myndin mun hafa verið af sama tölvuturni og stolið var í þessu innbroti. Þá mun ákærði hafa haft samband við starfsmann sem vinnur í húsnæðinu. Sá starfsmaður hafi sagt að ákærði hafi ekki komið til sín né þekkti starfsmaðurinn til hans. Í ljós hafi hins vegar komið að talsvert af sms skeytum hafi farið milli starfsmannsins og ákærða og af þeim hafi mátt sjá að þau þekktust mjög vel. Einnig hafi komið fram mörg símtöl milli þeirra sama dag og innbrotið var framið. Þá hafi skjávarpi sem var haldlagður hjá ákærða fyrr í sumar, verið staðfestur sem þýfi úr þessu máli en tjónþoli hafi átt reikning með raðnúmeri því til staðfestingar. Þá hafi komið fram í rannsókn á staðsetningu farsíma ákærða, er brotið var framið, að hann hafi verið þar mjög nærri.          Ákærði játaði hylmingu á skjávarpa við þingfestingu málsins. Ákærði sagði fyrir dómi að hann hafi ekki keypt þennan tölvuturn en að hann hafi keypt skjávarpann til eigin nota. Á sama hátt og fram hafi komið í öðrum ákæruliðum hafi hann tekið mynd af tölvuturninum og skjávarpanum í því skyni að athuga með verðmæti þeirra muna, enda hafi hann ekki viljað tapa á kaupunum. Hann hafi hins vegar ekki verið að bjóða skjávarpann til sölu heldur ætlað hann til eigin nota. Ákærði var inntur eftir því hvort hann gæti gefið upplýsingar um af hverju hann hafi komið fram á símasendum stutt frá brotavettvangi og brotatíma, s.s. á Smiðjuvegi. Ákærði taldi Smiðjuveg ekki vera í nágrenni brotavettvangs og að það væru punktar um allt í rannsóknarskýrslunni og hann muni ekki hvar hann var í öllum tilfellum auk þess sem hann hafi verið í mikilli neyslu á þessum tíma. Ákærði neitaði að hafa brotist inn í [...] í Reykjavík og stolið þeim munum sem nefndir eru í ákæru.

 

            Niðurstaða:

Ákærði neitaði að hafa brotist inn [...] í Reykjavík og stolið þar borðtölvu og Dell skjávarpa. Hann játaði hins vegar hylmingu á skjávarpanum. Við mat á niðurstöðu lítur dómurinn til þeirra sönnunargagna sem liggja fyrir í málinu. Umrædd tölva hefur ekki fundist en mynd sem var tekin á síma ákærða sýnir ótvírætt sama tölvuturn og stolið var í þessu innbroti. Þá var skjávarpi, sem haldlagður var hjá ákærða, staðfestur sem þýfi úr þessu máli. Rannsóknargögn um staðsetningu á síma ákærða sýna að hann var á ferðinni víða um höfuðborgarsvæðið á því tímabili sem innbrotið mun hafa verið framið og m.a. kemur ákærði tvívegis inn á senda við Mörkina og er því mjög stutt frá brotavettvangi. Að mati dómsins er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi brotist inn í [...] í Reykjavík og stolið þar borðtölvu og Dell skjávarpa og verður hann því sakfelldur fyrir þjófnað í þessum ákærulið.

 

Ákæruliður III. 3. Innbrot og þjófnaður/hylming, [...] í Reykjavík. Í lögregluskýrslu kemur fram að við rannsókn á farsíma ákærða hafi mátt sjá mynd af Fossil armbandsúri sem tekin hafi verið sama dag og innbrotið var framið en þar var m.a. stolið slíku úri. Einnig fundust skartgripir úr þessu innbroti sem ákærði hafði selt í versluninni Fríða frænka auk þess sem minniskort úr myndavél og húslyklar, sem stolið var í þessu innbroti, hafi fundist við leit á heimili ákærða að [...] í Kópavogi. Þá hafi fundist PSP leikjatölva á heimili barnsmóður ákærða sem staðfest hafi verið að hafi komið úr þessu innbroti. Þá hafi, við rannsókn á staðsetningu á farsíma ákærða á þeim tíma er brotið var framið, komið fram að hann hafi verið þar mjög nærri.

Ákærði játaði hylmingu í þessum lið við þingfestingu málsins en dró til baka játningu sína við upphaf aðalmeðferðar á GoPro stafrænni upptökuvél. Ákærði bar fyrir dómi að hann myndi ekki eftir því hvernig húslyklarnir hafi komist í hans vörslu en sennilega hafi þeir komið með einhverri tösku með öðru sem hann hafi verslað úr þessu innbroti. Hann sagði að myndin af Fossil úri hafi verið í síma hans af því að honum hafi verið boðið úrið til sölu. Ákærði var inntur eftir því hvort hann gæti gefið upplýsingar um af hverju hann hafi komið fram á símasendum stutt frá brotavettvangi og brotatíma. Ákærði svaraði því til að foreldrar hans búi að [...] í Kópavogi og hann hafi verið heima hjá þeim þennan dag. Ákærði neitaði því að hafa brotist inn í [...] í Reykjavík og stolið þeim munum sem nefndir eru í ákæru.

 

            Niðurstaða:

Ákærði neitaði að hafa brotist inn í [...] í Reykjavík og stolið þar þeim munum sem greinir í ákæru. Hann játaði hins vegar hylmingu munanna nema um GoPro stafræna myndavél. Við mat á niðurstöðu lítur dómurinn til þeirra sönnunargagna sem liggja fyrir í málinu. Minniskort úr myndavél og húslyklar, sem stolið var í þessu innbroti, fundust við leit á heimili ákærða að [...] í Kópavogi og hefur ákærði ekki gefið trúverðuga skýringu á því hvers vegna þeir munir voru þar. Þá fannst PSP leikjatölva á heimili barnsmóður ákærða sem staðfest er að kemur úr þessu innbroti. Auk þessa hafa fundist skartgripir úr þessu innbroti sem ákærði hafði selt í versluninni Fríða frænka. Rannsóknargögn um staðsetningu á síma ákærða sýna að hann var á ferðinni í Reykjavík á því tímabili sem innbrotið mun hafa verið framið en þó hvað mest, samkvæmt símasendum, í Rima eða Borgarhverfi og er því mjög stutt frá brotavettvangi. Að mati dómsins er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi brotist inn í [...] í Reykjavík og stolið þeim munum sem greinir í ákæru  og verður hann því sakfelldur fyrir þjófnað í þessum ákærulið.

