• Lykilorð:
  • Tolllagabrot
  • Sýkna

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 4. október 2013 í máli nr. S-557/2013:

Ákæruvaldið

(Dagmar Ösp Vésteinsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

K

(Almar Þór Möller hdl.)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 23. september síðastliðinn, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 11. júní síðastliðinn, á hendur K, kt. [...], [...], „fyrir tollalagabrot, með því að hafa á ótilgreindum tíma í lok nóvember eða byrjun desember 2012 veitt rangar upplýsingar um tegund, magn, og verðmæti vöru en ákærða lagði ekki fram sjö reikninga, samtals að fjárhæð 3.089,77 GBP, til tollmiðlara B. sem annaðist tollskýrslugerð vegna vörusendingar sem kom til landsins í byrjun desember 2012 í nafni A, kt. [...], en ákærða var stjórnarmaður A á þessum tíma og hafði yfirumsjón með vöruinnflutningnum og bar ábyrgð á því að skila framangreindum reikningum til tollmiðlara B, og varð þess valdandi að tollskýrsla dagsett 3. desember 2012 sem gerð var vegna vörusendingarinnar var röng og aðflutningsgjöld að fjárhæð kr. 302.194 voru ekki færð inn í skýrsluna.

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 172. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er krafist upptöku á samtals 124 kjólum, 70 buxum, 7 toppum, 321 íhlut fyrir síma, 3 jökkum, 2 lyklaborðum, gjafapoka, 20 brjóstahöldurum, 26 peysum, 19 hálsmenum, 4 armböndum, 25 armbandsúrum, 12 blússum og 10 veskjum sem hald var lagt á skv. 1. mgr. 181. gr. tollalaga nr. 88/2005.“

 

Ákærða neitar sök og krefst sýknu. Þess er krafist að málsvarnarlaun verjanda ákærðu og annar sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði. Þá er upptökukröfunni sérstaklega mótmælt, enda sé ákærða ekki eigandi varningsins.

 

II

Málavextir eru þeir að 4. desember 2012 skoðuðu tollverðir vörusendingu frá Bretlandi til A, en ákærða er stjórnarmaður félagsins og framkvæmdastjóri. Samkvæmt tollskýrslu, sem tollmiðlari hafði gert fyrir fyrirtæki ákærðu, átti sendingin að innihalda fatnað að verðmæti 3.899,60 bresk pund og fylgdu henni þrír reikningar. Við skoðun fundu tollverðir varning í sendingunni sem ekki var tilgreindur á tollskýrslunni og höfðu samband við tollmiðlarann sem sendi þeim leiðréttingaskýrslu og tvo reikninga til viðbótar. Ekki dugðu þessir reikningar og daginn eftir sendi tollmiðlarinn þriðju skýrsluna og fimm reikninga til viðbótar og voru þá reikningar fyrir öllum varningnum komnir í hendur tollgæslunnar. Verðmæti varningsins samkvæmt þessum sjö reikningum var 3.089,77 bresk pund. Tollgæslan lagði hald á varninginn, sem ekki höfðu verið reikningar fyrir í upphafi, og er krafist upptöku á honum.

Við rannsókn málsins hjá lögreglu var því haldið fram að það hefðu verið mistök að hafa ekki gætt að því að allir reikningar fylgdu með tollskýrslunni í upphafi.

 