 

Ákæruliður III. 4. Innbrot og þjófnaður/hylming, [...] í Reykjavík. Í skýrslum lögreglu kemur fram að skartgripakassinn, söfnunarmyntin og bæði armbandsúrin sem munu hafi verið úr þessu innbroti, hafi fundist á heimili ákærða að [...] í Kópavogi þann 10. júlí 2013 er lögregla hafi framkvæmt leit í húsnæðinu. Þá hafi við rannsókn á staðsetningu farsíma ákærða, er brotið var framið, komið fram að hann hafi verið þar mjög nærri vettvangi.

Ákærði játaði hylmingu í þessum lið við þingfestingu málsins en dró til baka játningu sína um hylmingu við upphaf aðalmeðferðar á þeim forsendum að hlutirnir hafi ekki fundist og því hafi hann ekki getað játað hylmingu. Ákærði bar síðan fyrir dómi að skartgripakassann hafi hann fengið í skiptum fyrir fíkniefni. Strákur sem hafi skuldað honum peninga hafi komið með hann til sín. Hann taldi að strákurinn hafi farið illa með sig því að honum hafi verið sagt síðar að skartgripirnir væru verðlitlir. Hann mundi ekki eftir því að hafa fengið armbandsúr úr þessu innbroti. Ákærði var inntur eftir því hvort hann gæti gefið upplýsingar um af hverju hann hafi komið fram á símasendum stutt frá brotavettvangi og brotatíma. Ákærði benti á að hann hafi komið inn á sendi í öðru bæjarfélagi samkvæmt þeim símagögnum. Ákærði neitaði því að hafa brotist inn í [...] í Reykjavík og stolið þeim munum sem nefndir eru í ákæru.

            Vitnið K, starfsmaður lögreglu, bar að símagögn hafi sýnt símtöl og sms-sendingar. Hann bar að netið sé þétt á höfuðborgarsvæðinu og því sé yfirleitt ekki um langar fjarlægðir að ræða milli senda og að sendingar komi oftast inn á þann sendi sem er næstur hverju sinni eða þar sem merkið er sterkast. Aðspurður hvernig vitnið gæti skýrt það að símagögn hafi sýnt að ákærði hafi verið í Bjarmalandi í Reykjavík þegar símagögn hafi sýnt að sendar í Kópavogi hafi móttekið sendingar hans, skýrði vitnið það með því að Bjarmaland sé neðst í Fossvogsdalnum og einn möguleikinn hafi verið sá að sendar hinum megin í Kópavogi hafi tekið upp sendingarnar sem hafi verið í beinni loftlínu frá brotastað og merkið þar sterkast.

 

            Niðurstaða:

            Ákærði neitaði að hafa brotist inn í [...] í Reykjavík og stolið þar þeim munum og peningum sem greinir í ákæru. Við mat á niðurstöðu lítur dómurinn til þeirra sönnunargagna sem liggja fyrir í málinu. Ákærði dró til baka játningu sína um hylmingu á þessum lið á þeim forsendum að munir hafi ekki fundist. Í skýrslum lögreglu kemur hins vegar fram að skartgripakassinn, söfnunarmyntin og bæði armbandsúrin, sem hafi verið úr þessu innbroti, hafi fundist á heimili ákærða að [...] í Kópavogi þann 10. júlí 2013 er lögregla hafi framkvæmt þar leit. Rannsóknargögn um staðsetningu á síma ákærða sýna að hann var á ferðinni á því tímabili sem innbrotið mun hafi verið framið og sendingar ákærða komu fram á sendum í Gullsmára og á Smiðjuvegi í Kópavogi. Vitnið K starfsmaður lögreglu, gaf nokkuð sannfærandi skýringu á því fyrir dómi hvers vegna sendar í Kópavogi en ekki í Reykjavík kunni að hafa numið sendingar ákærða en það stafi af því að Bjarmaland sé neðst í Fossvogsdal og sendar í Kópavogi séu í beinni loftlínu þar frá. Að mati dómsins er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi brotist inn í [...] í Reykjavík og stolið þeim munum sem greinir í ákæru  og verður hann því sakfelldur fyrir þjófnað í þessum ákærulið.

 

Ákæruliður III. 5. Innbrot og þjófnaður/hylming, [...] í Reykjavík. Í lögregluskýrslum kemur fram að allt þýfi úr þessu innbroti hafi fundist við leit í bifreiðinni SO-849 þann 6. júlí 2013 eða tveimur dögum eftir að innbrotið var framið. Ákærði játaði hylmingu í þessum lið við þingfestingu málsins.

Fyrir dómi sagði ákærði að hann hafi játað hylmingu á þeim forsendum að munirnir hafi verið í bíl sem hann hafði til umráða þegar hann var stöðvaður en átti ekki sjálfur. Hann upplýsti að 6-7 aðilar hafi notað þessa bifreið á þessum tíma og hann viti í raun ekkert hvaðan þessir hlutir hafi komið.

 

Niðurstaða:

Ákærði neitaði sök um þjófnað í þessum lið ákæru en játaði hylmingu. Við mat á niðurstöðu lítur dómurinn til þeirra sönnunargagna sem liggja fyrir í málinu um að ákærði hafi farið inn í húsnæðið að [...] í Reykjavík og stolið þar þeim munum sem getið er um í ákæru. Þýfi málsins fannst við leit í bifreiðinni SO-849 þann 6. júlí 2013. Ekki liggja fyrir önnur gögn eða aðrar upplýsingar í málinu. Í máli ákæruvaldsins var lögð á það áhersla að símagögn málsins væru metin í heild og með þeim mætti sjá ákveðið mynstur í öllum málunum. Engin símagögn liggja hins vegar fyrir um þennan lið ákæru og má fallast á það með verjanda að spurningar hljóta að vakna hvers vegna ekki. Þá hefur komið fram í málinu að hugsanlega hafi fleiri en ákærði nýtt umrædda bifreið á þeim tíma sem liðinn var frá innbroti. Það er mat dómsins að gegn neitun ákærða nægi framkomnar upplýsingar ekki til sakfellingar á þjófnaðarhluta þessa ákæruliðar. Ákærði játaði hylmingu á broti þessu og verður honum gerð refsing fyrir hylmingu á þeim munum sem greinir í ákæru sem er réttilega heimfærð til refsiákvæðis.

 

Ákæruliður III. 6. Innbrot og þjófnaður/hylming, [...] á Álftanesi. Fram kemur í skýrslum lögreglu að Canon linsa og flass, ásamt bakpoka, og lyklar af Suzuki bifhjóli sem munu vera úr þessu innbroti, hafi fundist við leit í bifreiðinni SO-849 þann 6. júlí 2013. Þá hafi þjóðbúningabelti fundist í versluninni Fríðu frænku en að sögn kunningja ákærða mun hann ásamt ákærða hafa selt versluninni beltið. Sami aðili bar einnig fyrir lögreglu að ákærði hafi komið með mótorhjól og bakpoka og beðið sig að geyma þessa muni í bílskúrnum hjá sér og að því loknu beðið sig að skutla sér út á Álftanes og að hann hafi skutlað honum einhvers staðar í [...] á Álftanesi. Ákærði bar fyrir lögreglu að hafa keypt þetta þýfi af nafngreindum aðila og að með honum hafi verið útlendir strákar. Þá hafi við rannsókn á staðsetningu farsíma ákærða, er brotið var framið, komið fram að hann hafi verið mjög nærri vettvangi.

Ákærði játaði hylmingu í þessum lið við þingfestingu málsins. Ákærði bar fyrir dómi að hann hafi ekki vitað að hjólið væri tengt þessu innbroti. Tveir strákar sem hann hafi nefnt í skýrslutöku hjá lögreglu hafi selt honum tösku fulla af „drasli“, Ipad spjaldtölvu og belti sem hann hafi vitað að var þýfi. Strákana hafi hann hitt í Engihjallanum við gömlu gróðrarstöðina. Þar hafi þeir afhent honum töskuna og boðið honum hjólið til sölu en hann hafi ekki tengt það þessu innbroti. Þeir hafi boðið honum að kaupa hjólið á 200.000 kr. en það hafi þurft að fara leynt því að kona mannsins hafi ekki mátt vita að hann væri að selja það. Þeir hafi lýst því fyrir honum hvar hjólið væri niðurkomið á Álftanesi. Hann hafi þá keyrt út á Álftanes, skilið bílinn eftir í [...], keyrt á hjólinu til félaga síns þar sem hann hafi fengið að geyma það. Í framhaldi af því hafi félagi hans skutlað honum aftur út á Álftanes að sækja bílinn. Hann upplýsti að ef hann hefði vitað að hjólið væri úr innbroti á þessum stað þá hefði hann aldrei farið þangað að sækja hjólið og síðan aftur til að sækja bílinn, á stað þar sem nýbúið væri að brjótast inn, hvað þá á Álftanesi þar sem allir þekktu alla. Hann kvaðst ekki hafi verið búinn að greiða fyrir hjólið. Ákærði upplýsti að þegar hann hafi vitað að hjólið væri úr þessu innbroti þá hafi hann látið lögreglu vita hvar hjólið væri. Ákærði var inntur eftir því hvort hann gæti gefið upplýsingar um af hverju hann hafi komið fram á símasendum stutt frá brotavettvangi og brotatíma kl. 09:00 um morguninn. Ákærði kvaðst annað hvort hafa verið að sækja hjólið eða bílinn á þeim tíma. Ákærði neitaði því að hafa brotist inn í [...] á Álftanesi og stolið þeim munum sem nefndir eru í ákæru.

 

Niðurstaða:

Í skýrslutöku fyrir lögreglu þann 7. júlí 2013, upplýsti ákærði að maður sem hann nefnir L, kallaður L, hafi gengið að honum við Engihjalla á milli kl. 17:00-18:00 þann 6. júlí 2013 og boðið honum að kaupa muni úr þessu innbroti. Munirnir hafi allir verið í tösku ásamt lyklunum að mótorhjólinu. Í skýrslutöku fyrir lögreglu þann 11. júlí 2013 þegar ákærði var beðinn að gera frekari grein fyrir L kom fram að hann hafi alltaf verið með tveimur Pólverjum, M og N. Í skýrslutöku fyrir lögreglu þann 12. júlí 2013 upplýsti ákærði þegar hann var spurður um hvernig bíl L hafi verið á „hann var ekki á bíl og M stóð við hjólið“. Jafnframt kom þá fram að með L hafi verið einn aðili, Lithái eða Pólverji. Í skýrslutöku 18. júlí 2013, spurður um hvort hann vilji breyta eða bæta við fyrri framburð, sagði ákærði, „Nei ég er búinn að gefa upp allt sem ég veit í þessu máli. M, L og held að þriðji strákurinn heiti O. Ég er samt ekki viss á því“. Í þeirri skýrslutöku og fyrir dómi kom fram að ákærði hafi sótt hjólið ásamt hjálminum og mótorhjólagallanum út á Álftanes þrátt fyrir að í skýrslutöku þann 12. júlí 2013 hafi hann upplýst að M hafi staðið við hjólið væntanlega við garðskálana í Kópavogi. Framburður ákærða er mjög ótrúverðugur um þá aðila sem hann á að hafa hitt í tengslum við þetta mál, bæði hvað varðar nöfn þeirra, þjóðerni og fjölda. Þá er framburður ákærða ótrúverðugur um hvar hjólið hafi verið niðurkomið, en það var annaðhvort að hans sögn í Kópavogi eða á Álftanesi. Þá kemur fram að ákærði hafi hitt nefnda aðila í Kópavogi á milli kl. 17:00 og 18:00 þann 6. júlí 2013 þar sem honum var boðið til kaups þýfi þessa máls. Þegar ákærði var spurður af hverju hann hafi komið fram á símasendum stutt frá brotavettvangi og brotatíma kl. 09:00 um morguninn 6. júlí 2013, svaraði hann því til að hann hafi annaðhvort verið að sækja hjólið eða bílinn sinn á þeim tíma. Það má ljóst vera að þessar tímasetningar ganga ekki upp því að samkvæmt framburði hans sjálfs voru honum ekki boðnir munir þessa máls. þ.á.m. hjólið, til kaups fyrr en síðar þann sama dag eða milli kl. 17:00 og18:00. Eins og fram hefur komið þá fundust munir úr þessu innbroti við leit í bíl sem ákærði hafði til umráða. Þá fundust munir heima hjá kunningja ákærða og staðfest er með framburði ákærða sjálfs að ákærði bað hann að geyma umrædda muni fyrir sig. Einnig fundust munir úr innbrotinu í verslun sem hafði keypt þá af ákærða. Ákærði hefur ekki neitað að hafa haft þessa muni undir höndum og að hann hafi vitað að um þýfi var að ræða a.m.k. að hluta. Rannsóknargögn um staðsetningu á síma ákærða sýna að hann var á ferðinni á Álftanesi um kl. 09:00 um morguninn sem innbrotið var framið og aftur rétt eftir kl. 13:00, en í bæði skiptin kemur sími ákærða fram á sendi við Landakot sem stendur við [...] á Álftanesi. Að mati dómsins er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi brotist inn í [...] á Álftanesi og stolið þeim munum sem greinir í ákæru  og verður hann því sakfelldur fyrir þjófnað í þessum ákærulið.

 

Ákæruliður III. 7. Þjófnaður/hylming, bifreiðastæði við Bláa lónið. Í lögregluskýrslu kemur fram að við rannsókn á farsíma ákærða hafi mátt sjá skilaboð sem ákærði hafi sent úr farsíma sínum sama dag og þjófnaðurinn átti sér stað. Þar hafi komið fram eftirfarandi skilaboð: „iPhone 5 hvítur, ekki ein rispa á honum .. 50K 16gb“. Ekki sé kunnugt um hver hafi keypt símann. Við húsleit að [...] í Vogum hinn 9. ágúst sl. hafi lögreglan hins vegar lagt hald á myndavél ásamt tösku sem var stolið í umrætt sinn. Þá hafi mátt sjá við rannsókn á símagögnum að á umræddu tímabili, þegar þjófnaður átti sér stað, hafi ákærði verið staddur í námunda við Blá lónið. Ákærði játaði hylmingu á myndavél við þingfestingu málsins.

            Þegar ákærði var spurður fyrir dómi hvernig myndavélin hafi verið komin í hans vörslur svaraði ákærði því til að hann hefði keypt þessa myndavél. Hann hafi farið með félaga sínum í Bláa lónið ekki í neinum annarlegum tilgangi heldur til að slaka á í Bláa lóninu. Hann hafi hins vegar áður en hann vissi af séð félaga sinn koma með „dót“ úr bíl og að hann hafi nýtt sér það og keypt þá muni. Hann sagðist hafa ætlað að kaupa Iphone 5 símann en ekki gert. Ákærði kvaðst ekki vilja nefna hver hafi verið með honum í þetta skipti m.t.t. öryggis hans og fjölskyldu hans.

 

            Niðurstaða:

Ákærði neitaði að hafa stolið Iphone síma og Canon stafrænni myndavél úr bifreið við Bláa lónið en játaði hylmingu á myndavélinni. Við mat á niðurstöðu lítur dómurinn til þeirra sönnunargagna sem liggja fyrir í málinu. Við rannsókn á farsíma ákærða mátti sjá skilaboð sem ákærði sendi úr farsíma sínum sama dag og þjófnaðurinn átti sér stað. Umræddur sími hefur hins vegar ekki fundist og skilaboðin eiga ekki ótvírætt við um þann síma sem var stolið þótt hann sé sömu gerðar. Ákærði hefur hins vegar játað að hafa verið í Blá lóninu á þeim tíma sem þjófnaður átti sér stað. Rannsóknargögn um staðsetningu á síma ákærða staðfesta það einnig. Við húsleit að [...] í Vogum hinn 9. ágúst sl. lagði lögreglan hald á myndavélina sem ákærði upplýsti um að hafa keypt. Ekki hafi komið fram neinar upplýsingar um að ákærði hafi verið með öðrum á ferð sinni í Bláa lóninu, í það minnsta hefur ákærði sjálfur ekki viljað upplýsa um þann þátt málsins. Að mati dómsins er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi stolið þeim munum sem greinir í ákæru og verður hann því sakfelldur fyrir þjófnað í þessum ákærulið á þeim munum sem greinir í ákæru.

 

Ákæruliður IV. 2.  Hylming, rifflar og haglabyssa. Í lögregluskýrslum kemur fram að myndir af þremur skotvopnunum hafi fundist í farsíma ákærða. Myndirnar hafi verið teknar áður en innbrot að [...] í Reykjavík var tilkynnt og munu koma úr því innbroti og því hafi ákærði verið með skotvopnin mjög stuttu eftir að brotist var þar inn. Skotvopn þessi munu ekki hafa fundist.