III

Við aðalmeðferð bar ákærða að hún hefði farið til Bretlands að kaupa inn fyrir verslun  sína eins og hún hefði oft gert áður, en hún hefði rekið verslun í nærri átta ár. Hún hefði keypt varning af nokkrum heildsölum, fengið fyrirtæki úti til að safna honum saman og látið flutningamiðlara hér á landi vita hvert ætti að sækja hann. Eftir að heim var komið kvaðst ákærða hafa haft samband við starfsmann hjá flutningamiðluninni sem hafi sagt sér að sendingin væri komin. Daginn eftir hefði svo starfsmaðurinn haft samband við sig og sagt sér að varningurinn hefði farið í vöruskoðun. Ákærða kvað fyrirtækið í Bretlandi, sem hafi séð um að safna saman varningnum, hafa sent reikninga til flutningamiðlarans hér á landi, sem sjái um tollskýrslugerð fyrir fyrirtæki sitt. Hún kvað hvorki sig né fyrirtæki sitt afhenda gögn hér til tollskýrslugerðar, þau bærust flutningamiðluninni frá Bretlandi. Þá kvaðst ákærða ekki hafa vitað að aðeins hefðu borist þrír reikningar þegar tollskýrslan var gerð, enda hafi hún ekkert komið sjálf að gerð skýrslunnar. Eins kvaðst hún ekki hafa vitað af því þegar leiðréttingaskýrsla var gerð eftir að tveir reikningar til viðbótar höfðu borist til flutningamiðlarans. Um leið og sér hefði borist vitneskja um að reikninga vantaði hefði hún aflað þeirra og komið þeim til skila og þá hefði verið gerð þriðja tollskýrslan, það er önnur leiðréttingaskýrsla við upphaflegu tollskýrsluna.

Tollvörður bar að beiðni hefði borist frá greiningardeild tollgæslunnar um að skoða þessa tilteknu sendingu og hefði það verið gert. Hann kvaðst ekki hafa haft frekari afskipti af málinu fyrr en eigandinn og flutningamiðlari hefðu komið til að ræða við tollverði eftir vöruskoðunina.

Varðstjóri í tollgæslunni bar að sendingin hefði verið skoðuð og þá hefði komið í ljós varningur, sem ekki var á tollskýrslunni. Því hafi verið óskað eftir fleiri reikningum og hefðu borist tveir reikningar. Daginn eftir hefðu svo fimm aðrir reikningar borist án þess að hann hefði sérstaklega beðið um þá. Hann kvað tollgæsluna hafa fengið þá skýringu frá tollmiðlaranum að hún hefði ekki verið búin að fullvissa sig um að hún væri með alla reikninga áður en hún sendi inn tollskýrsluna. Í framhaldinu hefði innflytjandinn verið boðaður til tollgæslunnar til að fara yfir sendinguna og hefði verið haft samband við tollmiðlara í því skyni. Hann bar enn fremur að í samtölum við flutningamiðlarann hefði komið fram að um væri að ræða mistök hjá honum en ekki innflytjandanum.

            Starfsmaður við tollskjalagerð hjá flutningamiðluninni, sem fékk boð frá tollgæslunni um að ekki væru reikningar fyrir öllum varningnum í sendingunni, kvaðst hafa fengið senda fimm reikninga í innanhússtölvupósti. Við athugun hefði komið í ljós að þrír þeirra höfðu verið afhentir með fyrstu tollskýrslunni. Hún kvaðst því hafa sent þá tvo sem vantaði. Síðar hefðu borist fimm reikningar til viðbótar. Hún kvaðst ekki vita hvaðan þessir reikningar hefðu borist til flutningamiðlunarinnar. Starfsmaðurinn kvaðst ekki hafa komið að gerð fyrstu aðflutningsskýrslunnar.

            Þjónustufulltrúi hjá flutningamiðluninni, sem gerði aðflutningsskýrsluna í upphafi, bar að gögnin sem hún byggði á hefðu borist sér frá innflutningsdeild fyrirtækisins. Þangað hefðu þeir borist í tölvupósti frá flutningamiðlara erlendis. Hún kvaðst ekki hafa verið í sambandi við innflytjandann áður en skýrslan var gerð. Ekki væri haft samband við hann nema eitthvað óeðlilegt væri við gögnin.

            Aðstoðarframkvæmdastjóri flutningamiðlunarfyrirtækisins bar að fyrirtækið hefði séð um tollafgreiðslu á varningnum sem hér um ræðir. Í ljós hefði komið við vöruskoðun að nokkra reikninga vantaði. Hún kvað reikninga varðandi innflutning berast eftir ýmsum leiðum, með tölvupósti, skipspósti eða öðrum leiðum. Þá væri og mismunandi hvenær reikningarnir bærust. Þeir kæmu ýmist frá innflytjandanum eða umboðsmönnum hans erlendis. Í þessu tilfelli hefði fyrst komið í ljós við vöruskoðun að reikninga vantaði. Þetta hefði verið rétt fyrir jól og þess vegna hefði mikið legið á að koma þessum málum í lag. Þá kvaðst hún ekki hafa fengið skýringu á því af hverju þessa reikninga vantaði. Þá bar hún að þegar svona komi fyrir sé venjan sú að innflytjandi fái að senda leiðréttingaskýrslu.