            Fyrir dómi sagði ákærði að honum hafi verið boðnar þessar byssur til kaups, en að það hafi ekki gengið lengra en það. Hann hafi bara tekið myndir af þeim en síðan hafi ekkert orðið úr kaupum, enda sé honum illa við byssur, hann hafi ekki byssuleyfi og mjög alvarlegt sé að vera með slík vopn undir höndum.

Vitnið I bar fyrir dómi að ákærði hafi sýnt honum mynd af riffli en hann hafi ekki verið með hann með sér.

 

Niðurstaða:

Ákærði neitaði því að hafa haft í vörslum sínum þá riffla og haglabyssu sem greinir í ákæru. Sannað þykir að ákærði var með myndir í farsíma sínum af umræddum vopnum en vopnin hafa ekki fundist. Það er  mat dómsins að framkomnar upplýsingar nægi ekki einar og sér til sakfellingar. Gegn neitun ákærða þykir ekki vera komin fram nægileg sönnun um að ákærði hafi haft vopnin í vörslum sínum og fær sú niðurstaða stoð í framburði vitnisins. Verður hann því sýknaður af hylmingu í þessum ákærulið.

 

Ákæruliður IV. 8. Hylming, Dell fartölva. Í lögregluskýrslum kemur fram að Dell fartölva hafi fundist við húsleit að [...] í Vogum þann 9. ágúst sl. sem ákærði hafi haft vörslur á vitandi að um þýfi var að ræða. Ákærði neitaði aðild að þessu máli fyrir lögreglu.

Fyrir dómi sagði ákærði að hann hefði ekkert komið nálægt þessu máli á einn eða neinn hátt. Hann sagðist ekki vera með dvalarstað að [...] í Vogum en gjarnan hafa dvalið þar. Hann upplýsti að C og D ættu heima þar. Þá hafi oft verið fullt af „drasli“ á staðnum, enda hafi þeim eins og honum oft verið boðnir hlutir til kaup auk þess sem margir hafi komið og farið að [...] í Vogum og oft hafi hlutir verið skildir þar eftir.

 

Niðurstaða:

Ákærði hefur neitað sök í þessu máli. Tölvan fannst við húsleit að [...] í Vogum þann 9. ágúst sl. Í málinu liggur fyrir að ákærði bjó ekki þar sem tölvan fannst. Ekki liggur fyrir bein sönnun þess efnis að ákærði hafi haft vörslur umrædds þýfis og því ekki útilokað að húsráðendur eða aðrir hafi haft umráð þýfisins. Gegn neitun ákærða þykir ekki vera komin fram nægileg sönnun um að ákærði hafi haft vörslur á Dell fartölvu vitandi að um þýfi var að ræða og verður hann því sýknaður af þessum ákærulið.

 

Ákæruliður IV. 9. Hylming, Iphone 4 farsími. Í lögregluskýrslum kemur fram að síminn hafi fundist við húsleit að [...] í Vogum þann 9. ágúst sl. Við rannsókn á símakerfinu hafi komið í ljós að ákærði hafi byrjað að nota símann tveimur dögum eftir að áætlaður þjófnaður átti sér stað. Ákærði neitaði aðild að þessu máli hjá lögreglu og sagðist hafa keypt símann sjálfur.

 Fyrir dómi sagði ákærði að þetta hafi verið hans einkasími, hann hafi átt hann lengi og að hann hafi ekki átt að vera þýfi. Hann sagði símann ekki hafa verið keyptan úti í búð en hann hefði fundist í leigubíl. Hann sagðist hafa farið bæði í Nova og Vodafone til að athuga hvort hann væri stolinn og hann hafi fengið þær upplýsingar að svo væri ekki. Honum fannst því skrítið að hann væri nú orðinn þýfi því að samkvæmt lögregluskýrslu munu margir hafa átt þennan síma án þess að það væri sérstaklega tilkynnt.

 

Niðurstaða:

Ákærði hefur neitað sök í þessu máli. Iphone 4 síminn fannst við húsleit að [...] í Vogum og staðfest er af símagögnum og framburði ákærða að hann var með vörslur hans. Ekki liggur fyrir að ákærði hafi stolið símanum. Ekkert hefur komið fram í málinu um það hvenær eða hjá hverjum hann fékk símann en ákærði sagðist hafa átt hann lengi og að hann hafi ekki átti að vera þýfi en hefði fundist í leigubíl. Í lögregluskýrslu, þegar ákærði er spurður um hvar hann hafi fengið símann, svaraði hann því til að hann hafi keypt símann í Nova á sinni kennitölu. Einnig kom fram í lögregluskýrslu að ákærði kvaðst hafa keypt símann fyrir einu og hálfu eða tveimur árum. Umræddum síma mun hafi verið stolið 8. maí 2013 og ákærði byrjað að nota hann tveimur dögum síðar. Ákærði hefur því haft vörslur símans í u.þ.b. þrjá mánuði þar til hann var handtekinn. Ákærði keypti ekki umræddan síma sjálfur og miðað við lýsingar ákærða sjálfs fyrir dómi um það hvernig þýfi gekk kaupum og sölum gat honum varla dulist að síminn væri einnig þýfi. Að mati dómsins er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi haft vörslur á Iphone 4 síma vitandi að um þýfi var að ræða og verður hann því sakfelldur fyrir hylmingu í þessum ákærulið.

 

Ákæruliður V. 1. Innbrot, þjófnaður og nytjastuldur, H ehf., [...] í Reykjavík. Fram kemur í lögregluskýrslum að töskur hafi fundist við húsleit þann 10. júlí sl. að [...] í Kópavogi þar sem ákærði var búsettur. Einnig fundust töskur við húsleit í [...] í Vogum. Staðfest hafi verið að töskur þessar hafi verið teknar í þessu innbroti og að í þeim hafi m.a. fundist karlmannsarmband með nafni ákærða. Þá hafi komið fram í rannsókn á staðsetningu farsíma ákærða, er brotið var framið, að hann hafi verið þar mjög nærri auk þess sem hann hafi tekið leigubíla í nágrenni brotastaðar þá sömu nótt. Ákærði bar fyrir lögreglu að hafa fundið töskurnar með 1.500 kr. við Ártúnsbrekku.

            Spurður fyrir dómi um hvernig hafi staðið á því að þessar töskur hafi fundist á heimili hans sagði ákærði að hann hafi fundið þessar töskur í vegkantinum undir brúnni við Ártúnsbrekku, rétt hjá Ingvari Helgasyni. Hann hafi fyrst talið að um eina tösku hafi verið að ræða og farið með hana heim og þá hafi komið í ljós að það voru fjórar töskur ofan í þeirri tösku. Hann hafi hins vegar ekkert gert meira með þær. Spurður um hvort hann hafi notað töskurnar af því að í þeim hafi fundist armband merkt honum, sagði ákærði það ekki rétt. Honum fannst einkennilegt að tölvutaskan hafi fundist í [...] í Vogum með fartölvupoka „MB“ og í þeim hafi verið skartgripir hans. Ákærði taldi að þessi „MB“ fartölvupoki hafi aldrei verið ofan í neinni tölvutösku heldur fundist ofan í skúffu í [...] í Kópavogi samkvæmt munaskrá lögreglu. Ákærði upplýsti að tölvutaskan sem hafi fundist úr þessu innbroti í [...] í Vogum hafi ekki verið á hans vegum. Aðspurður af hverju hann hafi tekið töskurnar sagði ákærði að hann hefði talið sig hafa lent í lukkupotti, talið að þetta væru uppgjörstöskur úr banka. Hann taldi jafnframt að það hefði ekki verið sniðugt í hans stöðu að hringja í lögreglu og tilkynna um þær. Ákærði var inntur eftir því hvort hann gæti gefið upplýsingar um af hverju hann hafi komið fram á símasendum stutt frá brotavettvangi og brotatíma og um ferðir hans með leigubílum þá nótt sem innbrotið var framið. Ákærði upplýsti að hann ætti 25% hlut í fyrirtæki að [...] í Reykjavík og að hann hafi verið að sækja bíl upp á Hamarshöfða sem hann hafi farið með í Naustabryggju auk þess sem hann hafi farið í partý í Fossvogi og síðan heim. Spurður um hvort það hafi verið tekin fingraför af honum vegna nytjastuldar sagði hann það ekki hafi verið gert, það væru til fingraför af honum hjá lögreglu. Þá sagðist hann ekki hafa lyklavöld að þessu húsnæði sem brotist var inn í né lyklavöld að peningaskáp sem þar sé, auk þess sem hann kannist ekki við neinn eða að hafa haft nein samskipti við neinn úr þessu fyrirtæki. Ákærði neitaði því að hafa farið inn að [...] í Reykjavík, aðstöðu H ehf. og stolið þeim munum sem greinir í ákæru. Hann sagðist ekki geta séð af lögregluskýrslum að þarna hafi verið farið inn á neinn hátt því að lyklar hafi verið notaðir að hurð og peningaskáp. Ákærði taldi að ef hann hefði fengið meira en tvær milljónir íslenskra króna auk 1.900 evra hefði hann ekki verið að sýsla með þýfi nokkrum dögum seinna, auk þess sem hann hefði þá sennilega keypt sér einhverja dýra muni eins og húsmuni eða farið til útlanda.

            Vitnið P lögreglumaður bar fyrir dómi að hann hafi ekki sjálfur rannsakað brotavettvang heldur tekið síðar við málinu. Aðspurður taldi hann að ekki hafi komið fram nein ummerki um innbrotið sjálft. Einnig kom fram hjá vitninu að starfsmenn H ehf. hafi ekki verið kallaðir til skýrslutöku hjá lögreglu. Vitnið staðfesti að í tölvutöskunni, sem fannst í [...] í Vogum og staðfest hafi verið að hafi komið úr þessu innbroti, hafi fundist önnur taska, lítil fartölvutaska með munum, armböndum og fleira sem hafi m.a verið merktir honum og að lögreglan hafi spurt ákærða út í þetta í skýrslutöku og að hann hafi þar staðfest að þetta væru munir frá honum. Jafnframt kom fram hjá vitninu að uppgjörstöskurnar hefðu fundist í [...] í Kópavogi. Spurður um rannsókn á fingrafari á kveikjuláslykli bifreiðarinnar [...], sem samkvæmt lögregluskýrslu mun sannarlega hafa verið sýnilegt, þá gat vitnið ekki gefið svör um það.

 

            Niðurstaða:

            Ákærði hefur neitað sök í þessu máli. Í ákæru greinir að ákærði hafi ekið frá brotavettvangi á bifreiðinni [...]. Í gögnum málsins er að finna upplýsingar um að kveikjuláslykill bifreiðarinnar hafi fundist í bifreiðinni sjálfri og hafi sýnileg fingraför verið á þeim. Hins vegar er ekki að sjá í gögnum málsins neitt frekar um rannsókn þess hluta málsins og því ekki sannað að fingraför ákærða eða annarra hafi verið á kveikjuláslyklunum. Ekkert var fjallað frekar um þennan hluta málsins fyrir dómi. Gegn neitun ákærða þykir ekki vera komin fram nægileg sönnun um að ákærði hafi stolið kveikjuláslyklum að bifreiðinni [...] og ekið af vettvangi. Verður hann því sýknaður af stuldi á nefndum kveikjuláslykli og nytjastuldi í þessum ákærulið.