            Sölumaður hjá flutningamiðlunarfyrirtækinu bar að hafa verið í sambandi við flutningamiðlara erlendis er hafi séð um að koma varningnum til landsins. Hann kvað fyrirtækið reyna að fylgjast með því að reikningar fylgi með varningnum hingað til lands. Hafi reikningar ekki borist er ekki gerð tollskýrsla. Þá kvaðst hann hafa, ásamt ákærðu, reynt að hafa uppi á reikningunum sem vantaði og koma þeim til tollsins ásamt nýrri skýrslu.

 

IV

            Ákærðu er gefið að sök að hafa brotið gegn 1. mgr. 172. gr. tollalaga, en í ákvæðinu er lögð sektarrefsing við því ef maður, af ásetningi eða stórfelldu gáleysi, veitir rangar eða villandi upplýsingar um tegund, magn eða verðmæti vöru eða vanrækir að leggja fram tilskilin gögn samkvæmt lögunum vegna innflutnings vöru. Eins og rakið var hér að framan keypti ákærða vörur af ýmsum heildsölum í Bretlandi og fékk fyrirtæki ytra til að safna þeim saman og voru þær svo fluttar til landsins með flugi. Flutningamiðlunarfyrirtæki annaðist um þetta fyrir fyrirtæki ákærðu og gerði auk þess aðflutningsskýrslu er send var tollstjóraembættinu. Starfsfólk flutningamiðlunarfyrirtækisins annast ýmis störf fyrir innflytjendur sem tollmiðlarar, en gert er ráð fyrir því í XI. kafla nefndra laga að þeir geti annast þessi störf. Flutningamiðlunarfyrirtækið sendi aðflutningsskýrslu, eins og rakið var, og fylgdu henni þrír reikningar, en alls áttu tíu reikningar að fylgja vörusendingunni. Gerðar voru tvær aðflutningsskýrslur til viðbótar áður en gerð hafði verið fullnægjandi grein fyrir innflutningi fyrirtækis ákærðu í þetta sinn. Ekki hefur fengist skýring á því af hverju allir reikningarnir fylgdu ekki með fyrstu aðflutningsskýrslunni eða þeirri næstu. Það er hins vegar komið fram í málinu að það var hlutverk flutningamiðlunarfyrirtækisins að gera aðflutningsskýrsluna og koma henni og fylgiskjölum til tollgæslunnar.

            Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið fól ákærða flutningamiðlunarfyrirtæki að annast um flutning vörunnar fyrir fyrirtæki sitt og gerð aðflutningsskýrslu. Ákæruvaldið hefur ekki sýnt fram á að ákærða sjálf hafi komið að því að gera skýrsluna eða framvísa vörureikningum. Alkunna er að mörg fyrirtæki nýta sér þjónustu flutningamiðlunarfyrirtækja, meðal annars til annast þessi störf eins og beinlínis er gert ráð fyrir í tollalögum og rakið var.

            Það er því ekki hægt að fallast á það með ákæruvaldinu að ákærða hafi, af ásetningi eða stórfelldu gáleysi, gerst sek um það sem henni er gefið að sök í ákærunni. Hún verður því sýknuð og skulu málsvarnarlaun verjanda hennar að meðtöldum virðisaukaskatti greidd úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði, en annan kostnað leiddi ekki af rekstri málsins.

       

            Arngrímur Ísberg héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

            Ákærða, K, er sýknuð af kröfum ákæruvaldsins.

            Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Almars Þórs Möller hdl.,  313.750 krónur, skulu greidd úr ríkissjóði.

 

Arngrímur Ísberg