            Í munaskrá lögreglu kemur fram að fartölvutaska úr þessu innbroti hafi fundist  í [...] í Vogum og að í henni var að finna fartölvupoka af gerðinni „MB“ og  að í honum hafi verið armbandsúr og karlmannsarmband með áletruninni „Hrannar“ eða nafn ákærða þessa máls. Ákærði mun hafa viðurkennt fyrir lögreglu að hafa átt þessa muni sem fundust í töskunni og ekki andmælt því fyrir dómi. Ekki er að finna upplýsingar um að þessi taska hafi fundist ofan í skúffu að [...] í Kópavogi eins og ákærði taldi sjálfur en samkvæmt gögnum lögreglu hafi töskurnar fundist við leit að [...] í Vogum. Þá liggja fyrir upplýsingar um að uppgjörstöskur úr innbroti þessu hafi fundist við húsleit að [...] í Kópavogi þar sem ákærði bjó. Ákærði bar fyrir dómi að hafa fundið uppgjörstöskurnar liggjandi í vegkanti, tekið þær með sér heim þar sem hann hafi ekki gert meira með þær. Skýring ákærða á þeim fundi þykir ótrúverðug. Greining á símagögnum ákærða sýna að hann var á ferðinni í Höfðahverfinu á þeim tíma sem brot var framið og einnig liggur fyrir að ákærði tók leigubíla í nágrenni brotastaðar þá sömu nótt. Ákærði bar að hafa verið á ferðinni á þessum slóðum þá nótt sem þjófnaður átti sér stað og gaf m.a. þá skýringu að hann hefði verið að sækja bíl upp á Hamarshöfða sem hann hafi farið með í Naustabryggju. Ekkert hefur komið fram í málinu sem styður þá fullyrðingu ákærða, s.s. hvaða bíl var verið að flytja og þá fyrir hvern. Þá gaf ákærði þá skýringu að hann ætti hlut í fyrirtæki sem þar sé staðsett. Ekkert kom þó fram um það frekar hvaða erindi hann átti í það fyrirtæki þá nótt. Sú afstaða ákærða að hann hefði sennilega keypt sér dýra húsmuni eða farið til útlanda ef hann hefði eignast þá peninga sem greinir í ákæru verður ekki talin hafa áhrif á sönnunarmat þessa máls. Að mati dómsins er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi brotist inn í [...] í Reykjavík, aðstöðu H ehf., og stolið þeim peningum sem greinir í ákæru og verður hann því sakfelldur fyrir þjófnað á 2.401.656 kr. í reiðufé og 1.905 evrum í gjaldeyri.

 

Ákæruliður V. 2. Þjófnaður, Hótel [...] við [...] í Reykjavík. Fram kemur í skýrslum lögreglu að munir hafi fundist við húsleit að [...] í Vogum þann 9. ágúst sl. sem munu hafa tengst þessu innbroti. Einnig mun aðili tengdur ákærða hafa keypt muni af honum úr þessu innbroti og við skoðun á farsíma ákærða hafi mátt sjá samskipti þeirra þar að lútandi. Í skýrslum lögreglu er að finna sakbendingu þar sem starfsmaður hótelsins kvaðst hafa þekkt ákærða af mynd og hafa vísað honum út af hótelinu.

Ákærði játaði fyrir dómi nytjastuld á bifreiðinni [...] en neitað sök að öðru leyti. Ákærði bar fyrir dómi að hafa keypt lykil að þessum bíl vitandi að hann væri þýfi. Hann hafi verið keyptur fyrir 150.000 krónur í formi eiturlyfja. Hann kvaðst aðspurður ekki hafa verið á þessu hóteli og gagnrýnir sakbendinguna á þeim forsendum að hann eða verjandi hans hafi ekki fengið að vera viðstaddir hana. Hann kvaðst hins vegar hafa farið þangað til að sækja bílinn en ekki til að brjótast inn. Hann kvaðst hafa verið með „master lykil“ að hótelinu sem hann kvaðst hafa keypt af sömu aðilum og hann keypti bílinn af. Hins vegar hafi komið í ljós að þessi lykill hafi verið mikið notaður og því ónothæfur. Aðspurður hvort hann hafi selt I myndavél úr þessu innbroti sagðist ákærði ekki muna sérstaklega eftir því en að hann hafi nokkrum sinnum boðið honum að kaupa muni og að hann hafi fengið myndavélina af sömu aðilum og hann keypti bílinn af. Ákærði neitaði því að hafa brotist inn á Hótel Garð og stolið þeim munum sem greinir í ákæru.

Vitnið I bar fyrir dómi að ákærði hafi selt honum stafræna myndavél en hann hafi skilað henni til lögreglu.

 

Niðurstaða:

Ákærði neitaði sök um þjófnað. Í málinu liggur ekki fyrir sönnun á því að ákærði hafi verið á hótelinu á þeim tíma sem innbrot mun hafa átt sér stað þrátt fyrir sakbendingu. Ákærði bar fyrir dómi að hafa ekki verið á hótelinu. Í lögregluskýrslu dags. 5. september 2013 bar ákærði hins vegar að í eina skiptið sem hann hafi komið á hótelið hafi starfsmaður tekið á móti honum og rekið hann út. Í málinu liggur fyrir að ákærði var með „master lykil“ að hótelinu sem hann kvaðst hafa keypt af sömu aðilum og hann keypti kveikjuláslykil bifreiðarinnar [...]. Jafnframt upplýsti ákærði að sá lykill hafi verið mikið notaður og því ónothæfur. Ekki liggur fyrir hvernig ákærði komst að því að lykillinn væri ónothæfur. Þá liggur fyrir að ýmsir munir fundust við húsleit að [...] í Vogum sem munu hafa tengst þessu innbroti og ákærði hefur viðurkennt að hafa keypt einhverja af þeim munum. Einnig liggur fyrir að ákærði hafi selt þýfi úr þessu innbroti til vitnisins I. Hefur ákærði ekki fyrir lögreglu eða fyrir dóminum getað gert grein fyrir því svo trúverðugt sé hvernig honum hafi áskotnast umræddir hlutir. Að mati dómsins er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi brotist inn á hótelherbergi á Hótel [...] við [...] í Reykjavík og stolið þaðan þeim munum sem greinir í ákæru og verður hann því sakfelldur fyrir þjófnað í þeim ákærulið.

 

III

Aðalmeðferð málsins fór fram um eftirtalda ákæruliði: II. kafli þjófnaður töluliðir 1, 2, 3, 4, 5, 7, III. kafli þjófnaður til vara hylming allir töluliðir, IV. kafli hylming töluliðir 2, 8 og 9, V. kafli þjófnaður töluliðir 1 og 2 auk nytjastuldar í tölulið 1.

Ákærði hefur í niðurstöðum málsins verið sýknaður af sex þjófnaðarkærum, sbr. nánar í II. kafla, ákæruliðum 1, 2, 3, og 5, III. kafla, ákæruliðum 1 og 5. Ákærði er sakfelldur í níu þjófnaðarkærum, sbr. nánar í II. kafla, ákæruliðum 4 og 7, III. kafla, ákæruliðum 2, 3, 4, 6 og 7, V. kafla, ákæruliðum 1 og 2.

Ákærði hefur í niðurstöðum málsins verið sýknaður af tveimur hylmingarkærum, sbr. nánar í IV. kafla, ákæruliðum 2 og 8. Ákærði er sakfelldur í tveimur hylmingarkærum, sbr. nánar í III. kafla, ákærulið 5 og IV. kafla, ákærulið 9.

Ákærði hefur í niðurstöðu málsins verið sýknaður af kæru um nytjastuld, sbr. nánar í V. kafla, ákærulið 1.

Dómari telur að með játningu ákærða í eftirtöldum ákæruliðum: I. kafli umferðarlagabrot, VI. kafli áfengislagabrot, VII. kafli fíkniefnalagabrot, II. kafli þjófnaður, töluliðir 6 og 8,  IV. kafli hylming, töluliðir 3, 4, 5, 6, 7, 10, 11 og V. kafli nytjastuldur, töluliður 2, sem samræmist framlögðum gögnum, sé fram komin lögfull sönnun fyrir þeim brotum sem honum eru þar gefin að sök og verður ákærði sakfelldur fyrir brotin sem eru réttilega færð til refsiákvæða í ákærunni.

 

IV

            Ákærði er fæddur árið 1987.  Hann hefur ekki áður sætt refsingu sem þýðingu hefur við ákvörðun refsingar í þessu máli.

Við ákvörðun refsingar ákærða ber m.a. að meta til refsiþyngingar að yfirgripsmikið tjón hefur orðið af háttsemi ákærða, sbr. 2. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, og að engum blöðum er um það að fletta að brotavilji hans hefur verið einbeittur, sbr. 6. tl. sömu greinar. Brot ákærða eru í nokkrum tilfellum framin á heimilum tjónþola sem gerir brotin enn alvarlegri. Fram kom í málinu að ákærði hefur leitað sér meðferðar vegna fíkniefnaneyslu sinnar og verður horft til þess. Að þessu virtu og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í átján mánuði. Ekki þykja skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna. Gæsluvarðhald, er ákærði hefur sætt frá 7. júlí 2013 til 19. júlí 2013 og síðan óslitið frá 10. ágúst 2013 til dagsins í dag, skal dragast frá refsingunni að fullri dagatölu.

Dæma ber ákærða til þess að sæta sviptingu ökuréttar í tvö ár frá dómsbirtingu að telja.

Ákærði sæti upptöku á 6,57 lítrum af landa og 3,1 grömmum af amfetamíni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði hafnaði bótakröfu H ehf., og krafðist þess að henni yrði vísað frá dómi eða hann sýknaður af henni. Ekki kom frekar fram um á hvaða forsendum vísa skyldi kröfunni frá, en eins og fram kom í niðurstöðum í V. kafla, ákærulið 1, var ákærði þar sakfelldur fyrir þjófnað á 2.401.656 krónum og 1.905 evrum, og verður honum því gert að greiða H ehf. þá fjármuni ásamt vöxtum eins og segir í dómsorði. Bótakrafan var fyrst birt ákærða með fyrirkalli þann 18. nóvember 2013.

 

V

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til að greiða allan sakakostnað fyrir þau brot sem hann er sakfelldur fyrir, sem er samkvæmt yfirliti 588.093 krónur. Ákærði greiði málskostnað brotaþola, H ehf., 237.791 krónur. Ákærði skal greiða ¾ hluta þóknunar skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 983.920 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og ferðakostnaði og þóknun skipaðs verjanda síns fyrir dóminum, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 907.158 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og ferðakostnaði, en ¼ hluti nefnds sakarkostnaðar skal greiðast úr ríkissjóði eins og nánar getur um í dómsorði.

Dóm þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

 

D ó m s o r ð:

 

            Ákærði, Hrannar Markússon, skal sæta fangelsi í átján mánuði.

            Gæsluvarðhald, er ákærði hefur sætt frá 7. júlí 2013 til 19. júlí 2013 og síðan óslitið frá 10. ágúst 2013 til dagsins í dag, skal koma til frádráttar refsingunni að fullri dagatölu.

            Ákærði skal sæta sviptingu ökuréttar í tvö ár frá dómsbirtingu að telja.

            Ákærði skal sæta upptöku á 6,57 l af landa og 3,1 g af amfetamíni.

            Ákærði skal greiða sakarkostnað 588.093 krónur.

            Ákærði greiði H ehf., kt. 000000-0000, skaðabætur að fjárhæð 2.401.656 krónur og 1.905 evrur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 6. júní 2013 til 18. desember 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags auk málskostnaðar, 237.791 krónur.

            Ákærði greiði ¾ hluta sakarkostnaðar sem er þóknun skipaðs verjanda hans á rannsóknarstigi, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 916.150 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti auk aksturskostnaðar, 67.770 krónur, og ¾ hluta sakarkostnaðar sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir dóminum, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 881.638 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk aksturskostnaðar 25.520 krónur, en ¼ hluti nefnds sakarkostnaðar skal greiðast úr ríkissjóði.

                                                                                    Bogi Hjálmtýsson